20.01.1970
Neðri deild: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran) :

Herra forseti. Þar sem þetta mál hefur áður legið hér fyrir d. og var rætt mjög ýtarlega á síðasta þingi, sé ég ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um það. N. hefur að þessu sinni rætt málið mikið á 4 fundum. Hún hefur leitað álits stjórnar Kvennaskólans, og meiri hl. hennar hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að æskilegt væri að veita Kvennaskólanum þessi umbeðnu réttindi.

Það hefur verið þróunin á undanförnum árum, að fleiri og fleiri menntaskólar hafa bætzt í hópinn, og er það ekki nema góðra gjalda vert, því að vafalaust eru flestir þeirrar skoðunar, að stúdentsmenntun sé almennt góð. Það hefur þegar fengizt nokkur reynsla af þessum nýju skólum, bæði af Verzlunarskólanum og Kennaraskólanum og raunar fleiri skólum, og eftir því, sem frekast er vitað, hefur sú reynsla verið góð. En til þess að skóli geti fullnægt kröfum, sem gera verður til skóla, sem útskrifa stúdenta, þarf hann að hafa á að skipa hæfu kennaraliði og sæmilegum húsakosti. Eftir þessu hafa forráðamenn skólans verið inntir og þeir talið hvort tveggja fullnægjandi, a. m. k. fyrst um sinn. N. hefur klofnað í málinu, og minni hl. skilar hér séráliti, en meiri hl. stendur að þessu frv. og óskar eftir, að það verði samþ. óbreytt.