02.02.1970
Neðri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Hv. 1. þm. Austf. flutti í dag merka ræðu, sem ég get tekið undir á ýmsan hátt. Hann ræddi þar sérstaklega um stöðu kvenna í þjóðfélaginu og benti á, að því færi enn þá mjög fjarri, að konur fengju að njóta starfsorku sinnar og hæfileika til jafns við karla og til þyrfti margvíslegar breytingar í þjóðfélaginu, þar á meðal breytingar á vinnutilhögun á heimilum, til þess að tryggja fullt raunverulegt jafnrétti. Ég hef minnzt á þessi atriði áður í ræðum í sambandi við þetta mál, gerði það raunar strax í fyrra, en mér fundust sjónarmið þessa hv. þm. í þessu efni vera mjög skynsamleg. Hins vegar brutu þessi ummæli gersamlega í bága við afstöðu hans til kvennaskólamálsins, því að öll hin almennu rök þm. snerust gegn því tiltekna dæmi. Ég þykist vita, hvað hefur komið fyrir þennan hv. þm. Þessi hv. þm. hefur lýst stuðningi við kvennaskólafrv. að óathuguðu máli í upphafi, en síðan hefur hann farið að veita þessu vandamáli fyrir sér, eins og hann hefur gert með mörg fróðleg mál seinustu árin. Ég hef oft heyrt þennan hv. þm. flytja ágætar ræður af því tagi. Hann hefur farið að velta þessu vandamáli fyrir sér og komizt þar nákvæmlega að þessari niðurstöðu, að það verði að gera ráðstafanir til þess að tryggja konum rétt í þjóðfélaginu, rétt til jafns við karla. En þó hann komist að þessari almennu niðurstöðu. þá er þrjózkan það mikil frá fornu fari, að hann breytir ekki afstöðu sinni til þessa tiltekna máls. Ég held að það væri skynsamlegt fyrir þennan ágæta þm., sem hefur á ýmsan hátt verið að endurskoða viðhorf sín til mála seinustu árin, að endurskoða þetta einnig — að það sé engin óvirðing í því að breyta um afstöðu til máls að betur athuguðu máli. Ég held að það hefði verið réttara og í meira samhengi við málflutning þm., ef hann hefði breytt um afstöðu til kvennaskólamálsins.

Hv. þm. sagðist vilja greiða fyrir því, að sem flestir gætu tekið stúdentspróf. Þess vegna væri hann fylgjandi þessu,og Kvennaskólinn væri undantekning í kerfinu. Það er e. t. v. ómaksins vert að rifja það upp, hvers vegna sá skóli var stofnaður á sínum tíma. Hann var stofnaður vegna þess, að stúlkur höfðu ekki rétt til að stunda nám í framhaldsskólum á Íslandi til jafns við pilta. Bæði konur og karlar risu upp gegn þessu ranglæti með því að stofna þennan skóla, sem átti að gefa konum rétt á því að afla sér þeirrar menntunar, sem þeim var neitað um í skólakerfinu, eins og það var þá. Þetta var skóli, sem var stofnaður til þess að berjast fyrir jafnrétti karla og kvenna til menntunar. Árið 1911 eru svo sett sérstök lög. sem kveða svo á, að stúlkur eigi að hafa sama rétt og piltar til inngöngu í öllum skólum á Íslandi undantekningarlaust og sama rétt til námsstyrkja einnig. Það tók langan tíma að þessi lagasetning yrði að raunveruleika, en hún er orðin það núna að því er varðar menntaskólana. Hlutföllin á milli stúlkna og pilta í menntaskólunum eru ákaflega lík og hlutföllin á milli kynjanna í þessum aldursflokki. Það er alls ekki um það að ræða, að það sé nein fyrirstaða á því, að stúlkur geti stundað nám til jafns við pilta, og þess vegna er ekki verið að opna neina nýja leið, eins og hv. 1. þm. Austf. sagði. Þessi skóli er leifar af baráttu, sem hafin var fyrir næstum því öld, og sem leidd hefur verið til sigurs, og þegar nú er talað um að láta þennan skóla hafa réttinda til að útskrifa kvenstúdenta, sem eiga, að því er lýst hefur verið yfir af hvatamönnum frv., að geta stundað námsgreinar sem séu sérstaklega „við hæfi kvenna,“ og skólahaldið á að miðast við það hlutskipti, að það haldist, að miklu færri stúlkur en piltar ljúki háskóla.prófi og stúlkur taki miklu minni þátt í umsvifum þjóðfélagsins, þá horfir slíkur skóli í þveröfuga átt við tilgang Kvennaskólans. Og það er það, sem menn skulu muna.

Það er þetta, sem er ástæðan fyrir því, að þetta mál hefur vakið svo mikið umtal utan þingsalanna, ekki sízt hjá ungum konum. Það er mjög vaxandi afstaða hjá ungum konum, ekki sízt þeim sem öðlazt hafa menntun, að þær sætta sig ekki lengur við það misrétti, sem nú er í þjóðfélaginu milli karla og kvenna. Þess vegna eru þær sérstaklega viðkvæmar fyrir hugmyndum af þessu tagi, og þess vegna hafa þær risið jafn rösklega upp eins og þær hafa gert.

Hv. 1. þm. Austf. kom með þá einkennilegu kenningu, að ríkissjóður þyrfti ekki að leggja fram fjármuni til þess að byggja skólahús fyrir Kvennaskólann. Ég veit ekki til þess, að þessi hv. þm. hafi fært nein rök fyrir þessari staðhæfingu. Hitt veit ég, að skólanefnd Kvennaskólans hefur undanfarin ár sótt um fjármuni til Alþ. til þess að byggja við skóla sinn. Og á því er ekki nokkur vafi, að það mun skólinn gera, ef hann þarf á stærra húsnæði að halda vegna menntadeildar. Þetta var eitt af þeim atriðum, sem ég spurði hæstv. menntmrh. um. Ég spurði hann að því, hvar hann ætlaði að taka þá fjármuni, sem þyrfti til þess að koma upp nýju skólahúsi, og hvaða verkefni hann ætlaði að láta sitja á hakanum á móti. Þessu svaraði hæstv. ráðh. ekki í ræðu sinni áðan, en samt er þetta ákaflega veigamikið atriði vegna þess, að við höfum því miður ekki ótakmarkaða fjármuni, og ef ráðizt verður í þessa byggingu þarna, þá bitnar það á öðrum verkefnum — það gefur auga leið.

Hæstv. menntmrh. kvaðst mundu nota þessa heimild strax í sumar, ef þetta mál yrði samþ. hér á þingi. Hann gaf þá skýringu á því fyrirkomulagi, sem hann hefur í tillöguflutningi sínum, að hér væri ekki um að ræða flokksmál það væri ágreiningur um þetta mál innan allra flokka, og þess vegna hefði ríkisstj. ekki getað flutt það sem stjórnarfrv. Ég hygg, að fyrir því séu ákaflega mörg fordæmi, að flutt séu stjórnarfrv., þó ekki sé um þau full samstaða heldur innan þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa. Raunar er það staðreynd að einn flokkur á Íslandi hefur talið ástæðu til að gera þetta að flokksmáli. Það var samþ. á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, að stefnt skyldi að því að gefa Kvennaskólanum rétt til þess að brautskrá stúdenta. Þar með var þetta gert að flokksmáli hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er nú til marks um það, hvílíkt ofurkapp fámennur en sterkur hópur hefur lagt á þetta mál. Það hefur verið togað í enda, hvar sem hægt hefur verið, og reynt að nota kerfið til þess að koma þessu á, hvað svo sem mönnum fyndist um málið.

Ég vék í ræðum mínum fyrr í dag nokkuð að almennum atriðum í sambandi við menntamál, sem hæstv. ráðh. svaraði að nokkru. Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. af því tagi, en ég minntist á þessi atriði aðeins vegna þess, að ég taldi, að hæstv. ráðh. hefði þegar af því ærna reynslu, hvað það getur verið háskalegt að gera sér ekki almennilega grein fyrir því, hvar vandamálin eru, og hvernig þarf að leysa þau. Sá vandi, sem hæstv. ráðh. komst í á síðasta ári, stafaði af því, að hæstv. ráðh. gerði sér ekki grein fyrir, að hlutirnir voru að komast í algert óefni, fyrr en vandinn brann á honum sjálfum. Hæstv. ráðh. vissi það ekki, þegar seinasta þing var sent heim, að það yrðu svo margir, sem sæktu um menntaskólanám í vetur, að skólarnir myndu springa utan af þeim. Og það var þá fyrst, þegar ráðh. auðnaðist að afla þeirrar vitneskju, að hann ákvað í hendingskasti, að nú skyldi stofnaður nýr menntaskóli við Tjörnina. Auðvitað er það rangt hjá hæstv. ráðh. að það sé eðlilegur háttur að skipa ekki sérstakan skólastjóra strax við slíkan skóla. Þegar stofnaður er nýr skóli, þá er það mjög skynsamlegt að ráða skólastjóra löngu áður en skólinn er settur á laggirnar, svo hann hafi tíma til þess að skipuleggja skólastarf og þær nýjungar, sem hann kann að hafa áhuga á að koma þar í kring. Slíkt var ekki gert, vegna þess að það var ekki tími til þess.

Mér þótti hæstv. ráðh. vera býsna ánægður með sjálfan sig. Hann taldi, að við vandamálum skólamálanna hefði verið brugðizt mjög myndarlega, eins og hann sagði, og myndarlegar en annars staðar. Ég hef lesið talsvert annað mat í málgögnum Sjálfstæðisflokksins, sem hafa ráðizt alveg sérstaklega á ástandið í skólamálum og talið þennan hæstv. ráðh. hafa framið þar miklar og alvarlegar vanrækslusyndir. Þannig að ekki virðist vera alveg full samstaða í stjórnarliðinu um þetta mikla hól, sem hæstv. ráðh. bar á sjálfan sig, en vera má að hann hafi valið sér það hlutskipti vegna þess, að hann hefur ekki átt von á því, að aðrir mundu gera það.

Hv. 4. þm. Austf. vék að brtt. þeirri, sem ég hef flutt þess efnis, að menntadeild, ef stofnuð yrði við þennan skóla, yrði hliðstæð við aðra menntaskóla, opin piltum og stúlkum. Hv. þm. kvaðst vera sammála þessari hugsun í sjálfu sér, en hann mundi engu að síður greiða atkv. gegn frv. þó þetta yrði samþ., vegna þess að hann teldi önnur verkefni vera miklu nærtækari, þar á meðal skóla á Austfjörðum. Þetta viðhorf skil ég ákaflega vel. Ég skil það ákaflega vel, að Vestfirðingar og Austfirðingar eru fyrir löngu orðnir langeygir eftir framkvæmdum á loforðum. Ef þessi brtt. mín yrði samþ., þá felst það í henni, að þarna yrði stofnaður skóli, sem væri hliðstæður öðrum menntaskólum. Þetta er aðeins í heimildarformi, og þá yrði sú framkvæmd felld að heildarframkvæmdinni. Ég hef satt að segja ekki trú á því, að hæstv. menntmrh. myndi hagnýta sér þá heimild þegar í stað, jafnvel þó hann fengi hana. En hitt er alveg rétt hjá hv. 4. þm. Austf., að eftir að Menntaskólinn við Tjörnina var stofnaður, þá eru önnur verkefni nærtækari í menntaskólamálum heldur en að stofna nýjan menntaskóla í Reykjavík, það er alveg augljóst mál.

Hv. 9. þm. Reykv., Hannibal Valdimarsson, flutti hér nokkuð sérstæða ræðu í dag. Seinustu árin hefur umræðutónninn á Alþ. breytzt dálítið. Menn flytja orðið málefnalegri ræður en tíðkaðist áður, og menn reyna að færa rök fyrir máli sínu. Það er að verða undantekning að hlusta á ræðumennsku eins og þá, sem hv. þm., Hannibal Valdimarsson, ástundaði með því að skella fram einhverjum yfirborðslegum staðhæfingum. Menn telja það yfirleitt orðið fyrir neðan virðingu sína að halda ræður á þennan hátt. En þau málefnaatriði, sem fram komu hjá þessum hv. þm., voru þau að vilja gera þetta mál eitthvað hliðstætt baráttunni fyrir því að auka almennan aðgang að menntaskólum á Íslandi. Sú barátta hefur verið háð lengi. Hún hefur verið hörð og erfið. Það hefur þurft að berjast mikið fyrir því, og það er mikið ógert á því sviði, en þetta mál er engin hliðstæða við það. Það er einnig rangt að telja þetta einhverja hliðstæðu við menntadeildirnar í Verzlunarskólanum og Kennaraskólanum. Ástæðan fyrir því, að stofnaðar voru menntaskóladeildir við þá skóla, voru þrengslin í Menntaskólanum í Reykjavík. Fólk undi því ekki lengur, hvað erfitt var að komast inn í þann skóla, og hvað aðgangurinn var takmarkaður að honum. Það var í sjálfu sér ekkert skynsamlegt að taka upp menntadeild við Verzlunarskóla og Kennaraskóla,en það var brugðið á það ráð út af þessum vanda. Það var ástæðan, en ekki sú, að það væri talið skynsamlegt, að þessir skólar hefðu þessi réttindi, enda veit ég ekki betur, en að nú sé um það rætt að breyta Kennaraskólanum þannig að fella þetta niður og gera stúdentspróf að inngönguskilyrði í Kennaraskólann, eða a. m. k. minnir mig, að hæstv. menntmrh. hafi um þetta rætt. Það er mjög eðlilegt, að menntaskólanám fari fram í sérstökum skólum, sem til þess eru stofnaðir að veita það nám. Og það er vottur um óeðlilegt ástand, þegar verið er að veita óskyldum skólum réttindi af þessu tagi. Það er vandræðalausn og ekki til neinnar fyrirmyndar.

Ég spurði hæstv. ráðh. að því í dag, hver væru almennt rök hans fyrir því að veita Kvennaskólanum þessa heimild. Svör hans voru eiginlega eingöngu þau, að hann vildi ekki loka fyrir beiðni um slíkt, fyrst hún hefði komið fram. En í sambandi við þetta mál hafa komið fram mjög athyglisverð rök. Mér fannst það t. d. mjög athyglisverður rökstuðningur, sem fylgdi undirskriftalista, sem lagður var hér á borð þm. fyrir nokkrum dögum. Þær undirskriftir hófust á því, að nokkrar ungar konur, sem hafa hitzt og talazt við um þjóðfélagsmál, ákváðu að senda Alþ. mótmæli gegn þeirri hugmynd að veita Kvennaskólanum þessi réttindi og tóku að safna undirskriftum í sínum hóp. Þegar þetta kvisaðist, urðu ákaflega margir til að vilja skrifa upp á þessi skjöl, svoleiðis að fjöldinn varð miklu meiri en þær höfðu ímyndað sér. Í grg. sem fylgir þessum undirskriftum, eru mjög skýrar röksemdir, og ég vil leyfa mér með leyfi hæstv. forseta að lesa þær hér, til þess að þær verði skráðar í þingtíðindi ásamt þessum umr., sem hér hafa farið fram. Bréfið sem fylgir er svohljóðandi:

„Við undirritaðar leyfum okkur hér með að skora á hv. Alþ. að samþykkja ekki frv. það, sem lagt var fram á 89. löggjafarþingi á þskj. nr. 670 um heimild til handa Kvennaskólanum í Reykjavík til að brautskrá stúdenta.

Grg.: Í fylgiskjali VI. b með frv. til l. um menntaskóla, sem er sérálít minni hl. menntaskólanefndar, segir m. a.: „Ef Kvennaskólinn í Reykjavík fengi réttindi til að brautskrá stúdenta, myndi námsefni hans, þegar fram liðu stundir, vafalaust verða þannig, að auk þess að veita þá menntun, sem krafizt er til inngöngu í háskóla hér og erlendis, yrði lögð áherzla á námsgreinar, sem sérstaklega væru við hæfi kvenna.“ Ennfremur stendur síðar í sama fskj.: „Verði Kvennaskólinn í Reykjavík efldur og gerður að stúdentaskóla, er að nokkru ráðin bót á stórri vanrækslusynd menntaskólanna, sem fyrir eru, að því er varðar hinar sérstöku menntunarþarfir kvenna.“

Ef hv. nm. með orðunum „námsgreinar við hæfi kvenna“ og „sérstakar menntunarþarfir kvenna“ eiga við það, að kenna þurfi konum sérstaklega þau störf, sem skapast við stofnun heimilis, svo sem almenn heimilisstörf, þjónustustörf og uppeldi barna, leyfum við okkur að benda á eftirfarandi atriði:

1) Skólakerfið má ekki að okkar mati miða uppeldi drengja og stúlkna við það, að aðeins annað kynið inni af höndum þau störf, sem skapast við stofnun heimilis, og binda kynið þannig í viðjar gamalla hefða og fordóma.

2) Farsælast er að piltar og stúlkur séu alin upp sem jafningjar, njóti raunverulegra jafnra réttinda og möguleika, séu samábyrg í lífinu og byggi lífsafkomu sína á eigin námi og starfi.

3) Stefna ber að því, að nám og starf hvers einstaklings miðist við eigin ósk og vilja, en ekki við kynbundnar venjur.

4) Íslenzkum konum var með lögum árið 1911 veittur lagalegur réttur til að stunda nám í öllum menntastofnunum landsins. Hins vegar er piltum nú og með frv. þessu meinaður aðgangur að vissri menntastofnun. Samrýmist þetta tæplega jafnréttis- og frelsishugsjónum nútímans.

5) Samkv. íslenzkum fræðslulögum og reglugerð menntaskólanna eiga þeir að vera samskólar. Í skýrslu frá UNESCO 1969 um rannsóknir um samskóla og sérskóla í 103 löndum kemur greinilega í ljós, að þróunin stefnir hraðbyri í þá átt, að skólar verði almennt samskólar með blönduðum bekkjum og hnígi til þess mikilvæg uppeldis- og þjóðfélagsleg rök. Þar er og lögð áherzla á, að samskólar og blandaðir bekkir séu eitt af grundvallaratriðum þess, að piltar og stúlkur njóti jafnrar aðstöðu til menntunar og vísindastarfa.

6) Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana, sbr. 16. gr. í mannréttindayfirlýsingu Samefnuðu þjóðanna. Heill fjölskyldunnar byggist á gagnkvæmum skilningi og samábyrgð tveggja einstaklinga, karls og konu. Því fyrr, sem grundvöllurinn að slíkri samvinnu er lagður með uppeldi og menntun, því betra. Við teljum, að tilmæli Kvennaskólans í Reykjavík um réttindi til að brautskrá stúdenta, sé ekki spor í þessa átt nema þá og því aðeins, að ytri aðstaða skólans breytist og piltum verði veitt innganga í skólann.“

Þetta finnst mér vera ákaflega skýr rök. Og eins og menn hafa tekið eftir, þá er undir þetta skrifað af stórum hópi, ungum menntakonum og ákaflega miklum fjölda kennara. Einmitt af því fólki, sem þekkir þetta vandamál af eigin raun, og sem hefur þess vegna langmesta dómgreind. Ég tel, að okkur beri skylda til að hlýða á þessar röksemdir.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara nokkrum orðum um tilraunir hv. þm. Hannibals Valdimarssonar til þess að gefa það í skyn, bæði hér á þingi og utan þings, að ég hafi beitt mér fyrir árás á Kvennaskólann og innrás á Alþ., að ég sé einhver atvinnuofstækismaður að skipuleggja ungt fólk til slíkra hluta. Þetta er svo mikið blaður, að það er erfitt að standa hér og ræða staðhæfingar af þessu tagi. Ég held, að þm. viti almennt ákaflega vel um þá ókyrrð, sem er í mörgum þjóðfélögum um þessar mundir — ókyrrð ungs fólks. Hún er einnig til hér á Íslandi. En það er alger barnaskapur, ef einhver ímyndar sér, að þessi ókyrrð sé búin til af einhverjum einstaklingum. Það er hún ekki, og ef menn vilja skilja fyrirbæri af þessu tagi, þá verða þeir að líta á þau af meiri alvöru og meira raunsæi heldur en þetta. Þetta mál hefur kveikt sérstaklega í ungu fólki. Það er alveg rétt. En það er þetta unga fólk, sem kemur viðhorfum sínum á framfæri á dálitið stillingarlausan hátt, stundum. Það er alveg sjálfsagt að brýna stillingu fyrir ungu fólki, en við skulum varast að búa okkur til einhverja feiknalega hneykslun eða halda svívirðingarræðu um ungt fólk, eins og þessi hv. þm. hefur gert aftur og aftur síðustu dagana. Það er ekki leiðin til þess að koma á eðlilegum tengslum milli kynslóðanna, og það er ekki leiðin til að koma í veg fyrir óróa í þjóðfélaginu, heldur þvert á móti. Með málflutningi eins og þeim, sem hv. þm., Hannibal Valdimarsson, hefur uppi gagnvart ungu fólki, þá er verið að magna ungt fólk til þess að sýna vaxandi óróa í þjóðfélaginu. Ef einhverjir úr eldri hópi bera ábyrgð á slíkum atburðum, þá eru það menn, sem stunda málflutning af þessu tagi.