02.02.1970
Neðri deild: 52. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt. Ég vildi taka það skýrt fram, að ástæðan fyrir því, að ég greiði atkv. á móti þessu frv., er ekki vegna þess, að ég sé á móti því, að þessar ungu stúlkur séu án pilta í þessum skóla, ef þær óska eftir því, því fer fjarri. Ég er einfaldlega á móti því af því að ég álít, að við eigum að skipuleggja okkar skólamál, en ekki hlaupa eftir því, þó einhver gagnfræðaskóli óski eftir því, vegna þess að hann eigi afmæli, eða kennslukonurnar óski eftir því af metnaðarástæðum fyrir skólans hönd eða sjálfra sín, að honum sé heimilað að útskrifa stúdenta.

Ég álít, að við þurfum að taka allt skólakerfið frá grunni og skipuleggja það. Það væri eðlilegast með menntaskólana, að þar væri farið eftir tillögum rektora þeirra menntaskóla, sem nú eru, og þeir væru menntmrh. til aðstoðar. Sama er að segja um aðra skóla. Það er þannig með iðnskólana og gagnfræðaskólana. Vafalaust gæti þeim verið haganlegar fyrir komið. Það eru fáir nemendur í mörgum þeirra. Væri ekki eðlilegra að hafa þá stærri, og ef við ætlum að hafa þá stærri, þá þarf að byggja heimavistir, eins og hér var tekið fram áðan. Ég efast um, að það sé dýrara fyrir foreldrana að kosta börn sín í heimavistir, heldur en þurfa að fæða þau hér í Reykjavík. Þegar verið er að fjasa um þetta, hvað það sé dýrt fyrir foreldra að senda börn sín í skóla fjarri heimilum sínum, þá er það alls ekki tilfinnanlega dýrt, ef ríkisvaldið sér fyrir viðráðanlegum heimavistum. Ég hef sjálfur reynslu í þessu efni. Þannig er með fleiri skóla.

Vitanlega þarf að skipuleggja kennaramenntunina, en ekki hrúga í Kennaraskólann mikið fleiri nemendum en mögulegt er að sjá um sæmilega kennslu handa. Barnaskólana þarf að skipuleggja betur og landsprófsskólana. Það þarf að hafa þá færri og fullkomnari. Ég get bara bent á dæmi, það er í V-Húnavatnssýslu. Þar er einn hreppur, sem fer fram á að reisa barnaskóla, hinir byggja félagsskóla í Miðfirði. Og þessi hreppur er svo klofinn um málið, að um helmingur hreppsbúa vill ekki láta börnin sín í hinn væntanlega skóla. Hann á að kosta fleiri milljónir, börnin á milli 10–20. Hvaða vit er í slíku?

Þetta er aðeins lítið dæmi. Við höfum ekki efni á þessu.

Hæstv. menntmrh. var að tala um, að við eyddum fleiri prósentum af ríkistekjum en aðrir til menntamála. Ég vil draga í efa, að það sé betri menntun hér á landi. Það er aðeins það; að við höfum lakari skipulagningu á okkar skólum. Það er þetta, sem er ástæðan fyrir því, að ég greiði atkv. á móti þessum skóla.

Það kom hér fram hjá einum hv. ræðumanni, að ég hefði sagt, að það ættu ekki nema miðlungsmenn að verða stúdentar. Þetta er ekki rétt með farið. Ég var ekki að tala um það, ég var að tala um hitt, að margt af okkar greindustu mönnum, a. m. k. á bóklega sviðinu, verða stúdentar, halda svo áfram við háskólanám, verða viðskiptafræðingar, lögfræðingar, hagfræðingar o. s. frv., eða fara til annarra landa og koma aldrei í sitt byggðarlag aftur. Mér finnst þjóðin ekki hafa efni á að eyða þessum góðu kröftum í þessi störf, þau séu ekki svo þýðingarmikil. Og ég hef bent á það, að við þurfum t. d. afburðamenn til þess að verða skipstjórar á fiskiskipunum. Ég hef sjálfur ofurlítið kynnzt þessu og veit, að það þarf meira til en að vera greindur til þess að verða hæfur skipstjóri, það þarf afburða stjórnunarhæfileika og andlegt þrek, og ég benti á, að í iðnaðinum þurfum við afburðamenn, á viðskiptasviðinu líka, og ekki gerir til þó við fáum hæfileikabændur. Við þurfum nefnilega að nota okkar starfskrafta af hagsýni. Þjóðin hefur ekki efni á öðru. Og það er þetta, sem gerir, að ég sé eftir þessum mönnum í Háskólann, sem hanga svo hér hálf iðjulausir á skrifstofunum, en það er allt í lagi, þó að þeir verði stúdentar. Við þurfum aðeins að gera okkar stúdentsmenntun hagnýtari, láta þá ekki verða of þreytta og ekki eyða orkunni í óhagnýt efni. Það er þetta, sem ég var að tala um, og það er í raun og veru hryggilegt, að það eru heil héruð, sem eru í vandræðum, sérstaklega eru það ýmsar sjávarbyggðir, með að fá hæfa menn til stjórnsýslu, því það skiptir miklu, hvernig fyrirtækjum er stjórnað. Það er þetta, sem ég hef hvað eftir annað bent á hér í ræðum mínum. Það er ekki hægt að horfa á það að ná í stúdentshúfu og dunda eitt eða tvö ár í háskóla. Menn læra furðu lítið til á því. Við getum litið til okkar snjöllustu viðskiptamanna. Ég held, að þeir hafi aldrei farið á viðskiptaháskóla. Tökum Ásbjörn Ólafsson og Sigfús heitinn Bjarnason. Hæfileikarnir þurfa að vera í eðlinu.

Viðvíkjandi því, að það kosti ríkið ekkert að breyta Kvennaskólanum í menntaskóla, þá tek ég það ekki alvarlega. Það er talað um, að þetta sé einkaskóli. Ég held, að hann hljóti sama styrk frá ríkinu eins og aðrir skólar. Hvernig á að breyta þessum skóla í menntaskóla? Ætla þeir að kenna í kringum veggina? Hver ætlar að kosta bygginguna? Hver ætlar að greiða laun kennaranna, sem eiga að kenna þarna, og annan skólakostnað? Vitanlega kemur þetta allt á ríkið. Ég vil, að það sé athugað af hæfustu mönnum, hvað marga menntaskóla við þurfum, og hvar þeir eiga að vera staðsettir. Að það sé ákveðið og svo sé ekkert verið að sinna neinum keipum um það frekar. Hvar á að stinga við fótunum, ef við komum nú t. d., þm. úr Norðurl. vestra, og biðjum um að einhver skóli í okkar kjördæmi, sem hefur landsprófsdeild, fái að útskrifa stúdenta? Hvernig í ósköpunum getið þið neitað því þá? (Gripið fram í: Eigið þið ekki kvennaskóla?) Hann er nú bara húsmæðraskóli, og þær taka ekki landspróf þar. En hvernig í ósköpunum ætlið þið að fara að neita því? Hvar ætlið þið að stinga við fótunum? Hann getur átt 20 ára afmæli, 30 ára afmæli, 50 ára afmæli. Jú, það má til að gleðja blessaða kennarana og skólastjórann. Hvar ætlið þið að stinga við fótum? Við þurfum að athuga hvað við erum að gera. Það er ekki af því, að okkur sé neitt í nöp við þennan skóla, forstöðukonuna eða ungu stúlkurnar, það er svo fjarri því. Við verðum bara að hafa samræmi í gerðum okkar, þær séu byggðar á einhverri skynsemi fjárhagslega og frá hagnýtu sjónarmiði.

Viðvíkjandi því, að kvenfólkið sé óánægt hjá okkur og við förum illa með það, þá er ég því ekki alveg sammála. Kona er kona og karlmaður er karlmaður. Kona er með konueðli og við erum með karlmannseðli. Við fæðum ekki af okkur börn og höfum ekki jafn mikið móðureðli. Lesið þið bækur Rómverjanna gömlu. Þeir dáðust að Germönum fyrir það, hve þeir voru góðir heimilisfeður. Þeir létu ekki konur sínar ganga í verstu verkin. Það hefur alltaf einkennt hinn germanska kynstofn að bera virðingu fyrir heimili sínu og konum, mikið meira en hjá svertingjum og slövum. Hvers vegna eru það karlmenn, sem eru úti á sjónum? Það er af því, að við álítum það okkar hlutverk, konan á að matreiða, sauma og hugsa um börnin.

Það má vera, ef helmingurinn í þessari deild væru konur, að það væri ánægjulegt fyrir hinn hlutann, þessa 20 karlmenn, sem þá væru. Þeir hafa talað mjög mikið um þetta, hv. 2, þm. Norðurl. v. og 1. þm. Austf. Ég skil ekki annað en að þeir hafi brennandi áhuga á því að koma konum á þing, sem ég hef raunar ekki orðið var við, fyrr en þeir sáu frúrnar þarna uppi á svölunum. Ég skil ekki annað en þeir sendi konur sínar næst á þing, og við njótum þá ánægjunnar að hafa þær, og sitji sjálfir heima við sauma og matreiðslu. Mér þætti það lang líklegast.

Ég held, að við Íslendingar eða yfirleitt hinn germanski kynflokkur þurfi ekki að bera kinnroða yfir því, að við förum illa með okkar konur. Og viðvíkjandi kosningarrétti, að þær fengju hann svolítið seinna en karlmenn hér á landi, þá er bara ekki svo ýkja langt síðan karlmenn fóru yfirleitt að fá kosningarrétt. Meira að segja hjá Bretum, sem voru á undan öllum öðrum. Það voru ekki nema lordar og landeigendur, sem fengu þar að kjósa lengi vel. Og það leið ekki svo langt frá því, að karlmenn fengu yfirleitt kosningarrétt á Íslandi, og þangað til þeir veittu konunum það. Þannig að ég vil ekki samþykkja það, að við höfum löngun til að kúga þær.

Við þurfum að athuga, hvað við erum að gera, með því að verða við tilmælum, ef einhver er svo hæfur skólastjóri, að hann þurfi endilega að vera skólastjóri menntaskóla. Þá væri ekki útilokað, að veita honum embætti við einhvern af þessum menntaskólum, sem á að fara að stofna, t. d. á Ísafirði eða hérna við Tjörnina og víðar sjálfsagt. Við þurfum að hafa eitthvert samræmi í þessu. Það þýðir ekki að hugsa bara um daginn í dag. Við þurfum að hugsa um framtíðina líka.