30.01.1970
Efri deild: 43. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

123. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Brtt. á þskj. 312 er flutt af fjhn. að beiðni landbrn. En þar kveður á um að lækka toll af mjólkurfernum og breytingar á orðalagi 11. liðar b. 3. gr. tollskrár. Á sú breyting að gefa möguleika til niðurfellingar á tolli af umbúðum fyrir Áburðarverksmiðjuna. Varðandi fyrri liðinn, þá hefur þótt ástæða til þeirra breytinga, þannig að mjólkurfernur, sem eru eftirsóttar umbúðir undir mjólk, séu ekki með óhagkvæmari toll heldur en mjólkurhyrnur. Tilbúið efni í mjólkurhyrnur er nú samkv. kafla 48. 07.81 með 15% tolli, en EFTA–tollur verður 7% og ytri tollur 10%. Hins vegar hafa fernur verið tollaðar undir nr. 48.16.01, samkv. sérstöku leyfi fjmrn., með 20% tolli. Samkv. brtt. er gert ráð fyrir nýjum lið, 48.16.03, sem færir 20% tollinn frá EFTA—löndum niður í 11%. Efni í þessar umbúðir, bæði óunnið og vaxborið, hefur borið 30% toll fram að þessu, en hann er nú felldur niður í 0% með öðrum pappír og pappa, samkv. 48.01.30 og 48.07.82. Samkv. seinni lið brtt. er eingöngu veitt undanþáguheimild fyrir umbúðir Áburðarverksmiðjunnar, en þær hafa til þessa verið fluttar inn tollfrjálsar, en mundu fara í 11 % toll, ef þessi heimild yrði ekki samþ. Hér er ekki gert ráð fyrir heimild til annarra, enda hefur Áburðarverksmiðjan sérstöðu sem algerlega skatt– og tollfrjálst fyrirtæki í eigu ríkisins og á ekki í samkeppni við önnur innlend fyrirtæki.

Vegna ágreinings, sem virtist koma fram við 2. umr. málsins í gær, þegar hv. frsm. minni hl. efaðist um þær tölur, sem ég bar fram, þegar hann efaðist um, að tekjutap ríkissjóðs, vegna þeirra breytinga sem Alþingi hefur nú gert á tollskrá yrði jafnmikið og ég hélt fram, þá vil ég benda á þetta: Undir meðferð málsins hjá fjhn. beggja þd. kom fram, að fjmrn. áætlaði, samkv. upplýsingum Jóns Sigurðssonar ráðuneytisstjóra, tekjutap samkv. brtt. við 1. gr., sem n. hafði komið sér saman um, 26 millj. kr. Eftir þetta bættist við 1. gr. fjöldi till., sem teknar voru til greina og einnig komu veigamiklar breytingar við 3. gr., þ.e. heimildarákvæði um endurgreiðslur. Þá voru önnur atriði gerð rýmri. Ég bendi t.d. á endurgreiðsluheimild af efni til skipaviðgerða, er fara yfir 100 þús. kr. Áður var þetta miðað við 500 þús. kr. Hér er um verulegan kostnað að ræða Einnig má benda á endurgreiðslu af timburtollum, efni til rafhitunartækja, enn fremur ummæli hæstv. fjmrh., við framsögu málsins í hv. Ed., en þar lýsti hann yfir, að sanngjarnlega yrði tekið á endurgreiðslu til málmiðnaðarins yfirleitt. Tel ég því 50 millj. kr., eins og ég áætlaði það, sízt of háa upphæð.