27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

23. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil svara hér þeim fsp., sem hv. 1. þm. Vesturl. beindi til mín. Ég vil í upphafi taka það fram, að þó að alþm. taki sæti í n. til þess að athuga eitthvert tiltekið mál, þá gerir hann það ekki með þeim skilyrðum eða á þeim forsendum, að hann sé á meðan hann situr í þessari n. sviptur rétti til þess að bera fram frv. eða till. um þessi mál á þingi. Hv. þm. spurði mig, hvort ég hefði ekki komið mínum sjónarmiðum fram þarna í n. og það væri af þeim sökum, sem ég flytti þetta frv. Á þetta hefur nú ákaflega lítið reynt. Maður hefur engin tækifæri haft til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri vegna þess, að þessi n. hefur haldið einn stuttan fund — ætli það hafi ekki verið svona klukkutíma fundur. Síðan hefur fundur aldrei verið boðaður, og ég sé ekki, að það sé til frambúðar, að formaður þessarar n., sem skipuð var, hafi nokkurn tíma til þess að sinna þessum málum. Ég hef satt að segja haft það ofarlega í huga að segja mig úr þessari n., því að ég tel alveg tilgangslaust að sitja í n., sem aldrei er kölluð saman.

Um skoðanir annarra þm. í þessari hv. d., sem eiga sæti í þessari n., er mér ekki kunnugt. Það var auðvitað, að á þessum stutta fundi voru málin ekki rædd það til hlítar, að menn væru kannske endilega búnir að koma sér niður á, hvað þeir vildu. En ég sá, eins og þessum málum var háttað, enga ástæðu til þess að fresta því að koma mínum sjónarmiðum beint fyrir þingið.