15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

140. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn og gjaldheimta o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þann 17. apríl 1968 samþykkti Alþ. að fela ríkisstj. að undirbúa breytta skipan á yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík, þannig að bæði hin almenna lögregla og rannsóknarlögregla heyri framvegis undir yfirstjórn lögreglustjóra. Um þetta hefur og hafði þá verið nokkuð rætt, og óformlegar ráðagerðir voru uppi innan rn., að slík breytt skipan væri í raun og veru eðlileg og mundi henta, að kæmi til framkvæmda, þegar hægt væri að taka til afnota lögreglustöðina nýju eða húsnæði það, sem þá væri til umráða í hinni nýju lögreglustöð hér í Reykjavík, sem er í byggingu.

Eftir samþykkt þessarar þáltill., fól ég Jónatan Hallvarðssyni hæstaréttardómara að annast samningu frv. að þeim lagabreytingum, sem hin fyrirhugaða breytta skipan krefst, enda verður það starf unnið í samráði við rn. og viðkomandi embættismenn, eins og segir í bréfi til hans. Í haust eða ekki alls fyrir löngu skilaði hæstaréttardómarinn till. að frv. því, sem hér er flutt, eins og það kom frá honum um breytingu á l. um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o. fl. í Reykjavík, enda hafði hann þá einnig haft um það samráð við þá embættismenn, sem hér eiga hlut að máli fyrst og fremst, yfirsakadómarann í Reykjavík, lögreglustjóra og saksóknara ríkisins, og var enginn ágreiningur milli þessara embættismanna um það frv., sem hér er um að ræða.

Aðalatriði þessa frv. er að lögfesta það, að stjórn rannsóknarlögreglu í Reykjavík verði lögð til lögreglustjóra, þannig að bæði hin almenna lögregla og rannsóknarlögreglan heyri framvegis undir yfirstjórn lögreglustjóra nákvæmlega eins og segir í sjálfri samþykkt Alþ. eða þáltill. Fyrir utan það er í öðru lagi lagt til, að skipaður verði sérstakur yfirmaður rannsóknarlögreglunnar, sem á að heita rannsóknarstjóri, en vera undir yfirstjórn lögreglustjóra. Verkefni hans er að stýra rannsókn brotamála og fara með stjórn lögreglumanna að því er rannsóknarstörf varðar.

Aðrar breytingar eru þær, að framkvæmd refsidóma er nú flutt frá sakadómaraembættinu til lögreglustjóraembættisins, eftir að yfirsakadómari hefur ekki neina lögreglumenn undir sér, og þá jafnframt umsjón fangelsa, sem verður hér eftir eða samkv. þessu frv. í höndum lögreglustjóra. Þá má segja, að það sé nýmæli í þessu frv. í fjórða lagi, að dómsmrh. geti ákveðið, að lögreglustjóri Reykjavíkur eða rannsóknarstjóri fari með tiltekna þætti löggæzlu og lögreglurannsóknar utan Reykjavíkur ótímabundið eða um stundarsakir. Þessi regla gildir um tollgæzluna og gæti hentað í mörgum einstökum tilfellum og einnig almennt, eins og t. d. í sambandi við umferðarstjórn, sem væri nokkuð sérstæð í þessu sambandi.

Þetta er meginefni þessa máls, sem hér er til meðferðar, en í grg. eða aths. við frv. er rakin saga þessarar embættaskipunar, sem hér kemur við sögu, í Reykjavík frá 1786 og fram til síðari tíma.

En þessi grg. eða þetta sögulega yfirlit styður nokkuð, að hér sé rétt stefnt með þessari breytingu, sem hér er gerð, og skal ég ekki fara út í þetta yfirlit. Það hafa hv. þm. haft aðstöðu til að kynna sér í aths. frv.

Um till. um sérstakan rannsóknarstjóra vil ég fara nokkrum orðum að gefnu tilefni, því að hér var á sínum tíma lagt fram fyrir Alþ. árið 1948 af þáv. dómsmrh. frv. til l. um breytingu á meðferð opinberra mála. Þá var þar gert ráð fyrir sérstöku rannsóknarstjóraembætti, og sá rannsóknarstjóri átti að hafa sérstaka skrifstofu í Reykjavík. Hann átti hins vegar að heyra undir embætti saksóknara ríkisins, en hann átti einnig að sækja fyrir héraðsdómi þau opinberu mál, sem sókn og vörn sættu eftir málshöfðun samkv. ákv. frv. En þessi till., sem þá var gerð, var í samræmi við það grundvallaratriði réttarfars í opinberum málum nú á dögum að skilja glöggt á milli dómsvalds annars vegar og lögreglustjórnar hins vegar. Rannsóknarstjóraembættið hér er annars eðlis heldur en þetta rannsóknarstjóraembætti. Þessi rannsóknarstjóri á að heyra undir lögreglustjóra og hafa yfirstjórn á rannsóknarlögreglunni. Hann á að uppfylla þekkingarskilyrði, hann á að vera lögfræðingur, og hann á að hafa sérmenntun í stjórn og rannsókn lögreglumála. En hann á hins vegar ekki undir neinum kringumstæðum að sækja fyrir dómi opinber mál, eins og rannsóknarstjórinn átti að gera samkv. till. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála frá 1948. Hins vegar er það svo, að eins og ákvæðið um rannsóknarstjóra 1948 náði ekki fram að ganga, náði heldur ekki fram að ganga þá till. um sérstakan opinberan ákæranda, en þær náðu hins vegar fram að ganga árið 1961 með hreytingu á l. um meðferð opinberra mála, og hefur saksóknari ríkisins síðan verið sérstætt og sjálfstætt embætti, og meðal ákvæða um það embætti er í vissum tilfellum skylda til þess að sækja sjálfur eða láta sína fulltrúa sækja opinber mál, ef refsingin fyrir meint brot getur numið 8 ára fangelsi eða meira. Þá er skylt, og þá mundi eftir sem áður, eins og nú hefur verið undanfarið, saksóknari annast þá sókn, sem um er að ræða fyrir réttinum.Aftur á móti, ef meint brot getur ekki varðað svo þungum viðurlögum, þá er það á mati og valdi saksóknara, að hann tilnefni sérstakan sækjanda fyrir réttinum. Það hefur gerzt í sumum tilfellum, einkum þar sem um meiri háttar og flóknari mál er að ræða, sem snerta flókin fjármálaviðskipti og annað slíkt, en frekar verið undantekningar.

En það má hins vegar segja, að að öðru leyti sé óbreyttur höfuðtilgangur lagafrv. frá 1948, að losa sakadóminn undan því að stjórna störfum rannsóknarlögreglu, en auðvitað getur saksóknarinn eftir sem áður gefið rannsóknarlögreglumönnum fyrirmæli og leiðbeiningar um framkvæmd rannsóknar. Ákvæði frv. þessa takmarkast við það, sem nú hefur greint verið, og segi ég það sérstaklega af því tilefni, að til álita gætu að vísu komið frekari breytingar á réttarfarsreglum um meðferð opinberra mála, en að því er ekki vikið hér, og sérstök rannsókn á slíkum atriðum hefur ekki farið fram í sambandi við undirbúning þessa frv., hann hefur verið takmarkaður við þáltill. og lagafrv.-samningu í samræmi við hana, eins og ég greindi frá áðan. En ég sagði einnig, að þetta hefði komið til tals á milli embættismanna og innan rn. í sambandi við að framkvæmd slíks ætti að fylgja þeim tímamótum, þegar lögreglustöðin nýja gæti tekið við rannsóknarlögreglunni eða meira húsrými skapaðist þar, og það er í 3. gr. þessa frv. lagt til, að lögin öðlist gildi 1. desember 1970. Það er miðað við það, að þá verði til nægjanlegt húsrými í lögreglustöðinni nýju til þess að rannsóknarlögreglan ásamt lögregluliðinu að mestu leyti flytjist þangað. Að vísu er þá lögreglustöðin ekki fullbyggð og verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi á árinu 1971, en þá er einnig meira húsnæði þar til afnota heldur en fyrir lögregluna eina, því að gert hefur verið ráð fyrir því, að Landhelgisgæzlan fengi einnig húsnæði í lögreglustöðinni og einnig stjórnstöð Almannavarna, ef því væri að skipta, í kjallara lögreglustöðvarinnar. Ég get getið þess í þessu sambandi, að fangageymsla hinnar nýju lögreglustöðvar er nú fullbúin, og það er verið að taka hana til afnota. Þegar hún hefur verið tekin til afnota, en hún er mjög fullkomið húsnæði til þeirra nota, verður framkvæmd sú áætlun, sem fram kom í grg. um fangelsismál, sem rn. útbýtti meðal þm. í vor. En í því felst, að Síðumúla verður þá breytt í lokað fangelsi, og jafnframt er svo verið að undirbúa frekari byggingar við byggingu á Litla-Hrauni og endurbætur á fangelsinu þar, en ég skal ekki út í þessa sálma fara. Þar var gerð fullkomin grein fyrir þessum áætlunum í fangelsamálum í þeirri grg., sem ég nefndi áðan, og lögð hefur verið fyrir hv. þm.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.