10.11.1969
Neðri deild: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

55. mál, gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. um gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum öðrum en Reykjavík og Akureyri flutti ég á næstsíðasta þingi, en það kom ekki til afgreiðslu, enda kom þá fram stjfrv., sem náði að mörgu leyti til þessa máls, en því var síðar kippt til baka. Af þeim sökum er þetta frv. flutt hér aftur nú, og vænti ég þess, að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Í nær hverju kauptúni og hverjum kaupstað bíða stórfelld verkefni í gatnagerð. Fram að þessu hefur gatnagerð verið næsta ófullkomin hérlendis, sumpart vegna kunnáttuskorts, sumpart vegna fjárskorts, sumpart vegna vélaskorts. Hins vegar er ekki umdeilanlegt, að fátt eða ekkert stuðlar meir að hreinlæti og bæjarprýði en vel gerðar götur með varanlegu slitlagi og gangstéttum, enda nú komnar til sögunnar stórvirkar vélar til að leggja malbik, steypu eða olíumöl á götur, svo að hugur er í öllum bæjarfélögum að koma slíku í framkvæmd. En framkvæmd þessa verks er fjárfrek og takmarkað, hve mikið af útsvörum má ætla í slíkar framkvæmdir árlega. Af þeim sökum er allvíða tekið að krefjast gatnagerðargjalds fyrir nýjar byggingarlóðir, þegar þær eru veittar, og því gjaldi ætlað að standa undir nýlagningum gatna. En mjög víða þarf að gera eldri götur, sem þegar hefur verið byggt við, upp að fullu, skipta jafnvel að öllu um undirbyggingu, holræsa- og vatnslögn, áður en hægt er að leggja á þær varanlegt slitlag. Vafasamt þykir, að nú sé stoð í l. til að leggja á þegar reist hús gatnagerðargjöld við þessar aðstæður, þótt þessi endurgerð götu sé jafndýr og nýlagning, og er frv. það, sem hér um ræðir, flutt með það fyrir augum að taka af öll tvímæli og gera sveitarfélögum frjálst að velja á milli að endurbyggja götur að öllu fyrir útsvarsfé eða hluta fyrir álögð gatnagerðargjöld.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn., og hef ekki um þetta fleiri orð.