13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

67. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ætlun mín er ekki sú að fara hér sérstaklega að andmæla þessu frv. né hugsuninni, sem liggur að baki því. Út af fyrir sig er það efnislega rétt, sem hv. þm. sagði, að það er nauðsynlegt, ef ekki á að valda vandræðum, að fyrningar séu jafnan í samræmi við endurkaupsverð eigna, og við þá hugsun hef ég því út af fyrir sig ekkert að athuga.

Hins vegar kemst ég ekki hjá því að upplýsa nokkur atriði í þessu sambandi, og er a. m. k. eitt þeirra atriða næsta einkennilegt. Þetta mál lá sem sagt í öðru formi hér fyrir Alþ. fyrir tveim árum og þá í frv., sem ég flutti hér, þ. e. a. s. frv. til nýrra bókhaldslaga. Þar var í 23. gr. þess gert ráð fyrir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafi orðið almenn og veruleg verðbreyting fasteigna, skipa, véla, áhalda og annarra eigna, sem ætlaðar eru til stöðugrar notkunar í rekstrinum, frá því að þeirra var aflað, er heimilt að endurmeta þær til samræmis við verðbreytingu slíkra eigna á almennan og viðurkenndan mælikvarða. Skal upphaflegt kostnaðarverðmæti og heildarafskrift metin með samsvarandi hætti. Við endurmatið skal hafa sérstaka hliðsjón af því, að bókfært verðmæti eigna verði ekki hærra en svari til raunverulegs verðmætis þeirra.“

Svo einkennilega vildi til, að þetta ákvæði var fellt niður hér á hinu háa Alþ., og ég held með einróma samþykki þeirrar n., sem að því stóð á sínum tíma, þannig að þetta var fellt út úr frv., og bókhaldsl. endanlega ákveðin án þess að taka með þetta ákvæði. Og eftir því sem mér skildist, voru rökin fyrir þessu frá hv. n., sem þetta flutti, þau, að hún teldi ekki eðlilegt að fylgja þeirri reglu, að vera stöðugt að gera breytingar á þessu mati, heldur ætti það að gerast á nokkru árabili og endurskoðast þá með nokkuð svipuðum hætti og hv. þm. gat réttilega um, að gert hefði verið 1962. Hvort það árabil er komið nú, skal ég ekkert um segja, en ég tel rétt að upplýsa þetta atriði hér, án þess að það sé gert í neinu deiluskyni, heldur aðeins til upplýsingar um það, að það er síður en svo, að af minni hálfu hafi verið andstaða gegn því að þetta sjónarmið væri látið ráða.

Hins vegar vil ég svo einnig upplýsa annað atriði, sem er kannske enn þá kynlegra. Og það er, að heimildin, sem veitt var 1962 til endurmats eigna, hefur verið notuð í sárafáum tilfeilum, eftir því sem skattayfirvöld tjá mér. Það var gert ráð fyrir því, að það væri ekki um sjálfkrafa endurmat að ræða, heldur gætu menn krafizt slíks endurmats, en af einhverjum ástæðum, — ég skal ekki fara að skýra, hverjar þær ástæður kunnu að vera, maður hefur um það vissar grunsemdir, — þá var ekki óskað eftir því nema af tiltölulega fáum aðilum, að þetta endurmat ætti sér stað, þannig að heimildin frá 1962 hefur ekki verið notuð nema að litlu leyti.

Vitanlega er það svo, að það er orðin fullkomin fjarstæða í mati vissra eigna, og á ég þar við fasteignamatið, sem má gera ráð fyrir, þegar það kemur fyrir almenningssjónir, það er nú verið að leggja síðustu hönd á það, að það muni sýna fimmtánfalda hækkun a. m. k. hér í Reykjavík og jafnvel víðar, og eins og nú standa sakir, er fyrningarreglan við þetta mat miðuð. Nú kemur það auðvitað til álita, þegar nýja fasteignamatið tekur gildi, hvort sem það verður nú á næsta ári eða um áramótin þar á eftir, — það þykir nú ólíklegt, eins og ég raunar gat um í fjárlagaræðu minni, að kærufrestir verði liðnir, þó að matið sé að mestu leyti búið nú, þannig að unnt verði að láta það taka gildi um áramót og óheppilegt að miða ekki við áramót, þannig að sennilega mundi það þá ekki taka gildi endanlega fyrr en 1. janúar 1971, — hvort taka skuli það til endurskoðunar, t. d. fyrningarreglurnar, hvort það á að ganga þá út frá, að íbúðarhús fyrnist t. d. um 4% miðað við fimmtánfalt fasteignamat eða ekki. Það verður þá náttúrlega ærin leiðrétting, sem menn fá þar og fríðindi. Um þetta skal ég ekkert fullyrða, það kemur til athugunar á sínum tíma.

Ég vil einnig upplýsa það varðandi skattalaganefnd þá, sem ég skipaði s. l. vor og skýrði frá í fjárlagaræðu minni og átti að hafa það sérstaka viðfangsefni að athuga samkeppnisaðstöðu fyrirtækja hér á landi miðað við samkeppnislönd, ef til kæmi aðildar EFTA, og átti jafnframt að skoða almennt séð, hvort fyrirtæki hér byggju við verri skattlagningarreglur en í þessum nálægu löndum, og í því sambandi hafa í huga að auðvelda leið til sameiningar fyrirtækja og eigin fjármyndunar í fyrirtækjum, að eitt af meginatriðunum í hlutverki og starfsemi þessarar n. er einmitt fyrningarreglurnar, sem hér gilda, og samanburður á þeim við þessi lönd, og innan tiltölulega skamms tíma er að vænta bráðabirgðaálits n. einmitt varðandi fyrningarreglurnar, þannig að þetta mál er vissulega á dagskrá.

Nú er það að vísu svo, að fyrningarreglur hér á landi eru ekki eins slæmar og menn kynnu að halda. Hér gilda sérstakar fyrningarreglur við vissar tegundir eigna, sem eru mjög ríflegar, eins og hv. þm. vita, svo sem t. d. í sambandi við fiskiskip og reyndar flutningaskip líka, flugvélar, síldarverksmiðjur, dráttarbrautir og vinnslustöðvar, bæði í landbúnaði og í sjávarútvegi, þar sem sérstök fyrningarheimild, sem nemur 20% á ári í þrjú ár, og almennt má segja það um fyrningarreglurnar, sem eru, eins og ég sagði, að öðru leyti mjög mismunandi, eftir því hvaða eignir er um að ræða og í hvaða skyni þær eru notaðar, að þá eru þær ríflegar á tvennan hátt. Annars vegar er prósentan rífleg og hins vegar er fyrningartíminn stuttur. Hann er styttri en eðlilegur endingartími eigna, þannig að að þessu leyti má segja, að menn njóti þarna nokkurs góðs umfram það, sem eðlilegt væri. Ef við hefðum stöðugt og fast verðlag, þá auðvitað er það eina eðlilega að miða við raunverulegt eignarverð eigna, og ég geri ráð fyrir því, að þá mundu einnig þessar prósentutölur hækka.

Ég er ekki að segja þetta hér til þess að deila neitt á þá hugsun, sem liggur að baki þessu frv., heldur aðeins geta þess, að hér er um margþætt mál að ræða, sem þarf að sjálfsögðu að gefa gaum, og eins og ég hef sagt, hefur þessu þegar verið gefinn gaumur, bæði með beinum tillöguflutningi hér á Alþ., sem ekki hlaut þá sérstaka náð hv. alþm., og er ég ekkert að deila á þá fyrir það, þeir hafa haft sín rök fyrir því, og ekki síður með því, sem ég áðan gat um, að sú n., sem starfar nú að allsherjarathugun á aðstöðu atvinnurekstrarins, á einmitt ekki sízt að athuga fyrningarreglurnar og hvort þær eru þess eðlis hér, að það þurfi þar við að bæta, og hvernig það eigi þá að gerast.