15.12.1969
Neðri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

126. mál, söluskattur

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs um þetta mál fyrir helgina og vil nú nota tækifærið og segja um það nokkur orð, en ég get þó verið fáorðari heldur en ég hefði orðið þá. Nú hefur sú breyting á orðið, eins og þm. er kunnugt, að þetta mál verður ekki rekið áfram hér fyrir jól, heldur gefst nú tóm til þess að afgreiða það í n. með eðlilegu móti, gagnstætt því, sem áður var ætlað. Að vísu getur maður ekki annað en dáðst að sviðsetningunni hjá hæstv. forsrh. fyrir helgina, þegar hann kom hér í hv. Sþ. og skýrði okkur frá því, að það hefði aldrei verið meiningin að reka þetta neitt áfram. En við höfum orðið greinilega varir við það í fjhn. hver ætlunin var. Það var búið að halda þar fund og taka tollskrána fyrir, áður en henni hafði verið vísað til n., svo að maður sá nokkurn veginn, hvað á spýtunni hékk. Og ég verð nú að segja það, að mér fannst ákaflega einkennileg og nánast brosleg afsökun hæstv. fjmrh. áðan. En það er orðið augljóst og það þykir mér vænt um, að þessi fyrir ætlan hv. ríkisstj. er nú orðin eins konar feimnismál. Er það ákaflega vel viðeigandi.

En ég vil fara örfáum orðum um málið nú við 1. umr. Hv. 3. þm. Vesturl. vék að því í sinni ræðu fyrir helgina, hverjar grundvallarbreytingar er hér um að ræða, því þetta frv. er aðeins byrjunin. Það fer ekkert leynt. Það hillti undir það í fjárlagaræðunni t.d., að hæstv. fjmrh. gat vel hugsað sér svolítið meiri hækkun á söluskatti, en þurfti til þess að mæta lækkun á tollunum, eins og nú hefur komið fram. Það kemur líka ljóst fram í grg. með tollskránni, að það, sem hér er á ferðinni, er aðeins upphaf á þróun, sem er fyllilega gefið í skyn, að eigi eftir að ganga lengra. Ég skal ekki endurtaka neitt af því, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, en ég ætla, að hann hafi farið þar algerlega með rétt mál, að hér sé stórt mál á ferðinni, í raun og veru meira og stærra en það, sem á þskj. stendur, ef lengra er litið fram.

Ríkissjóður og hans þarfir eru aðeins annar þátturinn í þessu, eins og raunar allri annarri skattheimtu. Hinn þátturinn er svo sá, sem snýr að þeim, sem borga eiga skattinn, að fólkinu. Hér er um það að ræða að hækka söluskattinn almennt, og hann kemur samkv. frv., eins og áður, á allar brýnustu nauðsynjar manna, á öll matvæli, að undanskilinni mjólkinni, að því er ég bezt veit. Og það er ekki óeðlilegt, þó að menn velti því aðeins fyrir sér við byrjunarmeðferð þessa máls, hvernig lægst launaða fólkið í landinu sé undir það búið að mæta þessari breytingu á skattheimtunni og þessari hækkun á sköttum á allra brýnustu nauðsynjum þess. Ég skal ekki fara um það mörgum orðum, en ég vil minna á örfáar staðreyndir. Ég vil minna á það fyrst, að kaupgjald í Dagsbrún, í II. flokki, hefur hækkað um 190% í krónum talið á 10 árum. Menn hljóta að hafa þá vitneskju í huga til hliðar við þetta, að dregið hefur úr vinnu og það er minna um eftirvinnu heldur en var áður. En á sama tíma og þetta gerist, hafa nær allar eða kannske allar brýnustu nauðsynjar hækkað meira, já, miklu meira hlutfallslega. Af innlendu vörunum hefur nýmjólkin hækkað minnst á þessu tímabili eða um 233%, en fiskurinn líklega einna mest eða um 444% saltfiskurinn og ýsan 471%, svo að dæmi séu nefnd. Og þó að innlenda varan hafi þannig hækkað geysimikið, hefur margt af þeirri erlendu og þar með allra brýnustu nauðsynjavörur, hækkað enn þá meira á þessu tímabili, þannig að sum mjölvara, eins og haframjöl, hefur hækkað yfir 800%. Þar er þó þess að geta, að í þeirri hækkun felst pökkunar kostnaður. Hækkanir á öðrum erlendum vörum eru minni, en því miður allar mun meiri, en kaupgjaldshækkunin.

Ég hef áður sagt það, að mér finnst ástæða til þess að taka allar svona tölur með gætni. En þó að menn geri það, er ómögulegt að loka augum fyrir því, að þróunin hefur á síðustu árum öll orðið í þessa átt og það er ekki hægt annað en taka það til skoðunar, hvernig annar aðilinn, sem hér á hlut að máli, þ.e.a.s. þeir, sem borga eiga hækkaða neyzlu skatta, hvernig þeir eru undir það búnir að taka þá á sig. Það hefur komið fram í málflutningi hæstv. ríkisstj., þegar talsmenn hennar, nú síðast hæstv. fjmrh., tala fyrir hækkuðum söluskatti, að söluskattur sé miklu hærri í nálægum löndum heldur en hann er hér og það skal ég ekki bera neinar brigður á. En það þýðir ekkert að líta á það eitt. Menn verða þá jafnframt að líta á það, hverjar tekjur manna í þessum löndum eru og hverjir möguleikar þeirra eru til þess að bera sína skatta í þessu formi. Það hefur áður verið rætt um nauðsyn þess hér á Alþ. að undanþiggja fleiri hinna allra algengustu neyzluvara söluskattinum, heldur en nú er gert. Því er venjulega borið við, þegar um þetta er rætt, að þetta sé tæknilega erfitt og allt að því ómögulegt að undanþiggja einstakar vörur. Þetta er þó gert nú, eins og ég gat um áðan, því það er ekki söluskattur á mjólk. Fyrir þingi nú liggur frv. til l. um breyt. á l. um söluskatt og frv. um líkt efni hefur áður verið flutt. Þetta frv. felur það í sér, að til viðbótar við nýmjólk verði smjör, ostur, skyr, kjötvörur og fiskur undanþegin söluskatti eða m.ö.o. allra brýnustu og algengustu neyzlu vörurnar af innlendu framleiðslunni. Og það er einnig ákvæði í frv. um, að brýnustu neyzluvörur innfluttar, kaffi, sykur og kornvörur, verði undanþegnar söluskatti. Frv. um sama efni fékk engan byr hér á hv. Alþ. í fyrra. Nú hefur söluskattsfrv. framsóknarmanna verið vísað til n. og ekki hlotið þar frekari afgreiðslu, eins og stendur. Það er ekkert nýtt, að það sé rætt um nauðsyn þess að undanþiggja fleiri allra algengustu neyzluvörur söluskatti, heldur en nú er gert. Og ef það hefur verið ástæða til að gera það áður, þá er sú ástæða auðvitað margfalt brýnni, eftir að söluskatturinn hefur verið hækkaður í 11 %, eins og nú er ráðgert.

Ég vil nú aðeins víkja að því, hvernig þessi hækkun söluskattsins kemur við landbúnaðinn. Það er ekki hægt að skoða það mál öðruvísi en í tengslum við þær breytingar á tollskránni, sem koma eiga til framkvæmda samhliða. Það er fyrirhugað að lækka toll á vélum til landbúnaðarins. Þær hafa margar verið áður í lágum tollflokki. Og niðurstaðan verður sú, að heimilisdráttarvélar og margar algengar vélar til heyvinnu og jarðræktar, sem notaðar eru á sveitaheimilum, hækka í verði, en lækka ekki, þrátt fyrir lækkanir í tollskrá, því að hækkun söluskattsins vegur þar öllu meira. Enn tilfinnanlegra verður þetta þó, þegar litið er á þann vélainnflutning vegna landbúnaðarins, sem ekki nýtur neinnar lækkunar í tollskrá, en þannig er ástatt um þungavinnuvélarnar, þær vélar, sem ræktunarsamböndin nota. Ég hef leitað mér upplýsinga um, hvernig þau mál standa og tók sem dæmi 13 tonna jarðýtu með 120 hestafla mótor, sem er mjög algeng hjá ræktunarsamböndunum. Verð þeirrar vélar verður núna rétt tæpar 4 millj. kr. Og eftir söluskattsbreytingu, – tollabreyting verður engin, – rennur til ríkissjóðs af þessu rúmlega 1 millj. kr., eða rúmlega 25% af útsöluverði vélarinnar. Þær breytingar, sem nú eru fyrirhugaðar á gjöldum af þessum maskínum, orsaka um 31/2% hækkun. Þetta kemur ákaflega illa við, því að þessi mjög svo þýðingarmiklu fyrirtæki bændanna, ræktunarsamböndin, eru nánast sagt mjög mörg lömuð eftir þau áföll, sem þau urðu fyrir við gengislækkanirnar. Þó að nokkuð væri gert þeim til hjálpar þá, náði það skammt.

Enn má benda á þýðingarmikla hluti fyrir landbúnaðinn, eins og stálgrindahúsin. Á þau kemur söluskattur, en þau eru í óbreyttum tollflokki og maður er dálítið undrandi yfir því, vegna þess að sams konar eða hliðstæð hús a.m.k. eru framleidd hér í landinu. Maður hefði því álitið fyrir fram, að þau mundu falla undir EFTA–vörurnar, en svo er ekki. En á leggst söluskatturinn og hækkar þeirra verð, sem hækkun skattsins nemur.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því varðandi landbúnaðinn, að söluskattur ofan á þær söluvörur landbúnaðarins, sem hann nú fellur á, kemur sér sérstaklega illa fyrir landbúnaðinn á þessum tímum, þegar kaupgeta hefur minnkað og nokkrir erfiðleikar eru orðnir á að selja þessar vörur. Nú er fyrirhugað að endurgreiða söluskattinn á smjöri og kjöti,– ég hef ekki heyrt þetta túlkað nánar í ræðum, sem fluttar eru af hálfu ríkisstj. í þessu máli. En þetta er mjög orðum aukið, a.m.k. óljóst, því ég þykist þó hafa góðar heimildir fyrir því, að söluskattur verði ekki endurgreiddur nema af dilkakjöt og það er ekki nema hluti af því kjöti, sem á markaði er. Á allt annað kjöt leggst hann, svo og á osta og aðrar mjólkurvörur. Þetta er töluvert alvarlegt mál á þeim tímum, þegar söluerfiðleikar eru meiri en venjulega. Auk þess getur maður ekki lokað augunum fyrir því, að þó að nú sé ákveðin niðurgreiðsla á þessum vörum, þ.e. smjöri og dilkakjöti, þá er það nú eins og það er með niðurgreiðslurnar, þær eru ekkert eilífðarfyrirbæri og menn geta átt það yfir höfði sér, að þær séu felldar niður fyrirvaralaust eða þá lækkaðar. En það er allt annað heldur en ef þessi vara væri hreinlega undanþegin skattinum. Auk þess verður þeirri niðurgreiðslu vafalaust bætt á þann lista, sem kallaður er styrkur til landbúnaðarins, því oft er sótt nokkuð langt til fanga, þegar verið er að fylla hann út.

Þetta vildi ég láta koma hér fram. Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri við 1. umr. málsins. Ég vil árétta það, sem ég sagði í upphafi, að mín skoðun er sú, að hér er á ferðinni mjög stórt mál. Hér er bæði um að ræða aukna skattheimtu til ríkissjóðs og hér er um að ræða tilfærslu á skatttekjum yfir í enn meiri beina neyzluskatta heldur en áður. Og þar að auki er þetta aðeins byrjunin á þeirri tilfærslu, eins og víða kemur fram og ég áðan drap á. En það er gott til þess að vita, að þetta mál fær nú þinglega meðferð og ber þá að vænta þess, að ýmis atriði þess verði skoðuð ýtarlega.