05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

155. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til l. um breyt. á l. nr. 75 frá 13. maí 1966, um Fiskveiðasjóð Íslands. Árið 1966 voru sett l. um Fiskveiðasjóð Íslands. Stjórn sjóðsins var breytt og hann settur undir yfirstjórn þriggja banka, þannig að Landsbankinn kýs tvo menn í stjórnina, Útvegsbankinn tvo og Seðlabankinn einn. Fiskveiðasjóður var áður sjálfstæð stofnun í sambandi við og að nafninu til undir yfirstjórn Útvegsbankans. Elías Halldórsson var framkvæmdastjóri og virtist ráða um afgreiðslu og innheimtu lána. Hafi bankastjórar Útvegsbankans hlutazt til um eitthvað, urðu viðskiptamenn sjóðsins þess lítið varir og hlutu a. m. k. lítil óþægindi af þeim sökum. Ekki gætti óánægju hjá útvegsmönnum með þetta fyrirkomulag. Sjóðnum var stjórnað vel og viturlega. Að sjálfsögðu líkaði mönnum misjafnlega við framkvæmdastjórann. Hjá því verður eigi komizt, en yfirleitt var hann vel látinn, eigi fljótur að lofa, en stóð við orð sín. Heiðarleik hans og hyggni dró enginn í efa.

Þrátt fyrir þetta sáu ríkisstj. og Seðlabankinn ástæðu til að gerbreyta yfirstjórn Fiskveiðasjóðsins, flestum til leiðinda. Það er ríkur þáttur í manneðlinu, að ef eitthvað er í góðu lagi, fara misvitrir menn að breyta því og bylta. Sagan um Evu og forboðna eplið er engan veginn óraunhæf, Eva virðist hafa verið grunnfær, en athafnasöm.

Fiskveiðasjóður er að langmestu leyti byggður upp á útflutningsgjöldum sjávarafurða. Eignir hans nú eru um 1 milljarð. Samkv. bankareikningum er það svipuð upphæð og aðrar lánastofnanir landsins eiga til samans. Þótt útvegsmenn og sjómenn hafi með striti sínu beint og óbeint lagt nær alla þessa fjármuni fram, hafa þeir litlu sem engu fengið að ráða um stjórn sjóðsins. Þar til 1960 voru vextir af lánum Fiskveiðasjóðs 4%. Vöxtum var stillt í hóf, af því að tillit var tekið til þess, að útvegurinn var skattlagður til sjóðsins. Þáverandi ráðamenn gerðu sér ljóst, að eigendur báta og fiskvinnslustöðva voru eigi færir um að greiða hærri vexti.

Þetta mátti eigi þannig vera hjá viðreisnarstjórninni, Evueðlið sagði til sín. Vextir voru hækkaðir 1960 úr 4% í 6½ % og dráttarvextir tvöfaldaðir, og þannig níðst á þeim efnaminni. Lántakendurnir voru einnig neyddir til að undirskrifa skuldabréf, þar sem lánin voru gengistryggð að verulegu leyti. Hliðstæð vaxtahækkun var gerð í öðrum lánastofnunum, en útvegurinn varð einna verst úti, hvað gengisáhættu snerti. Það er annars eðlis að hækka vexti af eyðslu og brasklánum til að draga úr eyðslu í bili en á stofnlánum, sem nauðsynleg eru, til að atvinnulífið geti gengið eðlilega. Þetta gerði stjórn viðreisnarinnar sér ekki ljóst. Sennilega er vaxtahækkunin 1960 mesta óþarfaverk, sem stjórnin hefur unnið.

Þegar fjármálafglöp eru gerð, bitnar það að lokum mest á efnalitlu alþýðufólki. Þannig hefur það verið með þessa vaxtahækkun. Fiskvinnslustöðvar, fiskiskip og iðnfyrirtæki varð að starfrækja, og vextina varð að greiða. Þegar atvinnurekendur gátu eigi greitt þá lengur, var gengið lækkað og hlutur sjómanna skertur. Verkamenn og sjómenn voru á þann hátt óbeint látnir greiða hina háu vexti. Sagan er þó ekki öll sögð. Skip þarf að endurnýja. 100–120 tonna bátur kostar nú 20–25 millj. 350–1000 lesta skuttogarar kosta 60–120 millj. Þeir, sem peninga eiga, vita vel, að með 6½% vöxtum af stofnlánum, 12% dráttarvöxtum, 10% víxilvöxtum og 20–27 aukasköttum á útveginn er eigi hægt að greiða vexti og afborganir af þessum skipum, miðað við meðalafla og meðalverð. Auk þess má eigi gleyma gengisáhættunni, sem útvegsmenn verða að taka á sig. Þeir, sem vit hafa í kollinum, vilja því eigi hætta eigin fé í slíka fjárfestingu. Kröfur eru því gerðar nú um, að ríki og bæjarfélög leggi fram óendurkræfan hluta af kaupverði togara. Ljóst er, að 4% vextir af 100 millj. er svipuð upphæð og 6½% af 60 millj., m. ö. o. vaxtahækkunin veldur því, að nú eru kröfur gerðar um óendurkræf framlög til kaupa á fiskiskipum.

Oftar en einu sinni hef ég ásamt Jóni Skaftasyni flutt þáltill. um, að ríkisstj. hlutist til um, að vextir af stofnlánum atvinnuveganna væru lækkaðir. Þær hafa verið svæfðar, Alþ. átti eigi að skipta sér af þeim hlutum. Stjórnin og Seðlabankinn vildu þar ein ráða. Nú geta þeir spöku menn velt vöngum yfir því, hvernig þeir eigi að losna úr þeirri sjálfheldu, sem þeir hafa gengið í. Lausnin verður án efa sú sama og fyrr, að alþýðan borgar, beint eða óbeint, og tekjustofnarnir verða hærri útsvör og aukinn söluskattur, en bónbjargarleiðin verður ekki farin endalaust.

Frv. þetta gerir eigi ráð fyrir öðrum breyt. á l. Fiskveiðasjóðs en að stjórn sjóðsins sé kosin af öðrum aðilum en verið hefur og framkvæmdastjóri sjóðsins fái hliðstæð völd og bankastjórar viðskiptabankanna. Ég álít, að á þann hátt geti Fiskveiðasjóður veitt betri og aðgengilegri þjónustu. Eins og málum er háttað nú, fá viðskiptamenn tæpast ákveðin svör frá framkvæmdastjóra Fiskveiðasjóðs, ef um meiri háttar atriði er að ræða. Það er stjórnin, sem ræður. Til þess að ná tali af hinum raunverulegu ráðamönnum þarf að ganga milli þriggja banka, og oft er erfitt eða ógerlegt að ná tali af þessum herrum. Þeir eru uppteknir við önnur störf. Fundi halda þeir einstöku sinnum, en þar er ekki tími eða aðstaða til að ræða við þá, sem um lán biðja. Það er eigi ólíklegt, að það taki eina til tvær vikur í sumum tilfellum fyrir viðskiptamenn sjóðsins að ná tali af hinum raunverulegu ráðamönnum, ef það tekst þá. Þetta tel ég óþolandi ástand. Framkvæmdastjóri sjóðsins þarf að hafa vald til að taka ákvarðanir, en stjórnin að fylgjast með og marka stefnu í aðalatriðum.

Í öðru lagi skulum við gera okkur ljóst, hvort ástæða er til að ætla, að verr verði sér fyrir sjávarútvegsmálum, ef frv. þetta verður samþ. Ég álít, að svo verði ekki. Enginn hefur betri aðstöðu til þess að fylgjast með hæfni útgerðarmanna og skipstjóra, afkomu fiskvinnslustöðva og hvaða gerð og stærð skipa er hagkvæmast að kaupa en framkvæmdastjóri Fiskveiðasjóðs, ef hann er starfi sínu vaxinn. Ég er sannfærður um, að minni mistök mundu verða gerð í skipakaupum, ef Elías Halldórsson hefði fengið meiru að ráða, og ólíklegt er, að það verði útgerð okkar til óþurftar, þótt útvegsmenn vilji einn mann í stjórn Fiskveiðasjóðs. Til bóta ætti einnig að vera, að sjómenn eigi sinn fulltrúa. Til þess hafa þeir rétt. Hann gæti skýrt þeirra sjónarmið og fylgzt með. En það gæti komið í veg fyrir ýmsan misskilning, enda skiptir miklu fyrir sjómenn, að vel sé fyrir sjávarútvegsmálum séð. Ég álít eðlilegt, að Seðlabankinn eigi einn mann í stjórn Fiskveiðasjóðs. Hann getur skýrt viðhorf bankanna og ríkisstj. Tæplega geta þm. álitið það óeðlilegt, að Alþ. kjósi tvo menn í stjórn. Hversu vel val þeirra tekst, er ekki hægt að segja um, en mistök væru, ef til þess veldust óhæfir menn. Í stjórn Fiskveiðasjóðs eru nú fimm bankastjórar. Ég ætla hvorki að gera lítið úr greind þeirra eða mannkostum, en þeir eru bankamenn, með bankamannasjónarmið. Þeir hafa eigi rekið útgerð og gætu sennilega ekki, flestir þeirra, gert upp við bátaskipshafnir án aðstoðar. Trúir því nokkur þm., að óhagkvæmara væri fyrir íslenzkan sjávarútveg, að t. d. Matthías Bjarnason, eða einhver ámóta kunnugur atvinnuvegum og hann er, væri í stjórn Fiskveiðasjóðs,en einhver þessara ágætu bankastjóra? Ég held tæpast.

Í þriðja lagi ber okkur að íhuga, hvort hagkvæmara er fyrir Fiskveiðasjóð að hafa óháða yfirstjórn og framkvæmdastjóra með svipaða starfsaðstöðu og bankastjórar hafa eða hafa Fiskveiðasjóð undir yfirstjórn 5 bankastjóra úr þrem bönkum. Líklegt er, að um það atriði muni skoðanir þm. vera skiptar. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér til hlítar störf stjórnar Fiskveiðasjóðs, en hef ástæðu til að ætla, að hún hafi unnið ýmis smáafrek, eins og að færa skuldir, sem útvegsmenn voru í við Framkvæmdasjóð og e. t. v. fleiri aðila til Fiskveiðasjóðs. Gengislækkanirnar 1967 og 1968 stórhækkuðu skuldir þeirra útvegsmanna í íslenzkum krónum, sem höfðu látið smíða skip erlendis. Hluta þessara hækkana hafa viðskiptabankarnir orðið að greiða í bili. Enn fremur munu vera verulegar fjárhæðir ógreiddar erlendis fyrir veiðarfæri. Hvort eitthvað af þessum skuldum verði fært yfir til Fiskveiðasjóðs, veit ég eigi, en þótt svo yrði, getur það ekki talizt til hagsbóta fyrir sjóðinn.

Hins vegar hafa bankastjórarnir unnið eitt afrek, sem e. t. v. auðgar Fiskveiðasjóð, ef vel tekst til. Þykir mér rétt að skýra lauslega frá því, enda ber að lofa það, sem vel er gert. Fyrir 1960 lánaði Fiskveiðasjóður án gengistryggingar. Þegar gengið var lækkað 1960 og 1961, varð Fiskveiðasjóður fyrir nokkru tapi vegna lána erlendis, sem ég ætla, að numið hafi 46 millj. kr. Og í árslok 1960 er Fiskveiðasjóður talinn skulda erlendis um 64 millj. Eftir það lánaði Fiskveiðasjóður þannig, að hluti af lánum var gengistryggður. Það ákvæði var þó eigi sett í öll skuldabréf. Mér hefur skilizt, að það hafi fallið niður að einhverju eða öllu leyti árið 1967, a. m. k. sagði Sverrir Hermannsson mér, að Eldborgin, sem þeir félagar hafa með að gera, hefði fengið lán ógengistryggt, og það var ástæðan til þess, að ég spurðist fyrir um það í Fiskveiðasjóði, hvort mikið hefði verið gert af þessu, og ég fékk þær upplýsingar, að þetta hefði verið gert árið 1967, vegna þess að það hefði verið bjartsýni ríkjandi hjá Seðlabankanum um, að þess þyrfti ekki með, og var þó farið að horfa illa í efnahagsmálunum þá. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort þarna hafi komið einhver persónulegur áróður til greina eða ekki. Lántakendur voru neyddir til að skrifa undir þessar vafasömu skuldbindingar, því að ógerlegt var fyrir þá að greiða skipin nema fá lán í Fiskveiðasjóði fyrir hluta af andvirði þeirra. Við gengislækkunina 1967 og gengisfellinguna 1968 varð Fiskveiðasjóður fyrir nokkru tjóni vegna skulda erlendis. Mun sú upphæð hafa numið í kringum 130 millj. kr. Það gengistap varð að verulegu leyti vegna skuldar, sem varð til fyrir gengislækkunina 1960, því þá skuldaði Fiskveiðasjóður 64 millj. erlendis, og það er rúmlega 60 millj. vegna þess og enn fremur að nokkru vegna ógengistryggðra lána 1967. Er eigi ólíklegt, að hlutur þeirra skipa, sem Fiskveiðasjóður, sem hafði veitt ógengistryggð lán, hafi numið, ef rétt var reiknað, í kringum 70 millj. Nákvæmlega get ég ekki fullyrt um það, en það hlýtur að vera mjög nálægt 70 millj. Bankastjórastjórnin var hins vegar ekki að velta því fyrir sér, hvað rétt væri eða rangt í þessu efni, heldur jafnaði öllu gengistapinu niður á þá aðila, sem búið var að neyða til að undirskrifa skuldabréf, sem voru gengistryggð. M. ö. o. þeir, sem höfðu neyðzt til að taka gengistryggð lán, voru látnir greiða fyrir þá, sem höfðu fengið ógengistryggð lán. Ég efa, að bankastjórnin hafi gert sér ljóst, að ranglátt var að láta eigi alla skuldunauta Fiskveiðasjóðs búa við svipuð lánakjör. Ef um tímabundna yfirsjón var að ræða hjá sjóðsstjórninni, að hafa ekki athugað það, að gengistryggja lánin fyrir 1960 og ekki árið 1967, þá átti Fiskveiðasjóður að greiða gengistapið fyrir þá, sem höfðu ógengistryggð lán, eða sem svaraði því. Viðurkenna ber, að ríkisstj. og bankastjórar hafa sýnt mikla athafnasemi gagnvart Fiskveiðasjóði, og þeim hefur tekizt að gera hagkvæma og vinsæla lánastofnun frekar óaðgengilega, gert Fiskveiðasjóð að ósjálfstæðri undirlægju þriggja banka.

Bændur hafa sinn Búnaðarbanka, sem gerir þeim ómetanlegt gagn, iðnaðarmenn sinn Iðnaðarbanka og verzlunarmenn sinn Verzlunarbanka. Þessir aðilar ráða miklu um stjórn þessara lánastofnana. Útvegsmenn eiga fullan rétt á því að búa við hliðstæð kjör og þessir aðilar. Frv. þetta miðar að því, að svo megi verða. Vera má, að það verði eigi samþ. á þessu þingi, en dagurinn á morgun er líka dagur, og árið að ári er líka ár. Ég er sannfærður um, að ýmsir í stjórnarliðinu eru mér efnislega sammála. Minnist ég þess, þegar rætt var um stjórn Iðnþróunarsjóðs, þá lýsti Matthías Bjarnason yfir hliðstæðri skoðun og kemur fram hjá mér í þessu frv. Hver er ástæðan til þess að við Matthías Bjarnason höfum hliðstæðar skoðanir í þessu efni? Hún er sú, að við höfum tekið þátt í atvinnulífinu, við vitum, að sjónarmið bankastjóra eru eigi hin sömu og atvinnurekenda. Að sjálfsögðu má samræma þessar andstæður að nokkru, en þó því aðeins, að báðir aðilar hafi til þess aðstöðu. Sú aðstaða er ekki fyrir hendi nú í stjórn Fiskveiðasjóðs.

Fiskveiðasjóður er byggður upp að mestu á útflutningsgjöldum sjávarafurða til þess að endurnýja fiskiskip og fiskvinnslustöðvar og bæta öðrum nýjum við. Þar eiga einhliða bankamannasjónarmið ekki að ráða öllu, eins og fram hefur komið t. d. við útreikning á gengistapi vegna skulda Fiskveiðasjóðs. Skuldir erlendis voru hjá Fiskveiðasjóði í árslok 1958 266 millj. Þær hafa tvöfaldazt við síðustu tvær gengislækkanir, þannig að þær hafa verið í árslok, eða allt svo snemma á árinu 1957, í kringum 130 millj. Í árslok 1960 voru þær 64 millj. Það er tvímælalaust, það vita það allir menn, að þó sum lánin hafi ekki verið gengistryggð, þá hafa verið tekin veruleg lán til þess að borga þau, og það voru þess vegna alger ólög að leggja þann hluta á þá, sem voru neyddir til þess að taka gengistryggðu lánin. Á þennan hátt hafa þeir menn, sem tóku gengistryggðu lánin, borgað tvöfalt við það, sem þeir áttu að borga, þannig að bátur, sem nú samkv. þessum ákvæðum bankastjóranna er neyddur til að borga tvær millj., átti í rauninni ekki, ef rétt væri að farið, að borga nema eina millj. Þarna er algert ofríki notað gagnvart þeim, sem neyðzt höfðu til að taka gengistryggðu lánin.

Ég skal ekki fullyrða, hvernig þetta færi í máli, og það er nú þannig um útgerðarmenn, að þeir hafa ekki aðstöðu til að segja mikið við lánardrottna sína. Þeir eru kúgaðir menn, og í skjóli þess eru slík ákvæði sett. Annars er bankavaldið hér í landi þannig og tök þess þannig á atvinnurekendum og þeim, sem eiga til þeirra eitthvað að sækja, að þeir ráða hlutunum. En ekki væri ástæðulaust að gera prófmál í þessu efni.

Mér er ekki fullkomlega ljóst, hver það er, sem raunverulega ræður í peningamálum hér í landi. Eru það bankastjórar Seðlabankans, eða er það bankamálaráðh. og ríkisstj.? Ég hef talað um þetta við ýmsa menn, og það eru skiptar skoðanir um þetta, en staðreyndin er sú, að það er Jóhannes Nordal og bankamálaráðh., sem hafa þarna sterkasta aðstöðu og virðast ráða mestu. Sannleikurinn er sá, að það er ástæða til að ætla, að það séu í rauninni kratarnir, sem stjórna fjármálunum í þessu landi, en ekki Sjálfstfl., þótt hann sé stór. En hvað sem því líður, þá er þetta vald farið að grípa inn í alla skapaða hluti. Það er jafnað niður á okkur, sem skuldum í Fiskveiðasjóði, svona upphæðum, eins og þeim dettur í hug. Það grípur inn í alla mögulega hluti. Það var síðast nú á þessu þingi verið að afhenda þessum bankastjórum Iðnþróunarsjóðinn. Það gladdi mig, þegar einn þm. Sjálfstfl. hafði kjark til þess að standa upp og lýsa yfir því, að hann styddi ekki þessa stefnu. Ég var víst eini maðurinn, sem endanlega greiddi atkv. á móti þessu frv., vegna þess að mér geðjast ekki að þeirri bónbjargarleið að fara að biðja um vaxtalaust lán. Ef laglega væri á þessum fjármálum haldið, gætum við grætt þessar 1000 millj., sem við erum að betla út úr nágrannaþjóðum okkar, á einu ári og þyrftum ekki að vera að biðja um vaxtalaus lán. En það gladdi mig að heyra þetta sjónarmið. Ég er sannfærður um, að í röðum stjórnarliða eru margir sömu skoðunar og kom fram hjá Matthíasi Bjarnasyni, en þeir bara segja það ekki. Vonandi á þetta eftir að breytast. Þeir eiga eftir að standa við hlið Matthíasar Bjarnasonar og velta af sér þessu bankavaldi. Þetta grípur inn í á öllum sviðum, það grípur inn á Verðjöfnunarsjóðinn. Menn veiða ekki rækjur vestur á Ísafirði nú. Það gerir bankavaldið. Það grípur inn í loðnuveiði fyrir sunnan land. Það er þetta einræði, það er ekkert vit að taka svona ákvarðanir án þess að tala við atvinnurekendur áður og hafa eitthvert samstarf við þá.

Ég talaði á móti breyt. á Fiskveiðasjóðsl. 1966. Mér var alveg ljóst, að þarna var ekkert annað að gerast en að bankavaldið var að taka völdin í Fiskveiðasjóðsmálunum, og þetta var með öllu ástæðulaust, því að Elías Halldórsson hefur stjórnað þessu af mikilli prýði, og þetta er bezt stjórnaða peningastofnunin, að ég ætla, í landinu. Seðlabankinn hefur haft aðstöðu fram yfir allar aðrar stofnanir, hann hefur t. d. seðlaútgáfu. Hann hefur verið rekinn nú í 10 ár án þess að græða neitt að mun. Mér var það ljóst, þegar var verið að breyta þessum l. um Fiskveiðasjóð, að það yrði ómögulegt að skipta við Fiskveiðasjóð lengur. Það hefur rætzt. Ég var búinn að skipta alllengi við Landsbankann og fór þaðan, af því að þetta var leiðindastofnun við að eiga á allan hátt. Ég fór að skipta við Búnaðarbankann, og það var eins og tveir ólíkir heimar. Útgerðarmenn urðu að sýna auðmýkt til þess að fá endurnýjuð útgerðarlánin. Það nægði ekki persónuleg ábyrgð, þótt maður skrifaði persónulega á víxla. Nei, ónei, menn urðu að veðsetja húsin, sem þeir bjuggu í, eða jarðirnar. Þeir heimtuðu jörðina hjá mér. Það var ekki nóg, að ég skrifaði persónulega á víxilinn fyrir 200 þús., sem ég var búinn að standa í skilum með í mörg ár. Svo komst ég að því, að ég átti að skipta við Landsbankann, af því Skagaströnd átti að vera þar. Útgerðarmönnum var skipt svona, eins og þegar við erum að draga kindur í dilka í skilaréttum. Þeir yrðu að vera í þeim dilk, sem bankastjórarnir voru búnir að draga þá inn í, og það var alveg sama, hvernig komið var fram við þessa aumingja menn, þeir máttu ekkert segja, það þýddi ekkert fyrir þá að segja neitt. Það voru fleiri en ég óánægðir með viðskiptin við Landsbankann á þeim tíma. Annars löguðust þeir nú heldur við það, að ég gekk úr vistinni. Ég lét þá nú hafa svona smáorðsendingu í leiðinni, og útgerðarmenn voru oft að tala um það við mig, að það væri alveg ómögulegt að eiga við þetta, og ég sagði við þá: Hví farið þið ekki? „Við getum ekkert farið,“ sögðu þeir. Þetta eru nefnilega kúgaðir menn. Svo var ekki hægt að fá þessi smálán endurnýjuð, nema borga af þeim stimpilgjöld og veðsetningu, og þetta er stórfé. Þetta losnaði ég við, þegar ég komst í Búnaðarbankann, enda var eins og að komast í föðurhús að skipta við þá, enda mundi varla nokkur maður koma inn í Landsbankann, ef Búnaðarbankinn hefði nóg fé til að lána. Þessi auðmýking og þessi þrælatök kunni ég ekki við. Ég talaði við einn hamingjusaman útgerðarmann nú fyrir fáum dögum. Hann var ákaflega ánægður með kjör sín yfirleitt, og ég fór að inna hann eftir því, í hverju þetta lægi. Það var af því, að hann hafði ekki þurft að tala við bankastjóra í mörg ár. Hann var svo efnaður, að hann hafði ekki þurft að taka lán, hvorki útgerðarlán eða lán út á fiskveiðar. Hann hafði ekki lagt í ný ævintýri í tíð þessarar viðreisnarstjórnar, sem neinu nam, og hafði byggt sig upp á vinstra tímabilinu, því að stjórnarliðið er nú búið að gera Eystein að algerum fjármálasérfræðingi, þannig að hann hefur ekkert þurft til bankanna að leita, og þetta er eini hamingjusami útgerðarmaðurinn, sem ég hef hitt nú í seinni tíð.

Sannleikurinn er sá, að það að hafa þessar gengisklásúlur á skipunum, það var höfuðástæðan til þess, að ég hætti að eiga bát. Við skulum ekki ímynda okkur, að það geti ekki komið önnur gengisfelling til, og ég er með tvær millj. á minn bát, þannig að útkoman hjá þessum mönnum, sem fengu gengishækkanirnar núna, verður sú, að þeir vinna ekki fyrir gengisfellingunni, ekkert. Þetta á eftir að breytast. Þið þurfið ekki að ímynda ykkur, að sjómennirnir færi sig ekki upp á skaftið og nái sinni kjaraskerðingu að einhverju leyti aftur, svo að nú á að bæta nýjum sköttum á útgerðina. Það á að fara að setja lífeyrissjóð. Það voru nú eitthvað 25 skattar fyrir. Það kemur lífeyrissjóður handa sjómönnum, og svo kemur nú verðjöfnunargjaldið, og svo á að fara að láta útgerðarmennina greiða hluta af tryggingagjöldunum, þannig að ég hygg, að eftir svona eitt til tvö ár, þá verði þetta allt komið í sama farið. Ég miða ekki við það, sem þeir eru að tala um, þessir spekingar í bönkunum. Það er nú eiginlega eina læknislyfið hjá þeim að fella gengið, eins og þið vitið, og þeir eru fljótir að því. Það er allt tilbúið til þess að fella gengið. Það er tölva búin að reikna þetta allt út. Þetta er allt saman til, og þegar næsta gengisfelling kemur, þá étur þetta sig alveg upp. Hann hefur líka sagt mér það, hann Guðmundur Jörundsson, hann segist alltaf vera að borga parta, en það minnki aldrei neitt skuldir, því að þegar gengislækkanirnar koma, þá hækkar þetta alltaf, þannig að þetta étur sig upp, og það, sem menn eru í rauninni að hæla sér af, þessir fjármálaspekingar okkar, er það, að þeir hafi læknað allt með því að fella gengið. Höfuðástæðan fyrir þeim umbótum, sem orðið hafa, er ekki gengislækkunin. Það er fyrst og fremst góð vertíð í fyrra og alveg stórhækkað verðlag. Og ef ríkissjóður hefði ekki endilega þurft að fá fleiri krónur, þá hefði verið hægt að komast hjá þessari gengisbreytingu, þá hefði verið hægt að hjálpa útveginum yfir þetta. Þeir bátar, sem fá þessa hækkun, eins og ég talaði um áðan, græða ekkert á henni. Hinir græða vitanlega, og sannleikurinn er sá, að ef maður vill gera út bát núna og vera tryggur um að græða á honum, þá er helzt að fá einhvern bát, sem var keyptur fyrir 1960.

Ég skal játa það, að það hefur verið hagstæðari greiðslujöfnuður fyrir þjóðarbúið 1969 en var áður, en hver var ástæðan? Hún er fyrst og fremst sú, að alþýða manna hafði alls ekki peninga til þess að eyða, kaupgetan var ekki fyrir hendi. Þetta er höfuðástæðan fyrir þessu. Til viðbótar koma verðlagsbreytingarnar og góður afli. Það bara gengur ekki endalaust. Við þurfum ekki að efast um það, að kaup hækkar hjá verkafólki, af því kaupið er þannig núna, að daglaunamaður getur ekki unnið fyrir fjölskyldu. Konan verður að vinna úti líka. Það mun allt saman sækja í sama horfið.

Það væri allt í lagi, að bankarnir réðu öllu í þessu landi og bankamálaráðh., ef öllu væri vel ráðið. Þá væru allir ánægðir, en ég sé bara ekki, að það hafi verið gert. Þess vegna held ég, að það væri eitt af höfuðverkefnum þingsins að reyna að ná aftur einhverju af því valdi, sem það afhenti Seðlabankanum á sínum tíma, því að í raun og veru var valdið tekið af Alþ. í fjármálunum og flutt yfir í Seðlabankann og til ríkisstj., ef hún ræður Seðlabankanum, en ef Seðlabankinn stjórnar ríkisstj., þá er það hann, sem ræður. Ég vil ekki fullyrða, hvort er, eða hvort það er einhver félagsskapur þar á milli.

Það væri allt í lagi að þegja, ef öllu væri vel stjórnað. En ég get ekki séð, að það sé, og núna nægði þeim ekki að hafa Fiskveiðasjóðinn, þeir taka Iðnþróunarsjóðinn bankastjórarnir og ætla að stjórna honum. Þeir hafa bara ærið nóg að gera í sínum viðskiptabönkum. Þeim er ekkert of vel stjórnað, þó að þeir sinntu því einir, síður en svo. Nei, það má ekkert vera í friði fyrir þessum góðu mönnum. Fiskveiðasjóður mátti ómögulega vera í friði, þó að honum væri afburða vel stjórnað. Þess vegna held ég, að við ættum að sýna manndóm af okkur og taka aftur þessi völd, sem við höfum afhent Seðlabankanum til einskis góðs fyrir þjóðfélagið, og það er einmitt sú stefna, sem er í þessu frv., sem ég hef flutt hér, það er eingöngu það. Sannleikurinn er sá með þennan Iðnþróunarsjóð, að það er þó að því leyti til skárra, að það lítur út fyrir, að það sé einn maður af þessum fimm, sem eigi nú að vera eins og fulltrúi fyrir iðnaðinn, en það verður alveg eins og með stjórn Fiskveiðasjóðs, að með því að hafa þessa blessaða bankastjóra einvaldsherra þarna, þá verður óskiptandi við þann sjóð.

Annars er það ótrúlegt, hvað hægt er að koma hlutunum þannig fyrir, að það sé leiðinlegt að eiga við þá. T. d. með Atvinnujöfnunarsjóðinn, það er búið að afhenda hann Landsbankanum til innheimtu. Það er eiginlega nægilegt til þess, að það sé illskiptandi við hann, þó að það sé ekki annað, og þetta er hjá honum Þóri þarna uppi á Laugaveginum, 70 eða eitthvað svoleiðis, þar þarf að hafa tal af honum. Ég held, að hann heiti Þórir, en í herberginu fyrir framan situr rukkari, og hann virðist ámóta glaður og þegar engill er búinn að frelsa einhverja sál, ef hann nær í einhvern mann til að rukka. Þannig að það er nú varla komandi í þennan Atvinnujöfnunarsjóð fyrir þessum blessaða bankamanni. Sem sagt, það er ekki friður í þessu blessaða landi með neitt fyrir þessu bankavaldi, og það er ekkert hægt að gera af viti í þessu landi fyrir þessu bankavaldi, og einu mennirnir, sem geta verið hamingjusamir, eru þá þessir: Það er útgerðarmaðurinn, sem ég talaði við þarna um daginn, og ég, síðan ég seldi bátinn.