09.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (2686)

160. mál, velferð aldraðra

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég hef ásamt öðrum Alþfl.-þm. hér í d. leyft mér að flytja á þskj. 309 frv. um velferð aldraðra. Í þessu frv. eru lagðar fram nokkrar hugmyndir um það, hvernig sé rétt fyrir þjóðfélag okkar að skipuleggja starfsemi í þágu aldraðra á komandi árum.

Nú um skeið hefur vaknað skilningur á því, að gera þurfi margvíslegar fjárhagslegar og félagslegar ráðstafanir til aðstoðar við þá aldursflokka, sem ýmist eru að búa sig undir starfsárin eða hafa lokið þeim, þar eð þeir hafa misst starfsorku vegna elli. Málefni unga fólksins hafa verið mjög í sviðsljósi, en það hefur einnig vaknað nýr áhugi og nýr skilningur á vandamálum aldraðra, þótt nokkru minna hafi á því borið. Hefur ríkisvaldið skipað nefndir til þess að fjalla um þau mál, og hefur verið unnið gott starf á vegum þeirra, svo og á vegum ýmissa stofnana og félaga.

Tilgangur þessa frv. er að samhæfa og efla starfsemi þeirra, opinberra jafnt sem einkaaðila, sem vinna að velferð aldraðra. Lagt er til, að í stað þeirra n., sem fjallað hafa um þessi mál og verið skipaðar til skamms tíma, komi sérstök stofnun, sem verði í nánum tengslum við Tryggingastofnun ríkisins. Slíkar stofnanir eru til víða erlendis og þykja þar hafa unnið mjög gott starf. Má nefna m. a. stofnun í Englandi, sem starfað hefur síðan 1940, og á Norðurlöndum eru til stofnanir, þar sem saman koma ýmis frjáls samtök og opinberir aðilar til að vinna að málefnum aldraðra.

Fyrr á árum var það trú manna, að fátt þyrfti að gera fyrir gamla fólkið annað en að koma upp elliheimilum. Nú hafa gerólíkar skoðanir rutt sér til rúms. Þær byggjast á því, að ekki sé nóg að bæta árum við lífið, heldur þurfi einnig að reyna að bæta lífi við árin. Aldraðir eigi að búa á sem eðlilegastan hátt með yngra fólki og börnum eins lengi og unnt er. Þeir þurfa að hafa vel fyrir nauðþurftum og eiga kost á léttum störfum eða áhugamálum til að fást við. Yngra fólkið þarf að aðstoða þá eldri, þegar þrekið minnkar, en það getur sjálft þegið margvíslega aðstoð af öldungunum í staðinn. Að sjálfsögðu verða eftir sem áður að vera til sjúkradeildir og hjúkrunarheimili fyrir þá aldraða, sem þess þurfa sérstaklega með.

Nú eru á mörgum stöðum í öðrum löndum reyndar nýjar hugmyndir á þessu sviði, og er okkur mjög mikils virði að fylgjast með þeim og læra af þeim. Þess vegna er nauðsynlegt, að til sé stofnun, sem um þessi mál fjallar, safni saman vitneskju og sérþekkingu á málefnum aldraðra, veiti sveitarfélögum og öðrum aðilum ráð og minni á þessi mál með því að birta niðurstöður af sífelldum athugunum og halda uppi fræðslu.

Það er hugmynd okkar, að velferðarstofnun aldraðra, sem komi í staðinn fyrir þær n., sem fjallað hafa um þessi mál, verði í mjög nánum tengslum við Tryggingastofnun ríkisins, en heyri annars undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Þessari stofnun er ætlað að halda uppi stöðugum rannsóknum á vandamálum aldraðra í landinu, þar á meðal fjárhagslegri afkomu þeirra. Stofnuninni er ætlað að gera till. um lausn þessara vandamála til ríkisvalds, sveitarfélaga og allra annarra aðila, sem kunna að láta sig þau skipta og gætu stuðlað að lausn þeirra. Stofnuninni er ætlað að gera till. um lausn vandamála, sem einstök sveitarfélög og aðrir aðilar kunna að beina til hennar til úrlausnar. Henni er ætlað að örva og styðja hvers konar félagsstarfsemi fyrir aldraða. Henni er ætlað að annast fræðslu um nútímaviðhorf til vandamála aldraðra og þróun þeirra mála erlendis. Henni er ætlað að gefa út leiðbeiningarit fyrir hina öldruðu sjálfa, þar sem þeim er skýrt frá ýmsum vandamálum ellinnar og hugsanlegum lausnum þeirra og loks að efna til námskeiða í félagslegu og öðru starfi, sem vinna þarf fyrir aldraða.

Hugmyndin í frv. er, eins og fram kemur í 5. gr., sú, að kostnaður við þessa starfsemi verði greiddur af lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins, og eru þar að sjálfsögðu um leið tryggð mjög náin tengsl á milli tryggingaráðs, Tryggingastofnunarinnar og þessarar fyrirhuguðu stofnunar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þessi mál frekar, herra forseti, en legg til, að málinu að lokinni þessari umr. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.