27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

126. mál, söluskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að lýsa með nokkrum orðum afstöðu minni til þessa máls. Með þessu frv. og breytingunum á tollskránni er verið að gerbreyta skattheimtu ríkissjóðs. Þetta er bein afleiðing af aðild okkar að EFTA. EFTA er orsökin og hér er afleiðingin, og lá hún alltaf fyrir, þegar EFTA–málið var á ferðinni.

Nú á að lækka tolla á bæði þörfum og óþörfum varningi og til að vega á móti þessum tollalækkunum er svo söluskattur hækkaður og þá jafnt á brýnustu nauðsynjavörum sem ónauðsynlegum vörum. Og það er rétt að hafa það í huga, að hér er aðeins um upphaf að ræða. Tollarnir eru nú lækkaðir sem nemur 30%, heildarstefnan er sú, þó að nokkru meiri lækkun sé nú á ýmsum vörum og söluskattur er svo hækkaður um 3.5%, jafnt á öllum vörum. Í framhaldi af því, sem nú er byrjað á, á síðan að afnema alveg tolla í EFTA–löndunum og áreiðanlega hljótum við að verða að lækka til verulegra muna tolla til samræmis gagnvart öðrum viðskiptalöndum okkar.

Það sjá því allir, að hér er um gífurlega mikla fjármuni að ræða, sem ríkissjóður hefur fram að þessu fengið í tolltekjum. Það þarf sjálfsagt ekki að hugsa lengi um það, að það er ekki ætlunin að gefa eftir þær tekjur; sem ríkissjóður hefur þarna haft, heldur afla þeirra á, annan hátt, enda hefur það verið sagt alveg skýrum orðum allan tímann. Og ég sé nú satt að segja ekki nein ráð til þess, að þessi mismunur verði veginn upp að verulegu leyti með öðrum hætti en fara inn á söluskattsleiðina eða jafngildi hennar. Við getum náttúrlega sagt, að það ættu að vera miklu þyngri skattar á háum tekjum og miklum eignum, en það mættu nú vera meiri tekjurnar og meiri eignirnar, ef það ætti að koma réttlátlega niður, sem gætu staðið undir þeim upphæðum, sem hér er um að ræða, þegar að lokum kemur.

Nei, aðildin að EFTA er frumorsökin í þessu efni. Þar er teningnum kastað. Það var vitað, hvert stefndi og einmitt af þessum sökum greiddum við Alþb.–menn m.a. atkv. gegn EFTA–aðildinni. Það voru margar girnilegar till. hér til meðferðar í gær um lækkun á tollskránni, sem maður mjög gjarnan hefði viljað styðja. En ég greiddi ekki atkv. með einni einustu slíkra till., vegna þess að ég vissi það, að sú skylda lá á að koma með annað á móti, til þess að ekki hallaðist á. Og ég vil ekki skipta á því að lækka innflutningstollinn á ýmsum vörum, svona miðlungsþörfum og óþörfum og vita það að þeim fjármunum, sem ríkissjóður missir á þann hátt, á að ná inn aftur með því að skattleggja brýnustu nauðsynjar almennings. Það er um þetta, sem málið snýst. Það er þessi stefnubreyting, sem þetta mál fjallar um. Og það er þessi stefnubreyting, sem ég er algerlega andvígur.

Verkalýðshreyfingin í þessu landi hefur alla tíð verið andvíg söluskattsleiðinni og telur það ranglátustu innheimtuleið skattheimtunnar, sem nú er í landinu. Afleiðingar þessarar stefnubreytingar og hækkunar söluskattsins nú eru þær, að þeir, sem stærstar fjölskyldur hafa og lægstar tekjur, fá þessar byrðar á sig fyrst og fremst. Úr þessu væri hægt að draga, en það breytir því ekki, að stefnan er röng. Væri þó hægt að draga úr afleiðingunum með hliðarráðstöfunum. Þær fylgja engar þessu frv. eða þessum aðgerðum. Þess vegna er sjáanlegt, að þessar ráðstafanir hljóta að leiða til kauphækkana, beinna kauphækkana. Hæstv. fjmrh. taldi í ræðu sinni áðan, að þær mundu ekki valda teljandi hækkunum á framfærsluvísitölunni. Þó að þær gerðu það ekki, þá vitum við ósköp vel, að framfærsluvísitalan er núna ekki sá mælikvarði, sem getur sagt til um, hvaða afleiðingar þessar ráðstafanir hafa fyrir barnmargar fjölskyldur og láglaunafólk. Vísitalan er núna ekki sá mælikvarði. Ég ætla ekki að fara út í frekari útskýringar á því, en það er öruggt, að hún er það ekki.

Það er sem sagt að mínum dómi algerlega öruggt, að launafólk og alveg sérstaklega láglaunafólkið verður að afla sér mótvirðis þessarar skerðingar með kauphækkunum. Og þá held ég, að það væri nú hyggilegt fyrir ráðamenn þessarar þjóðar að íhuga ofurlítið, í hvaða atvinnugreinum þetta láglaunafólk er. Það er fyrst og fremst í fiskiðnaðinum og hvers konar öðrum iðnaði hér á landi, sem nú á að keppa við EFTA–löndin og EFTA–vörur. Ég held, – og það kom mjög greinilega fram hér í umr. um EFTA–aðildina, - að það sé áreiðanlega nokkur þrýstingur gegn því, að til kostnaður þessara atvinnugreina aukist verulega, enda beint sagt hér úr þessum ræðustóli af einum hv. alþm., sem jafnframt er iðnrekandi. Það er út af fyrir sig ósköp eðlilegt, að þessir menn hugsi á þennan veg. En hver verður aðstaða okkar þá, og hvað hugsa stjórnarvöld sér einmitt um aðstöðu þessara fyrirtækja, þegar beinlínis eru gerðar ráðstafanir af opinberri hálfu, sem hljóta að stuðla að því, að kaupgjald hækki umfram það, sem nú er algerlega nauðsynlegt að hækka það af öðrum ástæðum?

Söluskatturinn er að mínum dómi ranglát skattheimta. Þetta er sífellt að verða stærri og stærri hluti af skattheimtunni í landinu og ég hygg, að það sé ekki mjög fjarri því, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi áðan, að þegar tollalækkunin verður öll komin fram í dagsins ljós, þá muni söluskatturinn nálgast 20%. Aðrir skattar hafa svo sem ekki lækkað, þótt söluskatturinn hafi hækkað og þótt hann hækki nú. Það vita allir, að þróunin hefur orðið öfug. Aðrir skattar, tekjuskattar og tekjuútsvar, hafa hækkað hlutfallslega á síðustu árum, einmitt vegna þess, eins og hæstv. fjmrh. játaði hér öðru eða þriðja sinni í dag, að skattvísitalan hefur verið óbreytt og ekki verið færð til samræmis því, sem hefði átt að vera. Á sama tíma er svo líka vitað, að möguleikar fólks til þess að standa undir kaupum allra brýnustu nauðþurfta hafa af öðrum ástæðum einnig rýrnað mjög mikið, þ.e.a.s. vegna minnkandi atvinnu.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég hef lýst hér afstöðu okkar Alþb.-manna. Hér eru fluttar till. um að undan þiggja vissar vörur söluskatti. Vissulega yrðu þær til bóta, gætu orðið verulega til bóta, eins og till. um betra eftirlit með innheimtu söluskattsins. Þar má náttúrulega ekkert til spara og satt að segja skil ég ekki þá neikvæðu afstöðu, sem hæstv. fjmrh. lét í ljós áðan til þeirra mála. Ég held, að lánsverzlun kaupfélaga og annarra slíkra úti á landi geti ekki verið nein afsökun fyrir því að taka ekki upp kassaeftirlitið og svo held ég nú satt að segja, að kaupfélögin úti á landsbyggðinni séu ekki sá aðili, sem menn væna fyrst og fremst um skattsvikin. Þau hljóta fyrst og fremst að liggja annars staðar.

Það er að sjálfsögðu líka gott eitt að segja um auknar fjölskyldubætur. Auðvitað gætu þær verulega dregið úr áhrifum hækkunar söluskattsins, en ég vil nú þó hafa þann fyrirvara á, bæði um fjölskyldubætur, svo og auknar niðurgreiðslur og aðra slíka þætti þessara mála, sem menn hafa mjög rætt um, að ef tekna til þessara hluta er aflað með jafnvel enn hærri söluskatti, þá fer svona ávinningur að verða tvíræður.

En eins og ég segi, þær till., sem hér eru fluttar, mundu bæta nokkuð úr og að sjálfsögðu mun ég fylgja þeim, en það, sem er hér höfuðatriðið, er það, að ég er andvígur þeirri stefnu, sem mörkuð er með flutningi þessa frv. og er í beinum tengslum við tollskrána. Það er stefnan sjálf, sem er meginatriðið og henni er ég því algerlega andvígur.