18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Ég tel rétt, áður en að ég vík að þeirri dagskrártill., sem ég stend að með hv. 1. þm. Austf., að minnast nokkrum orðum á yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf við 1. umr. þessa máls og ég tel mjög mikilsverða og nauðsynlegt að bætt sé inn hér. Hún snertir afstöðu hæstv. ríkisstj. til Efnahagsbandalags Evrópu og felur í sér alveg gerbreytta stefnu ríkisstj. á þeim vettvangi frá því, þegar það mál var seinast rætt hér á Alþ., í nóv. 1962 Hæstv. forsrh. var í ræðu sinni við 1. umr. málsins að ræða m. a, um hugsanlega samninga við Efnahagsbandalag Evrópu og lagði áherzlu á, að einn árangurinn af aðild að EFTA yrði sá, að við gætum haft samfylgd með hinum EFTA-þjóðunum í samningum við Efnahagsbandalagið, þegar þar að kæmi.

Orðrétt fórust ráðh. orð á þessa leið: „... leiðin til þess, að þau skipti (þ.e. viðræður og samningar við Efnahagsbandalag Evrópu) verða auðveld eða okkur hagkvæmari, er einmitt sú, að við höfum samfylgd við aðra, ekki eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði hér á dögunum, að við ætluðum að láta aðra fara að semja fyrir okkur, slíkt hefur engum dottið í hug, en það er styrkur að samfylgd annarra og ekki sízt fyrir litla þjóð og lítið ríki eins og Ísland að vera í hópi annarra.“

Þessi ummæli eða yfirlýsing hæstv. forsrh. verður ekki skilin á annan veg en þann, að við ætlum, þegar við göngum í EFTA, að hafa samfylgd með öðrum EFTA-þjóðum, þegar samið verður við Efnahagsbandalag Evrópu. Þess vegna er ekki úr vegi að íhuga, hvernig þau mál standa nú. Staðan í þessum málum er nú þannig, að þrjú EFTA-lönd, Bretland, Noregur og Danmörk, hafa óskað eftir fullri aðild að Efnahagsbandalaginu. Það hefur nú loks verið ákveðið af hálfu þess að taka upp samninga við þessi lönd á næsta ári, eftir 1. júlí næsta ár í seinasta lagi. Jafnframt hefur verið ákveðið af Efnahagshandalaginu, eða svo virtist á Haag-fundinum, að á sama tíma yrðu teknar upp viðræður við þau EFTA-löndin, sem ekki hafa óskað eftir beinni aðild að Efnahagsbandalaginu. Það hefur lengi verið ósk þessara landa, Svíþjóðar, Sviss, Portúgals og Austurríkis, að þau yrðu ekki skilin eftir, þegar Bretar, Norðmenn og Danir færu að ræða við Efnahagsbandalagið, heldur yrði rætt samtímis við þau af hálfu Efnahagsbandalagsins um þau tengsl, sem þau vilja hafa við Efnahagsbandalagið í framtíðinni. Ef þetta fer eins og nú horfir, munu ekki seinna en 1. júlí á næsta ári hefjast viðræður allra þessara landa við Efnahagsbandalag Evrópu, bæði þeirra, sem óskað hafa eftir fullri aðild, og hinna, sem koma til með að óska eftir annars konar tengslum.

Þetta þýðir, að ef Ísland ætlar að vera í samfylgd með hinum EFTA-löndunum, eins og hæstv. forsrh. gaf hér yfirlýsingu um, verður Ísland að vera búið að taka ákvörðun um það fyrir 1. júlí á næsta ári, hvort óskað verður eftir viðræðum við Efnahagsbandalagið og jafnframt í hvaða formi þessar viðræður eiga að vera, hvort við eigum að óska eftir fullri aðild eða aukaaðild eða aðeins tolla- og viðskiptasamningi.

En það virðist, eins og málin standa nú, vera útilokað fyrir okkur að vera í samfylgd þessara þjóða, sem hæstv. forsrh. lagði áherzlu á og raunar aðrir ráðh. hafa gert, nema við verðum búin fyrir þennan tíma, mitt næsta ár, að ákveða afstöðu okkar til Efnahagsbandalagsins og fylgjast síðan að með hinum EFTA- þjóðunum í samningum við það. Ég skil svo þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem raunar hefur komið fram hjá fleiri fulltrúum stjórnarflokkanna líka, að þeir ætlist til þess eða geri ráð fyrir því, að Ísland verði búið fyrir 1. júlí á næsta ári að ákveða afstöðu sína í þessum efnum. Öðruvísi getum við ekki verið í þessari samfylgd, sem hæstv. forsrh. og aðrir fulltrúar stjórnarflokkanna tala um.

Þetta er e.t.v. að einhverju leyti skýringin á því, hve mikla áherzlu hæstv. ríkisstj. leggur á, að Ísland tengist EFTA strax, og vill ekki neina bið í þeim efnum. En mér finnst rétt að benda á í þessu sambandi, að hér er um algjöra stefnubreytingu hjá hæstv. ríkisstj. að ræða frá því að seinast var rætt um Efnahagsbandalagið á Alþ. haustið 1962. Þá stóðu málin á ýmsan hátt svipað og nú. Þá voru Bretland, Noregur og Danmörk búin að óska eftir fullri aðild að Efnahagsbandalaginu. Svíþjóð, Sviss og Austurríki og jafnvel fleiri lönd voru búin að óska eftir aukaaðild og fleiri ríki voru búin að óska eftir ákveðnum tengslum við það, þó í öðru formi væri. Ríkisstj. Íslands, sem var raunar sú sama og er nú, var búin að hafa þessi mál til nokkurrar athugunar, eða mikillar athugunar réttara sagt, tvö undanfarin ár. Fyrst hafði það verið afstaða hennar að hyggja á það að leita eftir fullri aðild að Efnahagsbandalaginu. Við nánari athugun taldi hún það ekki hægt, og þá var tekin upp athugun á því, hvort Ísland ætti að óska eftir aukaaðild að Efnahagsbandalaginu, og var gerð um það flokkssamþykkt hjá Alþfl. að fara fram á slíkt. En við nánari athugun taldi ríkisstj. þetta ekki mögulegt og niðurstaða hennar var sú, að Ísland yrði að bíða átekta og óska ekki eftir samningum við Efnahagsbandalagið, fyrr en afstaðnir væru samningar þess eða viðræður þess við önnur lönd, sem hefðu óskað annaðhvort eftir fullri aðild eða aukaaðild. Í skýrslu, sem hæstv. viðskmrh. flutti um þetta mál hér á Alþ. 12. nóv. 1962, fórust honum orð á þessa leið í lok grg., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að enn þá sé ekki kominn tími til ákvarðana í máli þessu. Áður en þær eru teknar, er nauðsynlegt, að fengin sé niðurstaða í þeim samningum, sem nú fara fram í Brüssel milli Efnahagsbandalagsins og Breta, og helzt einnig niðurstaða í þeim viðræðum, sem eiga eftir að fara fram á milli Efnahagsbandalagsins og annarra ríkja, sem sótt hafa um aðild eða aukaaðild að bandalaginu.“ — Og í niðurlagsorðum ráðh. er þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar niðurstöður hafa fengizt í þeim samningaviðræðum, sem ég gat um áðan, hefur væntanlega fengizt grundvöllur til þess að ganga endanlega úr skugga um, hvaða kostir geti staðið Íslendingum til boða. Þá fyrst er fyrir hendi nægileg vitneskja, til þess að unnt sé að mynda sér endanlega rökstudda skoðun á því, hvers konar tengsl við Efnahagsbandalagið tryggi bezt hagsmuni Íslendinga.“

Hér er það ákvörðun og yfirlýsing hæstv. ríkisstj. að bíða eftir samningum Breta, Dana og Norðmanna við Efnahagsbandalagið; sem höfðu óskað eftir fullri aðild, og einnig að bíða eftir niðurstöðum í viðræðum þeirra þjóða við bandalagið, sem höfðu óskað eftir aukaaðild, og taka ekki ákveðna afstöðu, fyrr en niðurstöður í öllum þessum samningum lægju fyrir. Hér var sem sagt ekki verið að tala um samfylgd með þessum þjóðum, heldur að bíða eftir því, hverjar niðurstöðurnar yrðu í samningaviðræðunum.

Þetta byggðist á ákaflega skynsamlegri og eðlilegri afstöðu. Eins og málin stóðu þá, og eins og þau standa raunar enn, veit enginn fullkomlega t.d., hvað í aukaaðild felst, þó það megi geta sér þess til að takmörkuðu leyti. Það veit heldur enginn fullkomlega um það, hvað mundi fást samkvæmt tolla- og viðskiptaaðild. Þetta ætti hins vegar að liggja skýrar fyrir, eftir að þessir samningar eru um garð gengnir, sem hér er um rætt. Þessu til viðbótar kemur svo, og skiptir langsamlega mestu máli, að Ísland hefur sökum smæðar sinnar allt aðra afstöðu á fjölmörgum sviðum en þessar þjóðir. Þess vegna þurfum við að fara fram á alls konar undanþágur umfram þær. Og ef við eigum að semja í samfylgd með þessum þjóðum, verður miklu örðugra fyrir Efnahagsbandalagið að velta okkur þessar undanþágur en ef við semdum sér, eftir að hinar væru búnar að ganga frá samningum. Ef við Íslendingar værum að semja jafnhliða hinum þjóðunum, mundi það koma upp, þegar farið væri að óska eftir undanþágum um eitt og annað, að erfitt yrði fyrir Efnahagsbandalagið að fallast á þær, jafnvel þótt það vildi, vegna þess að ef það veitti Íslandi þessar undanþágur, meðan á samningunum stæði, gæti verið búið að skapa með því fordæmi, sem aðrar þjóðir bentu á og óskuðu eftir að fá eins og Íslendingar. Þess vegna var það eðlileg afstaða hjá hæstv. ríkisstj., þegar þessi mál voru seinast rædd hér á Alþ. 1962, að hafa þá afstöðu, að við ættum að bíða eftir niðurstöðum samninga hinna þjóðanna, áður en við gerðum það upp við okkur, í hvaða formi við ættum að óska tengsla við Efnahagsbandalagið, og vera sér á báti, þegar við semdum um þessi mál.

Nú er alveg horfið frá þessari stefnu, ef marka má þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér við 1. umr. þessa máls og hefur líka komið fram hjá öðrum talsmönnum stjórnarflokkanna, þegar þetta mál hefur verið rætt, þ.e. að leggja áherzlu á, að við hefðum samfylgd með öðrum þjóðum, þegar við semdum við Efnahagsbandalagið, en biðum ekki eftir niðurstöðum í viðræðum þeirra við það og yrðum einir á báti. Á þessu ráðalagi er gífurlega mikill munur, og ég tel, að ríkisstj. fari inn á algjörlega ranga braut með því að breyta hér um stefnu frá 1962. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. ríkisstj. endurskoði þessa nýju stefnu sína um samfylgd með EFTA-þjóðunum í samningum við Efnahagsbandalagið, í stað þess að bíða eftir niðurstöðum í samningum þeirra og semja einir, þegar þar að kemur.

Ég álít, að þessi nýja stefna ríkisstj. sé óhyggileg og það sé í alla staði miklu heppilegra og líka eðlilegra fyrir okkur að hafa þá aðferð á þessum málum, sem um var talað haustið 1962 og allir þingflokkar lýstu sig þá samþykka. Það var tekið mjög skýrt fram af hálfu stjórnarandstöðunnar í umr. þá, að þm. hennar væru fylgjandi þessari vinnuaðferð ríkisstj.

Til þess að fá það enn þá skýrara, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. vakir í þessum efnum, hvort henni er það fullkomlega alvara, að við eigum að hafa samfylgd með öðrum EFTA-þjóðum í þessum málum, vil ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Ef Ísland gengur í EFTA, eins og nú virðist vera ákveðið, og Bretar, Norðmenn og Danir hefja samninga við Efnahagsbandalagið um fulla aðild síðar á þessu ári og hinar EFTA þjóðirnar, eins og Svíar, Svisslendingar og Austurríkismenn, hefja samninga um líkt leyti við Efnahagsbandalagið um aukaaðild eða eitthvað annað, er það þá ætlun hæstv. ríkisstj., að Ísland óski samtímis eftir viðræðum við Efnahagsbandalagið og reyni að vera hinum þjóðunum samferða í þeim viðræðum? Hefur ríkisstj. gert sér grein fyrir því, hvaða form hún vill hafa á þeim viðræðum við Efnahagsbandalagið? Ætlar hún að óska eftir aukaaðildarforminu eða ætlar hún að óska eftir, að við förum heldur viðskipta- og tollasamningaleiðina? Ég æski þess, að ríkisstj. upplýsi þetta alveg greinilega nú við þessa umr., hvað fyrir henni vakir í þessum efnum. — En af þeim ummælum af hennar hálfu, sem hingað til hafa verið flutt, sérstaklega af hæstv. forsrh., verður ekki annað skilið en það sé ætlun stjórnarinnar að taka upp viðræður við Efnahagshandalagið strax á næsta ári.

Ég vil, áður en ég vík að því að ræða um dagskrártill., minna á nokkur atriði í sambandi við meðferð þessa máls. Ég tel, að hún sé varhugaverð með tilliti til hugsanlegra samninga okkar við Efnahagsbandalagið, sem virðast vera á næsta leiti, ef hæstv. ríkisstj. ætlar að fylgja fram þeirri samfylgdarstefnu, sem hún hefur boðað og ég hef nú gert að umtalsefni. Ég vil þá í fyrsta lagi segja, að ég álít þá meðferð, sem 16. gr. hefur sætt í umræðunum við EFTA, vera ákaflega ófullkomna og varhugaverða hjá hæstv. ríkisstj. Það má skipta 16. gr. í tvennt: í fyrsta lagi er hún mjög víðtæk stefnuyfirlýsing um gagnkvæm atvinnurekstrarréttindi; í öðru lagi fjallar hún um vissar undanþágur, sem veittar skulu frá þessari almennu reglu og segja má að dragi nokkuð úr þeirri stefnuyfirlýsingu, sem felst í 1. málgr. gr.

Mér finnst, að til þess að ríkisstj. hefði haldið þarna nægilega fast á íslenzkum málstað og gætt sérstöðu okkar í þessu sambandi, hefði þurft að vera mjög skýr fyrirvari við undirritun samningsins gagnvart þeirri stefnuyfirlýsingu, sem felst í 16. gr. í öðru lagi hefði svo þurft að fást nákvæm túlkun á þeim undanþáguatriðum. sem í gr. felast. Hvorugu þessara atriða ætlar hæstv. ríkisstj. að fullnægja. Skýringar þær, sem hún leggur fram við undanþágurnar, eru ákaflega óljósar, og það er þess vegna erfitt að gera sér grein fyrir því, hve víðtæk atvinnurekstrarréttindi við veitum útlendingum með því að fallast á 16. gr. með þessum hætti. Við höfum engan fyrirvara gagnvart þeirri meginstefnuyfirlýsingu, sem í gr. felst. Þau frv., sem ríkisstj. hefur lagt fram í þessu sambandi um breytingu á lögum um iðjuleyfi og verzlunarleyfi, skipta ekki neinu verulegu máli í þessu sambandi. Þó að þau verði lögfest, hafa íbúar hinna EFTA-landanna nákvæmlega sama rétt samkvæmt 16. gr. eftir sem áður og verða að njóta þeirra, ef við ætlum að standa við þennan samning. Það er ekki með þessum leyfisveitingum hægt að útiloka þá frá því að notfæra sér eðlilegan rétt í þessum efnum, ef hann er einhver.

Ég tel þess vegna, að ákaflega losaralega sé á þessum málum haldið og því frekar sem hvorki lög um iðjuleyfi né verzlunarleyfi ná til þess atvinnuvegar, sem útlendingar munu áreiðanlega sækjast mest eftir að ná tökum á hér á landi, fiskiðnaðarins, sérstaklega hraðfrystihúsaiðnaðarins. Eftir sem áður á það

meira að segja ekki að vera háð leyfisveitingum, hverjir megi annast frystihúsarekstur hér á landi. Og í 16. gr. segir ekkert um það, hvort útlendingar öðlast rétt til rekstrar hraðfrystihúsa hér á landi eða ekki. Af hálfu hæstv. ríkisstj. hefur þetta ekki enn þá verið nægilega og fullkomlega skýrt. Ég skal að vísu taka það fram, að hæstv. viðskmrh. gaf okkur nokkrar upplýsingar um þessi mál í utanrmn., sem hann taldi sér ekki fært að birta hér. Um það vil ég aðeins segja, eins og ég sagði þar, að ég tel þessar skýringar hvergi nærri fullnægjandi í þeim efnum og afsaka ekki, að ríkisstj. skyldi ekki ganga eftir því að fá þessar undanþágur betur skilgreindar, og sérstaklega, að hún skyldi ekki hafa almennan fyrirvara við undirritun samninganna um þá víðtæku stefnuyfirlýsingu, sem raunverulega felst í 16. gr. og snertir framtíðina. Þetta tel ég alveg sérstaklega varhugavert og hættulegt, — ég vil segja hættulegt, vegna þeirra samninga, sem virðast vera fram undan af okkar hálfu við Efnahagsbandalag Evrópu, þar sem þessi mál mun áreiðanlega miklu meir og frekar bera á góma en í sambandi við viðræðurnar við EFTA.

Hitt atriðið, sem ég tel svo að sé mjög óhagstætt í samningum okkar við EFTA, er aðlögunartíminn. Hann á ekki að vera nema 10 ár. Það er að mínum dómi allt of stuttur tími, og liggja margvíslegar ástæður til þess, m.a. það, hve illa hefur verið að iðnaðinum búið á undanförnum árum, hversu öll iðnþróun og iðnmenntun er að mörgu leyti skammt á veg komin hér, miðað við það, sem á sér stað í þeim löndum, sem við eigum að fara að keppa við. Ég skil satt að segja ekki og hef aldrei skilið, af hverju ríkisstj. fór ekki fram á lengri aðlögunartíma en 10 ár. Ég hef fulla trú á því, að ef við hefðum farið fram á lengri aðlögunartíma við EFTA, hefði það auðveldlega fengizt fram. EFTA veitti t.d. Portúgal 20 ára aðlögunartíma. Efnahagsbandalagið veitti Grikklandi og Tyrklandi 28 ára aðlögunartíma á sínum tíma. Og ég er alveg víss um, að ef við hefðum aðeins farið fram á lengri aðlögunartíma við EFTA, hefði reynzt auðvelt að fá það fram. Hér er okkar eigin handvömm um að kenna, en ekki annarra, að svona hefur tekizt til. Ég er hræddur við þetta ákvæði og tel að það hafi slæm áhrif, þegar farið verður að semja við Efnahagsbandalagið. Ef við gerum einhverja sérstaka samninga við það um tollamál, kann að verða vitnað til þess, að í EFTA-samningnum hafi Íslendingar talið alveg nægilegt fyrir sig að fá 10 ára aðlögunartíma. Mér finnst þetta hvort tveggja benda til þess, að ekki sé góðs að vænta, þegar hæstv. ríkisstj. fer að semja við Efnahagsbandalagið, ef það verður í hennar verkahring, sem sennilegt er að einhverju leyti, ef af því verður, sem hún virðist stefna að, að slíkir samningar verði hafnir strax á næsta ári.

Þetta, sem ég hef nú sagt, fannst mér rétt að kæmi fram í sambandi við Efnahagsbandalagið, áður en ég vík sérstaklega að þeirri dagskrártill., sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Austf. Ég tel mig líka knúðan til þess, áður en ég kem að því máli, að víkja að einu atriði, sem kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskmrh. við 1. umr. þessa máls og ég verð að segja, að ég varð meira en lítið undrandi yfir. Ég hafði aldrei látið mér detta í hug, að slíkt kæmi frá manni, sem hefði verið um nokkurt skeið prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands og jafnframt viðskmrh. landsins um árabil. Mér fannst annað tveggja koma fram í þeim ummælum, furðuleg vanþekking eða vilji til að blekkja þá, sem á hann hlýddu. Það, sem ég á við, er það, að hæstv. ráðh. var að lýsa fyrir þingheimi þeim möguleikum, sem Íslendingar hefðu til þess að auka útflutning sinn. Niðurstaða hans var í stuttu máli sú, að það væri hvergi að ráði neina slíka möguleika að finna nema með því að ganga í EFTA. Ég skal lesa yfir lokaniðurstöður hans í þessum ræðukafla, sem hann flutti um þetta. Honum fórust orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Eina von nýrra útflutningsfyrirtækja um gott gengi er fólgin í því að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði.“ Þetta sagði hæstv. ráðh. alveg orðrétt, og hann getur litið hér í ræðuhandritið frammi og séð, að þessi ummæli eru rétt eftir honum höfð. Mér finnst felast í þessum ummælum mikil vanþekking ellegar vilji til blekkingar. Hefði t.d. viðskmrh. í Bretlandi látið slíkt frá sér fara, mundi hann hafa orðið að segja af sér eða forsrh. látið hann víkja. En það gilda aðrar reglur í þessum efnum hér en í Bretlandi.

Ég skal aðeins víkja nánar að því, hve þessi ummæli hæstv. ráðh. eru byggð á mikilli vanþekkingu eða viðleitni til blekkingar. Ég ætla fyrst að lesa upp nokkur ummæli, sem er að finna í grg. Guðmundar Magnússonar og hæstv. ráðh. ætti að hafa lesið. Hér stendur t.d. á bls. 74, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hlýtur einnig að vera hagkvæmt, eftir sem áður, að selja ýmsar vörur til Bandaríkjanna og Rússlands, þótt Ísland gangi í EFTA. Þetta er einfaldlega vegna þess, að t.d. í Bandaríkjunum er það stór og sterkur markaður, að framleiðsla okkar á ýmsum varningi verður aldrei í stærri stíl en svo, að ekki þarf að ná nema til lítils geira af markaðnum til þess að selja hana alla — og það á góðu verði. Og það væri hrapallegt að vanrækja þá möguleika, sem þar eru fyrir hendi, með inngöngu í EFTA.“

Á öðrum stað í áliti sínu víkur Guðmundur Magnússon nánar að vissum iðngreinum, sem eiga að geta haft góða möguleika á markaði í Bandaríkjunum. Á bls. 64 ræðir hann um húsgagnagerð og telur nokkra útflutningsmöguleika vera fyrir hendi í EFTA-löndunum. En síðan segir hann, að útflutningsmöguleikar virðist einna mestir í Bandaríkjunum og Englandi. Hann telur Bandaríkin þarna á undan. Þetta kemur þó enn þá greinilegar fram nokkru neðar á bls., þar sem rætt er um skinna- og leðuriðnað. Þar farast honum orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Skinna- og leðuriðnaður er útflutningsatvinnuvegur. Enda þótt Ameríkumarkaður sé langarðvænlegastur um þessar mundir, setti hagræði á tollfrjálsum markaði EFTA-landanna að geta arðið greininni til mikils hagræðis seinna meir. Sama gildir um fyrirhugað minkaeldi.“

Guðmundur Magnússon minnist á fleiri iðngreinar, sem hann telur að geti átt, ef rétt er á haldið, mesta möguleika á Bandaríkjamarkaði. En þegar hæstv. viðskmrh. er að ræða hér við þingheim um þetta mál, sleppir hann alveg að minnast á þetta. Rétt um það leyti, eða ég held sama daginn og hæstv. ráðh. flutti þessa ræðu sína hér á Alþ., — ég sé að hæstv. ráðh. hefur aðeins brugðið sér frá, svo að ég staldra við á meðan, svo að hann geti heyrt það, sem ég segi, — ég hygg, að hann hafi skroppið fram til að líta í ræðuna, sem hann flutti við fyrri umr., til að sjá, hvort ég hafi haft rétt eftir honum, og er ekki nema rétt og sjálfsagt að bíða eftir honum.

Já, ég held, að hæstv. ráðh. hafi heyrt það, sem ég las upp úr skýrslu Guðmundar Magnússonar um sölumöguleika okkar í Bandaríkjunum fyrir ákveðnar iðnaðarvörur. Ég ætlaði að halda áfram og segja frá því, að ég held sama daginn eða daginn eftir að hæstv. ráðh. flutti þessa ræðu sína hér í þinginu, þar sem hann sagði, að eina von okkar til þess að koma upp nýjum útflutningsfyrirtækjum væri að eiga aðgang að tollfrjálsum markaði, var haldinn blaðamannafundur í utanrrn. Þar var verið að skýra frá því, að að tilhlutan Hannesar Kjartanssonar hefði verið leitað til Sameinuðu þjóðanna og sérfræðingar frá þeim eða sérfræðistofnunum þeirra beðnir að athuga möguleika Íslendinga til að framleiða niðursuðuvörur og þá sérstaklega markaðsmöguleika fyrir slíkar vörur erlendis. Þessir sérfræðingar hefðu látið fara fram mjög nákvæma athugun á þessu máli í mörgum löndum, og niðurstaða þeirra var í stuttu máli sú, að fimm næstu árin ættu Íslendingar að geta flutt út niðursuðuvörur fyrir næstum einn milljarð ísl. kr. á ári með mjög góðum hagnaði. Þeir sögðu enn fremur, að þann markað, sem um væri að ræða í þessum efnum, væri fyrst og fremst að finna í Bandaríkjunum, svo í Frakklandi, Þýzkalandi og Bretlandi, — eða svo að segja jafnframt utan EFTA-landanna. Ef þessi niðurstaða er rétt, sem ég efast ekki um, sést bezt á þessu, hve fjarstæð er sú fullyrðing hæstv. ráðh, við 1. umr. þessa máls, að eina von okkar í sambandi við útflutningsiðnað sé að fá aðgang að tollfrjálsum markaði. Samkvæmt þessari skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna eigum við hér, ef við höldum rétt á málum, aðgang að markaði, sem ekki er tollfrjáls, fyrir vörumagn, sem á að gefa okkur á ári hvorki meira né minna en 1 milljarð kr. Um þetta virðist hæstv. viðskmrh. ekkert vita. Eða gerir hann það af ásettu ráði að villa svo um fyrir mönnum að láta svo sem þessi vitneskja sé ekki fyrir hendi?

Ef við förum svo til annarra landa og athugum, hver reynsla þeirra er í þessum efnum, gæti hæstv. viðskmrh. t.d. lesið það í dönskum verzlunarskýrslum, að fyrstu níu mánuði þessa árs hefur útflutningur Dana aukizt meira, bæði til Bandaríkjanna og Efnahagsbandalagslandanna, heldur en innan EFTA-svæðisins. Danir virðast sem sagt eiga eins gott með að ryðja sér braut á öðrum mörkuðum og þeim, sem eru alveg tollfrjálsir. Reynsla Norðmanna er á sömu leið. Fyrstu 9 mánuði þessa árs hafa þeir aukið útflutning sinn til EFTA-svæðisins um 16%, en til Efnahagsbandalagslandanna um 24%. Norðmenn virðast t.d. hæglega geta notað sér markaði, þótt þeir séu ekki algerlega tollfrjálsir.

Reynsla Breta í þessum efnum er sú, að þeir hafa á þessu ári aukið útflutning sinn til Efnahagshandalagslandanna um 20%, og þeir, sem í Bretlandi eru andstæðir aðild að Efnahagsbandalaginu, nota þessar tölur sem sönnun þess, að það sé engin ástæða til þess að Bretland gangi í Efnahagsbandalagið, þeir þurfi ekki á neinu tollfrelsi að halda til þess að ryðja útflutningsvörum sínum braut. Og þannig mætti nefna fjölda dæma.

Ég tel, að ef sæmilega væri haldið á málum hér og unnið að skipulagðri iðnþróun, ættum við að geta keppt á þessum mörkuðum með útflutningsvörur okkar, sérstaklega fullunnar sjávarvörur, á Bandaríkjamarkaði og Efnahagsbandalagsmarkaðnum, þó að við nytum þar ekki tollfrelsis, alveg eins og Danir og Norðmenn. Þess vegna er það alveg furðulegt af hæstv. viðskmrh., að hann skuli gera sig sekan um þá blekkingu, að útilokað sé fyrir okkur að ryðja útflutningi okkar braut nema það sé með aðgang að tollfrjálsum markaði. Reynslan hjá okkur og öðrum sýnir hið gagnstæða.

Þá var ekki síður fróðlegt að heyra til hæstv. ráðh., þegar hann var að gera grein fyrir því, að við gætum ekki unnið okkur aukinn markað í Sovétríkjunum. Þar var ekki hægt að bera tollunum við. Þar kom hæstv. viðskmrh, með aðra afsökun. Honum fórust orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Það er ekki hægt að grundvalla verulegan nýjan útflutningsiðnað í Sovétríkjunum, þó ekki væri nema vegna fjarlægðar.“ Þá á sem sagt að vera svona ógurlega langt til Sovétríkjanna, að útilokað sé fyrir okkur að eiga nokkur viðskipti við þau eða selja þeim útflutningsvörur! Nú ætti hæstv. viðskmrh. sem viðskmrh. og gamall prófessor í viðskiptafræðum að vera svo fróður, að þrátt fyrir þessa miklu fjarlægð höfum við selt Rússum mikið af útflutningsvörum um langt skeið og meira að segja iðnaðarvörur. Ég skal nefna dæmi um það, að á þessu ári höfum við flutt út prjónavörur alls fyrir 66 millj. kr. Þar af höfum við flutt til Sovétríkjanna fyrir 54.6 millj. kr., eða næstum allt þetta magn. Við höfum flutt út ullarteppi á þessu ári fyrir 14.3 millj. kr., þar af höfum við flutt út til Sovétríkjanna fyrir 13.2 millj. kr., og þannig mætti lengi halda áfram. Ég skil ekki þessa fullyrðingu hæstv. ráðh., að við getum ekki selt vörur til Sovétríkjanna vegna fjarlægðar, þegar slíkar staðreyndir liggja fyrir eins og þessar.

En svona langt gengur hæstv. ráðh. í því að gera lítið úr öllum okkar markaðsmöguleikum utan EFTA-svæðisins. Hann kemur með hinar furðulegustu fullyrðingar til að réttlæta það, að hvergi sé markaðsmöguleika að finna nema í EFTA-löndum.

Ég get vel skilið, að hæstv. viðskmrh. sé mikill áhugamaður um, að við göngum í EFTA. Hann getur haft sínar ástæður fyrir því, sín rök fyrir því. En mér finnst óeðlilegt og meira en furðulegt, þegar maður, sem hefur verið viðskmrh. í 10 ár og prófessor í viðskiptafræðum enn lengur, skuli ganga svo langt í málflutningi sínum í þessum efnum, að afneita gersamlega öllum staðreyndum og sjá hvergi neina möguleika nema á þessu eina svæði. Ég fullyrði alveg hiklaust, að hefði viðskmrh. t.d. í Bretlandi, orðið uppvís að því að halda fram öðrum eins firrum og þessum í brezka þinginu, hefði forsrh. orðið að láta hann hætta. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja þetta, vegna þess að að ýmsu leyti er mér alls ekki illa við hæstv. viðskmrh. (Menntmrh.: Þakka þér fyrir það.) En mér leiðist það, þegar hann gerir sig uppvísan að slíkum öfgum, eins og þessum. (Gripið fram í.)

Mér fannst alveg kasta tólfunum í sjónvarpsumræðunum, þegar hæstv. ráðh. taldi sig þurfa sérstaklega að flytja ungu fólki þennan boðskap. Ungum, atorkusömum og menntuðum mönnum, sem vilja snúa sér að viðskiptum, var fluttur sá boðskapur, að við hefðum enga von til að selja útflutningsvörur eða byggja upp ný útflutningsfyrirtæki nema með því að selja þessar vörur til EFTA-landa, þegar möguleikar blasa við annars staðar, eins og ég hef bent á. — og er ekki byggt á því, sem ég sjálfur fullyrði, heldur margir kunnugustu menn, eins og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna. Ég held, að við þurfum ekki síður að beina athygli ungra manna að þeim möguleikum, sem við kunnum að eiga annars staðar en í EFTA-löndunum, t.d. í Bandaríkjunum, í Efnahagsbandalagsríkjunum og Sovétríkjunum. En hæstv. viðskmrh. vill ekki láta þá sjá neitt nema EFTA-löndin. Þetta tel ég mjög háskasamlegan boðskap af hálfu þess manns sem á að sjá um viðskiptamálin.

Ég skal svo að þessu loknu víkja nokkrum orðum að þeirri dagskrártill. okkar 1. þm. Austf., sem hér liggur fyrir á þskj. 209. Eins og þar kemur fram, var það nokkuð ljóst strax eftir að efnahagsbandalögin í Evrópu komu til sögunnar, að við yrðum fyrr en seinna að hverfa í vaxandi mæli til fríverzlunar. Það var ekki vegna efnahagsbandalaganna í Evrópu, heldur vegna þess að það var stefna, sem átti vaxandi fylgi að fagna í heiminum, og á það raunar enn, að tekin séu upp frjálsari viðskipti á milli þjóðanna, m.a. á vegum GATT og fleiri alþjóðlegra samtaka. Þess vegna hlutum við Íslendingar að þurfa að búa okkur undir að verða færir um að taka upp fríverzlun í vaxandi mæli. En það lá alltaf í augum uppi, að ef við ættum að vera færir um þetta, þyrftum við að taka hér upp markvissa iðnaðarstefnu og búa á allt annan hátt að iðnaðinum en gert var. Það hlaut að sjálfsögðu að leiða af aukinni fríverzlunarstefnu, að iðnaðurinn yrði fyrir einhverjum skakkaföllum, nema hann væri undir það búinn að mæta þeim. Þess vegna var það till. okkar framsóknarmanna strax í byrjun þessa áratugs, sem nú er að líða, á þinginu 1960, að hér yrði mörkuð mjög ákveðin iðnþróunarstefna, menn reyndu að gera sér grein fyrir því, hvaða iðnaðargreinar það væru, sem ættu hér mesta möguleika og við ættum fyrst og fremst að snúa okkur að og efla, og svo jafnframt, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera, til þess að þær gætu þróazt með eðlilegum hætti. Hæstv. ríkisstj., eða stjórnarflokkarnir, tóku þessari till. á þá leið, að henni var vísað til ríkisstj., og þar var ekkert gert í málinu. Á öllum þeim þingum, sem síðan hafa verið haldin, hafa verið fluttar meiri og minni tillögur um ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu iðnaðarins og gera hann færari um að heyja þá samkeppni, sem hér gæti verið í vændum.

Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar brugðizt þannig við, að hún hefur nálega ekkert gert í þessum efnum. Niðurstaðan er líka sú, að á þessum áratug, sem er nú að líða, sjöunda áratug þessarar aldar, hafa orðið tiltölulega miklu minni framfarir í iðnaði, heldur en í nokkru landi öðru, vil ég segja. Þessi áratugur hefur verið langsamlega mesti framfaratíminn í iðnaðarsögunni frá fyrstu tíð, — nema á Íslandi. Hér hafa sáralitlar framfarir átt sér stað á iðnaðarsviðinu, a.m.k. miðað við það, sem annars staðar hefur orðið. Það má því með fullum rétti segja, að þessi áratugur hafi raunverulega tapazt íslenzkum iðnaði vegna þess, hvernig stjórnarvöldin hafa haldið á þessu máli. Þótt nú sé að því komið, að við göngum í EFTA og íslenzkur iðnaður þurfi að mæta miklu harðari samkeppni á heimamarkaði en áður, bólar ekki á neinni stefnubreytingu hjá hæstv. ríkisstj. Það er sama stefnuleysið, aðgerðaleysið í þeim málum áfram og verið hefur til þessa dags.

Lækkun sú, sem ríkisstj. ráðgerir að verði á tollum á hráefnum og vélum til iðnaðar, er allt of lítil, ef afleiðing af lækkun verndartollanna á ekki að verða sú, að verð hækki tiltölulega meira á innlendum iðnaðarvörum en aðfluttum vörum, sem keppa við þær. Þessa tolla hefði helzt þurft að fella alveg niður, ef tryggja hefði átt hlut iðnaðarins nægilega á þessu sviði. Það bólar enn ekkert á því, að það eigi að bæta aðstöðu iðnaðarins í sambandi við rekstrarlán. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að framleiðendur í EFTA-löndunum, sem flytja iðnaðarvörur sínar hingað, geta veitt mjög verulegan greiðslufrest, og ef íslenzk iðnaðarfyrirtæki eiga að geta keppt við þau, þurfa þau að geta veitt hliðstæðan greiðslufrest. Ekki hefur verið séð fyrir því, að íslenzk iðnaðarfyrirtæki fengju þessa aðstöðu. Þau hafa enn þá allt of lítil rekstrarlán til þess að geta keppt við erlend fyrirtæki á þessu sviði. Það hefur enn ekki verið gert neitt til þess að tryggja iðnaðinum aukin stofnfjárlán umfram þá gjöf, sem við eigum að fá frá Norðurlöndum. Hún mun hrökkva skammt í þeim efnum, því að til þess að geta mætt hinni auknu samkeppni, þarf iðnaðurinn að búa sig betri vélakosti, koma ýmissi hagræðingu á í rekstri sínum, sem kostar verulegt fjármagn. Þótt þetta sé allnokkur peningur, sem Norðurlandaþjóðirnar gefa okkur að verulegu leyti, hrekkur það allt of skammt til að fullnægja þessari þörf iðnaðarins.

Þá bólar ekki heldur á neinum aðgerðum í skattamálum til þess að bæta aðstöðu iðnaðarins á þann hátt. Það bólar ekki neitt á því, að gera eigi ráðstafanir til að bæta menntun og þjálfun iðnaðarfólks, sem er aukin nauðsyn, eftir að iðnaðurinn mætir þessari samkeppni. Það var meira að segja gengið svo langt hér á Alþ. í gær, að felld var hér till. frá okkur framsóknarmönnum upp á 1/2 millj. um að efna til námskeiða fyrir iðnaðarfólk, sem væri spor í þessa átt. Það var líka felld till. frá okkur um nokkra hækkun á tillagi til Iðnskólans til þess að tryggja, að hann gæti bætt við á þessu ári tveim nýjum verknámsdeildum, sem er mjög mikilvægt fyrir hann. Þannig ríkir enn þá fullkomið skilningsleysi á menntunarmálum iðnaðarfólks, að það öðlist næga verkkunnáttu, sem okkur er mikil nauðsyn á, eftir að við þurfum að mæta aukinni samkeppni. Meðan þannig er að iðnaðinum búið, eins og hefur verið á undanförnum árum og á að haldast áfram, er Ísland alls ekki undir það búið að taka þátt í þeirri samkeppni, sem af fríverzlun leiðir. Það þarf svo að gerast jafnframt, ef við eigum að verða aðilar að EFTA, að við höldum áfram markvissri stefnu til þess að efla viðskipti okkar við önnur lönd eða efla útflutning okkar til annarra landa. Eins og komið hefur fram í því, sem hæstv. viðskmrh. hefur sagt og ég hef vitnað til, virðist hæstv. ríkisstj. ekki sjá neina möguleika í þeim efnum aðra en beina okkur alveg að EFTA-löndunum og haga niðurfellingu verndartollanna þannig, að þeir nái aðeins til vara, sem fluttar eru frá EFTA-löndunum, en ekki öðrum löndum. Þá vinnur ríkisstj. beinlínis að því að einskorða viðskipti okkar við þessi fáu lönd, en það getur á ýmsan hátt stuðlað að því, að óhægara verði fyrir okkur að vinna markaði annars staðar.

Ef EFTA-aðild á ekki að leiða til óhags í þessum efnum, þurfum við að fylgjast að og jafnhliða því, sem við reyndum að notfæra okkur EFTA-markaðinn, kappkostuðum við ekki síður, jafnvel enn frekar, að nota okkur markaðsmöguleika annars staðar. En því er síður en svo að heilsa, að slíku sé til að dreifa hjá hæstv. ríkisstj. Það sést bezt í sambandi við þau skattamál, sem ríkisstj. hefur lagt hér fram, að þar vantar fullkomlega þann undirbúning, sem óhjákvæmilegur hefði verið til þess að mæta aðild okkar að EFTA.

Eins og rakið er í grg. tollskrárfrv., hefur tekjuöflun ríkisins fram að þessu byggzt mjög verulega á aðflutningsgjöldum. Þessum aðflutningsgjöldum hefur verið háttað þannig, að þau hafa verið mjög mismunandi eftir því, hvort um nauðsynlegar eða ónauðsynlegar vörur var að ræða. Þegar þessi aðflutningsgjöld eru færð niður og afla þarf nýrra tekna í staðinn, þarf að leitast við, að þau gjöld eða þær álögur komi niður með nokkuð líkum hætti hvað þetta snertir, þannig að þau væru mismunandi eftir því, hverjar vörurnar eru. Um þetta hefur ekkert verið hugsað. Í staðinn fyrir það er lagður á einn allsherjar söluskattur, sem á að leggjast jafnt á nauðsynlegar vörur og óþarfar, enginn mismunur gerður í þessum efnum. Ef rétt hefði verið að farið, átti að fara fram gagnger endurskoðun á öllum ríkisbúskapnum í sambandi við EFTA-aðild, og þá sérstaklega á tekjuöflun hans með það fyrir augum, að ekki skapaðist óréttlæti miðað við það, sem áður hefur verið, eins og raunin verður nú, ef fylgt verður þeirri stefnu, sem lesa má af þeim tollskrár- og söluskattsfrv., sem ríkisstj. hefur lagt fram á Alþ. Að okkar dómi hefðu þessi mál m.a. þurft sérstaka athugun og aðra meðferð en þá, sem nú liggur fyrir í áður nefndu frv.

Það er af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, hve iðnaðurinn er nú vanbúinn að mæta aukinni samkeppni, að ekki virðist bóla á neinni nýrri iðnaðarstefnu eða neinum nýjum aðgerðum til að bæta aðstöðu iðnaðarins, að ríkisstj. virðist ætla að einbeita sér að EFTA-markaði, en vanrækja aðra markaði, og ríkisstj. hefur ekki undirbúið þær breytingar á skattalögum eða tekjuöflun ríkisins, sem óhjákvæmilegar eru vegna niðurfellingar verndartollanna, sem við, hv. 1. þm. Austf. og ég, leggjum til, að þessari þáltill. verði vísað frá með þeirri dagskrártill., sem er á þskj. 219.