18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (2955)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls í umr. um þetta mál, enda sannast sagna í nokkuð erfiðri aðstöðu til þess. Það er þó eitt atriði aðallega, sem fram kom í ræðu hæstv. viðskmrh. hér áðan, sem mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að. Hæstv. ráðh. sagði efnislega m.a. og margendurtók það, að versti kosturinn í þessu máli væri sá að bíða eins og framsóknarmenn legðu til. Það væri stórhættulegt, sagði ráðh., sérstaklega ef Efnahagsbandalagið kynni að stækka við tilkomu nýrra aðildarríkja. Enn fremur sagði ráðh., að því fyrr sem við byrjuðum að aðlaga efnahagslíf okkar þeim reglum, er giltu á meðal EFTA-ríkjanna, þeim mun auðveldara yrði fyrir okkur að semja við Efnahagsbandalagið á sínum tíma. Fór hann síðan mörgum orðum um þetta ábyrgðarleysi framsóknarmanna í því að leggja nú til með sérstakri dagskrá, að málinu yrði frestað. Vegna þessara ummæla langar mig til þess að rifja upp í stuttu máli aðgerðir Íslendinga í sambandi við fríverzlunar- og viðskiptasamstarf Vestur-Evrópuríkja, en saga sú er nákvæmlega jafngömul, upp á mánuð, ráðherradómi Gylfa Þ. Gíslasonar sem viðskmrh. Íslendinga, en sem slíkur hefur hann óumdeilt forystuhlutverk um allar aðgerðir Íslendinga í þeim málum allt fram til þessa dags.

Það var einmitt í júlímánuði 1956 eða sama mánuði og hin margumtalaða vinstri stjórn settist að völdum á voru landi, Íslandi, að úti í París hófust umr. á ráðherrafundi Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, OEEC, um, hvort þau 17 Evrópuríki, sem að þeirri stofnun stóðu, gætu stofnað til fríverzlunarsamstarfs sín í milli. Niðurstaðan af þessum umræðum var jákvæð, þannig að í febrúar 1957 hófust samningaviðræður meðal aðildarríkja OEEC um stofnun allsherjarfríverzlunarsvæðis í Vestur-Evrópu. Ísland tók þátt í þessum umr. og störfuðu fulltrúar Íslendinga á þessum tíma þar að sjálfsögðu á ábyrgð þeirrar ríkisstj., sem þá sat að völdum á Íslandi, sem var vinstri stjórnin, eins og ég hef áður vikið að.

Viðræður þessar leiddu hins vegar ekki til stofnunar fríverzlunarsvæðis, er næði til allrar Evrópu, þar sem Frakkar aðallega vildu efna til nánara samstarfs eða svipaðs samstarfs og sex Vestur-Evrópuríki höfðu efnt til með stofnun Efnahagsbandalagsins árið 1957. Svo langt vildu fæst ríkjanna — og þá fyrst og fremst England — ekki ganga, og slitnaði því upp úr þessum umr. í árslok 1958. Ári síðar eða þar um bil, í ársbyrjun 1960, var svo EFTA stofnað formlega, án þess að Ísland væri þar með, sem þó hefði vafalítið verið mögulegt á þeim tíma, hefði viðkomandi ríkisstj. haft á því áhuga þá. Árið 1961 var hins vegar kannað óformlega, hvort ástæða væri til þess að tengjast Fríverzlunarbandalaginu. Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, skýrði svo frá í ræðu á Alþ. þann 12. nóv. 1962 í skýrslu, sem hann gaf á vegum ríkisstj. um Efnahagsbandalagið og Ísland, en þar sagði m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í ársbyrjun 1961 var talið, að í undirbúningi væru viðræður um einhvers konar sameiningu bandalaganna. Ríkisstj. tók þá til athugunar, hvort ráðlegt væri að leita aðildar að Fríverzlunarbandalaginu. Tilgangurinn hefði fyrst og fremst verið sá að öðlast samstöðu með fríverzlunarbandalagslöndunum í samningum við Efnahagsbandalagið, svo og að leita innan Fríverzlunarbandalagsins hagkvæmrar lausnar á sérstökum vandamálum okkar í því skyni, að sú lausn yrði fordæmi, er lagt yrði til grundvallar í samningum við Efnahagsbandalagið. Það mælti einnig með því, að þessi möguleiki væri athugaður, að Fríverzlunarbandalagið hafði afráðið að hefja umræður um stefnu sína í sjávarútvegsmálum á árunum 1961 og að í samningum Finna við Fríverzlunarbandalagið hafði tekizt að finna lausn á vandamálum þeirra, að því er snerti viðskipti við Austur-Evrópu, er hugsanlega gætu orðið okkur fordæmi.

Í sambandi við þessar athuganir áttu íslenzkir embættismenn óformlegar könnunarviðræður við embættismenn nokkurra aðildarríkja Fríverzlunarbandalagsins og framkvæmdastjórn þess.

Þegar komið var fram í maí, var hins vegar orðið ljóst, að Fríverzlunarbandalagið mundi ekki semja sem heild við Efnahagsbandalagið, heldur mundu einstök lönd þess hvert um sig leita aðildar að Efnahagsbandalaginu og freista þess að fá hvert í sínu lagi lausn á sérvandamálum sínum, þótt gert væri að vísu ráð fyrir, að þau hefðu samráð sín í milli. Þegar svo var komið, taldi ríkisstj. það ekki geta verið til gagns, að Ísland leitaði aðildar að Fríverzlunarbandalaginu, og var athugun málsins því hætt.“ Þetta er úr ræðu hæstv. viðskmrh., og ég gat um, hvenær hún var flutt, hér í upphafi. Ég vil vekja athygli háttv. þm. á niðurlagi þessa kafla í ræðu hæstv. ráðh., þar sem segir, að þegar það hafi legið fyrir, að Fríverzlunarbandalagið mundi ekki semja sem heild við Efnahagsbandalagið, þá hafi ríkisstj. talið, að það gagnaði ekki íslenzkum hagsmunum að leita aðildar að EFTA og því hefði athugun málsins verið hætt.

Nú hins vegar er mat hæstv. ríkisstj. gjörbreytt, að því er sami Gylfi Þ. Gíslason segir nú. Hvað hefur breytt þessu mati hæstv. ríkisstj.? Hví er það talið bráðknýjandi að fá samþykkta EFTA-aðild nú, eftir að einstök EFTA-ríki hafa sótt um aðild að Efnahagsbandalaginu, tími til viðræðna á næsta leiti og yfirgnæfandi líkur á útvíkkun Efnahagsbandalagsins og á breytingum vegna tilkomu Englands í bandalagið og ýmissa annarra nýrra ríkja? Hæstv. viðskmrh. reyndi áðan að skýra þessi skoðanaskipti með því, að árið 1961 og 1962 hefðum við ekki verið reiðubúnir vegna innri málefna okkar að tengjast Fríverzlunarbandalaginu og þau skilyrði hefðu fyrst verið fyrir hendi fyrir 2–3 árum síðan. Ekki fær sú skýring staðizt, ef hafðar eru í huga fyrri yfirlýsingar sama hæstv. ráðh. um sama efni, því að í ræðu sinni, áður ívitnaðri af mér frá 12. nóv. 1962, segir hann, að íslenzkir embættismenn hafi átt könnunarviðræður við embættismenn nokkurra aðildarríkja EFTA og einnig framkvæmdastjórn þess. Varla hefðu slíkar viðræður verið upp teknar síðla árs 1961, ef skilyrði hér innanlands til EFTA-samstarfs voru þá jafnlangt fram undan, eins og hæstv. ráðh. heldur nú fram í dag. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að slík tvísögli hjá hæstv. ráðh. er ekki sérstaklega traustvekjandi.

En fleira gerðist í þessum málum, sem sýnir tvískinnung í málflutningi hæstv. ráðh. fyrr og nú, því að það gerðist, skömmu eftir að hæstv. ríkisstj. missti allan áhuga á EFTA, sbr. fyrri ummæli Gylfa Þ. Gíslasonar, sem ég vék að áðan, að í herbúðum hennar kom upp mikill áhugi á því, að Ísland tengdist Efnahagsbandalagi Evrópu, helzt sem aukaaðili, en til vara með gerð viðskipta- og tollasamnings. Voru nú bumbur barðar í áheyrn alþjóðar um þessa nauðsyn og m.a. leitað álits flestra meiri háttar samtaka atvinnuveganna í landinu um nauðsyn þess að tengjast Efnahagsbandalaginu. Flest þessara samtaka, að undanskildu Alþýðusambandi Íslands, munu hafa á þeim tíma lýst sig samþykk því að leita viðræðna um tengsl við Efnahagsbandalagið á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga, sem ríkisstj. gat gefið forystumönnum þessara samtaka á þessum tíma. Könnunarviðræður voru líka hafnar, sbr. ræðu Gylfa Þ. Gíslasonar hér áðan um för hans og Jónasar Haralz til höfuðborga Efnahagsbandalagsríkjanna.

Hæstv. viðskmrh. sagði á Alþ. 12. nóv. 1962 m.a. það skoðun sína og ríkisstj., að nauðsynlegt væri, að Ísland tengdist Efnahagsbandalaginu. Hann taldi enn fremur, að ef Ísland tengdist Efnahagsbandalaginu á grundvelli aukaaðildar, sem hann taldi greinilega eðlilegast, þá yrði slíkur samningur að vera á grundvelli tollabandalags Íslands og Efnahagsbandalagslandanna, en eins og hv. alþm. vita vel, er aðalmunur EFTA og Efnahagsbandalagsins, sem er mjög mikill, sá, að hið fyrra er fríverzlunarbandalag, en hið síðara er tollabandalag.

Árið 1963 var kosið til Alþ. á Íslandi. Þá var mjög rifizt um það á umræðufundum, hvort tengjast ætti Efnahagsbandalaginu eða ekki, og var stefna ríkisstj. þá sú, sem ég hef áður vikið að og kom fram í áður tilvitnuðum ummælum Gylfa Þ. Gíslasonar. Eftir kosningarnar fór svo áhugi ríkisstj. á efnahagsbandalagsaðild eða tengslum við það bandalag að fjara út. Viðræður Efnahagsbandalagsins og Breta fóru út um þúfur í ársbyrjun 1963, og EFTA-ríkin tóku þá afstöðu að treysta meira samstarfið sín í milli og flýta áætluðum tollalækkunum. Allt kjörtímabilið 1963 til 1967 leið, án þess að hæstv. ríkisstj. sýndi minnsta áhuga á að tengjast EFTA, svo að vitað sé, og það er fyrst í ársbyrjun 1968 með stofnun EFTA-nefndar þingflokkanna, að veruleg athugun hefst á hv. Alþ. á málinu að frumkvæði ríkisstj.

Ég hef rakið sögu þessa máls vegna þeirra frýjunarorða, sem hæstv. ráðh. hafði hér fyrir kvöldmatinn um dagskrártill. framsóknarmanna, og enn fremur í þeim tilgangi að sýna fram á hikandi og reyndar mjög breytilega afstöðu hæstv. ríkisstj. til spurningarinnar um, hvort æskilegt sé að tengjast EFTA eða ekki. Árið 1961 eru teknar upp könnunarviðræður um málið, og mikill áhugi virðist á því að tengjast EFTA í herbúðum ríkisstj.-flokkanna. Skömmu síðar er sá áhugi á burtu, en í staðinn vaknar áhugi á að tengjast Efnahagsbandalagi Evrópu. Árið 1963 er sá áhugi líka á braut, og algjört áhugaleysi virðist heltaka hæstv. ríkisstj., bæði á EFTA og Efnahagsbandalaginu. Varir það áhugaleysi um langt árabil eða þar til áhugi á EFTA vaknar á ný í ársbyrjun 1968, sem leitt hefur til þessarar aðildartill., sem hér er verið að ræða í kvöld og á að samþykkja í kvöld eða nótt, því að engan tíma má missa í því að tengjast EFTA að dómi hæstv. viðskmrh.

Mér finnst, sannast sagna, forysta hæstv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. viðskmrh: í þessu máli ekki vera slík, að hún veki traust; lái mér það hver, sem vill. Á mörgum öðrum sviðum hefur hæstv. viðskmrh. jafnframt sýnt svipað staðfestuleysi, og hirði ég ekki um að tíunda dæmi þar um hér, því að þau eru hv. þm. vel kunn. Þótt ég sé sannfærður um það, að það sé hagkvæmt íslenzkum viðskiptahagsmunum og íslenzkri efnahagsstarfsemi í framtíðinni að tengjast EFTA upp á þau býti, sem í boði eru, og hafi barizt fyrir þeirri skoðun í mínum þingflokki, þá viðurkenni ég þó þau rök flokksbræðra minna ýmissa, er aðra skoðun höfðu á málinu, að á miklu velti, hver með framkvæmd jafnviðamikils málefnis fari og EFTA-málið í reynd er. Vond framkvæmd og hringlandi getur í sjálfu sér breytt góðu máli í vont, og eins og ég hef þegar sagt, þá hvetur 13 ára reynsla af forystu hæstv. viðskmrh. ekki til bjartsýni um framkvæmd EFTA-samstarfs undir hans forystu.