18.12.1969
Sameinað þing: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í D-deild Alþingistíðinda. (2960)

117. mál, aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu

Magnús H. Gíslason:

Herra forseti. Það er nú raunar þýðingarlaust að vera að tala hér langt mál. Hvort tveggja er það, að orðið er áliðið kvölds og jörðin orðin hér umhverfis eyðileg og tóm, þó að ekki sé dimmt, og þar að auki er nú búið að ræða þetta mál svo mikið, að ég býst ekki við, að það sé miklu við að bæta, a.m.k. af minni hálfu. Við það bætist svo það, eins og við allir vitum náttúrlega, að hvort sem við ræðum þetta mál lengur eða skemur hér í þessum sal, hefur það þegar verið til lykta leitt, áður en það kom hingað inn. Það er vitanlega leitt til lykta eins og önnur þýðingarmikil stórmál hér á þessu Alþ. okkar í flokksherbergjunum, og leið þessara mála hér í gegnum þingsalinn er fyrst og fremst til þess að fullnægja formi. Þar af leiðandi er ekki heldur af þessum ástæðum þörf á því að tala hér langt mál.

Ég hefði gjarnan, af því að ég hef raunverulega haft styttri tíma til þess að átta mig á þessu, eins og þið vitið, en þið hinir yfirleitt, þar sem ég er ekki búinn að sitja hér nema í hálfan mánuð, en alþm. hafa — a.m.k. flestir — haft talsvert lengri tíma til þess að fjalla um þau plögg, sem hér hafa legið frammi. Af þeim ástæðum hefði ég gjarnan viljað ræða þetta nokkuð og fræðast betur en mér hefur tekizt að gera enn þá. Þó að ég hafi gert mér far um að reyna að hlusta á þær umr., sem fram hafa farið, þá eru samt sem áður að brjótast í huga mínum ýmsar spurningar í sambandi við þetta mál, sem ég hefði gjarnan viljað bera hér fram og óska eftir því að geta fengið svör við. En hvort tveggja er, að það er orðið allt of áliðið til þess, sem og hitt, að ég er ekki alveg viss um, að ég fengi þau svör við sumum spurningum, að ég yrði miklu nær.

Þess vegna ætla ég aðeins að láta mér nægja að taka það fram af minni hálfu í sambandi við þetta mál, að það, sem mér finnst kannske hvað mestu skipta um það, hvernig um þetta fer, er það, hvernig á því verður haldið af forsjármönnum okkar Íslendinga sjálfra, þegar til þessa samstarfs kemur, sem áreiðanlega verður af. Það held ég, að sé höfuðatriði málsins.

Ég ætla ekki að fara að setjast að hæstv. viðskmrh. Á honum hafa staðið öll spjót hér í kvöld, og hann er hér einn og yfirgefinn. Samverkamenn hans í ríkisstj. láta yfirleitt ekki sjá sig. Ég tel, að hann hafi staðið sig eftir atvikum vel; ég get ekki annað sagt. En það verð ég að segja, að þegar hæstv. viðskmrh. talar af hvað mestum sannfæringarhita hér úr þessum ræðustóli, þá er ég alltaf tortrygginn um það, að eitthvað óhreint sé á ferðum. Hæstv. ráðh. eru alveg efalaust ágætir menn, allir saman, hver í sínu lagi. En mér hefur stundum fundizt, að þegar þeir fara að vinna saman að velferðarmálum þessarar þjóðar, sé vinnan hálfgerð handarbaksvinna. Það finnst mér, að stjórnarfarið í þessu landi nú í dag og á undanförnum árum beri ljósastan vottinn um; skal ég ekki fara frekar út í það.

En kjarni málsins fyrir mér er sá, að ég treysti ekki þeirri ríkisstj., sem nú fer með völdin í þessu landi, til þess að halda þannig á málum okkar í sambandi við þetta samstarf, að ekki hljótist af slík slys, að erfitt verði úr að bæta. Þess vegna er það, að ég er samþykkur því og styð það, að þessu máli sé frestað. Ég vil vona það, og ég trúi því, að hamingja þessarar þjóðar sé það rík enn þá, að ekki líði á allt of löngu, þar til þessi ríkisstj. fer frá völdum og önnur tekur við. Vona ég, að ekki verði allt of langt eftir því að bíða. Einnig tel ég, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að þetta mál sé alls ekki nægilega undirbúið enn þá og hafi alls ekki verið kynnt þannig fyrir þjóðinni enn, sem vera þyrfti, og hv. alþm. sjálfir séu m.a. s. ekki til fulls búnir að átta sig á því og atvinnuvegir okkar og efnahagslíf sé allt með þeim hætti í dag, að við séum ekki færir um það á þessu stigi málsins að ganga í þetta samstarf. Af þessum ástæðum öllum, sem ég hef nú tekið fram, er ég því hlynntur og samþykkur og treysti því, að það verði ekki flanað að þessu máli í bili, heldur verði látið bíða að taka ákvörðun um það. Þetta er mín afstaða. Auðvitað veit ég, að þetta verður ekki niðurstaðan, en þetta er mín afstaða til málsins, og henni vildi ég aðeins lýsa með þessum fáu orðum.