29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

126. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, þó að freistandi væri að gera ýmislegt að umtalsefni, sem tveir hv. þm. hafa hér sagt, en ræður þeirra beggja voru hinar prúðmannlegustu og ég vil sérstaklega þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir falleg ummæli hans í minn garð persónulega, þó að hann teldi nú, að ég væri illa flæktur í viðreisnarnetinu og léti berast með straumnum, þótt ég gjarnan vildi annað gera. Að vissu leyti má auðvitað segja það, að fjmrh. verði að berast með straumnum. Hann er háður vissri þróun í þjóðfélaginu og verður að sjá fyrir þeim þörfum, sem ætlazt er til að hann sjái fyrir á hverjum tíma varðandi ríkisútgjöld, sem að meginhluta til eru lögbundin og ákveðin af Alþ., eins og við þekkjum. Þá á hann í rauninni ekki nema tveggja kosta völ í þeim efnum: annaðhvort að leggja það til að skerða beinlínis þá þjónustu, sem þjóðfélagsborgararnir búa við samkv. þessum lögum, eða leggja til að draga úr framlögum til svokallaðra verklegra framkvæmda. Í rauninni hefur enginn fjmrh. hér átt annarra kosta völ, hvort sem það hefur verið ég eða mínir fyrirrennarar, sem hafa átt við þennan vanda að glíma.

Hitt er annað mál, að varðandi spádóma þá, sem hann gat um og hvað sagt hefði verið um þann mann, sem hefði farið að spá því í upphafi viðreisnartímabilsins, að fjárlagaþróun yrði með þeim hætti, sem hann gat þar um og gengisbreytingar jafntíðar, þá vil ég aðeins segja það, að vafalaust hefði mönnum þá þótt ósennilegt, að það ástand mundi skapast, sem skapazt hefur í þjóðfélaginu og er einstakt meðal allra hliðstæðra þjóða, að útflutningstekjur þjóðarinnar lækkuðu á tveimur árum um 50%. Ég býst við, að engum hefði þótt það sennilegt þá, hvorki stjórnarliðum né stjórnarandstæðingum, að slíkt kynni að koma fyrir á þessu tímabili. Við vitum, að tvær þær gengisbreytingar, sem gerðar hafa verið, stafa af þessum óvenjulegu ástæðum, en ekki fyrst og fremst af verðþenslu innan þjóðfélagsins, eins og hafði átt sér stað með gengisbreytingarnar áður. Þetta veit ég, að hv. þm., sem er mjög glöggur og skýr maður, veit gjörla. Eðli þessara tveggja gengisbreytinga nú og hinna fyrri gengisbreytinga er mjög mismunandi.

Varðandi svo hitt, að fjárlög hafi átt faldazt á 10 árum, þá er það nú ekki alveg réttur samanburður af þeirri einföldu ástæðu, sem hv. þm. er kunn, þykist ég gjörla vita, vegna þeirrar þekkingar, sem hann hefur á þingstörfum, þingsögu og þróun mála hér, að fjárlög eru auðvitað sett upp með allt öðrum hætti heldur en var fyrir 10 árum. Nú eru í fjárl. nálægt 2.000 millj. kr., sem þá voru alls ekki teknar í fjárlög. Þær voru settar inn með hinu nýja fjárlagakerfi, sem nú er upp tekið. Jafnframt er það vitað, að 1959 og 1960 var haldið utan fjárlaga upphæðum, sem reyndust á þeim árum jafnháar fjárl. sjálfum, þannig að í stað þess, að þar væri um 1.000 millj. að ræða, voru það rúmar 2.000 millj. En þetta er ekki það, sem skiptir öllu máli. Það má deila um þetta fram og aftur. Það, sem skiptir meginmáli í sambandi við, hvort útgjöld ríkissjóðs hafi raunverulega aukizt með óeðlilegum hætti, er auðvitað sú viðmiðun, hvort ríkið tekur meira í sinn hlut af þjóðartekjum að krónutali, heldur en áður hefur verið. Og það hefur ekki gerzt frá því árið 1950, þrátt fyrir geysilegar hækkanir fjárl. á hverjum tíma, því þjóðartekjur hafa vaxið það mikið, en það er aðeins nú tvö síðustu árin; sem prósentutala ríkisútgjalda af þjóðartekjum hefur aukizt um nálægt 2%, en á þessu sama tímabili hafa þjóðartekjur líka lækkað um 14%. Hv. þm. veit nákvæmlega jafn vel og ég, að það verður ekki gerð sú stökkbreyting í útgjöldum ríkissjóðs, nema með því að stórskerða annaðhvort framlög til verklegra framkvæmda, sem hafa nú beinlínis verið hækkuð á þessum árum, eða þá skerða þjónustulið ríkisins. Sú leið hefur verið valin tvö síðustu árin í öllum þessum erfiðleikum, að reyna í von um, að þetta yrði ekki langt tímabil, sem erfiðleikarnir stæðu, að halda í fullum gangi allri þeirri umbótalöggjöf, sem samin hefur verið bæði í félagsmálum, menntamálum og heilbrigðismálum og veldur lang mestum útgjaldaauka frá ári til árs. Það hefur verið reynt að hagga ekki þessari löggjöf, heldur miklu fremur auka við hana, þannig að það er auðvitað ekki að undra, þó að útgjöld ríkissjóðs hækki hlutfallslega eitthvað, sem þó er sáralítið, miðað við þá skerðingu, sem orðið hefur á þjóðartekjum.

Hv. þm. vék að afnámi tekjuskatts á almennum launatekjum og taldi, að illa hefði verið að því staðið. Ég er honum ekki alveg sammála um þetta atriði. Það kann hins vegar vel að vera svo, að það sé rétt að hækka markið, sem þarf að ná til þess að menn komist upp í hámarksskattstiga. Það kann að vera, að það hafi alltaf verið of lágt og það er þá spurning um það, hvort menn vilja fremur hverfa meira frá beinum sköttum, heldur en verið hefur. Hins vegar er það svo, að samkv. núgildandi reglum eru það 243 þús. kr. rúmar, sem hjón mega hafa, áður en þau komast í 27% skattstiga og er þá innifalinn í því persónufrádráttur 156.800 kr., þannig að það munar kannske ekki öllu, þó talan sé tekin eins og hv. þm. gat um, en vitanlega eru það stór hlunnindi, að persónufrádrátturinn er þarna, sem er ekki borgað neitt af. Það eru vitanlega bara tekjurnar, sem eru umfram þessi 243 þús. kr., sem komast í hæsta skattflokk. Þetta er ekki deiluefni milli mín og hv. þm. Ég taldi aðeins rétt, að þessar tölur kæmu fram, til þess að menn áttuðu sig á þessu. Það kann vel að vera, að það sé ástæða til þess að hækka þetta og ég skal sérstaklega taka það fram, að í sambandi við staðgreiðslukerfið er það mjög vel athugandi að minni hyggju að hækka verulega upphæðina, sem menn borga sama prósentuskatt af. Það er í sumum löndum þannig jafnvel með staðgreiðslukerfið, að það er ekki látið ná til tekna nema upp að vissu marki, þar sem menn eru í sama prósentuflokki, hver sem sú prósenta er, þ.e.a.s. jöfn prósenta, vegna þess að það er mjög erfitt um vik með staðgreiðslukerfið, ef mismunandi prósentuflokkar eru gildandi. Þetta kemur til álita, þegar að meðferð þess máls kemur, sem ég vona að verði innan tíðar.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. báðum, að með þessu frv. er horfið verulega inn á nýjar brautir og var reyndar gert upp úr 1960, því þá var horfið meira að óbeinum sköttum frá beinum sköttum. Það er þróun, sem hefur átt sér stað í ákaflega mörgum löndum, og án þess að ég ætli hér sérstaklega að fara að verja Alþfl., þá hefur legið fyrir yfirlýsing um það frá Alþfl., að hann hafi breytt um skoðun í þessum efnum og telji það eðlilegt, sem jafnaðarmannaflokkar hafa gert á Norðurlöndum, að stefna að því að hverfa frá beinu sköttunum í vaxandi mæli og jafnvel stefna að afnámi þeirra á hinum lægri tekjum og að óbeinum sköttum, söluskatti fyrst og fremst og bæta heldur með tryggingabótum hag þeirra, sem lakast eru settir. Þetta er sú yfirlýsing, sem Alþfl: menn hafa gefið af sinni hálfu. Þetta sjónarmið fellur í rauninni saman við sjónarmið Sjálfstfl. í þessum efnum. Ég hef samt ekki trú á því, að menn treysti sér til þess að hverfa alveg frá beinum sköttum. Mér finnst sennilegra, að horfið yrði að því, sem mér finnst ekki óráðlegt, að beinu skattarnir yrðu að verulegu eða kannske að öllu leyti á vegum sveitarfélaganna og væri þá færð yfir til þeirra aukin starfsemi, en óbeinu skattarnir féllu til ríkissjóðs, því það er auðvitað slæmt, að tveir aðilar þurfi að höggva í sama skattstofninn. Að vísu kann þetta að breytast með staðgreiðslukerfinu, því þá verður það einn aðili, sem sér um innheimtu hvort sem er og síðan verður þessu skipt niður milli sveitarfélaga og ríkis. En það er alveg rétt, að það er horfið frá þessu í öllum nálægum löndum og vitanlega er gersamlega útilokað fyrir okkur að halda uppi algerlega andstæðri stefnu í aðflutningsgjaldamálum, sem leiðir til algerlega óheilbrigðrar verðþróunar í landinu og hefur í för með sér stórfellda hættu á smygli og alls kyns erfiðleika.

Menn tala mikið um hátollavörur og ónauðsynlegar vörur. Vitanlega er sannleikurinn sá, að þegar við förum að skoða þetta dæmi niður í kjölinn, þá held ég, að menn ættu einhvern tíma að íhuga, – og það veit ég, að jafnfróður maður og hv. 2. þm. Austf. er manna líklegastur til þess að gera, – hverjar þessar ónauðsynlegu vörur eru. Hann sagði hér áðan, að það gerði minna til, þó það væru hærri tollar á byggingarvörum heldur en matvörum. Ég er ekki alveg viss um þetta, vegna þess að þegar til lengdar lætur þurfa flestir að byggja yfir sig, og húsnæðiskostnaðarliðurinn er ekki síður nauðsynjar, en margt annað. Hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan, sem rétt var, að fólk þyrfti fyrst og fremst að borða og klæðast og það er rétt. Það hefur verið reynt að halda söluskatts hækkuninni niðri á nauðsynlegustu framleiðsluvörum hér innanlands, annaðhvort með niðurgreiðslum eða með niðurfellingu á söluskatti og enn fremur skulum við ekki gleyma því, að tollalækkanirnar hafa í för með sér allverulega lækkun á fatnaði og ýmsum brýnum nauðsynjavörum heimilanna. Það, sem enn er í hátollaflokki, svo að ég veki athygli á einhverju, sem við teljum að þurfi að lækka, eru fjölmörg heimilistæki, sem eru mjög nauðsynleg: Fólk sparar þetta kannske við sig, en allir þurfa að kaupa þetta, í mismunandi ríkum mæli að vísu. Og þeir, sem eru efnaðir, kaupa þetta þá í stærri stíl og borga þá náttúrlega meira fyrir það, þó að það verði horfið að því að hafa þessi geysilega háu aðflutningsgjöld svo mismunandi, sem raun ber hér vitni um. Og ég hygg, að allir þeir, sem hafa skoðað tollskrána, komist að raun um það, að því fer víðs fjarri, að hægt sé að segja, að þar séu einhverjar vörur svo óþarfar, að það sé hægt að hafa þær í geysilega háum tollflokkum. Sumar þessar vörur eru beinlínis þess eðlis, að það er boðið heim hættunni, að þeim verði smyglað. Það er ekki langt síðan svo var litið á, að nælonsokkar væru lúxusvara. Ég veit nú ekki, hvort kvenfólkið mundi líta þannig á það. Og þá var tollur lækkaður á þeim um helming í einu og það leiddi af sér alveg sömu tolltekjur fyrir ríkið, því verðið á þeim hafði ekki verið í neinu samræmi við verðlag á þessari vöru í nálægum löndum, og hafði þetta þess vegna leitt af sér stórkostlegt smygl. Við skulum taka sem dæmi núna, að það er lækkaður verulega tollur á ljósmyndavörum og filmum. Það má segja, að þetta sé ekki nauðsynjavara, þó að verulegur hluti borgaranna noti hana. En mergurinn málsins er sá, að við erum ekki í neinum vafa um það, að á þessum vörum er um að ræða stórfellt smygl, þannig að við teljum skynsamlegra að lækka þessa tolla og ég hygg, að tolltekjurnar muni samt ekki minnka af þessum ástæðum.

Svona eru mörg atriði, sem hér koma til greina og ég held, að við megum ekki afgreiða þetta mál svo „billega“ að segja, að hér sé verið að hverfa inn á þá braut að níðast á þeim, sem lakar eru settir. Þetta er stefna, sem fylgt er í öllum nálægum löndum og við komumst ekki hjá að samræma okkar gjöld í verulega ríkum mæli því, sem gildir í þeim löndum, sem við höfum helzt viðskipti við. Hitt er svo alveg rétt, að það þarf auðvitað að gera ýmsar hliðarráðstafanir til þess að bætt sé aðstaða þeirra, sem lakar eru settir og ég tel, að þær hliðarráðstafanir hafi verið gerðar að ýmsu leyti. Hvort það er í nógu ríkum mæli, það getur okkur alltaf greint á um. En hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða hjá stjórnvöldum í þá átt, að það eigi að reyna að hlynna að þeim, sem betri kjör hafa. Það er síður en svo.

Hvort yfir skellur ný holskefla verðhækkana, eins og hv. 11. þm. Reykv. sagði, þá er það skoðun okkar og von, að það verði ekki, vegna þess að það mætast hér lækkanir og hækkanir sitt á hvað á ýmsum vörum. Innfluttar vörur lækka, iðnaðarvörur hækka einnig hér innanlands vegna stórfelldrar lækkunar á hráefnum til iðnaðarins, og þar verður auðvitað um margvíslegar nauðsynjavörur að ræða, þó að aðrar vörur hækki eitthvað vegna söluskattsins. Þegar það dæmi allt saman verður gert upp, þá er það a.m.k. von okkar við athugun á þessu máli, að hér verði ekki um neina verulega almenna verðlagshækkun að ræða af þessum sökum, þannig að framfærsluvísitalan breytist ekki að neinu ráði vegna þessara breytinga.

Varðandi það, sem snertir laun í ýmsum löndum og samanburð á launum, þá er það nú alveg rétt, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði, að slíkur launasamanburður er ákaflega hæpinn, og ég held, að það gefi mjög villandi mynd að halda því fram, að það fólk, sem hann gat um í sinni ræðu, búi við helmingi betri kjör eða jafnvel þrisvar sinnum betri kjör í Danmörku en hér, þegar allt kemur til alls. A.m.k. vill það fólk, sem maður hefur tal af í þessum löndum, ekki segja, að það sé þannig og það vill verða svo með þá, sem hafa farið til Svíþjóðar, að frádrátturinn reynist anzi mikill, þegar allt kemur til alls, þegar þeir fara að gera upp dæmið, þó að kaupið á pappírnum sé hærra. Þarna kemur ótalmargt til greina, eins og hv. þm. gat réttilega um, þannig að þessar tölur segja ekki alla sögu, þó það sé fróðlegt að heyra þær.

Hitt er allt annað mál, að það væri mjög æskilegt, að hér væri hægt að hækka laun og það allverulega. Ég er alveg sammála hv. þm. um það. Hér er aðeins spurning um það, hvað atvinnuvegir okkar þola. Ég held, að við þurfum ekki að deila um það nokkurn skapaðan hlut, að hverju væri æskilegt að stefna. Ég deili ekki heldur við hv. 11. þm. Reykv. um, að það er nauðsynlegt að bæta kjör opinberra starfsmanna. En mér þykir gott að geta komið fram þeirri leiðréttingu, að það er algerlega villandi sagt frá í Vísi í viðtali, sem blaðið átti við deildarstjóra launadeildar fjmrn., – sem hann að vísu einnig hefur sent blaðinu leiðréttingu á, ég veit ekki, hvort hún hefur verið birt ennþá, en tel rétt, að þetta komi hér fram, – að ríkisstj. hefur ekki lýst yfir nokkrum einasta vilja í eina né neina átt í þessu sambandi, allra sízt þeim að hækka laun einhverra tiltekinna hæst launaðra embættismanna. Hv. þm. veit mætavel, að við höfum bæði sjálfir og okkar starfsmenn verið að vinna að athugun á sérstöku starfsmatskerfi, sem er að vísu ekki ólíklegt, að hækki laun ýmissa þeirra, sem eru kannske í hærri launaflokkum, vegna þess að launamismunur hér er orðinn ákaflega lítill og miklu minni en þekkist í nokkru nálægu landi. Að hve miklu leyti hægt verður að byrja neðan frá og hækka laun þeirra lægstu, skal ég ekkert segja um. En ég hygg, að það sé ekki ágreiningur okkar í milli um það, og það þekkja menn gerla frá deilum háskólamannanna og samtaka þeirra, að hér sé orðið um að ræða óeðlilega lítinn launamun, þ.e. um 2½ —faldan launamismun, sem er fjarri því að vera í samræmi við það, sem er á hinum Norðurlöndunum. Þar er launamunur miklu hærri, t.d. í Danmörku, sem hv. þm. vitnaði í. Það er ekkert ólíklegt, að þarna sé á ferðinni visst vandamál. Það er rétt, sem hann sagði, að sumar stéttir hafa rifið sig út úr; stéttir, sem hafa haft sérstöðu í þjóðfélaginu, eins og læknar og verkfræðingar. Þá sögu þekkjum við og skal ég ekki rekja hana hér.

Hins vegar vil ég taka það fram, að það er ekki rétt frá sagt, að fyrir milligöngu ríkisstj. hafi laun flugmanna verið hækkuð á bak við tjöldin. Mér er ekki grunlaust um, að flugfélögin sjálf hafi eitthvað hækkað þau laun. En það voru ekki brotin niður þau brbl., sem ríkisstj. setti, heldur voru þetta samningar, sem við vitum sannast sagna ekki gjörla um, hvernig hafa verið, en þeir munu hafa hljóðað upp á einhver meiri fríðindi heldur en opinberlega kom fram. Það hafa einnig staðið yfir viðræður við blaðamenn, sem mjög hafa borið sig saman við prentara og fréttamenn útvarps og sjónvarps og kannske verður samið milli vinnuveitenda og launþega um töluverða launahækkun til þessara aðila með þessum samanburði. Þetta eru hin eilífu vandamál, sem um er að ræða, þessi samanburður milli einstakra stétta. En ríkisvaldið hefur að sjálfsögðu ekki komið nærri því máli.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta. Ég tel ekki, að neitt hafi komið fram í þessum ræðum, sem gefi ástæðu til þess að halda uppi neinum deilum. Þær voru, eins og ég sagði, báðar fluttar á hinn prúðmannlegasta hátt og ég hef síður en svo yfir þeim að kvarta. Hér er um mismunandi sjónatmið að ræða og er ekkert út á það að setja. Menn hafa sínar mismunandi skoðanir og þeim hefur verið lýst.

Ég þarf ekki að taka það frekar fram, sem ég sagði í upphafi míns máls og get staðfest, að það mun verða framfylgt þeirri stefnubreytingu að lækka aðflutningsgjöld í vaxandi mæli. Það er engin launung á því. Við erum skyldugir til að gera það samkv. samningi okkar við EFTA. Það er vitanlega ekki endalaust hægt að hafa þann geysilega mun á aðflutningsgjöldum frá EFTA–löndum og öðrum löndum, sem mundi verða, ef þau gjöld yrðu ekki smám saman lækkuð. Það verður ekki að fullu gert í þessum áfanga, vegna þess að það samrýmist alls ekki samningum okkar við EFTA að gera það, en þetta er sú stefna, sem við verðum að fylgja, eftir að hafa gerzt aðilar að EFTA, og stefna, sem ég í rauninni tel, að við hefðum hlotið að neyðast til þess að taka upp, hvað sem öllu öðru hefði liðið.