11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

45. mál, rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég skal lofa því, að þetta skal vera stutt aths. Hæstv. raforkumrh. fullyrti enn á ný, að stórvirkjun hlyti að gefa ódýrara rafmagn en lítil, en hann gerði enga tilraun til þess að gera okkur grein fyrir því, sem máli skiptir í þessu sambandi, sem auðvitað er það, hvað hluti innlenda markaðarins kostar, þegar búið er að selja meginhluta eða mikinn hluta orkunnar á 2.5 mill til útlendinga. Ég gat þess aðeins áðan, að það, sem máli skiptir í sambandi við það að gera smærri virkjanir dýrari heldur en stærri, væri fyrst og fremst það, hvað lengi eða hve mikið væri ónotað af fjárfestingu, sem ráðizt hefði verið í. Hæstv. iðnmrh. gat þess í ræðu sinni um daginn, að það hefði orðið að flytja allmiklar framkvæmdir frá síðara stigi til fyrra framkvæmdastigs, og sjá menn þá greinilega, hvað það þýðir. M.ö.o. liggur ljóst fyrir, að fullyrðingar um það, að hlutur Íslendinga, hlutur innlenda markaðarins af þessari virkjun, hljóti að vera ódýrari, af því að virkjunin sé stór, þær fullyrðingar eru algerlega órökstuddar.