11.03.1970
Sameinað þing: 38. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (3285)

42. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Till. í þessa stefnu hefur áður verið flutt hér á hv. Alþ. og það oftar en einu sinni. Hv. 4. þm. Reykv. hefur haft forustu um þann tillöguflutning, en með honum hafa verið flm. margir aðrir þm. Framsfl. Ég held, að í allshn. hafi í raun og veru ekki verið ágreiningur um það, að þörf væri á því að bæta úr rekstrarfjárskorti iðnaðarins. En eins og fram kemur í frávísunartill. meiri hl., leggur meiri hl. til að vísa till. frá með því fororði, að þessi mál séu öll í skoðun hjá hæstv. ríkisstj. Sannleikurinn er sá, að minni hl. allshn. er frekar tortrygginn á þá skoðun. Við erum ekki búnir að gleyma því, hvernig komið var fyrir iðnaðinum fyrir nokkrum árum, við erum ekki búnir að bíta úr nálinni með það enn. Við erum ekki búnir að gleyma því, hvernig þetta mál og önnur hliðstæð hafa verið svæfð á undanförnum þingum og þannig staðið að málefnum iðnaðarins á ýmsan hátt, að hann var kominn í hinar mestu þrengingar. Ég ætla ekki að fara að tefja neitt tíma hv. Alþ. nú með því að rifja það upp, en vissulega væri hægt að vitna í mörg ummæli skjalfest og prentuð frá forvígismönnum iðnaðarins þessari fullyrðingu minni til staðfestingar. Og satt að segja óttumst við, að brugðizt verði of seint við og á ófullnægjandi hátt um úrlausnir á þeim vanda, sem þessi till. fjallar um. Flm. taka það fram í sinni grg., og við erum alveg sammála um það, minni hl. í allshn., að hér er ekki um neinar endanlegar aðgerðir að ræða í þessu efni. En við teljum, minni hl. n., eins og flm., að ef í þær væri ráðizt, mundu þær þó greiða stórlega fyrir og alveg sérstaklega, ef þær væru framkvæmdar strax. Við teljum alveg tvímælalaust, að það sé margþætt nauðsyn á skjótum aðgerðum í þessum efnum. Það ætti að vera ástæðulaust við þetta tækifæri að minna á atvinnuleysið. Menn vita vel, hvernig það hefur þróazt hér, blossað upp á ný eftir margra ára hlé. Það er óviðunandi ástand, ekki sízt í litlu þjóðfélagi eins og á Íslandi, að hafa þar viðvarandi atvinnuleysi og líða það, liggur mér við að segja. Það er varla hægt að hugsa sér meiri sóun verðmæta heldur en það að láta svo og svo stóran hluta af vinnandi fólki ganga verkefnalaust. Og það kerfi, sem hér var komið á, atvinnuleysistryggingarnar, sýnir berlega í framkvæmd, að það er stórgallað, og það kerfi réttlætir ekki atvinnuleysið í okkar þjóðfélagi misserum saman. Ísland hefur nú gerzt aðili að EFTA, og þeir atburðir gera þá nauðsyn enn brýnni en áður, að sjá iðnaðinum fyrir viðunandi rekstraraðstöðu og nægilegu rekstrarfé. Hann bjó við erfiðleika fyrir. Væntanlega mætir hann nú á næstunni aukinni samkeppni, og það sér hver maður; sem nokkuð hugleiðir það, að það er allt önnur aðstaða og betri, sem þeir aðilar hafa fjárhagslega séð, sem munu keppa við okkar innlenda iðnað fyrr en síðar.

Ég vil aðeins rifja upp efni till. Það er á þá leið, að Alþ. feli ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabankinn veiti viðskiptabönkunum sérstök lán til að koma rekstraraðstöðu iðnfyrirtækja í viðunandi horf. Og síðan er mótað í tveimur mgr., hvernig rekstrarlánum til fyrirtækja, sem geta sett viðunandi tryggingu, verði fyrir komið: í fyrsta lagi, að fyrirtækin fái víxilsöluheimild (víxilkvóta) til sölu á allt að 90 daga löngum víxlum, er nemi allt að þriggja mánaða framleiðslu þeirra, og í öðru lagi, að auk þess fái fyrirtækin yfirdráttarheimild á reikningslánum, er svari til þriggja mánaða kaupgreiðslu viðkomandi fyrirtækis. Síðan er ákvæði um, að miða skuli við meðaltalsframleiðslu og meðaltalskaupgreiðslur s.l. tvö ár. Efni till. er að miklu leyti sniðið eftir niðurstöðum af athugunum, sem fram fóru hér í Reykjavík á vegum sérstakrar atvinnumálanefndar, sem borgarstjórinn í Reykjavík stofnaði til seint á árinu 1968 og mun hafa skilað áliti um þau áramót.

Það er lögð sérstök áherzla í grg., og ég vil árétta það hér fyrir hönd okkar í minni hl. allshn., á þá nauðsyn, að iðnaðurinn hafi eitthvað fast að að ganga varðandi sitt rekstrarfjármagn. Og það er einn meginþátturinn í efni þessarar till. að koma slíku á.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en minni hl. allshn. leggur til, að till. verði samþ. óbreytt.