10.04.1970
Sameinað þing: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3438)

169. mál, strandferðir

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég get haft stutta framsögu fyrir þessu máli, það hefur margoft verið rætt hér á hv. Alþ. og síðast í fyrravetur. Þá flutti ég ásamt fleiri þm. till. til þál. um svipað efni, þó að hún væri ekki nákvæmlega eins upp byggð. Í fyrri lið þessarar till., sem hér er á þskj. 349, segir svo: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj.: 1. Að láta gera áætlanir um byggingu og rekstur strandferðaskips til farþegaflutnings:“ Í fsp.- tíma fyrr í vetur hér í hv. Sþ. kom það í ljós, að hæstv. ráðh., sem þessi mál heyra undir, hefur ekki hugsað sér að láta gera slíkar kannanir, hann telur það ekki tímabært og ekki líklegt, að farþegaskip til strandsiglinga eigi rétt á sér. Flm. þessarar till. eru á öndverðri skoðun. Farþegaflutningar á sjó drógust mikið saman á sínum tíma, sumpart af eðlilegum ástæðum, flugið tók við af gömlu skipunum. En sumpart líka, vil ég segja, af óeðlilegum ástæðum þannig skoðað, að gömlu skipin voru ekki útbúin sem raunveruleg farþegaskip. Þau höfðu mikla vöruflutninga, gátu haft viðstöðu í höfnum allt upp í 9 klst. og af því leiddi, að þau voru á engan hátt fær um að sinna sínu hlutverki sem farþegaskip, eftir að flugið kom til sögunnar. Nú er hins vegar svo komið, að farþegaþjónusta í strandsiglingum er raunverulega alveg niður fallin. Það kemur í ljós, þegar Hekla hin nýja, sem er ágætt skip og annar miklum vöruflutningum, fer að sigla með ströndinni, að hún er svo lengi í förum og tefur svo lengi í höfnum, að næstum er hægt að segja, að hún veiti farþegum enga þjónustu. Það er allt upp í 9 klst. bið í höfn og jafnvel meira. Það segir sig sjálft, að slíku er ekki hægt að una. Fyrir farþega verða ákaflega takmörkuð not af skipi, sem þannig siglir.

Við flm. þessarar till. teljum alveg rangt að farið með þessari stefnu. Við bendum á það, að vetrarsamgöngur um strandhéruð, t.d. Austfirði og Vestfirði, eru mjög ófullnægjandi, á þeim tíma a.m.k., sem vetrarríki er mest, og þær hljóta að verða svo lengi, þrátt fyrir flug, því að flugið getur ekki tengt staði á ströndinni innbyrðis, þó að það tengi héruðin við höfuðstaðinn. Í öðru lagi má benda á það, að sumarhringferðir þær, sem upp voru teknar á sínum tíma með Esju og Heklu, voru ákaflega vinsælar og mjög mikið notaðar af ferðamönnum, hæði erlendum og innlendum, og raunar ekki sízt af hinum erlendu. Það er álveg tvímælalaust, að þær ferðir juku fjölbreytni þeirrar þjónustu, sem erlendir ferðamenn nutu hér á landi. Og það er í æpandi ósamræmi hvað við annað, annars vegar allt okkar tal um að margfalda ferðamannastrauminn til landsins og svo þetta, að leggja niður þessa starfsemi, hringferðirnar. Ég held óhætt sé að fullyrða það, að á sumrin þá eru og verða næg verkefni fyrir farþegaskip. Það má ætla, að nokkuð megi lengja þennan sumartíma, en sem verkefni að vetrarlagi hef ég þegar bent á þjónustuna við strandbyggðina, fyrst og fremst Austfirði og Vestfirði á þeim tíma, þegar fannalög eru mest og erfiðastar samgöngur á landi. Og ég tel það engum vafa bundið, að unnt sé að finna mörg fleiri verkefni fyrir vandað og nýtízkulegt farþegaskip, ef reynslan leiðir í ljós, að þess er ekki þörf á ströndinni á öllum árstímum. Það kom aðeins fram, að mig minnir í fsp.-tíma, fyrr í vetur hér í þinginu, hvort ekki væri hugsanlegt að nota leiguskip til hringferða að sumrinu. Farþegaskip yrði þá fengið til leigu utanlands frá. Ég held, að þetta komi varla til greina. Far er pantað svo löngu fyrir fram, að það er varla hugsanlegt að byggja upp svona þjónustu nema hafa til þess fastan farkost, sem hægt er að byggja á, þannig að enginn sé í vafa um það í fyrsta lagi, að ferðum verði haldið uppi, og í öðru lagi, með hvernig skipi, svo að ég held, að þetta sé þegar af þeim ástæðum alveg dauðadæmd hugmynd. Þar að auki álít ég, að við eigum að sýna meiri stórhug í okkar siglingamálum og kosta kapps um að hafa í eigin höndum sem allra flesta þætti þeirra. Að mínum dómi var það mjög misráðið á sínum tíma, þegar ekki var komið í veg fyrir það, að við þyrftum að selja okkar eina olíuflutningaskip. Þar með lagðist sá þáttur í okkar sjóflutningum niður. Sama gildir nú, ég álít það mjög misráðið að leggja niður farþegaflutningana á þann hátt, sem gert hefur verið.

Um annan lið till. skal ég einnig vera fáorður. Hann fjallar um það, að hlutazt verði til um, að nú þegar verði hafizt handa um nauðsynlegar úrbætur á húsakosti og aðstöðu við hafnir í Reykjavík og annars staðar, þar sem þess er þörf til þess að ný vöruflutningaskip komi að sem fyllstum notum. Ég fullyrði, að aðstöðuleysi Skipaútgerðar ríkisins hér við höfnina í Reykjavík sé a.m.k. önnur meginorsökin til erfiðrar fjárhagsafkomu hjá fyrirtækinu á undanförnum árum. Þetta hefur verið og er hreint vandræðamál, hvernig þarna er að þessari starfsemi búið, og núna, þegar nýju skipin koma til sögunnar, Hekla nú þegar og hitt skipið væntanlegt alveg á næstunni, álítum við flm. þessarar till., að þetta vandamál verði enn meira aðkallandi en nokkurn tíma áður, vegna þess að sú stórkostlega flutningageta, sem þessi skip hafa yfir að ráða, nýtist aldrei að fullu, nema bætt sé úr þessu. Tvö jafnágæt vöruflutningaskip og hér eru á ferðinni eiga að geta annað vöruflutningum á ströndina prýðilega. Þetta eru auðvitað dýr tæki, en það held ég að verði þó dýrast, ef þau eru ekki nýtt að fullu og áfram heldur það, sem ég vil kalla óeðlilega mikla flutninga eftir öðrum og margfalt dýrari leiðum. Flm. telja ástæðu til þess, að Alþ. tjái vilja sinn um þau efni, sem till. fjallar um.