19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að síðasti ræðumaður sniðgengur þingsköp með mjög óvenjulegum hætti, þannig að hann ber fram nú undir þessum fsp.-lið fsp., sem hann hefur borið fram undir öðrum lið og er á dagskránni undir g-lið. Ég man aldrei eftir því í þingsögunni áður, að ég hafi orðið fyrir þessu eða þetta hafi gerzt. Mér er sama um það. Ég hef svarið tilbúið hér, og ef herra forseti vill leyfa, að ég lesi það upp núna, þá skal ég með ánægju gera það. (Gripið fram í: Þarf þá ekki að leita afbrigða frá þingsköpum?) Ja, það er spurningin. Ég læt þá hæstv. forseta um það, þegar um svona óvenjulegt háttalag er að ræða. (Forseti: Forseti vill benda á, að bæði hv. þm. og hæstv. ráðh. leyfa sér undir fsp.-tímum mjög svo almennar umr. og í þessum fsp.- tíma hefur einnig farið á þann veg, þannig að ég sé ekkert við það að athuga, að svarað sé þeirri fsp., sem fram hefur verið borin.) Þá geri ég það með ánægju. Ég vildi bara vera viss um að þurfa ekki að gera það aftur rétt á eftir. Fsp hljóðar svona:

„Á ríkissjóður enn ólokið greiðslum vegna rekstrarkostnaðar skóla fyrir síðasta ár? Sé svo, hvers vegna?“

Svarið er þetta: Búið er að afgreiða frá menntmrn. allan rekstrarkostnað skólaársins 1968–1969, og að því er varðar skólaárið 1969–1970 er búið að greiða alla reikninga, sem rn. hafa borizt og kostnaður fyrir okt. mun verða endurgreiddur nú um miðjan nóv. Endurskoðun þessara reikninga er mikið verk og er ekki lokið, en greiðslurnar eru inntar af hendi með fyrirvara, enda auðvelt að leiðrétta síðar, ef eitthvað ber á milli. Menntmrn. hefur fyrir nokkru ákveðið í samráði við fjmrn. að greiða skólum rekstrarkostnað samkv. skólakostnaðarlögunum mánaðarlega frá ríkisféhirði og verður þá miðað við þá fjárhæð, sem næst verður komizt, að skólarnir eigi að fá, en endanlegt uppgjör fer síðan fram jafnóðum og endurskoðuninni miðar áfram, og er stefnt að því, að það verði á þriggja mánaða fresti. Getur þá að sjálfsögðu orðið um leiðréttingar að ræða ýmist til viðbótar eða frádráttar þeim greiðslum, sem þegar hafa verið inntar af hendi. Menntmrn. hefur borið þessa greiðslutilhögun undir samstarfsnefnd rn. og Sambands ísl. sveitarfélaga, og er nefndin samþykk þessari tilhögun. Leggur rn. áherzlu á gott samstarf við framkvæmd skólakostnaðarlaganna, en þar sem hér er um nýja tilhögun að ræða, veltur að sjálfsögðu mikið á, að reynt sé að finna sem heppilegast framkvæmdaform fyrir alla aðila. Með þessu móti vona ég, að þessari fsp. sé svarað.

Annars vildi ég segja örfá orð í tilefni af ræðu Eðvarðs Sigurðssonar, hv. 2. landsk. þm. Ég er honum alveg sammála um það, að gegn því ber að sjálfsögðu að vinna af alefli, að erfiður efnahagur verði til þess, að unglingar geti ekki stundað það nám, sem hugur þeirra stendur til. Ég vildi aðeins taka fram, að um þetta markmið er ég honum sammála og tel síður en svo að ástæðulausu, að þetta atriði hafi verið dregið inn í þær umr., sem hér var um að ræða. Ég hef þó ekki staðið upp til þess eins að undirstrika samstöðu mína með honum um þetta efni, heldur spurðist hann fyrir um, hvort athugun mundi hafa verið gerð á því, hvernig t.d. brautskráðir stúdentar úr íslenzkum menntaskólum skiptust eftir efnahag foreldra, ef ég skildi fsp. hans rétt. Slík athugun hefur mér vitanlega ekki verið gerð, og gæti þó verið full ástæða til þess að gera hana. Hins vegar hefur verið gerð hér á landi, eins og mjög víða annars staðar og eftir hliðstæðum reglum, athugun á því, hvernig t.d. brautskráðir stúdentar og raunar fleiri nemendahópar skiptast á starfsstéttir. Samanburður á þeirri skiptingu hér á landi við önnur lönd í Vestur-Evrópu er t.d. verkamannastéttinni hér á Íslandi sízt í óhag. Hlutfallslega fleiri stúdentar eru hér á landi úr verkamannastétt en í ýmsum öðrum löndum. Við erum ekki hæstir allra landa hvað þetta snertir, en við munum vera talsvert fyrir ofan meðallag. Ég veit, að sama gildir um bændur, að mig minnir í enn ríkara mæli um þá. En ég veit, að þetta segir ekki allt um það, sem fyrir honum vakti að vita, hver raunveruleg áhrif efnahagur hefði á nám barna fólks eftir mismunandi tekjuhæð frá ári til árs. Það er atriði, sem gjarnan mætti kanna. Þó er mér heldur ekki kunnugt um það, að slík athugun beinlínis hafi verið gerð annars staðar. Þær skýrslur hef ég a.m.k. ekki séð.