12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

946. mál, ráðstafanir í geðverndarmálum

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir þá vitneskju, sem hann hefur flutt okkur um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. á sviði geðlækninga. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að lýsa því yfir hér, að þessar fyrirætlanir eru greinilega allt of smávaxnar miðað við það geigvænlega ástand, sem ég lýsti í framsöguræðu minni hér áðan. Eins og ég gat um áðan og hæstv. ráðh. vefengdi ekki, vantar 200–300 sjúkrarúm til þess, að sjúklingar, sem þurfa að vera á sjúkrahúsi, komist að. Úr þessu verður ekki bætt með þeim smávöxnu aðgerðum, sem hæstv. ráðh. minntist á, þó að þær séu vafalaust mjög þarflegar hver um sig. Hér þarf miklu stærra átak. Það eina stóra átak, sem hæstv. ráðh. minntist á, var deild sú, sem fyrirhuguð er í tengslum við Landsspítala fyrir 90–100 sjúklinga. En hæstv. ráðh. lét það fylgja með, að þeim áformum hefði nú enn verið frestað vegna þess, að þau yrðu að bíða eftir skipulagningu lóðarinnar og þar á meðal eftir þeirri breytingu, sem hlýzt af nýjum hugmyndum um stærð þessarar lóðar. Ég vil beina því mjög alvarlega til hæstv. ráðh., hvort ekki sé hægt áð taka þetta atriði til endurskoðunar. Þegar ég spurðist fyrir um það í vor, hvenær fyrirhugað væri að stækka fæðingardeildina þá voru það fyrstu svör þessa hæstv. ráðh., að ekki væri hægt að gera það fyrr en búið væri að ganga frá skipulagi. En sem betur fór féllst hæstv. ráðh. á það síðar meir, að hægt væri að taka þessa ákvörðun og hefja framkvæmdir, þó að skipulagið væri ekki endanlega ráðið. Og ég held, að þetta ástand í geðverndarmálum sé svo alvarlegt, að það megi ekki bíða eftir þessari skipulagningu. Ég held, að hæstv. ráðh. þurfi að segja það við embættismenn sína, sem að þessum málum vinna, að þeir verði að finna leiðir til þess að hægt verði að hefja þessar framkvæmdir, þó að ekki sé búið að ganga frá endanlegu skipulagi í öllum greinum.

Ég minntist á það áðan og það er staðreynd, sem menn verða að muna eftir, að geðsjúkdómar eru algengasti sjúkdómurinn hér á landi og þessi sjúkdómur snertir ákaflega mörg svið. Það er bæði mikið persónulegt vandamál fyrir mörg hundruð manna og mikið tjón fyrir þjóðfélagið, að lækningar á slíku fólki bera ekki nærri nógan árangur hér vegna þess, að aðstaða er of léleg. Í þessu sambandi má t.d. minna á það, að mikill meiri hluti allra öryrkja á Íslandi er öryrkjar vegna þess, að þeir eru þjáðir af geðsjúkdómum. Og margir þessir geðsjúkdómar eru þannig, að unnt væri að lækna þá, ef þeir væru teknir til meðferðar nægilega snemma og við nægilega góð skilyrði. En til marks um það, hve alvarlegt ástandið er, þá get ég greint frá því, að læknir á þessu sviði sagði mér frá því fyrir nokkrum dögum, að það væri alveg öruggt, að árlega væru framin hér á Íslandi þó nokkur sjálfsmorð vegna þess, að geðsjúkt fólk, sem þarf að komast á sjúkrahús, kemst ekki þangað. Hér er því um mjög stórfellt alvörumál að ræða.

Ég minntist einnig á nauðsyn stóraukinnar aðstöðu til endurhæfingar. Þetta er einnig mikið stórmál. Vinnustofa sú, sem er á Kleppi og er ákaflega gagnleg, er annars eðlis. Hún á við fólk, sem hefur verið útskrifað af sjúkrahúsum, en þarf að dveljast um skeið á sérstökum vinnuheimilum til þess að aðlaga sig venjulegu umhverfi. Á þessu sviði hefur Geðverndarfélagið unnið mjög mikilvægt starf, eins og ég gat um áðan, með því að heita sér fyrir því að safna nærri 5 millj. kr. til þess að koma upp þremur smáhúsum á Reykjalundi, þó að þetta sé aðeins örlítil byrjun. En í þessu sambandi má minna á það, að Geðverndarfélagið mun vera hið eina af hliðstæðum félögum, sem ekki hefur neinn fastan tekjustofn til slíkrar starfsemi. Við höfum tryggt mörgum öðrum líknarfélögum tekjustofna af ýmsu tagi, happdrætti eða tiltekin gjöld af vörum, sem seldar eru í landinu, en Geðverndarfélagið hefur ekki fengið neinn slíkan tekjustofn. Ég hygg, að Geðverndarfélagið hafi sótt um það til Alþ. nú í vetur, að því yrði tryggður slíkur tekjustofn, og ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hæstv. ríkisstj. muni ekki fyrir sitt leyti vilja styðja þá beiðni.

Að lokum vil ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að hugmyndir hæstv. ráðh. um aðgerðir á þessu sviði eru að minni hyggju allt of smávaxnar og við þurfum sameiginlega, hæstv. ríkisstj. og Alþ., að leggja á ráðin um það, hvernig hægt er á sem allra skemmstum tíma að tryggja hér aðstöðu til þess að annast geðsjúklinga, aðstöðu, sem sé sambærileg við þá, sem bezt gerist annars staðar. Það er skylda okkar bæði við þá sjúku og við þjóðfélagið.