02.02.1970
Efri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það situr nú sízt á mér að tefja fyrir þessu máli með umr. Ég ætla ekki heldur að hafa mál mitt langt og um flest af því, sem hv, síðasti ræðumaður vék að og hafði nokkuð aðrar skoðanir á, en er í frv., það eru allt atriði þess eðlis, að vissulega getur sitt hvað sýnzt hverjum í því máli og má færa mörg rök með eða á móti, eins og um skipan stjórnar sjóðsins, hvort hún eigi að vera skipuð fulltrúum frá bankakerfinu eða vera þingkosin. Það má segja, að, að vissu leyti sé ekki ný stjórn, sem kemur þarna í kerfið, þar sem fulltrúar frá bankakerfinu eiga að mynda framkvæmdastjórnina, því að þetta eru mennirnir, sem hvort eð er eru í þessum málum og að það sé ofvaxið starfsþreki þeirra, það held ég að sé síður en svo, og ég held, að í mörgum tilfellum muni það mjög létta fyrir þeim að vera sjálfir þátttakendur í þessari framkvæmdastjórn. Ég held einnig, að það geti orðið hentugt fyrir viðskiptaaðilana, fyrirtækin, að geta einmitt rætt við þá fulltrúa bankakerfisins, sem eru jafnframt í þeirra viðskiptabanka, áður en málin koma til afgreiðslu eða eru lögð fyrir í sjálfri framkvæmdastjórninni. Er ég sammála hv. þm. um það, að ég geri ráð fyrir því, enda tel ég það eðlilegast, að það séu bankastjórarnir sjálfir, sem verði tilnefndir af bönkunum. Það er ekki okkar að segja til um það. Þessi mál koma auðvitað fyrir í bankaráðunum, yfirstjórn bankanna og þau tilnefna þá fulltrúa, en mín skoðun er sú, að það væri eðlilegast. Nú er orðin sú breyting á, að í flestum bönkunum, held ég að segja megi, séu aðstoðarbankastjórar, einn eða fleiri og ég segi það sem mína reynslu frá þeim tíma, sem ég var í rúman áratug bankastjóri Útvegsbankans, að í raun og veru ættu mörg af þeim störfum, sem bankastjórar verja miklum tíma til, að flytjast meira á hendur aðstoðarbankastjóra, þ.e. afgreiðsla minni háttar mála og sífelld viðtöl um minni háttar mál, þannig að þeir geti gefið sig meir, en aðstaða hefur verið til að stærri málum, stefnumörkun og mótun í sambandi við bankastjórnina. Og það hlýtur auðvitað að verða töluvert mikið um það í sambandi við framkvæmdastjórn eins og þessa að taka stefnumótandi ákvarðanir og leggja fyrir stjórn sjóðsins.

Það er rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði líka, að það er nokkuð óljóst um mörkin á milli stjórnar og framkvæmdastjórnar. Önnur er að vísu yfirstjórn hinnar tvímælalaust og það mun sjálfsagt ákvarðast í framkvæmdinni, hvor stjórnin það verður.

Ég vil taka alveg undir það, svo að það sé alveg ljóst, að það var ekki krafa hinna Norðurlandaþjóðanna, að þessi skipan væri á höfð. Hins vegar var það sameiginleg niðurstaða og sameiginleg skoðun allra samningsaðila. Það getur vel verið, að það hafi ráðið, að þeir hafi hugsað sem svo: Úr því að íslenzku aðilarnir eru á þessari skoðun, þá getum við ekkert haft við það að athuga.

Enn fremur segi ég það, að þegar þetta er komið í ganginn og farið að vinna og eins auðvitað, ef þykir ástæða til, þá ættu ekki að vera nein vandkvæði á því að taka þetta til umræðu. Ég er sammála hv. þm. um það, að ég geri ekki ráð fyrir því, að fulltrúar hinna Norðurlandanna létu sig það miklu skipta, en mundu segja sem svo, að þessu skyldum við ráða eins og okkur þætti bezt henta við okkar kerfi. En eins og aðstaðan er nú, þá er því miður ekki hægt að breyta frá þessu,– því miður, segi ég fyrir hönd þeirra, sem vildu hafa það öðruvísi, en sjálfur hef ég hins vegar þá skoðun, að þetta geti verið heppilegra fyrirkomulag.

Ég vil svo mega óska þess, eins og sakir standa og þar sem stendur nú til að fresta þinginu, að hv. n. geti hagað störfum sínum þannig, að málið geti orðið afgr. ekki síðar en á morgun hér í hv. deild.