26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3623)

905. mál, knattspyrnugetraunir

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. greinargóð svör við fsp. minni. Ástæðan til þess, að einn liður fsp. er á þá leið, hvort fyrirkomulag þessara getrauna sé í samræmi við lagaákvæði um Íþróttasjóð, er sú, að í lögum um þennan sjóð segir skýrt og greinilega:

Ríkisstj. er heimilt að veita íþróttanefnd leyfi til að reka veðmálastarfsemi í sambandi við íþróttakappleiki til ágóða fyrir Íþróttasjóð“.

Ríkisstj. er sem sagt heimilt að veita Íþróttasjóði þennan rétt. Spurningin er þá, hvort Íþróttasjóður eða stjórn hans hefur leyfi til þess að afsala sér þessum rétti í hendur öðrum aðilum, eins og nú hefur verið gert, þó að satt sé að vísu, að þetta sé aðeins til takmarkaðs tíma. En hvað sem því líður sýnist mér aðfinnsluvert, að þremur aðilum, einungis þremur aðilum, sem að íþróttum vinna í landinu, þ.e. ÍSÍ, KSÍ og Íþróttabandalagi Reykjavíkur, skuli hafa verið veittur allur rétturinn í þessu máli. Það er að vísu satt, að þessir aðilar eru þrír þeir atkvæðamestu á sviði íþrótta, en það eru fleiri aðilar, sem vinna ötullega á íþróttasviðinu með fjöldaþátttöku, öll ungmennafélögin, hvorki meira né minna. Og ég fullyrði, að meðal forustumanna ungmennafélagshreyfingarinnar gætir mikillar óánægju út af þessu máli; og þar er þess vænzt, að fyrirkomulagi starfseminnar verði breytt núna, þegar tækifæri gefst til þess, þegar gildistími fyrirkomulagsins, eins og það tíðkast nú, rennur út um nýárið; verði sem sagt breytt þannig, að ágóði af getraunastarfseminni renni til UMFÍ ekki síður en hinna þriggja aðilanna. Ágóðinn er að vísu ekki mjög mikill samkv. upplýsingum hæstv. menntmrh., hreinn ágóði tæpar 600 þús., en hann virðist aukast jafnt og þétt.

Það er víst, að fjárhagur Ungmennafélags Íslands er svo slæmur og stuðningur við það af opinberri hálfu svo skorinn við nögl, að það er kominn tími til þess að taka þessi mál öll til rækilegrar athugunar. Þessi gamli og mjög svo lofaði félagsskapur, með sína víðtæku starfsemi, héraðsmót, landsmót o.s.frv., hefur ekki ráð á því að halda opinni skrifstofu að staðaldri. UMFÍ hefur skrifstofu opna aðeins um sumarmánuðina allan daginn, en eins og nú stendur, t.d. yfir vetrarmánuðina, starfar þar skrifstofustúlka tvo tíma á dag, og ef menn þurfa að ná sambandi við þessa skrifstofu UMFÍ í sambandi við einhver vandamál ungmennafélagshreyfingarinnar, þarf að hitta á þann tíma, sem stúlkan situr þarna.

Menn skilji ekki orð mín svo, að ég vilji telja eftir tekjur ÍSÍ eða hinna tveggja aðilanna, sem hlotið hafa forréttindi í sambandi við getraunirnar. Þeir aðilar eru alls góðs maklegir að mínum dómi. En það verður að vera eitthvert samræmi í þessu. Menn athugi það t.d., að Íþróttabandalag Reykjavíkur fær eitt allra héraðssamtaka í landinu að njóta ágóðans af getraunasamkeppni. Hvers eiga hin samböndin að gjalda? Og menn ættu t.d. að athuga það, að ágóði ÍSÍ af getraununum er aðeins ofurlítil ábót á aðrar tekjur þess sambands. 3 millj. skilst mér að ÍSÍ fái af svo kölluðum sígarettupeningum og auk þess styrki margs konar til utanfara og annarrar starfsemi. Á meðan hefur UMFÍ fengið 400 þús. kr. alls til félagsstarfsemi, 50 þús. kr. til Þrastaskógar, þ.e. skógræktar, og 50 þús. kr. til starfsíþrótta, samtals 1/2 millj., og það er allt og sumt.

Mér er kunnugt um það, að stjórn UMFÍ hefur sent inn til fjvn. umsókn um, að framlag til starfsemi UMFÍ verði nú 1.6 millj. kr. Og ég skil ekki, — þegar tekið er tillit til stuðnings hins opinbera við önnur skyld samtök, eins og t.d. ÍSÍ, sem eru alls góðs makleg að mínum dómi, og ég vil undirstrika það, — en ég skil ekki, þegar þetta er athugað, að hægt sé að neita UMFÍ um þetta lítilræði.

Svo endurtek ég þakkir mínar til ráðh. fyrir svör hans.