26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

903. mál, raforkumál

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Þau upplýsa vissulega margt í þessum málum. Þó hefðu þau mátt vera fyllri, því að það eru ýmis atriði í fsp., sem hann telur ekki hægt að svara.

Ég er dálítið undrandi á einu atriði, sem þarna kom fram. Ráðh. mótmælir því, að það hafi átt sér stað, að línur hafi verið lagðar til býla, sem ekki hafi verið samþykktar í orkuráði áður. Ég þykist þó vita með vissu, að það hafi verið gert. Þó má vera, að viðkomandi hverfi hafi verið samþ. í ráðinu, nánast um leið og ákveðið var að tengja þau, ekki fyrir fram, sem þó er venja.

Það er kyndugur samanburður, sem hæstv. ráðh. var að gera á fjölda tengdra býla, eða öllu heldur á km-vegalengdinni á áratugnum 1949–1958 og 1959–1968, því að hér er alls ekki um sambærileg tímabil að ræða. Og ég vil benda á það, að þegar hæstv. ráðh. segir, að km-fjöldinn sé bezta viðmiðunin, þá er það náttúrlega alls ekki rétt. Línan sjálf, km-lengd hennar, er ekki nema hluti af kostnaði, því að svo koma spennistöðvar og heimtaugar o.s.frv., svo að km-fjöldinn er alls ekki rétti mælikvarðinn. Ég held, að þrátt fyrir viðleitni ráðh. til að mótmæla því, að mjög hafi dregið úr framkvæmdahraða við dreifingu raforkunnar í sveitir, sjái það þó allir menn, að sú er þróunin þessi síðustu árin, því miður. Það er viðurkennt, að ekki verði tengd í ár nema um 70 býli. Meðaltalið hefur verið lengst af frá því að stóraðgerðir hófust í þessum málum um 200 býli á ári, en er nú 70. — Enn er unnið á bilinu 1–1.5 km, svo að aukin vegalengd á milli bæja brúar ekki þetta bil, ekki nándar nærri. Það, sem mér þykir ömurlegast í sambandi við þessar umr., er það, að mér finnst það ekki koma fram, að ríkisstj. hafi uppi nein áform um að gera nú átak í þessum málum, hraða framkvæmdum og rífa þau upp úr því öngþveiti, sem þau eru komin í. Mér finnst það alls ekki koma fram í svörum ráðh. Það er það versta í þessu öllu saman.

Hæstv. ráðh. svaraði seinni liðunum, eftir því sem hann taldi fært. Hann sagði, að það væru til áætlanir um þetta. En það eru engar heildaráætlanir. Það eru gerðar áætlanir um, hvað það kosti að rafvæða á bilinu upp að 1.5 km, og hann nefndi þá tölu. Hann nefndi hins vegar ekki tölu um næsta bil fyrir ofan. Og hann skýrði ekki frá neinum heildaráætlunum, sem gefi til kynna, hvenær menn eigi von á rafmagni frá samveitu og svo hverjir alls ekki eiga von á því, enda tók hann það blátt áfram fram, að það þyrfti að meta upp að nýju það, sem lagt hefur verið til grundvallar tveggja km reglunni. Og út af fyrir sig er gott að heyra það.

Nei, það, sem hér þarf að gera, er að taka höndum saman um aukna tekjuöflun og stærri aðgerðir til þess að leysa þetta mál. Ég veit, að þetta kostar töluvert fé, en þetta er áreiðanlega ekki óviðráðanlegt og þetta er samfélagslegt vandamál. Ég heyri fjölmarga menn viðurkenna það, ekkert síður á orkuveitusvæðunum heldur en í hópi hinna, sem utan við standa, að þannig sé þetta, og það sé ekki vansalaust að láta líða ófyrirsjáanlega langan tíma þangað til því marki er náð, sem við getum kallað rafvæðingu alls landsins. Ég held, að hæstv. ráðh. væri maður að meiri, ef hann hreinlega viðurkenndi, að það er, eins og nú er komið, mjög erfitt um framkvæmdir í dreifingu rafmagns um sveitirnar, að það hefur hægt mikið á dreifingunni. Það er brýn nauðsyn að snúa þar við blaði. Hæstv. ráðh. hefur gert það áður, þegar í óefni var komið, að leita samstarfs við stjórnarandstæðinga um tiltekin mál, sbr. vegáætlunina í fyrra, og það með góðum árangri. Ég held, að hæstv. ráðh. hefði

einnig í þessu máli átt að leita víðtæks samstarfs um stærri aðgerðir en nú virðast fram undan.