26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 742 í D-deild Alþingistíðinda. (3638)

903. mál, raforkumál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar því, sem ég sagði áðan. Hæstv. raforkumrh. sagðist ekki geta fullyrt neitt um það, vegna hvers það hefði ekki verið reiknað með Tröllatunguheiði, þegar verið var að reikna út meðalvegalengd á milli bæja í Reykhólasveit og Geiradalshreppi. Það hefur engum manni dottið það í hug. Tröllatunguheiði er ekki vegalengd á milli bæja í þessum sveitum. Hann talaði um, að kostnaðurinn hefði þurft að leggjast á sveitina. Þetta er einhver misskilningur. Kostnaðurinn á háspennulínunni, sem lögð er yfir þessa heiði, Tröllatunguheiði, eða Kleifaheiði, kemur ekkert við sveitunum. Það er partur af rafvirkjuninni, sem tilheyrir ríkinu. Hér var aðeins verið að ræða um vegalengdina. Það er óhafandi, eins og ég hef tekið fram og hv. 9. þm. Reykv. hér áðan, það er óhafandi, að sum héruð eigi að búa við þessa reglu og önnur við allt aðra, gersamlega óhafandi. Barðastrandarhreppur er þéttbýll, og þar hefur enginn bær, það ég man eftir, farið í eyði núna í langa tíð, en íbúarnir bíða alltaf eftir rafmagni, og þeir fá engin svör, nema þá helzt þau, að þeir skuli ekki búast við línunni á næstunni. Það gerir heiðin. Auðvitað á ekki að reikna heiðina með, það á að leggja þessa línu yfir heiðina án þess að reikna það sveitinni til gjalda á neinn hátt. Og ég hef grun um það, að þetta sé eina sveitin á landinu, sem þannig er farið með, eða er nokkur slík sveit útilokuð frá raforku, af því að það þarf að leggja háspennulínuna yfir háls eða heiði? (Gripið fram í.) Er það til eystra? Og eru þær útilokaðar enn vegna þess? Ætli það væri þá ekki rétt að leiðrétta það ranglæti þar líka.

Hæstv. ráðh. sagði út af rafmagnslínu um Bæjarhrepp í Hrútafirði, að verkið tæki venjulega tvö ár. Ekki skyldi ég kvarta undan því, ef raforkulínan um Bæjarhrepp hefði komið á tveimur árum, en það eru liðin tvö ár síðan raforkuráð samþykkti þessa línu. Hæstv. ráðh. talaði um fyrri áfanga. Er hann nú búinn að skipta sveitinni í tvennt? Þetta var ekki nema einn áfangi, ein lína, sem samþ. var í raforkuráði, að honum sjálfum viðstöddum. En nú á að fara að skipta henni í tvennt. Já, það er hægt að skipta þessu svona í tvennt, það er hægt að skipta þessu í fernt og sjálfsagt meira og segja, að þessi áfangi verði kláraður þetta árið. En er einhver vinnuhagræðing að vera að þessu? Er þetta svo mikið átak? Ekki er hægt að kvarta undan vegalengdinni á milli bæja þarna.

Út af flugvellinum í Sandodda vil ég aðeins segja það, að hæstv. ráðh. segir, að þau hafi verið talin fullnægjandi, þessi ljós frá rafgeymum. Það var líka einu sinni talið fullnægjandi að lýsa alla Kaupmannahöfn með grút frá Íslandi. Ég veit það. Er þá ekki hægt að hafa slíka rafgeyma á flugvöllum annars staðar á landinu? Á það að vera stefnan í samgöngumálum okkar að segja: Þið getið notað rafgeyma þarna? Ég veit ekki til, að flugvél hafi lent á Sandodda í Patreksfirði í myrkri síðan hann var opnaður. Ég veit ekki til þess. Það kann að vera í slysatilfellum, en ég veit ekki til þess, að það hafi verið gert. Það er gersamlega óviðunandi að sætta sig við slíkt, að eiga að nota rafgeyma, ef mikið liggur á.

Ég vil að lokum enn hvetja hæstv. ráðh. til þess að beita sér fyrir átaki í rafmagnsmálunum, að fá fjármagn, fá lán til þess að koma hér verulegum áfanga áfram, því að hann yrði aldrei átalinn fyrir að beita sér fyrir slíku og hann mundi áreiðanlega hafa stuðning meiri hluta á Alþ. eða allra alþm. við slíka framkvæmd, svo mikið nauðsynjamál er þetta sveitunum, sem eru enn rafmagnslausar og sjá ekki fram á að fá raforku í náinni framtíð.