01.04.1970
Sameinað þing: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

144. mál, endurskoðun laga um þjóðleikhús

Fyrirspyrjandi (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. 20. jan. s.l. lagði ég fram svo hljóðandi fsp.: „Hefur ríkisstj. í hyggju að láta endurskoða lög nr. 86 frá 5. júní 1947, um þjóðleikhús, með tilliti til fenginnar reynslu?“

Það hefur dregizt nokkuð, að þessari fsp. væri svarað, af einhverjum ástæðum, og á meðan hefur það gerzt, að greint hefur verið frá því í blöðum, að hæstv. menntmrh. hafi skipað sérstaka n. til að endurskoða þessi lög, þannig að segja má, að hæstv. ráðh. sé þegar búinn að svara fsp. í verki. Engu að síður held ég, að það væri mjög fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildi gefa okkur nokkra vitneskju um það, hvernig hann hugsar sér, að þessari endurskoðun verði háttað, og hverjar hugmyndir hann hefur sjálfur um þau atriði í lögum um þjóðleikhús, sem hann telur að þyrfti að breyta. Þar hafa ýmis atriði verið gagnrýnd, svo sem alkunna er, t.a.m. ákvæðið um þjóðleikhússtjóra. Samkvæmt löggjöfinni, eins og hún er, er gert ráð fyrir því, að einn og sami maður annist fjárhagslegan rekstur Þjóðleikhússins og hafi þar listræna forustu. Þetta hafa margir gagnrýnt, og ég tel, að sú gagnrýni sé á rökum reist. Ég tel, að þessu embætti beri að skipta í tvennt, annars vegar eigi að vera rekstrarstjóri, maður, sem annast hina fjárhagslegu hlið á rekstri Þjóðleikhússins, og hann gæti sem bezt verið embættismaður eins og aðrir opinberir starfsmenn, en hins vegar tel ég að þar verði að vera listrænn framkvæmdastjóri, og ég tel algerlega fráleitt, að hann sé embættismaður sem geti setið í starfi sínu, á meðan honum endist starfsaldur til. Ég tel, að þetta starf sé þess eðlis, að í það eigi að velja menn til tiltekins tíma hverju sinni, 3–5 ára, eftir því sem mönnum sýnist, og skipta um, ef það er talið skynsamlegt. Við vitum allir, að enda þótt maður kunni að vera vel hæfur meðan hann er ungur, þá er ekki víst, að þeir hæfileikar nýtist honum allan starfsaldurinn, og það geta komið upp margvísleg ágreiningsefni milli hans og þeirra, sem starfa við slíka stofnun, og það gerir í sjálfu sér fráleitt, að þarna sé um að ræða fastan embættismann.

Annað atriði í lögunum, sem ég tel að þurfi að endurskoða, er ákvæði um þjóðleikhúsráð. Í lögunum stendur, að ráðh. skipi 5 menn í þjóðleikhúsráð og skuli 4 tilnefndir af stjórnmálaflokkunum, en einn af Félagi ísl. leikara. Engin ákvæði eru um það, hversu lengi menn skuli sitja í þessu ráði, og hefur það verið túlkað á þá lund, að menn skuli vera þarna eilífir augnakarlar eða meðan þeim endist aldur til. Þetta hefur haft býsna undarlegar afleiðingar. T.d. hefur það tíðkazt, að hæstv. menntmrh. hefur einnig átt sæti í þjóðleikhúsráði og verið þannig eigin undirmaður, sem ég tel algerlega óeðlilegt. Einnig hygg ég, að það sé mál flestra, sem kunnugir eru starfsemi Þjóðleikhússins, að þessi stofnun, þjóðleikhúsráð, hafi alls ekki gegnt því hlutverki, sem því var ætlað í upphafi, og hafi ekki haft þau áhrif á starfsemi leikhússins, sem nauðsynlegt er og vert væri.

Í lögum um þjóðleikhús er rætt um það, að eitt af skylduverkum leikhússins sé að halda skóla til eflingar íslenzkri leikmennt. Þetta hefur verið gert, svo sem kunnugt er, en þessi skóli hefur sætt mikilli gagnrýni, enda hefur hann hvorki verið fugl né fiskur. Þetta leiddi til þess, að Leikfélag Reykjavíkur reyndi um skeið að halda uppi eigin leikskóla, en varð það að sjálfsögðu ofvíða. Ég tel, að það sé algerlega óhjákvæmilegt að endurskoða þessa hlið á starfsemi Þjóðleikhússins einnig. Ég veit, að þetta mál er í sérstakri athugun, en það hlýtur einnig að falla að heildarendurskoðuninni um starfsemi Þjóðleikhússins.

Enn er um það rætt í lögunum, að Þjóðleikhúsinu beri að flytja sjónleiki utan Reykjavíkur, eftir því sem við verður komið, og vinna að eflingu leiklistar hvarvetna á landinu. Þetta hefur verið framkvæmt á þá leið, að Þjóðleikhúsið hefur aðstoðað leikfélög úti um land með búninga og annað því um líkt, og enn fremur hefur verið farið í leikferðir á næsta tilviljunarkenndan hátt. Ég tel, að það þyrfti að gera ráðstafanir til þess, að Þjóðleikhúsið yrði raunverulegt þjóðleikhús í miklu ríkari mæli en verið hefur. Þær hugmyndir hafa t.d. komið fram að hafa þannig skipulagstengsl á milli Þjóðleikhússins í Reykjavík og einstakra leikhúsa úti um land, að sumir leikarar Þjóðleikhússins gætu tekið að sér störf úti um land um tiltekinn tíma. Þetta held ég, að væri ákaflega skynsamleg hugmynd. Ég held, að það væri mjög ráðlegt í sambandi við endurskoðun laga um þjóðleikhús að hyggja að því, hvernig hægt sé að tengja saman þessa menningarstarfsemi um land allt og gera Þjóðleikhúsið að eins konar driffjöður fyrir þessa starfsemi úti um landið.

Ég vék áðan að því, að einn og sami maður hafi annazt rekstur Þjóðleikhússins og listræna forustu þess, og að ýmsar stofnanir, einkanlega þjóðleikhúsráð, hefðu ekki haft þau áhrif, sem fyrirhuguð voru í upphafi. Þannig mun vera um ýmsa fleiri þætti í starfsemi Þjóðleikhússins. Ég hygg t.d., að ákvæði reglugerðar um bókmenntaráðunaut og tónlistarnefnd hafi verið framkvæmd ákaflega gloppótt og að raunverulega hafi völdin verið hjá þjóðleikhússtjóra, hann hafi farið með raunverulegt einveldi. Mönnum getur sýnzt sitt hvað um það, hvernig honum hafi tekizt að fara með þau völd, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi, heldur hitt, að ég hygg, að þessi tilhögun, raunverulegt einveldi í slíkri stofnun, sé algerlega úrelt. Þróunin hefur orðið sú í löndunum umhverfis okkur, að í stofnunum eins og þjóðleikhúsum er farið að taka upp miklu nánari samvinnu við starfsfólkið í stofnuninni. Starfsfólkið á greiðari leið en áður að koma hugmyndum sínum á framfæri og gera athugasemdir sínar við starfsemina, og þetta hygg ég að þyrfti að gera hér einnig. Það þyrfti að koma upp einhverri sérstakri stofnun, annaðhvort með breyttri tilhögun á þjóðleikhúsráði eða annarri tilhögun, sem gerði starfsfólki Þjóðleikhússins kleift að taka virkari þátt en nú er í ákvörðunum um vinnubrögð og starfshætti leikhússins. Einnig þetta held ég að væri mjög mikilvægt að athugað yrði í sambandi við endurskoðun löggjafarinnar. En sem sagt, mér væri mikil forvitni að heyra hugmyndir hæstv. ráðh. um þessi atriði.