22.04.1970
Sameinað þing: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í D-deild Alþingistíðinda. (3942)

929. mál, snjómokstur á þjóðvegum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er spurt að því, hve miklu fé kostnaður ríkisins við snjómokstur hafi numið á þjóðvegum árin 1967, 1968 og 1969, hvert ár um sig. Kostnaður við snjómokstur á þjóðvegum undanfarin þrjú ár var eins og hér segir: Árið 1967 28 millj. kr., 1968 31.9 millj. kr., 1969 31.3 millj. kr.

Þá er spurt að því; hvernig kostnaðurinn skiptist á nokkra helztu þjóðvegi í landinu, þar sem mest var um snjómokstur. Sundurliðun á kostnaði við snjómokstur á einstökum þjóðvegum framangreind þrjú ár er ekki fyrir hendi. Til fróðleiks má þó geta þess, að kostnaður við snjómokstur á Norðfjarðarvegi, frá Eskifirði til Norðfjarðar, á yfirstandandi vetri, þ.e. okt.–apríl, er orðinn 850 þús. kr., og mun enginn þjóðvegur að tilsvarandi lengd vera með hærri kostnað á þessum vetri. Þetta er vitanlega af skiljanlegum ástæðum, vegna þess að þarna er snjóþungt. Ég hef leitað eftir greinilegra svari frá Vegagerðinni um þetta, en það liggur ekki fyrir sundurliðaður snjómokstur á hinum einstöku vegum. Hins vegar liggur hér fyrir skýrsla um það, hver kostnaðurinn hefur verið á vetrarviðhaldi á s.l. ári, en það lá ekki fyrir, þegar skýrsla um vegaframkvæmdir s.l. ár lá fyrir og var rædd hér, og vil ég því bæta því hér við. Það er vetrarviðhald þjóðvega fyrir árið 1969, sem er í aðalatriðum snjómokstur, þó að það sé að nokkru leyti viðgerð vegna vatnavaxta. Þá var það í Reykjaneskjördæmi 1 millj. 448 þús. kr. í Vesturlandskjördæmi 4 millj. 380 þús. kr. Í Vestfjarðakjördæmi 7 millj. 194 þús. kr. Í Norðurlandskjördæmi vestra 3 millj. 422 þús. kr. Í Norðurlandskjördæmi eystra 6 millj. 237 þús. kr. Í Austfjarðakjördæmi 7 millj. 725 þús. kr. Í Suðurlandskjördæmi 931 þús. kr. En ég hafði lesið hér upp í vetur sundurliðaðan kostnað við vetrarviðhald fyrir árin 1967 og 1968. Ég ætla ekki að endurtaka það, nema sérstaklega verði eftir því óskað.

Þá er spurt að því, hvaða reglur gildi um snjómokstur á þjóðvegum hjá Vegagerð ríkisins. Með heimild í 66. gr. vegalaga setti rn. Vegagerð ríkisins vissar starfsreglur um snjómokstur á þjóðvegum í desember 1967, og var þá um að ræða endurskoðun á reglum um sama efni, settum af rn. 1958. En nýju reglurnar eru allmiklu rýmri en þær eldri voru. Starfsreglur þessar eru æði margbrotnar eftir þeirri atvinnulegu þýðingu, sem hinir einstöku vegir hafa, svo sem í sambandi við mjólkurflutninga og því um líkt. Meginreglan er að veita nauðsynlega lágmarksþjónustu við viðráðanlegum kostnaði, og er þá reynt að samræma opnunardaga áætlunarferðum, flugsamgöngum og því um líku. Getur verið um að ræða allt frá því að moka eftir þörfum upp í mokstur einu sinni í mánuði, að fullu á kostnað Vegasjóðs. Um þá vegi, sem ekki eru mokaðir algerlega á kostnað Vegasjóðs, gildir sú meginregla, að þeir eru mokaðir gegn helmingsframlagi úr héraði. Um framkvæmd á þessum reglum gildir enn fremur sú meginregla, að ekki er lagt í snjómokstur nema því aðeins, að það sé talið tæknilega framkvæmanlegt vegna veðurs og fjárhagslega viðráðanlegt vegna kostnaðar.