02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

116. mál, verslunaratvinna

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Að gefnu tilefni tel ég rétt að gefa við þessa umr. hliðstæða yfirlýsingu varðandi væntanlega framkvæmd þeirra lagaákvæða, sem hér er lagt til að verði lögtekin og hæstv. iðnrh. gaf hér fyrr í dag varðandi væntanlega framkvæmd á ákvæðum þeirra l., sem þá voru til 1. umr., þ.e. frv. til l. um breyt. á l. um iðju og iðnað. Ef leyfisveitingar koma til minna kasta sem viðskrh. samkvæmt þessu frv., mun ég ræða málið í ríkisstj. og afstaða ríkisstj. í heild mun þar verða látin gilda, svo sem venja er í mikilvægum málum eins og þessu. Ég geri og ráð fyrir því, að ef um alveg sérstök vandamál er að ræða í þessu sambandi, muni verða leitað til Alþ., þannig að augljóst megi telja, að meiri hl. Alþ. standi að baki mikilvægum ákvörðunum í þessum efnum. Ég get einnig bætt því við, sem hæstv. iðnrh. sagði áðan, að ég tel það mjög koma til athugunar, að hlutaðeigandi ráðh. veiti Alþ., skömmu eftir að það hefur komið saman, skýrslu um þau mál, sem komið hafa til kasta ráðh. um þetta efni, hvort sem um synjun á leyfisveitingu hefur verið að ræða eða samþykkt á henni. En að sjálfsögðu verða leyfisveitingar birtar, þær eru að sjálfsögðu opinberar. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að frá synjunum verði skýrt í opinberum skjölum. En ég tel, að það sé jafneðlilegt, að Alþ. fái vitneskju um synjanir eins og samþykktir og tel rétt, að ríkisstj. taki það til athugunar, með hverjum hætti hún getur tryggt það, að Alþ. fái að fylgjast nákvæmlega með því, sem gerist, í framhaldi af þeirri tvöföldu lagasetningu, sem hér er gert ráð fyrir. Ég tel sjálfsagt, að Alþ. viti nákvæmlega, hvað í þessum efnum er að gerast, hvort sem beiðni er samþ. eða henni er synjað, enda starfa ráðh. sjálfsagt á ábyrgð Alþ. við ráðstafanir eins og þessar.