16.12.1969
Neðri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

95. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft frv. þetta til athugunar og eins og fram kemur á þskj. 178, nál., mælir n. með því, að frv. verði samþ. Í frv. er fólgin heimild til Happdrættis Háskóla Íslands til að auka happdrættið. Á s.l. þingi voru samþ. lög um aukningu frá því, sem þá hafði verið, úr tveimur flokkum í þrjá. Fyrirkomulag happdrættisins mun vera með þeim hætti, að mjög óhentugt er að láta flokkatöluna standa á oddatölu. Hefur happdrættið óskað eftir því, að heimildin frá í fyrra verði hækkuð, þannig að heimilað verði að gefa út fjóra flokka hlutamiða, eins og segir í frv., E—, F—, G— og H—flokk, sem þá um leið þýðir, að lagabreyting sú, sem átti sér stað á s.l. þingi, fellur úr gildi og þeir flokkar, sem happdrættið hingað til hefur verið með, falla úr gildi.

Formaður stjórnar Happdrættis Háskóla Íslands, Guðlaugur Þorvaldsson prófessor, hafði samband við n., svo og framkvæmdastjóri happdrættisins og létu n. í té eftir beiðni formanns n. bréflegar upplýsingar varðandi þær fsp., sem fram komu hér í d. við 1. umr. Bréf happdrættisins er birt hér sem fskj. og tel ég, að með þeim svörum, sem koma fram í bréfinu, sé fullnægt þeim upplýsingum, sem óskað var eftir hér við 1. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, en eins og ég áður sagði, leggur fjhn. þessarar d. til, að frv. verði samþ.