13.11.1969
Efri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

80. mál, almannatryggingar

Jón Árnason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, til þess að láta í ljósi ánægju yfir framkomu þessa frv.

Það var hinn 17. apríl 1968, sem Alþ. samþ. till. til þál., sem ég ásamt nokkrum fleiri alþm. bar fram og var efnislega það, sem þetta frv. felur í sér. – Með frv. þessu, ef að lögum verður, er stigið stórt spor í átt að aukinni samhjálp á sviði sjúkratryggingamála. Það er kunnara en frá þurfi að segja, hve miklir erfiðleikar hafa á stundum átt sér stað hjá efnalitlum einstaklingum, þegar til þess hefur komið, að sjúkdóm, sem ekki hefur verið aðstaða til að veita læknishjálp við hér á landi, hefur borið að höndum.

Á fjárl. yfirstandandi árs er varið 700 þús. kr. til þess að aðstoða í þessu skyni. Þessari upphæð var skipt á milli 20 sjúklinga, sem leita þurftu læknishjálpar erlendis á yfirstandandi ári. En auk þess voru um 6 sjúklingar, eftir því sem landlæknir upplýsir, sem ekki gátu fengið neinn styrk að þessu sinni og bíða því eftir að fá frekari fyrirgreiðslu nú þegar. Gera má ráð fyrir, að tala þeirra, sem þannig stendur á um, verði orðin a.m.k. 8–10 um áramót.

Ég er þess fullviss, að mál þetta muni hljóta óskiptan stuðning á Alþ. og eiga því öruggan framgang. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en vil aðeins láta ánægju mína í ljós yfir því, að frv. þetta er fram komið.