21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. í tilefni af orðaskiptum hæstv. raforkumrh. og hv. 4. þm. Reykv. um samninga þá, sem gerðir voru hér á landi, í samanburði við samninga annars staðar. Það vill svo vel til, að ég get greint frá vitnisburði manns, sem ætti að vera býsna vel dómbær um þá hluti. Þessi maður er Emanuel R. Meyer, aðalframkvæmdastjóri Swiss Aluminium. Ég hitti hann fyrir 2 árum, þegar hann kom til landsins og gat lagt fyrir hann nokkrar spurningar. Ég spurði hann m.a. að því, hvort auðhringurinn hefði nokkurs staðar annars staðar í Evrópu náð samningum um jafnlágt raforkuverð og á Íslandi.

Hann svaraði því til, að verðið á Íslandi væri langlægsta verð, sem hringurinn greiddi í Evrópu. Ég spurði hann að því, hvort ákvæðin um skatta, þ.e. sérsamningurinn um skattgreiðslur fyrirtækisins, væru hliðstæð samningum í öðrum löndum. Hann kvað það ekki vera og hann sagði, að þetta væri algert einsdæmi. Ég spurði forstjórann raunar einnig að því, hvort þess væru dæmi í öðrum löndum, að þessi auðhringur væri óháður dómstólum landsins sem hann starfaði í, — en það atriði var sem kunnugt er í samningunum hér, að það verði ekki íslenzkir dómstólar, sem fjalla um ágreiningsefni, sem koma upp við auðfélagið. Hann svaraði mér því, að þetta ákvæði væri algert einsdæmi.

Ég hefði getað spurt framkvæmdastjórann um fleira, ef ég hefði haft hugkvæmni til þess, en ég hafði satt að segja ekki forspá til þess að spyrja hann um það, hvernig kaupi við verksmiðjuna væri háttað í samanburði við kaup annars staðar, enda var málið ekki komið á þann grundvöll þá, að hægt væri að sjá það fyrir. En nú hygg ég, að kaupgjaldið, sem greitt er hér á Íslandi til starfsmanna verksmiðjunnar, sé lægra en í öllum öðrum Evrópulöndum. Okkur var sagt að það væri einn ávinningurinn af því að semja við þetta erlenda auðfélag, að þarna fengi hópur manna vinnu. En nú er búið að ganga þannig frá launum, sem þeir fá greidd fyrir vinnuna, að þau eru lægri en í nokkru öðru landi í Evrópu. Ég veit raunar ekki til þess heldur, að það atriði, sem tekið var upp í samningum við verkalýðsfélögin og gerir lítt framkvæmanlegt eða óframkvæmanlegt fyrir verkalýðsfélög að gera verkföll í þessu fyrirtæki, jafnvel þótt þau telji sér það nauðsynlegt, sé í samningum við álbræðslur í öðrum löndum, a.m.k. sá ég það í nýjustu skýrslu framkvæmdastjórans, að hann talaði um erfiða afkomu fyrirtækja sinna á Ítalíu, vegna þess að rekstur þeirra hefði truflazt af vinnudeilum. Þar virðast því ekki vera slík ákvæði.

Ég hygg, að það sé alveg sama, hvar borið er niður í sambandi við þessa samninga, sem íslenzk stjórnarvöld hafa gert við Swiss Aluminium. Ég held að öll ákvæði samninganna, hvert eitt og einasta, séu lakari en hliðstæðir samningar, sem dæmi eru um í öðrum löndum.