21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég get alveg verið sammála hæstv. raforkumrh. um það, að það muni vera gett fyrir hann að lesa aftur raforkusamninginn og það, sem í honum felst og kom fram í sambandi við umr., sem fóru fram hér á Alþ., þegar um hann var rætt, því að nú í þessum umr. hefur komið fram grundvallar misskilningur hjá hæstv. ráðh. í sambandi við þessi mál. Hann virðist álíta og heldur því fram, að framleiðslugjaldið svokallaða sé þannig til komið, að með því sé verið að bæta Íslendingum það upp, að samið var um of lágt rafmagnsverð. Það er ekki minnsta samband á milli Framleiðslugjaldsins og raforkuverðsins. Framleiðslugjaldið er þannig til komið, að í staðinn fyrir það, að álbræðslan greiði tekju– og eignarskatt samkvæmt íslenzkum l., þá greiðir hún þetta framleiðslugjald. Og það var reynt að finna það út eftir einhverju mati, að framleiðslugjaldið væri nokkuð svipað því, sem álbræðslan mundi hafa þurft að greiða í tekjuskatt og eignarskatt samkvæmt þeim 1., sem þá voru í gildi. Það var náttúrlega ákaflega erfitt að meta þetta, vegna þess að hér var fyrst og fremst miðað við rekstraráætlun, sem fyrirtækið sjálft hafði gert og þess vegna var ákaflega erfitt að segja til um það, hvað það mundi raunverulega hafa greitt í tekju– og eignarskatt, ef það hefði verið háð venjulegri íslenzkri löggjöf um þetta efni. Í Noregi er þetta þannig, að álbræðslur verða að greiða þar skatta eins og önnur fyrirtæki. Þær hafa ekki neinar undanþágur í þessu efni.

Ráðh. hefur verið að tala um, að það væru mjög lágir skattar á álbræðslum í Noregi. Það er nákvæmlega sama skattákvæðið, sem gildir um álbræðslur þar og um önnur fyrirtæki og ef þær græða, sem þær hafa yfirleitt gert á síðari árum, þá geta skattarnir orðið mjög háir. Auk þess er það, að álbræðsla í Noregi býr ekki við neitt öryggi í þessum efnum, eins og t.d. þetta fasta framleiðslugjald. Þingið og ríkið getur hvenær sem er hækkað skattana, ef það telur það rétta aðferð, og þá verður álbræðslan þar að lúta því eins og önnur fyrirtæki. Með þessu framleiðslugjaldi hér býr álbræðslan við algjört öryggi í þessum efnum, því hún veit alveg, hvað hún þarf að greiða og á ekki neina hættu yfir sér vegna breytinga, sem kunna að verða á skattalögum.

Það er ekki hægt fyrir okkur að fullyrða neitt um það, hvaða skattar það eru, sem álbræðslur greiða nú í Noregi, hvort það er hærra eða lægra en framleiðslugjaldið. Það mætti segja mér, að það væri miklu hærra. Hitt er það, að á vissum tíma í Noregi, þegar gekk yfirleitt hálfilla með álbræðslurekstur í heiminum og fyrirtækin þar voru nýlega tekin til starfa með þessar miklu afskriftir, þá greiddu þau ekki tiltölulega háa skatta. En það segir ekkert um þáð, hverjar skattgreiðslurnar eru í ár eða hverjar þær koma til með að verða, vegna þess að það er alveg háð afkomu fyrirtækisins. Það gæti kannske í sumum tilfellum orðið eitthvað lægra heldur en sem svarar framleiðslugjaldinu hér, ef reksturinn gengi illa. En það getur líka orðið margfalt framleiðslugjald, ef reksturinn gengur vel, eins og yfirleitt gengur hjá álbræðslunum í dag.

Hitt er reginmisskilningur, sem ráðh. var að halda hér fram áðan, að það hafi verið samið um framleiðslugjaldið sem einhverja uppbót á raforkuverðið. Það eru ekki nokkur tengsl þar á milli. Framleiðslugjaldið kemur í staðinn fyrir tekju– og eignarskatt, sem og útsvar, sem fyrirtækið hefði annars orðið að greiða. Það er eingöngu látið vega á móti því, en ekki hinu. Þess vegna er það herfilegur misskilningur hjá ráðh., að framleiðslugjaldið sé til þess að bæta upp raforkuverðið. Það sýnir það, að hann þarf að lesa um þessi mál betur, áður en hann getur tekið þátt í þeim umr., sem eru hér á Alþ.