19.01.1970
Efri deild: 35. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

9. mál, Rafmagnsveitur ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það til l., um breyt. á l. um ráðstafanir til þess að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, til staðfestingar brbl., sem sett voru í sumar, hefur hlotið afgreiðslu í Nd. og er nú komið þaðan. Aðalefni þess er, í fyrsta lagi, að leggja á verðjöfnunargjald, sem verja skal til bóta á fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar sjóðsins, og í öðru lagi er það nýmæli í frv. og brbl., að sett er sérstök þriggja manna stjórn yfir Rafmagnsveitur ríkisins. Af þeim er einn skipaður samkvæmt till. Sambands ísl. rafveitna. Ráðh. skipar formann stjórnarinnar. Stjórnin hefur með höndum stjórn Rafmagnsveitna ríkisins undir yfirstjórn ráðh., og ákveður ráðh. starfshætti og starfskjör stjórnarinnar.

Ég mun ekki að svo komnu hafa frekari grg. fyrir þessu frv., en ef n. sú, sem fær málið til meðferðar, þyrfti á frekari skýringum að halda, þá mun ég að sjálfsögðu láta þær í té, en eins og kunnugt er, hefur sú breyting orðið á skipan mála, að raforkumálin hafa flutzt til iðnrn. núna um áramótin.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.