20.10.1969
Sameinað þing: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1970 og ýmsum þáttum ríkisfjármála, sem nú eru ofarlega á dagskrá, mun ég í stórum dráttum skýra afkomu ríkissjóðs 1968 og horfur á yfirstandandi ári.

Því miður er ríkisreikningurinn síðbúnari nú, heldur en verið hefur mörg undanfarin ár, enda þótt sleitulaust hafi verið unnið síðustu mánuði að reikningsuppgjöri. Er heildar uppgjörinu nú raunverulega lokið í ríkisbókhaldinu, en ekki hefur tekizt að prenta reikninginn fyrir þm. Mun þó á þessum fundi liggja handrit af talsverðum hluta reikningins, sem gefur heildarmynd af afkomu ársins. Orsök hins síðbúna uppgjörs er fyrst og fremst sú, að reikningur ársins 1968 er hinn fyrsti, sem saminn er í samræmi við hin nýju l. um ríkisbókhald, gerð ríkisreikninga og fjárlaga og er því þessi ríkisreikningur bæði varðandi gerð og innihald í veigamiklum atriðum frábrugðinn fyrri ríkisreikningum. Gefur þessi reikningur tvímælalaust miklu gleggri mynd af ríkisbúskapnum og víðtækari upplýsingar en eldri reikningar, en samning slíks samræmds reiknings fyrir alla starfsemi ríkisins hefur í reynd haft í för með sér mun meiri vinnu, mun fleiri úrlausnarefni en þá, sem að þessu verki unnu, óraði fyrir. Kröfur, sem gerðar eru til reikningsskila, eru nú allt aðrar og meiri en verið hefur undanfarin ár. Auk þess hefur það valdið nokkrum töfum, að mannaskipti urðu í embætti ríkisbókara á árinu. Þótt uppgjör ríkisreiknings í hinu nýja formi hafi þannig reynzt miklum mun seinunnara og vandasamara, en gerð hinna fyrri ríkisreikninga, skal tekið fram, að mestur hluti þessarar vinnu felst í kerfisbreytingunni og veldur því aðeins erfiðleikum í þetta eina skipti, þannig að góðar horfur eru á, að þegar á fyrri hluta ársins 1970 liggi fyrir endanlegar reikningsniðurstöður varðandi afkomu ríkissjóðs á árinu 1969.

Til þess að geta gert sér glögga grein fyrir niðurstöðum ríkisreikningsins fyrir árið 1968 er nauðsynlegt að hafa í huga eina grundvallarbreytingu, sem gerð var með hinum nýju l. um gerð ríkisreiknings og fjárlaga og leiðir til þess, að verulegur talna mismunur hlýtur að jafnaði að verða á milli fjárl. og ríkisreiknings viðkomandi árs, enda þótt heildarafkoma ríkissjóðs liggi á þennan hátt miklu ljósara fyrir, þegar málið er skoðað niður í kjölinn. Ríkisreikningurinn í núverandi formi er rekstrarreikningur og efnahagsreikningur sambærilegur reikningum fyrirtækja, þar sem allar færslur eru miðaðar við það, hvenær kröfur og skuldbindingar verða til. Eru þannig færðir til tekna á árinu allir álagðir skattar og gjöld bókfærð, sem vitað er um, án tillits til, hvort skattarnir eru innheimtir eða gjöldin greidd á árinu. En að svo miklu leyti sem svo er ekki er í árslok annaðhvort um að ræða útistandandi fjárkröfur ríkissjóðs eða lausar skuldir.

Efnisuppsetning fjárlaga er hins vegar óbreytt með hinum nýju l., svo að fjárl. gera nú eins og áður í megindráttum ráð fyrir þeim tekjum, sem áætlað er að innheimtist á viðkomandi fjárlagaári og gjöldum, eins og ætla má, að þau falli til greiðslu. Á þessum tveim aðferðum þarf ekki að vera verulegur mismunur í niðurstöðutölum, en getur þó verið það og þarfnast þá sérstakra skýringa.

Áætlaðar heildartekjur samkv. fjárl. 1968 voru 6.241 millj. kr. Í því sambandi er þó bezt að hafa í huga, að fjárlagatekjur ársins voru miðaðar við 250 millj. kr. tollalækkun í upphafi ársins 1968, en vegna fjárskorts hjá ríkissjóði vegna nýrrar aðstoðar við sjávarútveginn í ársbyrjun 1968 var tollalækkunin 160 millj. kr., svo að raunverulega á að bæta við tekjulið fjárl. 90 millj. kr. Þannig voru fjárlagatekjur raunverulega áætlaðar 6.331 millj. kr. Álagðar eða tilfallnar rekstrartekjur á árinu, sem færast til tekna í ríkisreikningi, samkv. gildandi reglum, urðu hins vegar 6 milljarðar 741 millj. kr., eða 410 millj. hærri en fjárlög áætluðu. Innheimtar ríkistekjur á árinu reyndust 6.518 millj. kr., eða 187 millj. umfram fjárl. Stærsti liðurinn í umframtekjum ríkissjóðs á árinu var 20% innflutningsgjaldið, sem á var lagt samkv. brbl. nr. 68 1968, en af því voru innborgaðar á árinu rúmlega 213 millj. kr. Sú fjárhæð lækkaði um 21 millj. kr. á árinu 1969 vegna lögákveðinna endurgreiðslna í sambandi við gengisbreytinguna. Innflutningsgjöld af benzíni og hjólbörðum, sem renna til Vegasjóðs, urðu 61 millj. kr. hærri en þegar fjárl. voru gerð, enda voru þessi gjöld hækkuð með breyt. á vegal. fyrri hluta ársins. Almennar tollatekjur urðu 66 millj. kr. hærri en á fjárlagaáætlun og aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum urðu 299 millj. kr. hærri en fjárl. ráðgerðu, en þær tekjur renna allar til uppbyggingar sjónvarps. Persónuskattar, aðallega vegna almannatrygginga, voru áætlaðir 503 millj. kr., en reyndust álagðir 553 millj. kr., en 494 millj. kr. innheimtust af þessari upphæð á árinu. Tekjuskattar voru í fjárl. áætlaðir 560 millj., en reyndust við álagningu 635 millj., en innheimtust 590 millj. Ber þetta vott um erfiðleika við innheimtu ýmissa skatta, en er þó e.t.v. ekki lakari útkoma en við mátti búast miðað við fjárhagsörðugleika almennings og fyrirtækja á þessu ári. Þegar vaxandi óinnheimtar eftirstöðvar eru skoðaðar, má heldur ekki gleyma því, að þær upplýsingar, sem liggja fyrir í þessu efni, gefa að mestu leyti raunsanna mynd af stöðunni. Það hefur verið tíðkað fram á síðustu ár, að öll innheimta innheimtumanna fyrstu mánuði ársins, oft langt fram á árið, var færð til tekna á árinu á undan og þannig fengin sýndarniðurstaða um eftirstöðvar hagstæðari, en hún raunverulega var. Fjmrn. hefur hins vegar nú lagt megináherzlu á lokun reikninga innheimtumanna strax á áramótum til þess að geta séð raunverulega stöðu og miðað aðgerðir sínar við hana.

Launaskattur var í fjárl. áætlaður 107 millj. kr., en reyndist álagður 143 millj., en innheimtar voru 130 millj. Tekjustofnar, sem skiluðu hlutfallslega mjög góðum tekjum, þótt ekki nemi eins háum fjárhæðum og hér hafa verið ræddar, eru rekstur Keflavíkurflugvallar, sem skilaði 18 millj. kr. í ríkissjóð, eða tvöfaldri áætlunarfjárhæð og fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli, sem skilaði 4 millj. kr., eða nær 70% umfram áætlun. Nettótekjur af rekstri þessara stofnana voru enn meiri. Ýmsir tekjustofnar gáfu aftur verulega minni tekjur en ráðgert var í fjárl. Innflutningsgjald af bifreiðum og bifhjólum nam aðeins 2/3 af fjárlagaáætlun, eða 47 millj. kr. lægra en áætlun. Söluskattur var áætlaður 1.355

millj. kr. Var hann álagður 1.303 millj., en ekki innheimtust nema 1.247 millj., eða 107 millj. kr. undir áætlun. Tekjur af sölu Áfengis– og tóbaksverzlunar ríkisins voru áætlaðar í fjárl. 692 millj., en urðu einungis 682 millj. þrátt fyrir verðhækkun í byrjun ársins, sem ætlað var að gefa um 40 millj. kr. auknar tekjur. Auk þess átti verzlunin 11 millj. kr. minna í áfengisbirgðum í árslok en var í ársbyrjun, enda hefur verið lögð sérstök áherzla á að minnka það vörumagn, sem verzlunin liggur með hverju sinni af kostnaðarástæðum. Flestir aðrir tekjustofnar gáfu heldur minni tekjur en áætlað var.

Rekstrarútgjöld ríkissjóðs samkv. fjárl. ársins 1968 voru áætluð 6.139.7 millj. kr. Með l. nr. 5 1968 um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda var ákveðið, að fjárveitingar samkv. fjárl. skyldu lækka sem nam 200.4 millj. kr. Ýmsir svokallaðir markaðir tekjustofnar, sem færðir eru ríkissjóði til tekna í fjárl., en renna eiga til ákveðinna þarfa og miðast hverju sinni við það, sem raunverulega innheimtist, urðu 19.3 millj. kr. lægri en fjárl. gerðu ráð fyrir. Aftur á móti urðu aðrir markaðir tekjustofnar 247 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlun. Þar sem hér er um lögboðin gjöld að ræða, verða þau að teljast til hækkunar fjárlagaheimildum, en hafa raunverulega engin áhrif á afkomu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Útgjöld á lánahreyfingum voru í fjárl. ársins áætluð 50.4 millj., en við þessar tölur bætast hinar sérstöku lántökuheimildir í l. um lækkun ríkisútgjalda og framkvæmdaáætlun fyrir árið 1968, sem námu samtals 86.8 millj. kr. Sérstakar heimildir til ríkisútgjalda til viðbótar fjárlagaheimildum er að finna í l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins nr. 13/ 1968, bæði fiskuppbætur og fiskvinnslustyrkir, sem samtals námu 202 millj. kr., og ennfremur í l. nr. 58/ 1968 um stofnfjársjóð fiskiskipa, sem námu samtals 124 millj. kr. Þá var loks sérstök útgjaldaheimild í l. nr. 12/ 1968 um viðauka við l. um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, sem nam 12.5 millj. kr. Útgjöld samkv. fjárl. og þeim sérstöku lagaheimildum, sem hér hafa verið nefndar, námu því samtals 6.634.7 millj. kr., en í þessari tölu eru ekki taldar með geymdar fjárveitingar, sem notaðar voru á árinu. Gjöld rekstrarreiknings árið 1968, eins og hann liggur nú fyrir, urðu því 6.906.7 millj. kr. Rekstrarútgjöld ársins hafa þannig orðið 262 millj. kr. umfram fjárlagaheimildir og þær sérstöku lagaheimildir, sem Alþ. samþykkti og ég hef nefnt. Útborganir úr ríkissjóði á árinu 1968 voru 225 millj. kr. hærri en fjárlagatalan, svo breytt.

Svo sem framangreindar upplýsingar leiða glöggt í ljós, voru á árinu 1968 gerðar víðtækar breyt. á fjárl., bæði útgjalda— og teknamegin, með sérstökum l., sem verða að teljast ígildi fjárl. Vaknar óneitanlega sú spurning, hvort hér sé ekki um óheppilega aðferð að ræða að taka slíkar ákvarðanir án þess að endurskoða um leið heildarmyndina af afstöðu ríkissjóðs. Það kæmi því vel til greina að taka fremur upp form fjáraukal. fyrir allar slíkar heimildir, hvort heldur væri til útgjalda eða lántöku.

Skal þá nokkuð að því víkja, hvernig útgjöld á vegum einstakra ráðuneyta hafa orðið í reynd á árinu 1968. Fjárveitingar til æðstu stjórnar ríkisins námu 46.1 millj. kr., en rekstrargjöldin urðu 49.3 millj. Reksturinn er þannig umfram fjárl. 3.2 millj., að mestum hluta vegna Alþ. Heildar fjárveiting til forsrn. og menntmrn. var 976 millj. kr., en niðurstaða rekstrarreiknings er 990.1 millj., eða nær 14 millj. kr. hærri en fjárl. Liðurinn Söfn, listir og önnur menningarmál fór rúmar 30 millj. kr. fram úr upphaflegri fjárlagaáætlun. Skýringin er, að tekjur af aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum fóru fram úr áætlun, sem þessu nam, en þær tekjur voru jafnóðum greiddar af Ríkisútvarpinu til uppbyggingar sjónvarpskerfinu. Útgjaldaheimildir utanrrn. samkv. fjárl. voru 92 millj. kr., en bókfærð og greidd rekstrargjöld á vegum þess á árinu voru tæpar 108 millj. Hér ber þrennt til. Á sviði utanrrn. var áætlað að lækka útgjöld samkv. l. um lækkun ríkisútgjalda um 5 millj. kr., en sú útgjalda lækkun náðist einungis að óverulegu leyti. Á árinu 1968 var ennfremur haldinn utanríkisráðherrafundur NATO–ríkja hér á landi, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárl., en hann olli umframgreiðslum, sem námu nokkuð á 7. millj. kr. Þá eru gjaldfærð meðal rekstrargjalda utanrrn. kaup á ambassadorsbústað í Brüssel, sem fram fóru á árinu, en ekki voru tekin með í fjárlagaáætlun. Íbúð, sem ríkið átti í París, síðan þar voru tveir sendiherrar, var seld gagngert til að standa straum af þessum húsakaupum. Söluverðið nægði fyrir kaupunum og færist meðal tekna ríkissjóðs. Greiðsluheimildir atvmrn. að meðtöldum öllum breyt., sem gerðar voru með sérstökum l. eftir setningu fjárl., námu sem næst 1.110 millj. kr. Bókfærð rekstrargjöld urðu 1.203 millj., en útborganir á árinu námu 1.221 millj. Skýringar á þessum mismun eru aðallega tvær. Útgjöld til landbúnaðar fóru fram úr á rekstrarreikningi, sem nam 22 millj. kr. vegna lögbundinna framlaga til landbúnaðar, einkum jarðræktar og framræslu. Samkv. rekstrarreikningi urðu útgjöld vegna sjávarútvegsmála rúmlega 53 millj. kr. hærri en áður greindar lagaheimildir, en meginhluti þeirrar fjárhæðar eru útgjöld, sem féllu til á árinu 1968 vegna framkvæmda l. nr. 4 1967 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins á því ári. En ýmsar skuldbindingar samkv. þeim l. urðu mjög seint virkar. Heildar útgjalda heimildir dóms— og kirkjumálarn. námu 694 millj. kr. Bókfærð gjöld á árinu urðu 765 millj. Útgjöld vegna heilbrigðismála urðu um 36 millj. kr. hærri en fjárl. ráðgerðu, þ.e. 22 millj. kr. vegna Landsspítala. Kostnaður við dómgæzlu og lögreglumál hefur fallið til á árinu sem nemur 37 millj. kr. umfram fjárl. Stafar rúmlega helmingur þeirrar fjárhæðar af rekstrarkostnaði umfram áætlun hjá ýmsum embættum á vegum rn. Með l. um lækkun ríkisútgjalda var gert ráð fyrir að lækka allverulega kostnað við löggæzlu, en þó var að vísu jafnframt tekið fram, að hæpið væri, að auðið yrði að ná þeirri lækkun á árinu 1968. Enda fór það svo, að þessi áætlaði sparnaður varð ekki raunverulegur og löggæzla fór 9 millj. kr. umfram fjárlagaheimildir. Ennfremur fór kostnaður við ýmis embætti sýslumanna og bæjarfógeta, svo og hegningarhúsið, Litla-Hraun og Bifreiðaeftirlitið nokkuð fram úr fjárlagaheimildum. Að öðru leyti er hér um að ræða kostnað við hægri umferð, sem gjaldfærist á árinu, en eins og kunnugt er var hann að hluta greiddur á árinu 1968 með lántöku, sem síðar mun endurgreiðast af sérstakri skattlagningu, en gjaldfærist engu að síður, þegar útgjöldin falla til og virkar þá sem útgjöld umfram fjárl. Fjárlagaheimildir félmrn. með þeim leiðréttingum, sem hér hafa verið gerðar, námu 1.975 millj. kr., og gjaldfærð var á árinu svo til sama fjárhæð.

Fjárlagaheimildir fjmrn. námu á árinu 1968 367 millj. kr. Sú fjárhæð er þó of há að því leyti, að þar er með talin fjárveiting til að greiða mótframlag ríkissjóðs á móti lífeyrisiðgjaldi allra starfsmanna ríkisins. Þetta mótframlag hefur verið gjaldfært hjá hverri stofnun sem hluti af hennar launakostnaði, þannig að ofangreindar heimildir eru oftaldar, sem nemur 49 millj. kr., og raunverulegar útgjaldaheimildir eru því 318 millj. Gjöld á vegum ráðuneytisins urðu hins vegar 435 millj. kr. samkv. rekstrarreikningi, eða 117 millj. kr. hærri en fjárl. ráðgerðu. Meginskýring þess er fólgin í mun hærri vaxtaútgjöldum, en fjárl. gerðu ráð fyrir vegna hinnar óhagstæðu greiðslustöðu ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu. Til viðbótar kemur yfir 70 millj. kr. aukaframlag til ríkisábyrgðasjóðs, sem varð að inna af hendi ábyrgðargreiðslur umfram innheimt fé, sem nam rúmlega tvöfaldri þeirri fjárhæð, sem í fjárl. og sparnaðarl. nr. 5 1968 var ætlað að renna til sjóðsins.

Útgjaldaheimildir samg.– og iðnmrn. að meðtöldum heimildum sérlaga námu rúml. 780 millj. kr., og bókfærð gjöld eru nær 799 millj., en útborganir á árinu urðu 772 millj. Vegagerð ríkisins ráðstafaði á árinu um 20 millj. kr. umfram heimildir ársins, en ráðgert er að vinna þann mismun upp á árinu 1969. Aðallega voru umframútgjöld vegna undirbúnings að hraðbrautagerð í nágrenni Reykjavíkur og vegna heildaráætlunar um samgöngukerfi, sem unnið hefur verið að á árinu 1968.

Útgjaldaheimildir viðskrn. samkv. fjárl. voru rúmar 580 millj. kr., en bókfærðar eru á árinu 563 millj. og greiddar 557 millj. Stafar þetta af því, að niðurgreiðslur á árinu urðu lægri, en fjárlög ráðgerðu, þannig að bókfærðar niðurgreiðslur voru 551 millj. kr., en fjárlög áætluðu rúmlega 569 millj. Meginástæðurnar fyrir rekstrarútgjöldum umfram heimildir fjárlaga 1968 og heimildir í sérlögum frá Alþingi á því ári eru þannig óviðráðanlegar. Annars vegar vaxtagjöld vegna slæmrar greiðsluafkomu og hins vegar stóraukin útgjöld vegna slæmrar afkomu ríkisábyrgðasjóðs.

Frá því að l. um ríkisábyrgðasjóð voru sett og hinar nýju reglur um veitingu ríkisábyrgða, hafa útgjöld ríkissjóðs vegna ríkisábyrgða farið minnkandi frá ári til árs, þar til á árinu 1968, er gerbreyting verður til hins verra í þessu efni. Árið 1967 urðu útborganir úr sjóðnum umfram innborganir rúmlega 70 millj. kr. og framlag ríkissjóðs til þess að standa straum af þeim halla var 65 millj. kr. Árið 1968 voru útborganir umfram innborganir rúmlega 155 millj. kr. og framlag úr ríkissjóði rúmlega 150 millj. Útgjaldaauki sjóðsins á þessu ári varð því þannig 85 millj. kr. Útistandandi kröfur ríkisábyrgðasjóðs vegna vanskila í árslok 1967 voru 300 millj. kr., en í árslok 1968 um 445 millj. kr. Hin versnandi staða milli þessara tveggja ára stafar að meginhluta af verri skilum af togaralánum, lánum vegna síldarverksmiðja og fleiri fiskvinnslustöðva og einnig lánum Rafmagnsveitna ríkisins. Og loks koma til veruleg útgjöld vegna ríkisábyrgða fyrir Flugfélag Íslands vegna þotukaupanna. Að venju munu þm. fá í hendur aðalreikning sjóðsins og geta þá áttað sig nánar á stöðu einstakra skuldara við sjóðinn. Þótt með löggjöfinni um ríkisábyrgðasjóð og veitingu ríkisábyrgða hafi tvímælalaust verið stefnt í rétta átt og takmörkuð hin stórkostlega áhætta ríkissjóðs af ríkisábyrgðum, sem oft hafa verið veittar af lítilli fyrirhyggju, sýnir þó reynsla þessara allra síðustu ára ótvírætt, að mikla varfærni þarf að hafa varðandi veitingu ríkisábyrgða. Þótt með þessum hætti sé oft hægt að greiða fyrir mjög mikilvægum framfaramálum í þjóðfélaginu, verður jafnan að skoða með fullu raunsæi þá áhættu, sem ríkissjóður tekur á sig hverju sinni með veitingu ríkisábyrgða. Er líka reynt af hálfu stjórnar ríkisábyrgðasjóðs og rn. að veita fyllsta aðhald í þessum efnum, m.a. með því að veita ekki ríkisábyrgðir á handhafaskuldabréfum, sem um langt árabil hafa gengið kaupum og sölum og oft verið seld með verulegum afföllum og með því að veita ekki ríkisábyrgðir, þegar fyrirtæki eru sjáanlega þannig stödd, að þau geti ekki staðið í skilum, enda þótt þau formlega kunni að eiga rétt til ríkisábyrgða.

Heildarmyndin af rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1968 er þessi:

Rekstrartekjur reyndust 6.741 millj. kr., en rekstrargjöld 6.907 millj. kr. Rekstrarhalli varð því 166 millj. kr. Lánahreyfingar inn umfram lánahreyfingar út fyrir ríkissjóð og A–hluta stofnanir voru 91.5 millj. kr. og lánajöfnuður því jákvæður, sem því nemur. Greiðslujöfnuður er því neikvæður, sem nemur 74 millj. kr. Halli á viðskiptastöðu á bankareikningum og sjóði ríkisféhirðis varð 315 millj. kr.

Við endanlega afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1969 lagði ég á það áherzlu, að teflt væri mjög tæpt varðandi afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Vegna almennra fjárhagserfiðleika í þjóðfélaginu og óhjákvæmilegrar kjararýrnunar alls almennings var samt eftir atvikum talið rétt að taka þessa áhættu og afgreiða fjárl. án nokkurrar nýrrar tekjuöflunar, ef undan er skilin nokkur hækkun á hluta ríkissjóðs af umboðsþóknun viðskiptabankanna, sem, þegar til kemur, skilaði engum teljandi tekjuauka. Við venjulegar aðstæður hefði gengisbreytingin að vísu átt að auka mjög tolltekjur ríkissjóðs. En ef gengisbreytingin átti að ná tilgangi sínum, varð að koma til svo verulegur samdráttur í innflutningi, að heildartekjuaukning af þessum sökum mundi ekki nema meiru en sem svaraði útgjaldaauka ríkissjóðs vegna gengisbreytingarinnar. Hefur reyndin enda orðið sú, þótt sú niðurstaða hafi orðið mjög óhagstæð fyrir ríkissjóð, að hún hefur orðið þjóðarbúinu í heild mjög mikilvægur ávinningur og leitt til þess, að myndazt hefur á ný verulegur gjaldeyrisvarasjóður, sem 1. okt. nam 1.528 millj. kr. Greiðsluafgangur samkv. fjárl. yfirstandandi árs nemur aðeins 10 millj. kr., sem að sjálfsögðu er aðeins nafnið eitt, þegar þess er gætt, að heildarniðurstöðutala fjárl. er tæpar 7.100 millj. kr.

Strax í upphafi ársins voru tilraunir gerðar til þess að gera sem rækilegastar áætlanir til þess að fylgjast með innstreymi og útstreymi tekna og gjalda yfir árið og hafa þær áætlanir verið endurskoðaðar öðru hverju jafnhliða því, sem allar tiltækar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að koma í veg fyrir umfram útgjöld og hraða innheimtu ríkistekna eftir föngum, þannig að ekki yrði um óhæfilegt útstreymi úr Seðlabankanum að ræða. Þessar áætlanir rn. hafa nokkurn veginn staðizt. En þar sem tekjur hljóta jafnan að koma seinna inn en sem svarar útgjaldaþörfinni, hlýtur meginhluta ársins eða jafnvel allt árið að verða um að ræða verulegan halla á greiðslustöðunni við Seðlabankann, enda þótt jöfnuður náist í árslok. Hefur enda svo farið, að yfirdráttur í viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum aðeins vegna rekstrar ríkissjóðs á yfirstandandi ári hefur komizt í 700–800 millj., en fer nú lækkandi og á að halda áfram að lækka til áramóta, þótt litlar líkur séu til, að þá takist algerlega að jafna hallann. Þótt reynt væri við afgreiðslu fjárlaga að áætla útgjöld ríkissjóðs það raunhæft, að ekki þyrfti að koma til umframgreiðslna, er auðvitað aldrei hægt með öllu að forðast slíkar greiðslur, enda sumar þeirra ófyrirsjáanlegar, þegar fjárlög eru afgreidd og flestar þeirra lögbundnar, hvað sem fjárl. líður. Ekki verður á þessu stígi séð til hlítar, hverjar umframgreiðslurnar verða. En þó er þegar vitað um nokkra töluvert veigamikla liði, sem fara fram úr áætlun. Eru þar þyngstar á metunum launahækkanir opinberra starfsmanna samkv. niðurstöðum kjaradóms í kjölfar kjarasamninga á s.l. vori. Nema þær hækkanir 1.200 kr. á hvern ríkisstarfsmann mánaðarlega í 3 1/2 mánuð, en síðan vegna vísitöluhækkana 1.550 kr. mánaðarlega í 4 mánuði, og þó gæti þessi fjárhæð orðið eitthvað hærri í desembermánuði. Áætlað er, að launahækkanir þessar muni auka útgjöld ríkissjóðs um nálægt 95 millj. kr. á þessu ári. Vegna hækkana á verði landbúnaðarvara er einnig vitað, að útflutnings uppbætur á landbúnaðarvörum muni reynast vanáætlaðar um 24 millj. kr. Enn fremur hefur komið í ljós, að jarðræktarframkvæmdir hafa vaxið svo stórfellt á s.l. ári, að jarðræktarstyrkir og framlög til framræslu, sem hvort tveggja er lögbundið, munu fara um 25 millj. kr. fram úr áætlun fjárl.

Fasteignamatið er nú búið að vera það lengi í smíðum af ýmsum ástæðum, að ég hef lagt höfuðáherzlu á, að því væri endanlega lokið á þessu ári. Ef það á að geta orðið, mun það leiða til umframútgjalda við fasteignamatið, sem geta numið allt að 13 millj. kr. Löggæzlan mun fara a.m.k. 7 millj. kr. umfram fjárlög, sem stafar af þeirri ástæðu, að fjárveitingar til löggæzlu voru lækkaðar með hliðsjón af hugleiðingum um sparnað á því sviði, sem ekki hefur enn tekizt að framkvæma. En það mál hefur hlotið allrækilega athugun og undanfarna mánuði verið í sérstakri könnun hjá undirnefnd fjvn. og hagsýslustofnuninni í samvinnu við dómsmrn. Varið hefur verið sérstaklega tveim millj. kr. til þess að geta haldið uppi stöðugri loðnuleit fyrir Norðurlandi og vitað er um ýmsa minni útgjaldaliði, sem ekki skipta þó verulegu máli.

Það skal þó tekið fram, að ekki er fyrr en í lok ársins hægt að sjá til fullnustu, hvort hinir ýmsu rekstrarliðir ríkisstofnana standast áætlun og mjög óvarlegt væri að gera ekki ráð fyrir því, að ríkissjóður verði fyrir ýmsum viðbótaráföllum, þegar öll kurl eru til grafar komin. Er þá einn liður ótalinn, sem mun fara mjög mikið fram úr áætlun, en það eru vaxtagreiðslur. Yfirdráttarskuldir ríkissjóðs á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum hafa mestan hluta ársins verið um 1.000 millj. og raunar um skeið farið yfir 1.300 millj. En í fjárl. er einungis gert ráð fyrir rúml. 10 millj. kr. til greiðslu á vöxtum af lausaskuldum. Sennileg útgjöld á þessum lið mun hins vegar mega áætla nálægt 90 millj. kr. Þá er loks þess að geta, að allar horfur eru á, að afkoma ríkisábyrgðasjóðs verði einnig mjög erfið á þessu ári eins og á s.l. ári, þótt gera megi ráð fyrir, að innheimta reynist nú af ýmsum ástæðum eitthvað auðveldari en þá, en alvarlegasta hættan við ríkisábyrgðir er vegna þotu Flugfélagsins. Hefur ríkisábyrgðasjóður vegna hennar á þessu ári orðið að leggja út mjög verulegar fjárhæðir til viðbótar þeim 55 millj. kr., sem voru fallnar á ríkisábyrgðasjóð vegna þotukaupanna um síðustu áramót. Á vegum ríkisábyrgðasjóðs hafa verið gerðar mjög róttækar og víðtækar athuganir á hugsanlegum úrræðum til þess að bæta rekstrarafkomu Flugfélags Íslands í samráði við stjórn félagsins. Eru því miður ekki of bjartar horfur í því efni, en óumflýjanlegt er með öllu að koma málefnum Flugfélagsins í það horf, að létt verði af ríkisábyrgðasjóði þessum geigvænlegu útgjöldum, enda hefur stjórn Flugfélagsins fullan hug á að leita allra úrræða, til þess að svo geti orðið.

Ekki er vitað um nema einn útgjaldalið, sem horfur eru á, að verði undir áætlun svo að nokkru nemi, en það eru niðurgreiðslur á vöruverði innanlands. Er gert ráð fyrir, að útgjöld í því skyni verði um 50 millj. kr. lægri en fjárl. ráðgera vegna minnkaðrar neyzlu innanlands, einkum á kindakjöti. Gera verður þá ráð fyrir, að rekstrarútgjöld ríkissjóðs í ár muni a.m.k. verða 250–300 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga og er þó líklegt, að sú áætlun sé of lág, fremur en of há. Tekjumegin eru fyrirsjáanlegar nokkrar breyt. frá áætlun fjárl. og sýnast þó flestir tekjuliðir vera áætlaðir ótrúlega nærri sanni. Líklegt er, að aðflutningsgjöld verði 70–80 millj. kr. hærri, en áætlað var í fjárl., en þar kemur á móti til frádráttar, að enda þótt leyfisgjald af bifreiðum væri lækkað allverulega, hafa gengisbreytingarnar tvær valdið svo stórfelldum samdrætti í bifreiðainnflutningi, að tekjur af innflutningsgjaldi bifreiða munu væntanlega verða rúmum 70 millj. kr. lægri en fjárl. gera ráð fyrir. Hins vegar getur söluskattur ársins orðið um 100 millj. kr. umfram áætlun fjárl. og horfur eru á, að hagnaður af rekstri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins verði 75 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlun. Vonazt er til, að önnur frávik varðandi hina ýmsu tekjustofna ríkissjóðs jafnist nokkurn veginn út. Tekjuhækkun umfram áætlun fjárl. gæti því orðið um 175 millj. kr. og þá halli ársins um 100 millj. kr., sem mér sýnist eftir öllum aðstæðum verði að teljast mjög viðunandi niðurstaða.

Í árslok 1968 var skuld á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands, sem nam um 540 millj. kr. Í árslok 1966 var innstæða á þessum reikningi, sem nam tæpum 100 millj. kr., þegar greiðsluhalli áranna 1964 og 1965 hafði verið jafnaður. Í árslok 1967 var skuld á reikningnum, sem nam tæplega 200 millj. kr., og um s.l. áramót, eins og ég áður sagði, 540 millj. kr. Í skjótu bragði kunna þessar tölur að koma mönnum spánskt fyrir sjónir og ýmsum reynast torvelt að skilja þessa skuldasöfnun, þegar reikningur ríkissjóðs 1967 sýnir neikvæðan greiðslujöfnuð 73 millj. kr. og reikningur 1968 74 millj. kr. til viðbótar, eða samtals 147 millj. kr. Þetta á sér þó eðlilegar skýringar, þegar betur er að gáð. Skattar eru samkv nýju l. um ríkisbókhald færðir til tekna, þegar þeir eru lagðir á, en talsverður hluti þeirra innheimtist ekki fyrr en árið eftir álagningu. Þannig má segja, að á sama tíma, sem ríkissjóður safnaði lausaskuldum á aðalreikningi í Seðlabanka, hafi hann safnað kröfum með sköttum, sem ekki hafði tekizt að innheimta vegna minni tekna hjá skattgreiðendum. Þannig getur orðið veruleg skuldasöfnun í Seðlabankanum, enda þótt rekstrarafkoma ríkissjóðs geti verið harla góð. Það má því með fullum rökum segja, að raunverulega hafi hagur ríkissjóðs síðustu tvö árin ekki versnað meira en sem nemur þeim 147 millj. kr., sem ríkisreikningar þessara ára sýna sem neikvæðan greiðslujöfnuð, enda þótt skuld á aðalviðskiptareikningi í Seðlabankanum hafi numið 540 millj. um síðustu áramót. Orsakir þeirrar skuldaaukningar eru auk hallans þrjár. Í fyrsta lagi var á árinu 1967 ráðstafað rúmum 200 millj. kr. af hinum reikningslega greiðsluafgangi ríkissjóðs 1966, sem réttlættist af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að beita verðstöðvun til þess að koma í veg fyrir almenna kjararýrnun á árinu 1967 í trausti þess, að verðhrun sjávaraflans væri aðeins tímabundið fyrirbæri. Í öðru lagi hefur staða aðalviðskiptareiknings gagnvart innheimtufjárreikningum ríkissjóðs batnað allverulega. Og í þriðja lagi, sem ekki vegur minnst, eru hin nýju lagafyrirmæli um að færa til tekna hjá ríkissjóði öll álögð gjöld á árinu, enda þótt alltaf hljóti svo að vera, að verulegar fjárhæðir séu óinnheimtar um áramót.

Með hækkandi fjárl. má gera ráð fyrir vaxandi eftirstöðvum og því hækkandi yfirdrætti ríkissjóðs hjá Seðlabankanum, nema framfylgt verði þeirri stefnu í fjármálum ríkisins að gera ráð fyrir svo háum tekjum umfram útgjöld, að tekjumismunurinn nægi að verulegu leyti a.m.k. til þess að standa undir rekstrarfjárþörfinni á hverjum tíma.

Þetta er einmitt sú stefna, sem ég tel að verði að fylgja í meginefnum, ef ríkisbúskapurinn á ekki að hafa óheilbrigð áhrif á efnahagskerfið. Og þótt afkoma ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi hverju sinni leiði að sjálfsögðu glöggt í ljós efnahagslega stöðu ríkissjóðs, er það þó viðskiptastaðan í Seðlabankanum, sem skiptir meginmáli. Þótt reikningsstaða ríkissjóðs s.l. tvö ár sé mun betri en menn hefðu getað búizt við miðað við allt árferði, er skuldasöfnunin við Seðlabankann óheillavænleg staðreynd og það eitt viðunandi í þeim efnum, að í árslok sé ríkissjóður jafnan skuldlaus við Seðlabankann á aðalviðskiptareikningi sínum.

Nú er augljóst, að þessum málum verður ekki kippt í viðunandi horf í neinni skyndingu, nema árferði batni mjög verulega frá því sem er og horfur eru á í náinni framtíð. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að byrja nú þegar að stefna að þessu marki, fyrst og fremst með því að stöðva frekari skuldaaukningu og annars vegar með því að afgreiða fjárl. af fyllstu varkárni og bæta með öllum tiltækum ráðum innheimtu ríkistekna, sem af skiljanlegum ástæðum hefur verið mjög erfið síðustu tvö árin vegna erfiðleika atvinnuvega og einstaklinga. Þess gætir svo hjá æði mörgum að láta kröfur ríkissjóðs sitja á hakanum og greiða heldur fyrr kröfur sveitarsjóða vegna frádráttarhæfni greiddra útsvara. Hins vegar hefur nú verið gerður samningur við Seðlabankann um 500 millj. kr. lán til 5 ára í því skyni að greiða niður yfirdráttarskuldina á aðalviðskiptareikningi ríkissjóðs. Er í fjárlagafrv. 1970 gert ráð fyrir fyrstu afborgun, sem nemur 100 millj. kr. af þessu láni.

Innheimta ríkistekna nam 1. okt. í ár 66% af áætlun fjárlaga, en var 64.4% á sama tíma í fyrra. Útborganir námu 1. okt. 70.4% af áætlun fjárlaga, en voru 73.5% á sama tíma í fyrra.

Nú munu ef til vill einhverjir benda á, að á samdráttar tímum sé nauðsynlegt að auka opinberar framkvæmdir, þótt það leiði til hallareksturs hjá ríkissjóði. Það er rétt, að á sama hátt og nauðsynlegt er, að ríki og sveitarfélög dragi úr framkvæmdum á þenslutímum, er nauðsynlegt, að þessir aðilar haldi uppi sem mestum framkvæmdum, þegar að þrengir um atvinnu og samdráttur er í framkvæmdum einkaaðila, því að vissulega er ríkisbúskapur í ýmsum löndum rekinn með halla, en aðstaða okkar litla þjóðfélags í þessum efnum er mjög sérstæð. Ríkar þjóðir jafna halla á ríkissjóði sínum með skuldabréfasölu eða lántöku á hinum almenna lánamarkaði í viðkomandi landi. Hér er lánsfé aftur á móti af svo skornum skammti, að ef ríkissjóður ætlaði í stórum stíl að afla sér fjár með þessum hætti, hlyti það að leiða til aukinna vandræða og samdráttar á öðrum sviðum í þjóðarbúskapnum.

Ríkissjóður hefur á síðustu árum tekið að jafnaði árlega nokkuð af lánum á almennum verðbréfamarkaði með útgáfu svokallaðra spariskírteina og hygg ég, að ekki hafi verið hægt að ganga lengra í þeim efnum, enda stundum sætt gagnrýni á hinu háa Alþ. Þá hafa veruleg erlend lán verið tekin síðustu tvö árin til þess að vinna gegn atvinnuleysi og efla margvíslegar framkvæmdir í landinu, en fjáröflun til framkvæmda með þeim hætti að dæla óhóflega út fjármagni úr Seðlabankanum umfram aukningu innistæðufjár hjá bankanum hlyti, er til lengdar lætur, a.m.k. að leiða til aukinna vandræða í efnahagskerfinu og gera ókleift að koma á jafnvægi í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar.

Ég vík þá næst að fjárlagafrv. fyrir árið 1970. Með frv. fylgir mjög ítarleg grg., þar sem annars vegar er gerð rækileg grein fyrir breyt. fjárlagafrv. frá fjárl. yfirstandandi árs og hins vegar raktar allar einstakar breyt. í smáatriðum og orsakir þeirra skýrðar. Ég mun því ekki hirða um að rekja fjárlagafrv. í einstökum atriðum, heldur fyrst og fremst reyna að skýra megindrætti þess og taka til athugunar ýmis einstök atriði, sem ástæða þykir til að vekja athygli á og skýra nánar en gert er í grg. frv.

Heildarútgjöld samkvæmt rekstrarreikningi nema 7.826.829.000 kr., en tekjur 8.082.147.000. Eru því tekjur umfram gjöld á rekstrarreikningi 255.318.000 kr. Heildarútgjöld á rekstrarreikningi í fjárl. yfirstandandi árs eru 7.000.607.000 kr. Nemur því hækkun rekstrarútgjalda 826.222.000 kr. eða 11.8%. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að fjárl. sýna nú alla gjaldheimtu á vegum ríkisins og eru því meðtaldar mjög stórar fjárhæðir, sem l. samkv. renna til ákveðinna sjóða og verkefna, en ekki til ríkisrekstrarins í þrengri merkingu. Áætlað er að þessir tekjustofnar hækki um 229.845.000 kr. eða um 15.7% frá fjárl. yfirstandandi árs. Raunveruleg útgjaldahækkun ríkissjóðs að frádregnum þessum ráðstöfuðu tekjustofnum nemur því 596.377.000 kr. eða 10.8% miðað við fjárl. 1969. Lána hreyfingar út, þ.e. afborganir af lánum ríkissjóðs, nema samkv. frv. 187 millj. kr., og er það 97 millj. kr. hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs. Þessi breyt. sýnir þó ekki, að baggi ríkissjóðs af almennum lántökum hafi þyngzt, heldur er hér meðtalin 100 millj. kr. afborgun af láni því, sem ég áður hef getið um, að tekið hafi verið í Seðlabankanum til þess að greiða upp í lausaskuldir ríkissjóðs við bankann. Lánahreyfingar eru neikvæðar um samtals 184.154.000 kr. og verður þá greiðsluafgangur samkv. fjárlagafrv. 71.l64.000.

Áður en ég vík að því að skýra einstaka liði frv., þykir mér rétt að draga upp heildarmynd af því, hvernig umrædd 596.4 millj. kr. hækkun á útgjöldum ríkissjóðs skiptist á útgjaldaliði. Eftirtaldir rekstrarútgjaldaliðir hækka um samtals 312.2 millj. Rekstur barna— og gagnfræðaskóla hækkar um 55.3 millj. Rekstur mennta— og kennaraskóla hækkar um 24.2 millj. Rekstur Háskólans hækkar um 9.4 millj. Lánasjóður íslenzkra námsmanna hækkar um 11.7 millj. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir hækka um 30 millj. Jarðræktarframlög hækka um 8 millj. Hafrannsóknastofnunin hækkar um 8.5 millj., sem stafar fyrst og fremst af rekstri hins nýja hafrannsóknaskips, sem væntanlegt er á árinu. Endurgreiðsla af lánum vegna orkurannsókna hækkar um 6.3 millj. Löggæzla hækkar um 9.7 millj. Framfærsla fávita hækkar um 7.9 millj. Framlög til lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna nema 6.3 millj., og eru það ný útgjöld. Vextir af lánum ríkissjóðs fyrst og fremst vegna skuldaaukningar í Seðlabankanum nema um 32 millj. Framlag til ríkisábyrgðasjóðs hækkar um 10 millj. Landshafnalán hækka um 29.4 millj. Flugmál hækka um 9.4 millj. Nettóhækkun á mörgum öðrum liðum, sem hver um sig nemur litlum fjárhæðum, er 54.2 millj. Gert er ráð fyrir heildarhækkun á framlögum til verklegra framkvæmda, sem nemur 87.5 millj. kr. Framlög til hafnargerða hækka um 4.4 millj. Framlag Hafnabótasjóðs hækkar um 9 millj. Framlag til byggingar nýrrar veðurstofu nemur um l0 millj. Framlag til fæðingardeildar Landspítalans nýbyggingar nemur 10 millj. Framlag vegna byggingar hafrannsóknaskips nemur 28 millj. Framlög til byggingar barna— og gagnfræðaskóla hækka um 11.1 millj. Framlag til byggingar strandferðaskipa hækkar um 5 millj. Framlag til Kennaraskólans hækkar um 5 millj. og framlag vegna rafvæðingar í sveitum hækkar um 5 millj.

Helztu útgjaldaliðir, sem lækka frá fjárl. yfirstandandi árs, eru: Aukaframlag til Atvinnujöfnunarsjóðs, sem veitt var af sérstökum ástæðum á þessu ári, 50 millj. kr., aukaframlag vegna greiðslu skólakostnaðar, sem til féll í eitt skipti vegna hraðari greiðslna á kostnaðarhluta ríkissjóðs, um 34.5 millj. Niðurgreiðslur lækka um 18.3 millj., framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins um 10 millj. fellur niður l. samkv. og aukaframlag vegna ræktunar, 5 millj., sem í síðasta sinn skyldi veitast á árinu 1969. Samtals nema þessir lækkunarliðir um 117.8 millj.

Nettó útgjaldahækkun vegna allra þessara liða, sem ég hef tilgreint, nemur 281.9 millj. kr. og eru þá ótaldir tveir útgjaldaliðir, sem hækka langmest og báðir tilheyra rekstrarútgjöldum ríkissjóðs og verða ekki umflúnir l. samkv. En það er annars vegar 174.2 millj. kr. hækkun á framlögum ríkissjóðs til almannatrygginga, fyrst og fremst til sjúkratrygginga og nemur sú hækkun ein 3.2% af útgjaldahækkun ríkissjóðs á næsta ári, en hins vegar eru launahækkanir til opinberra starfsmanna, sem áætlað er að auki útgjöld ríkissjóðs á næsta ári um 140.2 millj., sem eru 2.5% af útgjaldahækkun fjárlagafrv. Nema þessir tveir liðir um helmingi alls útgjaldaauka ríkissjóðs á næsta ári eða 5.7% af 10.8% af heildarhækkun ríkisútgjalda samkv. frv.

Rétt er að vekja athygli á því, er menn bera saman áætluð útgjöld einstakra stofnana í fjárlagafrv. og fjárl. yfirstandandi árs, að sú nýbreytni er tekin upp í fjárlagafrv. nú, að nokkur launaútgjöld eru færð undir launalið viðkomandi stofnana. Er hér um að ræða launaskatt og skyldutryggingar starfsfólks, sem áður hafa verið færð á lið um önnur rekstrarútgjöld hjá viðkomandi stofnunum og hafa því ekki áhrif á heildarútgjöld stofnunarinnar til aukningar. Hins vegar eru nú færð til gjalda á hverja einstaka stofnun framlög hennar til lífeyrissjóða, en þau útgjöld voru áður á einum fjárlagalið á vegum fjmrn. Er þetta gert til þess að sýna réttari mynd af útgjöldum hverrar einstakrar stofnunar.

Þegar útgjaldahækkun hverrar einstakrar ríkisstofnunar eða tiltekinna málaflokka er skoðuð og borin saman við yfirlit það um útgjaldahækkanir ríkissjóðs, sem ég gaf hér á undan, verður einnig að hafa í huga, að ég greindi þar frá launahækkunum í einu lagi, því að hjá ýmsum stofnunum er meginhluti útgjalda launagreiðslur, þannig að þær sýna útgjaldaaukningu, en þær koma ekki fram í heildaryfirliti mínu. Dæmigert um þetta er, að áætlað er að útgjöld vegna Alþ. muni hækka um 11 millj. kr. Þessi hækkun er að hálfu leyti vegna launahækkana, en að hálfu leyti vegna halla á lífeyrissjóði alþm. og því voru þessar hækkanir ekki tilgreindar sérstaklega í yfirliti mínu.

Á síðasta þingi voru samþ.l. um Stjórnarráð Íslands, sem fela í senn í sér fjölgun ráðuneyta og ýmsar aðrar skipulagsbreytingar. Eiga l. þessi að taka gildi um næstu áramót, en þegar fjárlagafrv. var undirbúið, hafði ekki verið gengið endanlega frá skiptingu ráðuneyta samkv. hinum nýju l. og hvaða málaflokkar og stofnanir skyldu heyra undir hvert ráðuneyti. Má því gera ráð fyrir, að við meðferð fjárlagafrv. kunni að þurfa að gera töluverðar breyt. á flokkun þess og uppsetningu, en sú skipulagsbreyting á ekki að þurfa að leiða til verulegs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, því þótt nauðsynlegt sé og raunar hafi verið samkomulag á Alþ. við afgreiðslu umræddra laga um það að efla Stjórnarráðið og styrkja aðstöðu þess til að hafa yfirstjórn ríkiskerfisins með sem traustustum og bezt skipulögðum hætti, er ekki áformað af hálfu ríkisstj. að nota heimildir frv. þannig, að það leiði til teljandi útgjaldaauka ríkissjóðs á næsta ári.

Að venju er útgjaldaauki vegna fræðslumála annar ef ekki stærsti viðbótarbagginn, sem lendir á ríkissjóði á næsta ári og er þó ólíklegt, að þar séu öll kurl til grafar komin með þeim till., sem er að finna í fjárlagafrv., en samkv. þeim nemur útgjaldahækkun vegna fræðslumála samtals 139 millj. kr. á næsta ári. Útgjaldaauki vegna rekstrar og byggingar barna— og gagnfræðaskóla nemur 94.2 millj. þar á meðal hækkun byggingarframlags um 11.1 millj. Má gera ráð fyrir, að ekki verði hjá því komizt að hækka byggingarframlögin allverulega frá þeirri upphæð. Þá er þess og að gæta, að menntamálin öll eru nú mjög í sviðsljósinu og hafa margar n. verið starfandi í sumar til þess að finna úrræði til lausnar margþættum vandamálum á sviði menntamála með það meginmarkmið í huga að tryggja öllum æskulýð viðhlítandi menntunarskilyrði og einkum í því sambandi að finna námsbrautir á sviði framhaldsmenntunar. Hefur í því sambandi verið ákveðið að gera tilraunir með lengingu gagnfræðanáms um 2 ár með mismunandi hætti á þeim stöðum, þar sem sveitarstjórnir telja sig reiðubúnar til slíks skólahalds. Er ekki gert ráð fyrir, að á næsta ári valdi þessi nýbreytni ríkissjóði miklum útgjöldum, en rétt er að benda á, að sveitarfélögin hafa mótmælt skyldu sinni til kostnaðarhlutdeildar í þessu námi. Það verður að sjálfsögðu að koma fjárhagsmálum á hreint, áður en út í þau útgjöld er ráðizt. Hinn mikli námskostnaður nemenda, sem verða að sækja framhaldsnám utan heimabyggðar sinnar, hefur oft komið til umr. hér á Alþ. Var á s.l. þingi skipuð n. til að athuga þetta vandamál og gera sér grein fyrir kostnaðarauka þessara nemenda. Niðurstöður þessara athugana lágu ekki fyrir, þegar fjárlagafrv. var undirbúið, en óhjákvæmilegt er að gera einhverjar ráðstafanir til þess að létta þennan vanda. Gæti þar ýmislegt komið til greina, sem ég skal ekki ræða á þessu stigi málsins, en fyrsta atriðið er að tryggja sem víðast heimavistaraðstöðu nemenda úr strjálbýlinu og þá ekki aðeins við skóla utan Reykjavíkur, heldur einnig í Reykjavík. Sjálfsagt er í því sambandi að nota húsnæði, sem til er á viðkomandi stöðum, svo sem hótel rými, þar sem notkun hótela er lítil yfir vetrarmánuðina, eins og gert hefur verið á Akureyri við menntaskólann og áformað mun einnig að gera víðar, svo sem í Neskaupstað og á Sauðárkróki, þar sem kennsluhúsnæðið sjálft er til staðar. Eru áreiðanlega til fleiri staðir á landinu, þar sem slík lausn gæti verið heppileg og framkvæmanleg a.m.k. til bráðabirgða og e.t.v. til frambúðar. En stærsta átakið í þessum efnum er ráðgert hér í Reykjavík. Er áformað að breyta í stórt hótel stórhýsi, sem hefur verið lengi í smíðum við Suðurlandsbraut, á þann hátt, að húsið verði að sumrinu rekið sem venjulegt hótel, en að vetrinum verði það að mestu eða öllu leyti notað sem heimavist fyrir nemendur framhaldsskóla í borginni. Mundi þar fást heimavistarrými fyrir um 300 nemendur.

Framhaldsskólastigið, þ.e. menntaskólar, Tækniskólinn og Kennaraskólinn hafa undanfarið ár verið langstærsta vandamálið, sem á hefur knúið í fræðslumálum. Hefur mikið átak verið gert til þess að taka við sívaxandi fjölda nemenda, einkum í menntaskólana. Nýbyggingu við Menntaskólann á Akureyri er nú lokið og húsakostur hans því orðinn mjög bærilegur. Haldið hefur verið áfram í sumar framkvæmdum við Hamrahlíðarskóla. Á Laugarvatni hefur verið unnið nokkurn veginn eftir áætlun, en til viðbótar hefur svo vel til tekizt, að samið hefur verið við Reykjavíkurborg um að taka Miðbæjarskólann í Reykjavík undir skólahús fyrir nýjan menntaskóla og er þar raunar um meira húsrými að ræða, en sá skóli þarf á að halda. Hefði ella orðið algert öngþveiti við skólana í Reykjavík. Þá er gert ráð fyrir að hefjast handa við nýbyggingu við Kennaraskólann. Húsakostur hans batnar raunar verulega við tilkomu Æfingaskólans. Aðsókn að Kennaraskólanum er hins vegar orðin óhófleg og óhjákvæmilegt að draga að einhverju leyti úr aðsókn að þeim skóla, þó að það hafi ekki þótt fært um sinn vegna vöntunar á öðrum námsleiðum. Þá hefur loks verið ákveðið að hefja á næsta hausti menntaskólanám á Ísafirði. Hefur þar um skeið að vísu verið starfræktur einn bekkur, en áformað er að bæta þar við einum bekk. Er auðið að gera þetta svo skjótt, þar sem skólahúsnæði er til staðar til bráðabirgða og einnig nokkur heimavistaraðstaða.

Það blasir nú við, að háskólanámið og annað framhaldsnám að loknu stúdentsprófi eða öðru framhaldsskólaprófi er langstærsta vandamálið, sem við verður að glíma næsta áratuginn. Ætla ég ekki að blanda mér í deilur og umr. um það mál, en aðeins vekja athygli á, að hér er um stórkostlegt fjárhagsmál að ræða, þótt ekki verði um verulega útgjaldaaukningu að ræða á næsta ári við Háskólann, en þó nemur fjárveitingarhækkun til hans um 11 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir aukningu kennslukrafta í samræmi við þá 10 ára áætlun um eflingu Háskólans, sem ríkisstj. samþ. á sínum tíma og enn er í gildi, en augljóslega þarf nú gagngerðrar endurskoðunar við, þar eð þróun Háskólans hefur ekki orðið í samræmi við þá áætlun. Hefur raunar áætluninni nú þegar verið breytt varðandi læknadeildina, en þar hefur ríkisstj. fallizt á nýja og að því er virðist mjög vandlega unna áætlun tæknadeildar um endurskipulagningu læknisfræðináms. Mun sú endurskipulagning að vísu ekki á næsta ári hafa í för með sér nema tæplega einnar millj. kr. kostnaðarauka, en mun smám saman á 6 árum valda kostnaðarauka, er nemur rúmum 5 millj. kr. Þá hefur einnig þurft að efla hina nýju náttúrufræðideild vegna aukinnar aðsóknar að þeirri deild og í athugun hefur verið að taka upp þegar í vetur kennslu í þjóðfélagsfræðum og stjórnsýslu við núverandi deildir Háskólans. Það er ljóst, að á næstu árum verður stórlega að auka bæði húsrými Háskólans og kennslukrafta og taka upp nýjar kennslugreinar, þar eð gert er ráð fyrir, að á næstu 5 árum tvöfaldist tala háskólastúdenta og verði 1975 um 2500, en nái hámarki árið 1980 og verði þá orðin 4.500. Gefur auga leið, hversu stórfelldra ráðstafana og fjárútláta er þörf til þess að mæta þessum vanda. Aftur á móti hefur sú nemenda aukningar bylgja, sem í nánustu framtíð gengur yfir menntaskóla og háskóla, náð hámarki nú á skyldunámsaldrinum og einnig nemendafjölgun vegna aukinnar námsþátttöku árganga, sem næst ná hámarki. Haustið 1971 fjölgar 7–14 ára börnum aðeins um 300, haustið 1972 um 100 og síðan fækkar börnum á þessum aldri frá og með 1975 og má reikna með um 600 barna fækkun árlega til 1980. Bygging barnaskóla ætti því ekki að vera vandamál næsta áratug. Árnagarður verður tekinn til notkunar fyrir Háskólann í haust og bætist þá við verulegt nýtt húsrými. Endanlegar ákvarðanir hafa að öðru leyti ekki verið teknar um byggingu Háskólans næstu árin og verður væntanlega sett á laggirnar ráðgefandi n. um tímasetning og röðun þessara framkvæmda. Er ljóst, að Happdrætti Háskólans megnar ekki lengur að standa undir byggingu Háskólans og því verða að koma til bein ríkisframlög. Fjárveitingar í þessu skyni hafa þó

ekki verið teknar í fjárlagafrv. fyrir 1970, enda lágu till. háskólanefndar ekki fyrir, er gengið var frá fjárlagafrv., hins vegar er gert ráð fyrir í drögum þeim að framkvæmdaáætlunum ársins 1970, sem fylgja fjárlagafrv., að aflað verði 30 millj. kr. á árinu til byggingar í þágu Háskólans. Þá hefur ríkisstj. samþ. að stofna nýja deild við Tækniskólann, raftæknideild og vafalaust má gera ráð fyrir bæði aukningu og endurskipulagningu í ýmsum greinum tæknináms.

Framlög til iðnskóla og héraðsskóla hækka nokkuð og framlag til Lánasjóðs íslenzkra námsmanna hækkar um 11.7 millj. Er þá miðað við námsmannafjölgun og kostnaðarauka samkv. verðlagsaukningum auk áframhalds á þeirri aukningu lána, sem byrjað var á, á yfirstandandi ári. Til framkvæmdar kom á þessu ári sú stöðlun skólahúsnæðis, sem nýju skólakostnaðarl. gera ráð fyrir og jákvæðast verður að telja í þeim l. Kom í ljós við athugun, að skólabyggingar víðs vegar um land hafa reynzt mjög mismunandi dýrar. Hefur verið reynt að meta þau mál raunhæft og hygg ég, að eðlileg kostnaðartala á kúbikmetra hafi verið ákveðin, því að sannarlega hefur reynzt auðið að byggja gott skólahúsnæði innan þeirra kostnaðarmarka, en hins vegar verða sum sveitarfélög annaðhvort að greiða hærri kostnaðarhluta sjálf eða að leggja sig fram um að byggja ódýrara skólahúsnæði. Að því marki var einmitt stefnt með nefndu lagaákvæði. Aftur á móti hafa fleiri vandkvæði komið í ljós í sambandi við rekstrarkostnaðar ákvæði skólakostnaðarl. Reynt hefur verið að fylgja þeirri meginreglu, að þótt ýmsum kostnaðarliðum sé nú skipt með öðrum hætti milli ríkis og sveitarfélaga en áður, þá verði heildar kostnaðarhlutdeild hvors aðila svipuð og samkv. hinum eldri l. Hafa þó sveitarfélögin samkv. nýju l. tvímælalaust fengið ýmis hlunnindi og m.a. er það þeim mikils virði að fá nú skóla kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs greidda mun hraðar en áður var.

Utanríkisráðuneytið og kostnaður við utanríkisþjónustu hækkar samtals um 8.9 millj. kr. nettó og er þar um eðlilegar hækkanir að ræða. Fjölgað hefur um 2 starfsmenn í ráðuneytinu vegna samkomulags fjmrn. og utanrrn. um starfsmannafjölda sendiráðanna. Þá hefur einnig reynzt óumflýjanlegt að fallast á að bæta við 3 lögregluþjónum á Keflavíkurflugvelli í stað þess, að þar hefur oft verið rætt um möguleika til sparnaðar. Með þessu er ekki sagt, að sá möguleiki sé ekki til staðar með allvíðtækri endurskipulagningu löggæzlunnar á flugvellinum og nærliggjandi byggðarlögum. Það mál er nú einmitt til athugunar hjá undirn. fjvn. og hagsýslustofnuninni, en þessi fjölgun löggæzlumanna nú í sumar var óumflýjanleg vegna óhæfilegrar aðsóknar Íslendinga að ýmsum skemmtistöðum á flugvallarsvæðinu, sem fullkunnugt er af blaðaskrifum. Engin till. er gerð í fjárlagafrv. fremur en í fjárl. yfirstandandi árs um endurskipulagningu sendiráða, eða fækkun þeirra. Er orsökin sú sama og ég tilgreindi við framlagningu síðustu fjárl., að sérstök n. skipuð fulltrúum allra þingflokka hefur haft það mál til athugunar og hefur n. þessi nú endanlega lokið störfum og skilað frv. um utanríkisþjónustuna, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. Þar er að vísu ekki að finna ákveðnar tölur um fjölda og staðsetningu sendiráða, en ég vona, að einhver vísbending komi fram um það efni við meðferð málsins.

Fullnægt er á þessu ári fyrirmælum l. um framlag til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins að upphæð 10 millj. kr. og um framlag vegna sérstakrar aðstoðar við ræktun, sem nemur 5 millj. kr. Falla því þessi framlög niður úr fjárlagafrv. nú. Hins vegar er um að ræða verulegar hækkanir frá öðrum fjárl. til landbúnaðar og vegur þar mest 30 millj. kr. hækkun á útflutningsuppbótum, sem miðuð er við núgildandi verðlag landbúnaðarafurða. Jafnframt hefur ekki þótt varlegt annað en að gera ráð fyrir 8 millj. kr. hækkun á jarðræktarframlögum miðað við þær geysimiklu jarðræktarframkvæmdir, sem urðu á næstliðnu ári og leitt hafa til mikilla umframgreiðslna á fjárveitingum í þessu skyni í fjárl. yfirstandandi árs. Þá er gert ráð fyrir, að framlengt verði lagaákvæði um 7.5 millj. kr. skerðingu framlaga til nýbýla, þar eð aðstaða sýnist ekki vera breytt á því sviði. Þess má geta, sem er mjög mikilvægt fyrir bændur, að ríkissjóður hefur tekið á sig að greiða lán, sem tekið var til bráðabirgða í Seðlabankanum vegna gengistaps Áburðarsölu ríkisins, sem nam um 40 millj. kr. Í sambandi við jarðræktarframlögin vil ég endurtaka það, sem ég gerði í fjárlagaræðu minni s.l. haust, að ég tel óumflýjanlegt að taka til endurskoðunar með hliðsjón af breyttum aðstæðum og nýrri tækni ýmsa jarðræktarstyrki. Hefur landbrh. fallizt á að taka þau mál til heildarendurskoðunar.

Enn eitt harðindaár hefur nú herjað á bændastétt landsins, þótt nú sé það í öðrum landshlutum en undanfarin 2 ár. Enginn veit enn þá til hlítar, hversu stórt vandamál hér er um að ræða og því miður er það vafalaust ekki leysanlegt nema að nokkru leyti, enda þótt nægilegt fjármagn væri til staðar. Í fjárlfrv. eru af eðlilegum ástæðum ekki gerðar neinar till. um úrbætur á þessum vanda, því að í byrjun sept. var ekki vitað, hvað þessi vandi yrði mikill. En unnið hefur verið að könnun vandamálsins af harðærisnefnd, sem landbrh. skipaði og mun málið koma til kasta Alþ. í einhverju formi, eftir að ríkisstj. hefur athugað niðurstöður nefndarinnar.

Á sviði sjávarútvegsmála hefur verið um miklar hækkanir að ræða vegna hafrannsókna, fyrst og fremst. 28 millj. kr. aukin útgjöld vegna framlags til byggingarsjóðs hafrannsóknaskips og jafnframt hækkað framlag til Hafrannsóknastofnunarinnar um tæpar 10 millj. kr., fyrst og fremst til rekstrar þessa nýja skips, sem væntanlega kemur til landsins á miðju ári. Er þá jafnframt gert ráð fyrir, að úr notkun verði tekið það skip, sem til þessa hefur unnið að rannsóknum. Hið nýja skip mun verða með þeim fullkomnustu á því sviði. Ekki er lagt til að taka upp að nýju neitt framlag til Fiskveiðasjóðs, þó að þess væri vitanlega nauðsyn vegna mikilla fjárþarfa sjóðsins, en án nýrrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð er þess ekki kostur. Það skal þó skýrt tekið fram, að gerðar verða ráðstafanir til þess að afla Fiskveiðasjóði á næsta ári nægilegs fjármagns til þess að standa straum af skuldbindingum sínum og til þess að greiða með viðunandi hætti fyrir skipasmíðum, en efling skipasmíða innanlands er nú eitt af hinum mikilvægustu viðfangsefnum til þess að tryggja atvinnuöryggi í landinu. Í því sambandi verður þó að hafa í huga, að ekki er nægilegt að smíða skip, heldur þarf að vera einhver eftirspurn eftir nýjum skipum og nýir kaupendur til staðar, þótt vel komi til greina að veita skipasmíðastöðvunum aðstoð til skipasmíða, þótt kaupendur séu ekki fengnir strax við upphaf smíðar hvers skips, eins og nú hefur verið gert. Gert er ráð fyrir, að óbreytt regla gildi um framlag til Aflatryggingasjóðs á næsta ári og gildir í ár og mun frv. verða flutt á Alþ. um nauðsynlega breyt. á l. sjóðsins í þessu efni. Er þetta talið auðið án þess að stefna afkomu sjóðsins í hættu, því að vitanlega verður hann að geta staðið við hinar almennu skuldbindingar sínar. Hins vegar gegnir sérstöku máli með hin nýju útgjöld, sem á sjóðinn lögðust snemma á þessu ári, vegna samninga um hlutdeild sjóðsins í greiðslu fæðiskostnaðar skipverja á fiskiskipum. Var við þá samningsgerð gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun til sjóðsins til að standa straum af þessum útgjöldum og talið, að 10–15 millj. kr. mundi á skorta til þess að ná endum saman. Er lagt til í fjárlagafrv. nú, að veitt verði sérstakt aukaframlag, 10 millj. kr., til Aflatryggingasjóðs í þessu skyni, en hins vegar sýna áætlanir, að horfur eru á, að halli sjóðsins vegna þessara nýju útgjalda verði allmiklu hærri, og verður þá að, gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla þess fjár, svo sem í upphafi var gert ráð fyrir, þegar samningarnir voru gerðir.

Gengisbreytingarnar leiddu til svo mikillar hækkunar á skuldum Rafmagnsveitna ríkisins, að rekstrarhalli þess fyrirtækis hefði sjáanlega orðið með öllu óviðráðanlegur, ef ekki hefðu komið til sérstakar ráðstafanir. Í þessu skyni var verðjöfnunargjald á rafmagni hækkað um helming og verður þó að gera margvíslegar fleiri ráðstafanir til þess að tryggja afkomu þessa fyrirtækis. Af þessum sökum er allur rekstrargrundvöllur Rafmagnsveitna ríkisins nú í heildarendurskoðun og hefur Rafmagnsveitunum nú verið skipuð sérstök stjórnarnefnd. Til þess að styrkja hag Rafmagnsveitnanna væri mikil nauðsyn að geta dregið verulega úr rekstri dísilorkustöðva, en þær breyt. kosta mikið fé og því miður hafa Rafmagnsveiturnar ekkert fé aflögu úr eigin rekstri til framkvæmda, heldur verður að fjármagna þær framkvæmdir að öllu leyti með nýjum lántökum. Í þeim drögum að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1970, sem fylgja fjárlagafrv., er gert ráð fyrir að afla Rafmagnsveitum ríkisins 35 millj. kr. nýrra lána á næsta ári að viðbættum tollalánum. Væri án efa þörf meira fjármagns, en hér sem á öðrum sviðum verður að sníða sér stakk eftir vexti og leiðir til lánsfjáröflunar eru nú sem fyrr mjög takmarkaðar. Framlög í fjárl. til rafvæðingar í sveitum hafa síðustu árin verið óbreytt og hefur það leitt til minnkandi framkvæmda. Nauðsynlegt er að stefna að því að ljúka sem fyrst lagningu þeirra veitna, þar sem meðalfjarlægð milli býla er innan við 1.5 km. Er því lagt til að hækka framlagið til rafvæðingar í sveitum um 5 millj. kr. Það léttir og á Orkusjóði, að lagt er til að taka inn sérstaka fjárveitingu, 6.3 millj. kr., til greiðslu á framkvæmdalánum vegna sjóðsins.

Framlög til löggæzlu hækka um 11.2 millj. kr. og til embætta sýslumanna og bæjarfógeta um samtals 7.3 millj. kr. Er hér fyrst og fremst um launahækkanir að ræða. Hafa till. dómsmrn. verið lækkaðar um 5 millj. í trausti þess, að frá næstu áramótum að telja geti komið til framkvæmda þær breyt. til sparnaðar í lögreglumálum, sem unnið hefur verið að og undirn. fjvn. hefur mælt með, að yrðu framkvæmdar. Reksturskostnaður Landhelgisgæzlunnar hækkar ekki og er því um raunverulegan sparnað að ræða í rekstri þeirrar stofnunar.

N. hefur fyrir nokkru skilað áliti um endurskipulagningu fangelsismála. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um fjárveitingar til framkvæmdar á þeim till., eins og þær liggja fyrir, en þó er gert ráð fyrir nýjum fjárveitingum til endurbóta í fangelsismálum. Í fjárl. yfirstandandi árs var veitt fé, til þess að hægt væri að flytja fangaklefa lögreglunnar í lögreglustöðina nýju úr Síðumúla, og nú er lagt til að veita 2.7 millj. kr. til rekstrar almenns fangelsis í Síðumúla. Þá er einnig lagt til að hækka framlag til Litla–Hrauns um 1 millj. kr. með það í huga, að hægt verði að hefjast handa um stækkun hælisins.

Lagt er til að hækka framlög til bygginga sjúkrahúsa um 10 millj. kr. og er þar um að ræða byrjunarframlag til nýbyggingar fæðingardeildar Landsspítalans. Eru framkvæmdir við þá byggingu að hefjast. Mun hún kosta mikið fé og er þess að vænta miðað við þann mikla áhuga, sem virtist vera til staðar í umr. um það mál á s.l. vetri, að myndarleg þátttaka verði í hinni almennu fjársöfnun, sem kvennasamtökin, af sínum alkunna dugnaði, hafa hrint af stað fyrir alllöngu til stuðnings þessari nauðsynlegu byggingu. Áfram verður unnið að því á næsta ári að taka fleiri deildir í Landsspítalanum í notkun og er lagt til að verja 40 millj. kr. til þeirra framkvæmda, en undanfarin ár hafa framlög til sjúkrahúsabygginga verið stóraukin, þótt enn séu þar ýmis brýn verkefni óleyst og þá ekki hvað sízt aðbúnaður geðsjúklinga. Þótt framlag til reksturs ríkissjúkrahúsanna beinlínis lækki í fjárlagafrv., er þar um mjög villandi mynd að ræða, sem stafar af hinni nýju löggjöf, sem sett var á síðasta þingi um ákvörðun daggjalda sjúkrahúsanna, en með þeim l. er að því stefnt, að daggjöldin séu ákveðin það há, að þau nægi til þess að standa undir reksturskostnaði sjúkrahúsanna. Leiðir þessi ákvörðun af sér stórkostlegar daggjaldahækkanir, sem koma svo fram í stórauknum útgjöldum sjúkratrygginganna, en ríkissjóður greiðir að hálfu tilkostnað sjúkrasamlaganna. Leiddi þessi breyt. af sér stórfellda hækkun á framlögum ríkissjóðs til sjúkratrygginga í fjárl. þessa árs, en þó mun hækkunin verða enn meiri á næsta ári vegna endurskoðunar á daggjöldum sjúkrahúsanna, sem nýlega hefur verið framkvæmd með hliðsjón af auknum tilkostnaði við rekstur þeirra. Hækka framlögin til sjúkratrygginganna um hvorki meira né minna en 180.7 millj. kr. Þótt hægt sé að færa ýmis góð og gild rök fyrir þessari nýskipan mála varðandi rekstur sjúkrahúsanna, einkum hvað snertir sanngjarnari dreifingu rekstrarkostnaðar milli sveitarfélaga, hefur þessi nýskipan einnig ýmsa annmarka í för með sér og þann stærstan, að hætt er við, að aðhald að sjúkrahúsum minnki. Hefur þegar komið til nokkurra árekstra og leiðinda út af því, að þau sjúkrahús, sem til þessa hafa lagt sig fram um að spara í rekstri, telja sig nú verða illa úti við ákvörðun daggjalda. Gert er ráð fyrir í l. að flokka sjúkrahúsin eftir þeirri þjónustu, sem þeim er ætlað að veita, en ekki eingöngu farið eftir reikningslegum tilkostnaði við þau hverju sinni. Er nauðsynlegt, að þeirri flokkun verði sem skjótast hrundið í framkvæmd, því að til þessa hefur daggjaldanefnd eingöngu orðið að styðjast við rekstursafkomu sjúkrahúsanna við ákvörðun daggjalda þeirra. Hefur daggjaldanefnd án efa reynt að leysa sitt vandasama viðfangsefni sem bezt af hendi, en sú hætta er á ferðum, að eyðslusemin verði verðlaunuð. Þessi nýja skipan gerir nauðsynlegt stóraukið eftirlit með rekstri allra sjúkrahúsa á landinu jafnframt því, sem styrkja þarf verulega framkvæmdastjórn ríkissjúkrahúsanna og þyrfti raunar að vera sérmenntaður framkvæmdastjóri með víðtæku valdi við hvert hinna stærri sjúkrahúsa. Rækilegar viðræður hafa farið fram um þetta mikla vandamál milli fjmrn. og heilbrmrn. og hefur heilbrmrn. nú til athugunar ráðstafanir til úrbóta í þessum efnum. En rekstur og skipulagning sjúkrahúsa er sérgrein og eru í sumum löndum starfandi sérstakir skólar, sem mennta menn til starfa á þessu sviði. Er áreiðanlegt, að það fé, sem varið yrði til að styrkja rekstrarstjórn og sem hagkvæmasta skipulagningu í starfi sjúkrahúsanna, mundi margborga sig, enda er hér um að ræða einn þann lið ríkisútgjalda, sem hækkar mest ár frá ári og mun óhjákvæmilega vaxa mjög á næstu árum með tilkomu nýrra sjúkradeilda og sjúkrahúsa.

Lögum samkv. er árlegt framlag til Gæzluvistarsjóðs, sem varið er til úrbóta vegna áfengissjúklinga, 7.5 millj. kr. Lagt er til í fjárl. að hækka þetta framlag um 1.5 millj. kr. og er þá fyrst og fremst höfð í huga sú brýna nauðsyn að bæta með einhverjum hætti aðbúnað heimilislausra drykkjumanna.

Í sambandi við atvinnuerfiðleikana á þessu ári og hinar miklu bótagreiðslur almannatrygginga þykir óumflýjanlegt að reyna að fylgjast betur með þeim málum, bæði skráningu atvinnulausra og framkvæmd bótagreiðslna, sem því miður er verulega ábótavant, því að óhætt er að fullyrða, að þessi mikilvæga aðstoð við atvinnuleysingja hefur verið óhóflega misnotuð. Hefur af þessum sökum verið sett sérstök vinnumáladeild í félmrn.og sérstakur fulltrúi ráðinn til þess að sinna þessum verkefnum.

Ýmsar breyt. verða á framlögum til almannatryggingakerfisins, þar meðtaldar atvinnuleysistryggingar, en frádráttarliðir koma þar nokkurn veginn á móti hækkunarliðum að undanskilinni hinni miklu hækkun framlags til sjúkratrygginga, sem áður hefur verið um rætt. Í sambandi við kjarasamninga verkalýðsfélaga og vinnuveitenda á s.l. vori var samkomulag um myndun lífeyrissjóðs fyrir verkafólk. Var í því samkomulagi gert ráð fyrir, að um nokkurt árabil tæki ríkissjóður á sig nokkrar kvaðir til þess að koma fótum undir rekstur sjóðsins. Er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir fyrstu greiðslu í samræmi við þetta samkomulag, 6.3 millj. kr.

Aukaframlag var veitt til Atvinnujöfnunarsjóðs á þessu ári, 50 millj. kr., til þess að standa straum af sérstökum verkefnum, sem sjóðnum voru falin á þessu ári. Ekki er lagt til að endurnýja þessa fjárveitingu á næsta ári, en hins vegar má geta þess, að á næsta ári fer sjóðurinn að fá tekjur af skattgjaldi Álbræðslunnar í Straumsvík og er gert ráð fyrir, að þær tekjur nemi 30 millj. kr. á næsta ári. Munu þær tekjur fara síðan verulega hækkandi næstu árin, enda er í l. sjóðsins gert ráð fyrir, að tekjurnar af Álbræðslunni verði burðarásinn í eigin fjármyndun sjóðsins.

Á undanförnum árum hafa útgjöld vegna skattstofanna og embættis ríkisskattstjóra vaxið mjög mikið, þar eð í upphafi var vanáætluð starfsmanna þörf þessara embætta, ef þau áttu á viðhlítandi hátt að geta gegnt hlutverki sínu. Nú er svo komið, að þessi kostnaðaraukning er stöðvuð að frádregnum eðlilegum launahækkunum og sama er að segja um kostnað við tollgæzluna, sem hefur verið efld mjög verulega á undanförnum árum.

Framlag ríkissjóðs til ríkisábyrgðasjóðs hækkar um 8 millj. kr. og verður þá 101 millj. á næsta ári. Miðað við reynslu s.l. árs og þessa árs er hér um vanáætlun að ræða. En framlagið er ekki hækkað meira í trausti þess, að hagur ábyrgðaraðilanna fari batnandi og þá fyrst og fremst þeirra, sem hafa verið þyngstur baggi á sjóðnum, svo sem Flugfélags Íslands og síldarverksmiðjanna, og jafnframt verði með þeirri endurskipulagningu, sem gert er ráð fyrir, að fari fram á fjármálum hafnargerðanna, tekið fyrir áframhaldandi vanskil hafnanna við ríkisábyrgðasjóð.

Vegna skuldar við Seðlabankann hækka vaxtagreiðslur um 32 millj. kr. Þar sem ekki var vitað um hækkun verðlagsuppbóta 1. sept. og 1. des., þegar gengið var frá einstökum launaliðum fjárlagafrv., er sérstakur liður á vegum fjmrn., 45 millj. kr., vegna þessara verðlagsuppbóta og er gert ráð fyrir, að þessum launum verði skipt niður á einstakar stofnanir í meðförum fjárlagafrv. í þinginu.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 1969 er framlag til bifreiðakaupa ríkissjóðs lækkað úr 4 millj. í 2 millj. kr. Þessi lækkun var algerlega óraunhæf og vafalaust byggð á misskilningi og er því lagt til, að fjárveiting á þessum lið verði á næsta ári 4 millj. kr. Hér er um það að ræða, að óumflýjanlegt er að endurnýja bifreiðakost ríkisins með eðlilegum hætti, því að það hefur enn meiri kostnað í för með sér fyrir ríkið að þurfa að hafa gamlar bifreiðir í notkun og leiðir af sér óhóflegan viðhaldskostnað. Ríkið verður óhjákvæmilega að gera út og eiga verulegan fjölda bifreiða, svo að lækkun þessa fjárlagaliðs er að engu leyti lausn á vandanum varðandi hinar svokölluðu forstjórabifreiðir, sem er allt annars eðlis og endanlegar ákvarðanir liggja fyrir um, svo sem ég mun síðar víkja að.

Í sambandi við samþykkt vegáætlunar á síðasta þingi til næstu fjögurra ára varð samkomulag um, að ríkissjóður tæki að sér að annast greiðslu fastra lána, sem tekin hafa verið síðustu árin vegna ýmissa vegagerða. Veldur þessi ákvörðun ríkissjóði 21 millj. kr. útgjöldum á næsta ári. Undanskilin þessu samkomulagi var þó Reykjanesbraut, en þar er um alvarlegt vandamál að ræða, sem ekki verður lengi skotið á frest að leysa með einhverjum hætti, þar eð tekjur af veggjaldi og framlag frá Vegasjóði nægja engan veginn til að standa straum af vaxtagreiðslum vegna lána af Reykjanesbraut, hvað þá afborgunum. Hefur því síðustu árin árlega orðið að afla verulegra fjárhæða til þess að greiða afborganir og vexti af eldri lánum vegna vegagerðar þessarar og er lagt til, að svo verði einnig gert í framkvæmdaáætlun ársins 1970. Mismunandi úrræði geta komið til greina til lausnar á þessu vandamáli, en ég tel ekki hægt að leysa vandann á þann einfalda hátt, að ríkissjóður taki á sig að greiða hallann. Ríkissjóður hefur lagt út verulegt fé vegna hægri umferðar umfram tekjur af hinu sérstaka bifreiðagjaldi, sem á var lagt til þess að standa straum af þessum kostnaði. Voru þessi framlög ríkissjóðs innt af hendi með því skilyrði, að bifreiðagjaldið yrði framlengt, ef þess reyndist þörf, eins og má gera ráð fyrir í till. um það efni á þessu þingi.

Í lok síðasta þings var lögð fram lögum samkv. áætlun um hafnargerð næstu fjögur ár. Sú áætlun er ekki endanleg ákvörðun um hafnargerðir á þessu tímabili, svo sem er um vegáætlun, heldur er hér um leiðbeinandi áætlun að ræða. Þó er nauðsynlegt, að þessi áætlun sé í sem nánustu samræmi við þær fjárveitingar, sem hugsanlegt þykir að verja til hafnargerða ár hvert á umræddu tímabili. Samráð var haft milli samgrn. og fjmrn., áður en þessi áætlun var lögð fram og taldi ég auðið að beita mér fyrir fjárveitingum í samráði við áætlunina, og er till. í fjárlagafrv. um fjárveitingu til hafnargerða við þetta miðuð. Hins vegar hefur síðar komið í ljós, að við nánari athugun eru fleiri en þessar hafnarframkvæmdir, sem falla undir 75% greiðsluhluta ríkissjóðs, heldur en gert hafði verið ráð fyrir, þegar frá áætluninni var gengið. Þetta er mjög miður og skapar vandamál, sem ekki er tekin afstaða til í fjárlagafrv. Í fjárlagaræðu minni s.l. ár ræddi ég rækilega um nauðsyn þess að koma fjárreiðum hafnargerðanna á viðunandi grundvöll og koma í veg fyrir hin sífelldu vanskil margra hafnargerða við ríkisábyrgðasjóð. Benti ég á ákveðin úrræði til lausnar á þessum vanda og byggði þá fyrst og fremst á því, að heildaráætlun yrði gerð um útgjöld hafnargerðanna næstu árin og skuldir þær, sem nú hvíldu þegar á viðkomandi hafnargerðum, annars vegar og hins vegar greiðslugetu hafnarsjóða og viðkomandi sveitarsjóða. Og síðan yrði veitt aðstoð fyrir milligöngu Hafnabótasjóðs tímabundið til þess að brúa bil hugsanlegra tekna og gjalda. Hafa miklar umr. verið um þetta vandamál bæði milli rn. og í fjvn. og hefur nú orðið samkomulag um að fara í meginefnum þá leið, sem ég þá benti á. Eru af þessu tilefni framlög til Hafnabótasjóðs hækkuð um 9 millj. kr.

Verulegt vandamál hefur skapazt vegna erlendra lána, sem á undanförnum árum hafa verið tekin til hafnargerðanna á vegum ýmissa sveitarfélaga. Hefur orðið samkomulag um, að ríkissjóður taki á sig þann hluta gengishallans, sem leiðir af vangreiddum framlögum ríkissjóðs til viðkomandi hafnargerða, þannig að gengishallinn skiptist eftir sömu hlutföllum og framlagsskylda ríkis og sveitarfélaga til hafnanna.

Sameiginlegur rekstur allra ríkisskipa er nú þegar kominn til framkvæmda, og er fyrirsjáanlegt, að hann muni gefa góða raun, þannig að í heild sparist allverulegt fé á þessari skipulagsbreyt. Eru þó ekki enn komin til öll þau skip, sem gert er ráð fyrir, að lúti hinni sameiginlegu útgerðarstjórn. Lagt er til að verja 3.7 millj. kr. sérstaklega til rekstrardeildar Ríkisskipa, en meiri lækkanir koma á móti á rekstrarkostnaði þeirra stofnana, sem skipin eiga.

Lengi hefur verið mikil þörf á að reisa nýtt hús fyrir Veðurstofu Íslands. Voru fyrstu hugmyndir um það húsnæði mjög stórar í sniðum, en hafa nú verið endurskoðaðar, svo að endanlegar till. um húsnæði Veðurstofunnar verða að teljast miðaðar við hófsamlegar kröfur. Að því er nú komið, að annaðhvort verður Veðurstofan að hverfa með þjónustu sína úr Sjómannaskólanum eða skólinn verður að fá húsnæði annars staðar. Af atvinnuástæðum er einnig mjög æskilegt að geta ráðizt í þessar framkvæmdir nú. Er því lagt til að verja 10 millj. kr. til nýbyggingar húss fyrir Veðurstofu Íslands á næsta ári.

Við meðferð fjárlaga í þinginu má gera ráð fyrir, að taka þurfi upp sérstakt framlag, sennilega 11 millj. kr., til væntanlegs iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland, sem Norðurlöndin sameiginlega hafa fallizt á að stofna til þess að greiða fyrir nauðsynlegum skipulagsbreyt. og nýjungum í innlendum iðnaði, ef Ísland gerist aðili að Fríverzlunarbandalaginu. Gert er ráð fyrir, að sjóður þessi muni nema um 1.200 millj. íslenzkra kr. og er hlutur Íslands aðeins um 45 millj. kr., en framlög til sjóðsins mundu greiðast á 4 árum. Er hér að sjálfsögðu um mjög sérstæða velvild að ræða af hálfu Norðurlandaþjóðanna í okkar garð, en færa má þó þau rök fram af okkar hálfu, að viðskiptajöfnuður Íslands og hinna Norðurlandanna hefur á síðustu árum verið Íslendingum mjög óhagstæður.

Tekjuáætlun fjárlagafrv. er að sjálfsögðu, sem svo oft áður, háð mikilli óvissu, svo að ganga verður út frá ýmsum forsendum, sem ómögulegt er að vita, hvort standast í reynd. Má þó benda á, að tekjuáætlun fjárl. yfirstandandi árs sýnist ætla að standast ótrúlega vel, þótt ýmislegt hafi farið á annan veg en ætlað var. Hins vegar verður að hafa í huga, að hinir óhagstæðari þættir þróunarinnar í ár munu koma meira fram í viðskiptalífinu og þar af leiðandi hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs á næsta ári. Gert var t.d. ráð fyrir því í þjóðhagsspánni fyrir yfirstandandi ár, að síldveiðarnar mundu gefa um 2.000 millj. í útflutningsverðmæti. Tekjurnar verða væntanlega aðeins lítið brot af þeirri fjárhæð. Að vísu koma þar á móti nokkuð betri útkoma af öðrum veiðum, svo sem loðnuveiðum, en gert hafði verið ráð fyrir og batnandi verðlag, en það megnar þó engan veginn að jafna þetta tekjutap frá áætlun. Efnahagsstofnunin hefur eins og undanfarin ár gengið frá tekjuáætlun fjárlagafrv. og er áætlunin byggð á þjóðhagsspá stofnunarinnar, eins og hún var endurskoðuð eftir kjarasamningana í maí s.l. og með síðustu vitneskju um kauplags— og verðlagsbreyt. Er þar gert ráð fyrir, að atvinnuástand verði ekki lakara en það mun að jafnaði verða í ár, en það er byggt á þeirri forsendu, að síldveiðarnar bregðist ekki gersamlega í haust, heldur verði síldarafli ársins ekki minni en 1968 eða annar afli komi þá í hans stað.

Heildartekjur á rekstrarreikningi fjárlagafrv. eru áætlaðar 8.082.1 millj., sem er 985.6 millj. kr. hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs. Af þessari fjárhæð eru fyrir fram ráðstafaðir tekjustofnar 229.7 millj., þannig að tekjuauki sá, sem til ráðstöfunar verður í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, nemur 755.9 millj., eða 13.4% hækkun frá fjárl. yfirstandandi árs. Tekjuáætlun er sundurgreind svo rækilega í grg. með fjárlagafrv., að ég vil ekki eyða tíma í að ræða einstaka liði hennar, en aðeins nefna helztu breytingar.

Þrátt fyrir erfiðleika á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir því, að tekjuskattur hækki um 89 millj. kr. Er þá fyrst og fremst miðað við tekjuauka vegna launahækkana á þessu ári og fjölgunar skattgreiðenda, en jafnframt áætlað fyrir nokkurri hækkun skattvísitölu, er leiði til hækkunar persónu frádráttar. Meginhækkun teknanna er þó af innflutningi, en áætlað er, að aðflutningsgjöld hækki um 305.2 millj. kr. Er þá miðað við, að almennur vöruinnflutningur aukist um 6.2% frá spá frá 1969, en í þeirri spá var gert ráð fyrir um 18% minnkun innflutnings, sem sýnist ætla að verða raunhæf. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að meðaltollur verði 27%, sem er nokkur hækkun frá því, sem meðaltollur sýnist ætla að verða í ár, en í ár hefur samdráttur í innflutningi hinna hærri tollflokka verið sérstaklega mikill. Miðað við reynslu yfirstandandi árs er hins vegar gert ráð fyrir verulegum samdrætti á tekjum af leyfisgjaldi af bifreiðum, þannig að sá tekjustofn lækki um 52.4 millj. miðað við fjárl. yfirstandandi árs. Áætlað er, að söluskattur til ríkissjóðs hækki um 201.6 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir 8% aukinni söluskattsveltu. Þá er loks gert ráð fyrir, að hagnaður Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins vaxi enn um 133 millj. kr. Vegna stórvaxandi umferðar um Keflavíkurflugvöll er talið auðið að áætla 18.6 millj. kr. hækkun tekna af flugvellinum.

Svo sem tekið er fram í inngangsorðum grg. fjárlagafrv., var það meginsjónarmið haft í huga við ákvörðun ríkisútgjalda samkv. frv., að auðið yrði að afgreiða greiðsluhallalaus fjárl. án þess þyrfti að grípa til nýrrar skattheimtu á almenningi. Verður það sjónarmið að teljast sjálfsagt og eðlilegt við afgreiðslu fjárl. á þeim tímum, þegar almenningur verður að búa við kjaraskerðingu vegna versnandi viðskiptastöðu, sem allir vita nú um og viðurkenna, að er óumflýjanlegt að gera. Allir sanngjarnir menn munu raunar viðurkenna, að ótrúlega vel hafi tekizt að fleyta þjóðinni yfir erfiðleikatíma síðustu ára án meiri kjaraskerðingar miðað við þau stórkostlegu fjárhagsáföll, sem þjóðin hefur orðið fyrir og eru algerlega einsdæmi meðal þjóða, sem standa á svipuðu lífskjarastigi og við Íslendingar. Vegna þeirrar miklu nauðsynjar að forðast nýjar skattaálögur reynist óumflýjanlegt að synja um margvíslegar fjárveitingar, sem vissulega hefði verið æskilegt að geta sinnt til margháttaðra umbótamála.

Ég hef hér að framan greint frá helztu orsökum útgjaldahækkana ríkissjóðs og tel mig geta fullyrt með góðri samvizku, að þar hafi verið rækilega spyrnt við fótum gegn allri þeirri útþenslu í ríkiskerfinu, sem hægt er að komast hjá, að undantekinni þeirri aukningu á sviði menntamála og heilbrigðismála, sem ég geri naumast ráð fyrir, að menn gagnrýni nema þá fremur á þann hátt, að of skammt sé gengið. En þessir tveir útgjaldaliðir að viðbættum launahækkunum til opinberra starfsmanna, sem einnig eru óumflýjanleg útgjöld, nema meginhluta allrar útgjaldahækkunar ríkissjóðs á næsta ári. Auðvitað hefði verið æskilegt bæði vegna brýnnar þarfar og einnig vegna atvinnuástands að verja meiru fé til opinberra framkvæmda. En vert er þó að benda á, að í fjárlagafrv. eru hækkanir til verklegra framkvæmda ríkissjóðs um 90 millj. kr. Að auki má svo benda á, að fyrirhuguð er lánsfjáröflun til nokkurra mikilvægra framkvæmda á næsta ári innan ramma framkvæmdaáætlunar auk þess, sem mikilvægar ráðstafanir hafa verið gerðar á þessu ári til að afla verulegs fjármagns bæði til ríkisframkvæmda og til aðstoðar við atvinnulifið í landinu almennt og unnið er nú að athugun á fjárþörf stofnsjóða atvinnuveganna á næsta ári og ráðstafanir munu verða gerðar til öflunar fjármagns til brýnustu framkvæmda á sviði atvinnulífsins.

Auk þess, sem á þessu ári hefur verið haldið uppi verklegum framkvæmdum í samræmi við fjárveitingar fjárl., hefur verið hafizt handa um byggingu Heyrnleysingjaskólans, sem var mjög brýnt viðfangsefni. Áfram hefur verið haldið með byggingu Hamrahlíðarskólans, sem gert hafði verið ráð fyrir að fresta á þessu ári. Samþ. hefur verið að veita stúdentum nægilega fjárhagsaðstoð af ríkisins hálfu, til þess að hafizt geti orðið handa um byggingu félagsheimilis stúdenta. Haldið hefur verið áfram byggingu tollstöðvarhússins í Reykjavík með viðbótarfjárveitingu. Hraðað hefur verið mikilvægum hafnarframkvæmdum á ýmsum stöðum á landinu með fyrirgreiðslu ríkisins um lánsfjáröflun. Gerðar hafa verið ráðstafanir til fjáröflunar fyrir Vegasjóð til þess að geta nú í haust og vetur haldið áfram vinnu við Austurveg og Vesturlandsveg. Í gangi er helmingsstækkun Kísilgúrsverksmiðjunnar við Mývatn og gert er í framkvæmdaáætlun fyrir árið 1970 ráð fyrir fjáröflun, til þess að á næsta ári sé hægt að hefjast handa um stækkun Laxárvirkjunar og nýbyggingu við Áburðarverksmiðju. Áður hef ég nefnt byrjunarfjárveitingar á næsta ári til byggingar fyrir Veðurstofuna og nýbyggingar Fæðingardeildar Landsspítalans. Gert er ráð fyrir verulegri aukningu vegagerðar á næsta ári og fjár mun verða aflað til þess að efla skipasmíðaiðnaðinn auk þess, sem nýlega hefur verið skýrt frá mikilvægri aðstoð Seðlabankans í því skyni að hraða lánveitingu til íbúðabygginga víðs vegar um landið og stuðla þannig að verulegri atvinnuaukningu í byggingariðnaðinum. Á vegum atvinnumálanefndar ríkisins hefur á þessu ári verið ráðstafað um 340 millj. kr. til margvíslegra framkvæmda, sem stórbætt hafa víða atvinnuástand. Lánveitingar eru þegar hafnar af lánsfé því, sem aflað var á þessu ári til Norðurlandsáætlunar, en einmitt í þeim landshluta hefur atvinnuástand hlutfallslega verið lakast. Seðlabankinn hefur nú veitt um 150 millj. kr. í nýjum afurðalánum til iðnaðarins auk þess, sem Seðlabankinn fyrr á árinu veitti mikilvæga aðstoð til þess að koma útgerð og frystiiðnaði í fullan gang, en hún hefur skilað miklum árangri í þróttmikilli framleiðslustarfsemi það, sem af er árinu. Síðast en ekki sízt má benda á hið mikilvæga samkomulag um að hraða svo stækkun álbræðslunnar og næstu stórvirkjun í því sambandi, að framhaldsframkvæmdir hefjist þegar á næsta ári. Ég held því, að þegar allt þetta er haft í huga, sé ekki með nokkru móti hægt að halda því fram með neinni sanngirni, að ríkisvaldið hafi ekki augun opin fyrir þeirri höfuðnauðsyn að bægja frá böli atvinnuleysis og reyna að auka svo verklegar framkvæmdir hins opinbera, sem frekast er kostur, án þess annaðhvort að leggja nýjar auknar byrðar á þjóðfélagsþegnana eða taka upp stefnu í peningamálum, sem á skömmum tíma mundi gera að engu vonir okkar um viðreisn efnahagskerfis þjóðarinnar.

Með fjárlagafrv. fylgja nú eins og í fyrra drög að framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir árið 1970. Ég legg áherzlu á, að aðeins er um drög að ræða og vitanlega verður síðar á þinginu leitað heimildar fyrir lántöku í sambandi við framkvæmdaáætlunina, svo sem gert var í fyrra og þá endanlegar till. gerðar um þær framkvæmdir, sem auðið reyndist að afla fjár til. Hins vegar er með þessum drögum að framkvæmdaáætlun reynt að draga upp mynd annars vegar af hinum brýnustu viðfangsefnum, sem þarf að afla fjár til og hins vegar af möguleikum til lánsfjáröflunar. Um lánsfjáröflun er það að segja, að þar eru sömu leiðir hugsaðar og undanfarin ár, annars vegar PL–480 vörukaupalán og hins vegar útgáfa spariskírteina, en ætlunin er svo sem áður að afla fjár til framkvæmdasjóða atvinnuveganna fyrst og fremst með samningum við viðskiptabankana. Ég sé ekki ástæðu til að skýra einstaka liði framkvæmdaáætlunarinnar, en aðeins víkja að nokkrum atriðum.

Nýlega hefur Orkustofnun gengið frá mjög rækilegum áætlunum um heildarrannsóknir á vatnsorku landsins annars vegar og hins vegar hitaorku. Eru þessar áætlanir hvor tveggja hinar fróðlegustu og gagnlegustu til þess að geta gert sér grein fyrir þessum miklu viðfangsefnum, þar sem um okkar mikilvægustu náttúruauðlindir er að ræða. Samkv. áætlunum þessum er gert ráð fyrir að verja á næstu 5 árum mjög miklu fé til heildarrannsókna. En þótt þær rannsóknir séu hinar nytsömustu, orkar auðvitað tvímælis, hversu mikinn hraða eigi að hafa á rannsóknunum, bæði vegna fjárhagsgetu okkar og eins af þeirri ástæðu, að mörg þessara rannsóknarverkefna hafa því aðeins raunhæfa þýðingu á næstu árum, að við höfum möguleika á að koma upp iðjuverum, er hagnýti orkuna. Þessar viðamiklu áætlanir þurfa því nánari athugunar við, enda eru áætlunargerðirnar það nýjar, að ekki hefur unnizt tóm til að taka þær til rækilegrar athugunar í ríkisstj. En vafalaust geta hins vegar allir verið sammála um, að orkurannsóknum þarf að sinna í vaxandi mæli á næstu árum. Í þetta sinn er áætlað í framkvæmdaáætlun að verja 15 millj. kr. til orkurannsókna til viðbótar því fé, sem Orkusjóður kann að geta varið til þeirra mála. Þessi tala er fyrst og fremst sett á blað til þess að gera ljóst, að menn hafa augun opin fyrir mikilvægi þessa máls, en á þessu stigi byggist hún ekki á neinni sérstakri áætlun um framhald orkurannsókna, eða hvernig á þeim skuli tekið.

Inn í framkvæmdaáætlun koma nú tvö ný, stór viðfangsefni. Það er annars vegar Laxárvirkjun, sem áætlað er, að afla þurfi af ríkisins hálfu 50 millj. kr. lánsfjár til á næsta ári, en gert er ráð fyrir, að með stækkun Laxárvirkjunar verði eign ríkissjóðs í virkjuninni aukin úr 35% í 50%. Þá hefur verið ákveðið að hefjast handa um stækkun Áburðarverksmiðjunnar, sem nú er orðin algert ríkisfyrirtæki. Í fjárlagafrv. sjálfu er veitt fé til þess að leysa inn hlutabréf annarra hluthafa í Áburðarverksmiðjunni, en um það varð samkomulag, að þau yrðu greidd á fimm árum, en í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir að afla 70 millj. kr. til byggingarinnar sjálfrar. Áætlað er, að þessi stækkun Áburðarverksmiðjunnar kosti samtals um 220 millj. kr., en fyrsti áfangi Laxárvirkjunar kosti 287 millj. kr. Þá er í þriðja lagi nýtt í framkvæmdaáætlun næsta árs, að gert er ráð fyrir 30 millj. kr. fjáröflun vegna bygginga fyrir Háskóla Íslands. Hvort nauðsynlegt reynist, að þetta fé verði handbært á næsta ári til framkvæmda, er ekki sennilegt. En fjáröflunin er miðuð við þá framkvæmdaþörf, sem háskólanefnd telur, að verði í byggingarmálum Háskólans miðað við næsta 10 ára tímabil. Hef ég fyrr í ræðu minni vikið að þessu mikla viðfangsefni.

Ég hef fyrr í ræðu minni minnzt lítillega á fasteignamatið, sem mörgum og þ.á.m. einnig mér sjálfum þykir hafa tekið óhóflega langan tíma að ganga frá. Í byrjun þessa árs lagði ég á það höfuðáherzlu, að fasteignamatið yrði tilbúið um mitt þetta ár, þannig að það geti tekið gildi um næstu áramót og væri ég reiðubúinn til þess að veita umframfé, svo að það gæti staðizt. Því miður eru samt ekki allt of miklar horfur á, að þetta geti orðið að raunveruleika og skal ég taka það skýrt fram, að drátturinn á fasteignamatinu og ef það getur ekki tekið gildi um næstu áramót, er ekki að kenna stjórnendum fasteignamatsins, heldur því, að fasteignamatið er nú unnið með allt öðrum hætti, en áður hefur tíðkazt og er miklum mun fullkomnara, en jafnframt hefur komið í ljós, sem menn gerðu sér ekki grein fyrir í upphafi, að ótrúleg vanræksla hefur átt sér stað um skráningu fasteigna og réttinda yfir fasteignum víða hér um land um langt árabil. Er því hér í rauninni verið að vinna brautryðjendaverk, sem ég hygg, að reynist ómetanlegt. Nefna má, að t.d. eru til heil byggðarlög, þar sem engar lóðaskrár eru til og starfsmenn fasteignamatsins hafa neyðzt til þess að taka að sér margs konar verkefni á þessu sviði, sem raunverulega er skylda sveitarstjórna lögum samkv. að sjá um. Allt þetta mun verða nánar skýrt, þegar fasteignamatið sér dagsins ljós, en taka þarf ákvörðun nú í vetur um framtíð fasteignamatsins og hvernig að því skuli unnið framvegis, því að þær aðferðir, sem fylgt hefur verið til þessa við fasteignamat, eru algerlega óviðunandi, enda núverandi fasteignamat fyrir langalöngu komið úr öllu sambandi við raunverulegt verðgildi fasteigna. Tryggja þarf hins vegar, að fasteignamat sé á hverjum tíma í sem nánustu samræmi við raungildi fasteignanna og er nú unnið að undirbúningi löggjafar um þetta efni, er gildi til frambúðar. Löggilding fasteignamatsins hefur hins vegar mjög víðtækar verkanir og eigi það ekki að leiða til stórfelldrar röskunar, þar sem ótal margt er miðað við fasteignamat, verða samtímis gildistöku þess að fara fram margvíslegar lagabreytingar. Í gildandi l. um hið nýja fasteignamat er svo fyrir mælt, að gjaldaviðmiðanir allar við fasteignamat skuli breytast á þann veg, að gjöldin hækki ekki. Viðhorf manna í þessu sambandi hafa breytzt töluvert frá því, að l. voru sett. M.a. hefur mat fasteigna til eignarskatts og eignarútsvars verið nífaldað og þarf því að taka allt mál þetta til heildarathugunar. Hefur þegar verið hafin vinna á þessu sviði, annars vegar í fjmrn. í sambandi við skatta til ríkissjóðs, er miðast við fasteignamat og hins vegar í félmrn. í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga

varðandi þau gjöld sveitarfélaga, sem miðast við fasteignamat. Verður þeim athugunum haldið áfram af fullum krafti og undirbúningi fasteignamatsins í heild, þó ég efist um, að gildistakan geti orðið um næstu áramót, svo sem ég hefði vonað, m.a. vegna þess, að eftir að endanlega hefur verið frá matinu gengið, eru gildandi alllangir kærufrestir og verður síðan að úrskurða þær kærur, áður en matið getur tekið gildi. Merkilegar og mikilvægar athuganir og viðræður fara nú fram um launamál opinberra starfsmanna og þótt öldurnar hafi sýnzt hafa risið nokkuð hátt stundum og þá einkum s.l. vetur í sambúð ríkisins og opinberra starfsmanna, þá er þó sambúð opinberra starfsmanna og rn. sem betur fer engan veginn svo slæm sem sýnast kynni af þeim deilum og málarekstri. Ég tel þær aðgerðir fjmrn. að haga greiðslu vísitöluuppbóta til opinberra starfsmanna í samræmi við gildandi reglur á vinnumarkaðinum, þar til endanlegir kjarasamningar tókust s.l. vor, hafa verið réttar og óhjákvæmilegar, eins og öll málsatvik voru. Hins vegar tel ég jafneðlilegt, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja reyndi að leita réttar síns, sem það taldi vera fyrir hendi og að lokum krefjast úrskurðar kjaradóms um, hvenær vísitölu uppbæturnar skyldu taka gildi, enda þótt að öðru leyti tækjust auðveldlega samningar milli aðila um vísitölu uppbæturnar sjálfar og kjarasamningana í heild. Tel ég, að hvorugt þetta þurfi að leiða eða hafi raunar leitt til nokkurs fjandskapar milli forráðamanna opinberra starfsmanna og rn. Við úrskurð kjaradóms í þessum deilumálum hef ég ýmislegt að athuga engu síður en forráðamenn BSRB, en tel hvorki viðeigandi né neinum til gagns að gera þær aths. mínar hér að umtalsefni. Það, sem mestu máli skiptir er, hvort tekst að ná samkomulagi um það allsherjarstarfsmat, sem unnið hefur nú verið að mánuðum saman, en sem tekið hefur það langan tíma, að samkomulag varð um það milli rn. og BSRB að fresta um eitt ár kjarasamningum þeim, sem raunverulega hefðu átt að fara fram fyrir þessi áramót, í trausti þess, að starfsmatið verði þá tilbúið og á það hefði þá reynt til hlítar, hvort samkomulag gæti um það tekizt. Nú þegar liggja fyrir grundvallar till. þeirra manna, sem að starfsmatinu hafa unnið, um uppbyggingu þess og hafa aðilar þessar till. eða ramma starfsmatsins, ef svo má segja, til athugunar hver fyrir sig. Svo sem alkunnugt er þá hefur sá vandi skapazt í sambandi við samtök opinberra starfsmanna, að háskólamenntaðir starfsmenn hafa langflestir klofið sig út úr Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og heimtað sjálfstæða samningsaðild. Ég hef ekki farið dult með, að ég teldi það mjög ógiftusamlegt, ef tveir og þá væntanlega síðar enn fleiri aðilar yrðu samningsaðilar af hálfu opinberra starfsmanna og mundi slíkt leiða til aukinna vandræða í samningum. Ég hef þess vegna lagt á það ríka áherzlu við Bandalag háskólamanna og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, að þeir gætu með einhverjum hætti komizt að samkomutagi um samaðild að kjarasamningum í framtíðinni. Þess vegna hefur verið fallizt á þá ósk Bandalags háskólamanna, að þeir hafi einnig aðild að því starfsmati, sem nú fer fram og mun vafalaust endanleg afstaða til starfsmatsins ráða miklu um það, hvort einhver grundvöllur finnst fyrir samstarfi milli Bandalags háskólamanna og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í framtíðinni um kjaramálin.

Um tveggja ára skeið hefur verið í fjárl. 1 millj. kr. fjárveiting til orlofsheimila opinberra starfsmanna á vegum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Á afmæli BSRB fyrir tveimur árum afhenti ríkið bandalaginu land undir orlofsheimili í samráði við stjórn bandalagsins. Við nánari athugun hefur stjórn bandalagsins ekki talið þetta land hentugt til byggingar orlofsheimila, en hefur í þess stað fest kaup á öðru landi. Stjórn BSRB hefur sótt á að fá ríkisframlag til orlofsheimila miðað við ákveðna prósentu af greiddum launum ríkisstarfsmanna. Á þessu stigi þykir ekki auðið að fallast á þá beiðni, enda þarf að athuga miklu nánar, hverjir skulu hafa ráðstöfunarrétt slíks fjár, m.a. hvort samtök ríkisstarfsmanna verði áfram ein heild eða deilist í fleiri hópa, en sanngjarnt þykir með hliðsjón af fyrirhuguðum orlofsheimilisframkvæmdum BSRB að hækka framlagið á næsta ári úr einni millj. í 2.5 millj.

Unnið hefur verið á þessu ári að hagsýslu–og hagræðingarverkefnum á mörgum sviðum í ríkisrekstrinum. Hef ég í fyrri fjárlagaræðum vikið að ýmsum þessara verkefna, sem hljóta að taka langan tíma, en ýmislegt er nýtt af nálinni, sem komið hefur til athugunar og þurft hefur að sinna á yfirstandandi ári. Fjögurra manna undirnefnd fjvn. undir forystu formanns n. hefur allt þetta ár unnið að athugun ýmissa þátta ríkisrekstrarins, þar sem nm. hefur helzt þótt tilefni gefast til athugunar með sparnaðarmöguleika fyrir augum. Hefur hagsýslustjóri og menn hans veitt n. alla tiltæka aðstoð og auk þess hefur hagsýslustofnunin sjálf unnið að ýmsum verkefnum, sem til hafa fallið eða henni hafa verið falin af ríkisstj. Sjálfur hef ég átt umræðufundi við undirnefnd fjvn. og sé ég ástæðu til þess að þakka nm. öllum fyrir það, með hvílíkum áhuga og samhug þeir hafa unnið að verkefnum sínum og vona ég einnig, að þeir hafi ekki ástæðu til að kvarta yfir því, að hagsýslustofnunin, rn. eða ég persónulega hafi ekki tekið ábendingum þeirra vel. Tel ég reynslu þeirra tveggja ára, sem undirnefndin hefur starfað, tvímælalaust hafa sannað það, að áfram eigi að halda þessari nánu samvinnu milli fjmrn. og fjvn. Alþ. og sú samvinna sé líklegasta leiðin til að fá fram komið nauðsynlegum skipulagsbreytingum og hagræðingu í ríkisrekstrinum, þar sem slíkt þykir nauðsynlegt og æskilegt.

Mér þykir rétt að víkja sérstaklega að bifreiðamálum ríkisins, af því að þau hafa stundum verið í brennipunkti, bæði í blöðum og einnig hér á hinu háa Alþ. Hefur ýmsum þótt seint ganga að koma þeim málum í fast kerfi, en ég tel þá, sem málið hafa krufið til mergjar, hafa komizt að raun um það, að hér er um viðfangsefni að ræða, sem er mjög flókið og erfitt úrlausnar, enda mundi það annars hafa verið leyst fyrir löngu, því það hefur verið á dagskrá í a.m.k. tvo áratugi. Mér þykir því vænt um að geta skýrt frá því, að endanleg niðurstaða er fengin varðandi frambúðarskipan bílamála ríkisins. Varð samkomulag um heildartill. í málinu milli hagsýslustofnunar og rn., undirn. fjvn. og bíla– og vélan. rn. og hefur ríkisstj. nú í meginatriðum fallizt á þessar till. Reglur um bílamálin verða birtar og skal ég því ekki rekja þær hér í einstökum atriðum, enda of umfangsmiklar til þess, en aðeins skýra frá því, að meginundirstöðurnar eru þær, að allir bílar í eigu ríkisins verði auðkenndir greinilega og óheimilt verði með öllu að nota þá bíla nema í þágu viðkomandi embættis eða stofnunar, en svo kallaðir forstjórabílar, eða bílar, sem hafa verið til einkanota tiltekinna embættismanna og greiddur af þeim allur kostnaður úr ríkissjóði, verði seldir viðkomandi starfsmönnum með sanngjörnum kjörum og síðan verði gerðir við þá og aðra ríkisstarfsmenn, sem þurfa á bíl að halda, fastir samningar um tiltekna bifreiðastyrki í samræmi við þær þarfir, sem viðkomandi starfsmaður er talinn hafa fyrir bifreið í sambandi við starf sitt. Er nú að mestu lokið mati, akstursmati opinberra starfsmanna af hálfu bíla– og vélanefndar og merking ríkisbíla er þegar hafin. Hins vegar munu allir gera sér ljóst, að það er stórkostleg hlunninda skerðing að taka bifreið af starfsmanni, sem hefur haft ríkisbifreið og ríkið greitt af henni allan reksturskostnað, hvort sem slíkt má teljast, að hafi verið eðlilegt eða ekki. Í mjög mörgum tilfellum er hér einmitt um embættismenn ríkisins að ræða, sem gegna mjög veigamiklum og ábyrgðarmiklum stöðum, en eru illa launaðir og oft miklu verr en ýmsir undirmenn þeirra. Jafnhliða því, að embættismennirnir eru sviptir þessum mikilvægu hlunnindum tel ég því óumflýjanlegt, að launamál þeirra séu tekin til endurmats og því sé eðlilegt, að hlunnindamissirinn falli saman við þann tíma, þegar breytingar eiga að vera almennt á kjörum ríkisstarfsmanna. Nú er ég ekki með þessu að segja, að viðkomandi starfsmaður eigi að fá hlunnindamissinn bættan að fullu, slíkt þarf ekki að vera sanngjarnt, og einmitt gallinn á bifreiðaútgerð ríkisins til handa ýmsum embættismönnum sínum í dag er sá, að þar er um mikla mismunun að ræða og fjöldi embættismanna hefur ekki ríkisbifreið, sem hefði jafnvel meiri þörf fyrir hana starfs síns vegna, heldur en annar, sem hefur slíka bifreið á kostnað ríkisins. Það er því nauðsynlegt, að komi til heildarmats í hlutfalli við laun annarra starfsmanna, að hve miklu leyti hlunninda missir sem þessi skuli bættur upp með beinum launabótum viðkomandi embættismönnum til handa. Af þessum sökum hefur verið ákveðið, að umræddar bifreiðareglur taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 1970. En sú dagsetning er valin sökum þess, að í samningum milli fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er gert ráð fyrir því, að hið endurskoðaða starfsmat og nýir launasamningar, sem á að vera lokið fyrir næstu áramót, skuli verka aftur fyrir sig til 1. júlí n. k.

Eitt þeirra verkefna, sem ríkisstj. hefur falið hagsýslustofnuninni og hefur sýnt sig að hafa mikla þýðingu, er gerð leigusamninga á vegum ríkisins og hefur svo verið fyrir mælt, að engir leigusamningar ríkisstofnana skyldu vera gildir nema hagsýslustjóri staðfesti þá. Hefur þetta í mörgum tilfellum leitt til þess, að tekizt hefur að ná hagstæðari leigusamningum og jafnvel að eldri leigusamningum hefur fengizt breytt til lækkunar, en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að ná sem hagstæðustum leigukjörum fyrir ríkið og einnig, að samræmi sé í leigumálum ríkisins. Á sama hátt hefur það haft verulega þýðingu til samræmingar og létt vanda af einstökum ráðuneytum, að tveim trúnaðarmönnum á vegum fjmrn., var falið að úrskurða þóknanir fyrir öll nefndastörf, sem unnin eru á vegum ríkisins. Einnig þetta hefur stuðlað að samræmi og yfirleitt verið vel við unað, þó að stundum hafi sumum nm. þótt heldur naumt skammtað.

Verkstæðisrekstur ríkisins er mikið viðfangsefni og víðtækt, sem búið er að vinna að alllengi. Sérstök n. samdi rækilega skýrslu um þessi mál og síðan hafa þau verið til athugunar, bæði í hagsýslustofnuninni og undirn. fjvn. og loks endanlegar till. komið til kasta ríkisstj. Viðfangsefnið var í rauninni tvíþætt. Annars vegar athugun á rekstri Landssmiðjunnar, sem sjáanlega hefur ekki að óbreyttum aðstæðum neinn starfsgrundvöll lengur og hins vegar að athuga möguleika á að sameina hin mörgu verkstæði ýmissa framkvæmdastofnana ríkisins. Landssmiðjumálið var fyrir nokkru endanlega afgr. á þann veg, að Landssmiðjan skyldi starfa áfram fyrst og fremst að því takmarkaða verkefni að vera viðgerðarþjónustufyrirtæki fyrir skip ríkisins og ýmsar ríkisstofnanir, án þess að almennt væri haggað starfsemi annarra verkstæða framkvæmdastofnananna. Þótti við fyrstu athugun líklegt, að með þessu mætti tryggja framtíðar starfsgrundvöll Landssmiðjunnar, en síðar hefur komið í ljós, að það er ógerlegt og þótt ríkisstj. hafi ekki enn tekið endanlega afstöðu til þessarar niðurstöðu, sem sýnist ótvíræð, sýnist mér ekki annað vera fyrir hendi en annaðhvort leggja Landssmiðjuna niður eða þá greiða verulegan hallarekstur hennar úr ríkissjóði á hverju ári. Heildarathugun verkstæðismálanna er það langt komið, að sýnilegt virðist, að hagkvæmt sé að sameina ýmis verkstæði ríkisstofnana og mun verða að því stefnt, að endanlegar ákvarðanir varðandi þessi mál verði teknar í vetur, en þær athuganir, sem þegar liggja fyrir, benda allar ótvírætt í þá átt, að með sameiningu verkstæða ríkisins og verkaskiptingu megi koma við verulegum sparnaði og bættri nýtingu tækja og vinnuafls. Virðist í rauninni rétt að stefna að því að koma á fót einni vélamiðstöð ríkisins, sem síðan leigi hinum einstöku ríkisstofnunum vinnuvélar, eftir því sem hentar hverju sinni. Íslenzka ríkið hefur ekki úr það miklu að spila eða einstakar opinberar stofnanir, hvort sem er á vegum ríkis eða sveitarfélaga og raunar hafa þær heldur ekki leyfi til þess gagnvart almenningi að fara svo með fjármuni, sem því miður tíðkast of mikið enn í dag, að ekki er höfð nægileg samvinna til þess að tryggja það, að tvær eða fleiri opinberar stofnanir séu ekki að kaupa tæki eða annan búnað eða að sinna sömu verkefnum. Hefur því t.d. verið reynt að stuðla að því, að rannsóknarstofnanir atvinnuveganna hefðu um það samráð sín á milli, þegar um dýr tækjakaup er að ræða, hvort stofnanirnar gætu ekki sameiginlega notað slík tæki og sams konar samstarfi hefur verið reynt að koma á, á milli sjúkrahúsa, en þar er vitanlega mjög oft um dýr tæki að ræða.

Nú síðast hafa farið fram viðræður á milli fjmrh. og menntmrh. um það, hvort ekki væri auðið að koma á sérstakri skráningarmiðstöð bóka til þess að tryggja það, að hin ýmsu opinberu bókasöfn væru ekki að kaupa sams konar bækur hvert um sig í stað þess að vinna að því, að hið takmarkaða fjármagn til bókakaupa væri notað á þann veg að stuðla að kaupum á sem flestum tegundum bóka. Má hér einkum nefna ýmiss konar vísindarit, sem yfirleitt eru dýr, en margar stofnanir auk bókasafna hafa lagt kapp á að koma sér upp sérstökum bókasöfnum. Hlýtur slíkt samstarf um skiptingu verkefna á þessu sviði að vera öllum aðilum til gagns, því að vitanlega er aldrei hægt að kaupa nema lítinn hluta þeirra bóka, sem þörf væri á að fá til landsins. Ætlunin er, að ráðuneytin beiti sér fyrir slíkri bókaskráningu og eftirliti með innkaupum bóka og er lagt til að verja fé til Landsbókasafnsins, er geri því kleift að ráða starfsmann, er hefði þessa skráningu og eftirlit með höndum. Hér er ekki um stórmál að ræða, en hefur þó sína þýðingu.

Á næstsíðasta þingi voru sett lög um embættisbústaði, þar sem ákveðið var, að ríkið hætti að byggja embættisbústaði í þéttbýli. Í framhaldi af þessari lagasetningu hefur húsameistara ríkisins verið falið að gera uppdrætti að hentugum embættisbústöðum með það í huga, að gerð embættisbústaða yrði stöðluð, en það ekki látið vera meira og minna eftir duttlungum þess embættismanns, sem af tilviljun er í viðkomandi embætti, þegar embættisbústaður er reistur, þannig að víða má benda á dæmi þess, að embættisbústaðir henta alls ekki almennt, þó að þeir hafi getað hentað vel viðkomandi embættismanni. Þetta merkir ekki, að allir embættisbústaðir geti verið nákvæmlega eins, heldur er höfð hliðsjón af mismunandi hlutverkum mannanna, sem í þeim búa. Það ætti tvímælalaust að geta orðið til sparnaðar og skynsamlegri nýtingar fjár, að aðeins væru reistar fáar gerðir embættisbústaða, og mundi það einnig létta vanda af viðkomandi ráðuneytum. Í l. um embættisbústaði er beinlínis svo fyrir mælt, að embættisbústaðir, sem losna á þéttbýlissvæðunum, skuli seldir með opinberu útboði og hefur verð reynt að stuðla að því, að þeirri reglu verði yfirleitt komið á um sölu ríkiseigna. Eru nú í undirbúningi ákveðnar till., sem miða að því að koma fastri skipan á sölu hvers konar eigna ríkisins. Er nauðsynlegt að koma í veg fyrir það, að grunsemdir vakni um óeðlilega viðskiptahætti í sambandi við sölu ríkiseigna. Þá er í athugun, hvort ekki sé hagkvæmt fyrir ríkið að mynda eigin tryggingasjóð í stað þess að kaupa tryggingar á ríkiseignir fyrir mikið fé árlega. Bendir margt til, að sú skipan geti sparað verulegt fé, en þetta mál þarfnast þó rækilegrar könnunar.

Enn mun verða lagt fyrir Alþ. frv. það um skipan opinberra framkvæmda, sem áður hefur tvisvar legið fyrir þinginu án endanlegrar afgreiðslu. Á síðasta þingi var þó mikið unnið í þessu máli, leitað umsagnar margra aðila og margar eftirtektarverðar aths. og ábendingar komu fram frá ýmsum sérfróðum aðilum í þjóðfélaginu. Þótt ýmsar brtt. hafi þar komið fram, ber þó öllum saman um, að frv. í heild stefni mjög til bóta og tel ég miklu varða, ef koma á viðunandi skipulagi og eftirliti á opinberar framkvæmdir, að frv. geti nú orðið að l. á þessu þingi.

Sérstök athugun hefur farið fram á rekstrargrundvelli Þjóðleikhússins á vegum hagsýslustofnunarinnar og menntmrn. í samráði við þjóðleikhússtjóra. Hefur sú athugun leitt til margra jákvæðra ábendinga, sem ættu að geta styrkt stöðu leikhússins, en á því er brýn þörf og er fjárveiting til Þjóðleikhússins nú miðuð við þessa athugun. Þá hefur sams konar grundvallarkönnun verið hafin á rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, en fjárreiður hennar eru nú komnar í mikið óefni. Áður hef ég minnzt á heildarathugun, sem fram hefur farið og er raunar enn ekki lokið, á öllum rekstursgrundvelli Rafmagnsveitna ríkisins og fram fer nú á vegum hagsýslustofnunarinnar og póst– og símamálastjórnarinnar heildarathugun á rekstri Pósts og síma, sem er orðin ein stærsta stofnunin í þjóðfélaginu og þarf því að leita allra úrræða, til þess að rekstur hennar geti verið með sem hagkvæmustum hætti. Þá hafa á árinu á vegum hagsýslustofnunarinnar í samráði við viðkomandi rn. farið fram athuganir á ýmsum atriðum í rekstri einstakra ríkisstofnana, enda þótt þar hafi ekki verið um heillegar athuganir að ræða, svo sem í sambandi við þær stofnanir, sem ég þegar hef nefnt. Það skal skýrt tekið fram, að þær tilteknu stofnanir, sem teknar hafa verið til sérstakrar athugunar nú, má ekki líta á sem einhverjar óreiðustofnanir, sem öðrum stofnunum fremur halda illa á sínum málum, heldur hefur athugunin oftast nær til komið vegna þess, að við sérstök vandamál hefur verið að glíma í viðkomandi stofnunum og það þótt sjálfsagt að kanna, með hverjum hætti þau væru farsælast leyst. Vitanlega verður haldið áfram heildarkönnun á öllum stofnunum ríkisins, eftir því sem tilefni gefst til og vil ég láta það koma fram, að í öllum tilvikum hafa yfirmenn viðkomandi stofnana verið mjög fúsir til samstarfs um athugun á hagkvæmni í rekstri stofnana og raunar margir ríkisforstjórar oft leitað beinlínis til hagsýslustofnunarinnar um aðstoð eða leiðbeiningar varðandi ýmis atriði í rekstri sinna stofnana.

Þá tel ég rétt að víkja nokkuð að viðhorfi í skattamálum, en það viðfangsefni er í rauninni þrenns konar. Í fyrsta lagi skattalögin sjálf og álagningarreglur, í öðru lagi framtalaeftirlit og skattrannsóknir og í þriðja lagi sjálf innheimta hinna álögðu skatta. Í síðustu fjárlagaræðu minni skýrði ég frá því, að vegna ágreinings, sem oft væri uppi um skattálagningu hér á landi miðað við önnur lönd, hefði ég farið þess á leit við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, að hann veitti sérfræðilega aðstoð til þess að kanna íslenzka skattkerfið og benti á, hvað helzt færi þar aflaga og að hve miklu leyti kerfið væri annaðhvort lakara eða betra en í öðrum sambærilegum löndum. Þessi athugun var leyst af hendi bæði skjótt og vel og snemma á þessu ári barst fjmrn. í hendur mjög ítarleg grg. frá sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kom þar ýmislegt fróðlegt í ljós, sem hér skal ekki rakið að öðru leyti en því, að niðurstaða álitsins var sú, að skattar væru hér ekki þyngri, nema síður sé, en í mörgum öðrum sambærilegum löndum, þótt einstakar skatttegundir væru taldar hæpnar, svo sem aðstöðugjöld, og nauðsynlegt væri að stefna að því að fækka tegundum skatta. Nál. hefur síðan verið í sérstakri athugun í rn. og er nú verið að vinna að því að semja útdrátt úr skýrslunni, sem ég tel sjálfsagt, að verði afhentur hv. þm. til upplýsingar og fróðleiks, en jafnframt verði tekið til athugunar, að hve miklu leyti þessi skýrsla gefi ástæðu til breytinga á íslenzka skattkerfinu. Ég hef oft áður sagt, að slæmt væri að gera stöðugar breytingar á skattalögunum og þær hafa því miður verið of tíðar og skapað vandræði í framkvæmd og álagningu skatta, þótt mér sé hins vegar vel ljóst, að það þarf að gera ýmsar lagfæringar á skattal., en þær breytingar væri rétt að bíða með, þar til fyrir lægi endanleg tillögugerð n. þeirrar, sem hefur haft að undanförnu til athugunar, hvort og þá með hverjum hætti skuli taka upp staðgreiðslukerfi skatta hér á landi. Lokaathugun þess máls hefur verið í höndum þingkjörinnar nefndar, þannig að fjmrn. eða ríkisstj. sem slík hefur ekki haft afskipti af gangi málsins, en hins vegar hefur formaður n. tjáð mér, að endanlegs álits hennar sé að vænta nú alveg á næstunni og kemur þá í ljós, hvaða breytingar á skattal. eru blátt áfram nauðsynlegar og óumflýjanlegar í sambandi við staðgreiðslukerfið sjálft, ef á að taka það upp. Í framhaldi af því taldi ég rétt, að framkvæmd væri heildar athugun skattal. að öðru leyti og tek ég til athugunar með hliðsjón af reynslu síðustu ára, hvaða atriði væru almennt í skattalögum, sem þyrfti að breyta og jafnframt að hve miklu leyti væri hægt að gera skattkerfið í heild einfaldara, m.a. með því að losna við ýmiss konar smágjöld, sem einmitt sérstök athugun hefur leitt í ljós, að kostar ríkið mikið fé að leggja á og innheimta. Í framhaldi af athugun Seðlabankans á ráðstöfun, sem gera þyrfti til að koma á kaupþingi og nauðsynlegum verðbréfamarkaði hér á landi, var á fyrra hluta þessa árs skipuð n. hinna færustu sérfræðinga í skattamálum og fjármálum til að athuga hina skattalegu hlið þessa vandamáls, þannig að stuðlað væri að aukningu eigins fjármagns fyrirtækja með því að örva almenning til þátttöku í atvinnurekstri, auðvelda sameiningu fyrirtækja og kanna, með hliðsjón af væntanlegri aðild Íslands að Fríverzlunarbandalaginu, hver væri skattaleg aðstaða fyrirtækja hér á landi, miðað við fyrirtæki í öðrum löndum Fríverzlunarbandalagsins, því að vitanlega er það forsenda þess, að íslenzk fyrirtæki hafi samkeppnisgrundvöll á hinum sameiginlega markaði, að skattalega svo sem á öðrum sviðum sé ekki verr að þeim búið, en í samkeppnislöndunum. Gert er ráð fyrir, að sérfræðinganefnd þessi skili áliti um þetta mál nú fyrir næstu áramót og mun þá ríkisstj. taka til athugunar, hvaða aðgerða sé þörf í þessum efnum.

Á þessu ári hefur markvisst verið haldið áfram að bæta og styrkja skatteftirlitið, þó að þar sé að sjálfsögðu mjög mikið starf eftir óunnið. Áherzla hefur verið lögð á það af hálfu skattrannsóknastjóra að koma hinum nýju bókhaldsl. í framkvæmd, svo sem honum var falið. Ber að fagna því, að fyrirtæki hafa yfirleitt tekið hinum nýju bókhaldsl. vel og gert sér grein fyrir því, að bókhald er ekki, eins og því miður svo margir hafa álitið, óþægileg skyldukvöð, m.a. vegna skattheimtu, heldur eitt hið þýðingarmesta tæki til þess að geta haft yfirsýn yfir rekstur fyrirtækja og komið við skynsamlegum stjórnunaraðgerðum og skipulagsbreytingum í tæka tíð. Þau áföll, sem ýmis fyrirtæki hafa orðið fyrir vegna skatteftirlitsins, hafa beinlínis oft stafað af því, að fyrirtækin hafa haft algerlega ófullnægjandi bókhald. Er því fullkomið bókhald fyrst og fremst hagsmunamál fyrirtækjanna, þótt það að sjálfsögðu einnig auðveldi skatteftirlit og skattframtöl. Og þótt skattsvik hafi hér á landi, því miður, verið allt of tíður löstur, þá trúi ég því ekki, að fyrirtæki vilji ekki almennt tíunda rétt, ef þeim á annað borð er veittur viðhlítandi starfsgrundvöllur. Skatteftirlitið sjálft, bæði hjá skattstofunum og skattrannsóknadeildinni, hefur verið skipulagt og eflt með ýmsum hætti, sem ég tel ekki rétt að tíunda á opinberum vettvangi. Sérstakar ráðstefnur hafa verið haldnar á vegum fjmrn. með öllum skattstjórum landsins til að ræða úrræði til bættrar skattheimtu og skatteftirlits og hefur ýmislegt jákvætt leitt af slíkum fundahöldum. Þá hefur einnig starf skatteftirlitsins verið bætt í framhaldi af viðbótarfjárveitingu til aukinna skattrannsókna, sem veitt var á síðasta þingi, en í heild mun áherzlan vera á það lögð varðandi skatteftirlit að vinna að slíkum málum á kerfisbundinn hátt og umfram allt að forðast það, að nokkru misrétti eða rangindum sé beitt. Hitt er annað mál, að frá þeirri meginstefnu verður ekki hvikað að beita öllum tiltækum ráðum til þess að uppræta skattsvikin og því miður eru þau enn þá allt of víðtæk, þó að margt hafi áunnizt hin síðari ár. Í þessu sambandi má svo fullyrða, að þær 25.8 millj. kr., sem skattar voru hækkaðir um á grundvelli skattrannsóknadeildar frá 1. sept. 1968 til 30. sept. 1969 og er hæsta álagning til þessa á jafnlöngum tíma, sé einungis vísbending um þennan árangur. Skattstjórar taka upp að eigin frumkvæði og ljúka árlega vaxandi fjölda mála af þessu tagi, en senda einungis hin alvarlegu til meðferðar til rannsóknadeildar. Oft er rannsóknarmáli skattrannsóknadeildar sömuleiðis skotið heim í hérað til álagningar, svo að áður greind fjárhæð segir einungis hálfa sögu. Því miður hefur innheimta skatta versnað síðustu árin, sem vitanlega má fyrst og fremst rekja til verra fjárhagsástands, en tilhneigingin hefur því miður oft verið sú að láta kröfur ríkisins mæta afgangi og láta heldur t.d. skatta til sveitarfélaga ganga fyrir vegna frádráttarbærra útsvara. Einnig er því ekki að leyna, að ýmsir innheimtumenn hafa tekið innheimtu skatta, bæði tekjuskatta og söluskatta og jafnvel tolla, of lausum tökum á undanförnum árum. Er það að sjálfsögðu óviðunandi, að fólk búi ekki hvarvetna á landinu við nokkurn veginn sams konar aðgerðir og festu varðandi innheimtu opinberra gjalda. Yfirlit með ríkisreikningi leiðir glöggt í ljós, að innheimtu er mjög mismunandi háttað í hinum ýmsu innheimtuumdæmum og hefur fjmrn. neyðzt til þess varðandi ýmsa innheimtumenn, að beina sérstökum kvörtunum til dómsmrn. varðandi slappleika í að uppfylla skyldur sínar á þessu sviði, en formlega heyra fógetarnir og sýslumennirnir að sjálfsögðu undir dómsmrn. og getur því fjmrn. ekki annað gert, en að bera fram kvartanir, ef því þykir slælega að málum unnið. Hér er þó mjög misjafnt á komið um hina einstöku innheimtumenn og eiga margir þeirra þakkir skilið fyrir dyggilega frammistöðu og framgöngu í innheimtu ríkistekna. Sérstaklega mikið ósamræmi hefur verið í innheimtu söluskatts, sem í langstærsta skattumdæminu, Reykjavík, skilar sér svo að segja 100% á réttum gjalddögum og mundi að sjálfsögðu geta skilað sér með sama hætti annars staðar á landinu, ef sömu aðferðum væri beitt við innheimtu og í sannleika sagt er það fyrirtækjum ekki til neins góðs, þegar til lengdar lætur, að þau komist upp með að skila ekki söluskatti í ákveðnum gjalddögum. Til þess að kippa þessum málum í lag hefur fjmrn. nú gefið út bein fyrirmæli til allra innheimtumanna um að beita tafarlaust lokunarreglum, svo sem gert er hér í Reykjavík, ef söluskattur er ekki greiddur í tæka tíð og taka slík fyrirmæli gildi nú í haust. Mun því verða fylgt fast eftir, að þessum fyrirmælum verði hlýtt, en þar sem því miður hafa á ýmsum stöðum safnazt gamlar söluskattsskuldir, verður að sjálfsögðu að gefa tækifæri til þess að semja um einhvern greiðslufrest á þeim. Hliðstæðar reglur voru fyrir nokkru settar á varðandi innheimtu tolla, en því miður hafði það tíðkazt í ýmsum tollumdæmum, að vörur væru afgreiddar án tollgreiðslna. Tilkynnti rn. fyrir alllöngu, að hinum þyngstu viðurlögum samkv. tollskrárl. yrði beitt, ef slíkt ætti sér stað, en hins vegar hefur verið gefinn kostur á að gera samninga um nokkurn greiðslufrest varðandi þau mistök, sem áður hafa átt sér stað í þessum efnum. Höfuðatriðið er að sjálfsögðu það, að koma þessum málum í lag, en ekki að gera svo harðar kröfur, að það beinlínis komi vissum fyrirtækjum fyrir kattarnef, enda má segja, að hér sé ekki aðeins um þeirra sök að ræða, heldur eins mikil linkind innheimtumanna.

Á síðustu tveimur þingum hafa verið samþ. þrjú lagafrv., sem eru allveigamikil, varðandi tollamál. Má fyrst nefna tollskrárbreytinguna á árinu 1968, sem fól í sér lækkun tolla á ýmsum vöruflokkum, er áætlað var, að næmi um 160 millj. kr. á ári. Í annan stað var samþ. víðtæk, formleg breyting á tollskránni á síðasta ári til samræmingar við Brüssel–tollskrána. Enda þótt ekki fælust í þeim breytingum tollalækkanir almennt, var þar um nauðsynlegar lagfæringar og skipulagsbreytingar að ræða. Í þriðja lagi var á síðasta þingi samþ. heildarlöggjöf um tollheimtu og tolleftirlit, sem felur í sér ýmsar nýjungar, sem tvímælalaust verður að telja til bóta, bæði fyrir tollgreiðendur og styrkir einnig tolleftirlitið. Allt er þetta þó smávægilegt miðað við það stóra viðfangsefni, sem við stöndum andspænis, ef Ísland gerist aðili að Fríverzlunarbandalaginu. Í sambandi við þær umr. hefur verið um það talað, að tollar á vörum frá Fríverzlunarbandalagslöndum yrðu smám saman lækkaðir á 10 árum, þar til þeir yrðu afnumdir með öllu. Hér er þó aðeins um verndartolla að ræða, en ekki fjáröflunartolla, það eru tollar, sem leggjast jafnt á innlenda og erlenda framleiðslu, eða tolla á vörum, sem ekki eru framleiddar hér á landi.

Að því hefur verið stefnt, að Ísland gæti orðið fullgildur aðili Fríverzlunarbandalagsins 1. janúar n.k., ef viðunandi samningar nást við bandalagið og taki þá jafnframt gildi 30% lækkun á verndartollum og Fríverzlunarbandalagsvörum, en síðan yrði aðlögunartími án frekari tollalækkana í 4 ár, þar til næsta tollalækkun kæmi. Áætlað er, að þessi tollalækkun mundi lækka tolltekjur ríkissjóðs um 390 millj. kr. og verður þá að sjálfsögðu óumflýjanlegt að gera samstundis ráðstafanir til þess að afla þeirra tekna með öðrum hætti, því að svo sem fjárlagafrv. ber með sér og raunar þarf ekki að útskýra, getur ríkissjóður að sjálfsögðu ekki misst slíkan tekjustofn án þess að fá aðrar tekjur á móti. Enda þótt formlegar till. liggi enn ekki fyrir um þetta efni og ríkisstj. hafi ekki um það tekið endanlega ákvörðun, þá vil ég endurtaka það, sem ég raunar áður hef sagt í fjárlagaræðum, að ef kæmi til tollalækkana, annaðhvort vegna inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalagið eða af öðrum orsökum, því að sannast sagna er mikil nauðsyn að lækka almenna innflutningstolla hér á landi, þá mundi eðlilegast að vinna þann tekjumissi upp með hækkun á söluskatti. Hefur beinlínis af þessum ástæðum verið þannig á málum haldið, að söluskattur hefur hér á landi ekki verið hækkaður í 5 ár og er nú söluskattur hér langlægstur á Norðurlöndunum og enda þótt víðar væri leitað. Mundi söluskattur, enda þótt þyrfti að vinna upp nú umræddan tekjumissi vegna lækkunar aðflutningsgjalda, ekki þurfa að hækka meira en svo, að hann yrði áfram hóflegur miðað við Norðurlöndin og raunar fleiri lönd. Teldi ég jafnvel koma til álita að hækka söluskattinn eitthvað meira en svarar tollalækkununum til þess að geta í leiðinni afnumið ýmsa leiða sérskatta, sem ég hef áður vikið að og sem í senn gera skattkerfið flókið og eru kostnaðarsamir í álagningu og innheimtu. En ekki er tímabært að fullyrða neitt um það efni á þessu stigi málsins.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða EFTA–málin að öðru leyti hér, enda mun viðskrh. vafalaust gera þinginu grein fyrir þeim, þegar ástæða verður til. En svo sem kunnugt er, er einnig starfandi sérstök EFTA–nefnd, sem skipuð er fulltrúum allra þingflokka, þannig að allir flokkar hafa aðstöðu til þess að fylgjast með framvindu EFTA–málsins. Allt þetta ár hefur sleitulaust verið unnið að undirbúningi málsins, bæði með viðræðum við EFTA–ráðið í Genf og við einstakar ríkisstj. og sérfræðinganefndir og einnig hér heima við undirbúning á nauðsynlegum breytingum á tollalöggjöfinni og jafnframt hefur á vegum iðnrekenda verið starfandi mikill fjöldi sérnefnda til að rannsaka aðstöðu hinna ýmsu þátta iðnaðarins, ef til EFTA–aðildar kæmi og sérfræðileg athugun á stöðu iðnaðarins færi fram á vegum iðnmrn. Allt til þessa hefur skynsamleg yfirvegun og raunhæft mat allra aðstæðna virzt ráða gerðum langflestra, ef ekki allra þeirra, sem nálægt málinu hafa komið og þá ekki sízt þeirra, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, bæði jákvætt og neikvætt og er þess mjög að vænta, þar sem um svo stórfellt mál er að ræða og miklir hagsmunir í húfi, að slíkur andi gæti orðið ríkjandi einnig hér á hinu háa Alþ., þegar að því kemur að ráða málinu endanlega til lykta.

Í sambandi við lækkun tolla og hækkun söluskatts er eðlilegt, að komi upp í huga ýmissa spurningin um það, hvort við eigum ekki að fylgja fordæmi annarra þjóða og breyta söluskattinum í svokallaðan virðisaukaskatt. Fjmrn. hefur fylgzt mjög vandlega með þróuninni í þessum málum, auk þess sem það hefur verið rætt á fjmrh.–fundum núna síðustu árin, en aðdragandinn að virðisaukaskattinum hefur í ýmsum löndum verið mjög langur, t.d. í Svíþjóð, þar sem málið hefur verið á dagskrá í áratug, en nú er svo komið, að horfur eru á, að virðisaukaskattur verði innleiddur á öllum Norðurlöndum. Hann hefur þegar verið í gildi í Danmörku í rúmt ár, hefur nýlega verið lögfestur í Svíþjóð, er á lokastigi að hljóta lögfestingu í Noregi og var eitt af kosningamálum þar og Finnar hafa lokið heildarathugun málsins og liggur nál. til endanlegrar ákvörðunar hjá ríkisstj. landsins. Um síðustu áramót var virðisaukaskattur innleiddur í öllum löndum Efnahagsbandalagsins. Virðisaukaskattur mundi í reyndinni ekki hafa í för með sér miklar breytingar hér á Íslandi, af því að við höfum svo almennan söluskatt bæði á vörum og þjónustu. Hins vegar er því ekki að leyna, að virðisaukaskatturinn er ýmsum atvinnurekstri hagkvæmari heldur en söluskattur og leggst þyngra á neyzlu og hefur skatturinn því af þeim sökum í ýmsum löndum mætt andstöðu frá almenningi. Það er þá einnig ljóst, að einmitt af þessum sökum getur það rýrt samkeppnisaðstöðu fyrirtækja, ef virðisaukaskattur er ekki í gildi í viðkomandi landi og mun það hafa átt sinn þátt m.a. í því, að virðisaukaskatturinn var innleiddur samtímis í Efnahagsbandalagslöndunum og Danir urðu fyrstir til að innleiða hann Norðurlandanna, m.a. vegna viðskipta sinna við Efnahagsbandalagslöndin. Málið þarf því að skoðast rækilega niður í kjölinn einnig hér á landi og hefur þegar verið haft samband við danska fjmrn., sem hefur lofað að veita alla aðstoð varðandi upplýsingar um reynsluna í Danmörku af skatti þessum, en rétt þótti að bíða með að leggja málið fyrir hér, þar til sýnt væri, hver reynsla yrði af skattinum í Danmörku. Með hækkun söluskattsins hér á landi gæti orðið mikilvægara að innleiða virðisaukaskattinn, vegna þess að kerfið er þannig upp byggt, að það felur í sér traustara eftirlit með skattheimtunni, en hins vegar er kerfið það flókið að ýmsu leyti og margþætt, að það hefur í för með sér aukna fyrirhöfn fyrir greiðendurna og hin ýmsu fyrirtæki. Öll þessi atvik verður að sjálfsögðu að meta og ég tel rétt að stefna að því, að virðisaukaskattsmálið verði tekið til heildarathugunar hjá okkur á næsta ári og menn hafi gert sér grein fyrir kostum þess og göllum, þegar næsta þing kemur saman.

Herra forseti. Svo sem greinargerð mín um stöðu ríkissjóðs nú undanfarin tvö ár hefur leitt í ljós, hefur ríkissjóður verið með nokkurn rekstrarhalla á árinu 1967 og 1968 og verður það sennilega einnig í ár. Þessi rekstrarhalli er að vísu smávægilegur, miðað við hinar efnahagslegu aðstæður í þjóðfélaginu og hversu djarft hefur verið teflt varðandi afkomu ríkissjóðs til þess að reyna að íþyngja borgurunum sem minnst á erfiðleikatímum. Vegna erfiðleika í innheimtu ríkistekna og vaxandi veltufjár þarfar ríkissjóðs, er leiðir af hækkandi ríkisútgjöldum, hafa hins vegar myndazt svo miklar lausaskuldir við Seðlabankann, að þar er um hættulega þróun að ræða fyrir efnahagskerfið í heild. Við afgreiðslu þessara fjárl. verður því að sýna þá gætni, að umfram allt sé hægt að framkvæma þá lækkun lausaskulda, sem lagt er til í frv. og helzt að mynda nokkurn greiðsluafgang, sem geti orðið rekstrarfé ríkissjóðs, sem mundi koma atvinnulífinu í heild til góða í auknum útlánamöguleikum Seðlabankans og styrkja efnahagskerfið. Þróun efnahagsmála á yfirstandandi ári staðfestir ótvírætt, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafi í öllum meginatriðum verið réttar, sem birtist í senn í batnandi gjaldeyrisstöðu, stórvaxandi innstæðum í lánastofnunum og nýjum þrótti, sem er að færast í atvinnulífið. Það er að vísu svo, að um stundarsakir getur jákvæð þróun þjóðarbúskaparins haft neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs og er þróunin í ár, þegar bæði hefur stórlega dregið úr innflutningi og viðskiptaveltu, glöggt dæmi þess. Þegar til lengdar lætur falla þó í sama farveg þróun þjóðarbúskapar og ríkisbúskapar í þrengri merkingu. Það er þegar orðið ljóst, að með skynsamlegum viðbrögðum tekst þjóðinni á ótrúlega skömmum tíma að hefja sig upp úr þeirri miklu lægð efnahagslegra erfiðleika, sem hún hefur verið í um skeið. Og það er engum efa bundið, að þessir erfiðleikar, sem eru einstæðir meðal þróaðra þjóða, geta orðið okkur til góðs, ef við drögum af þeim rétta lærdóma. Þótt ekki sé rétt af mér að fella neinn dóm um stjórn ríkisfjármála á þessu tímabili, má benda á, að á þessu erfiðleikatímabil hafa ekki verið skert nein félagsleg hlunnindi þjóðfélagsborgaranna, heldur beinlínis með ríkisframlögum komið í veg fyrir kjaraskerðingu öryrkja og aldraðra og stórfelld aukning orðið á framlögum til heilsugæzlu og menntunar. Hins vegar hefur auðvitað reynzt óumflýjanlegt að beita öllu tiltæku aðhaldi um ríkisútgjöld og synjað um framlög til margvíslegra umbótamála, sem vissulega hefði verið æskilegt að sinna.

Ég lýk máli mínu með því að benda á þá staðreynd, sem ætti að vera öllum ljós, en því miður gleymist of oft, að ríkissjóðurinn er sameignarsjóður allrar þjóðarinnar, sem er lágmarkskrafa til okkar hvers og eins, að við umgöngumst, a.m.k. ekki með minni ráðdeild en okkar eigin fjármuni, og jafnhliða sérhverri kröfugerð okkar á hendur þessum sameignarsjóði verðum við annaðhvort að vera reiðubúnir að draga úr kröfugerð á öðrum sviðum eða mæta með jákvæðu hugarfari nýrri fjáröflun.