29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá voru gerðir samningar um lífeyrissjóði fyrir sjómenn í áföngum á s.l. vetri. Að samningum um lífeyrissjóð fyrir þá stóðu bæði samtök undirmanna, sem eru í flestum tilfellum félagar innan Alþýðusambands Íslands, og einnig félög, sem eru innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þegar síðan þeir samningar, sem þetta frv. er til staðfestingar á, voru gerðir á s.l. vori, þá var því heitið, sem nú kemur hér fram í frv.-formi, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að gætt yrði hagsmuna þeirra, sem komnir eru yfir þann aldur, er getur gefið þeim rétt á greiðslum úr þessum lífeyrissjóðum, sem samið var um.

Ég vil mjög eindregið beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort ekki sé rétt að gera þá breyt. á þessu frv., að aldraðir félagar úr félögum innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands njóti þessarar aðildar einnig. Ég byggi það m.a. á því, að meginhluti þess fjármagns, sem á að standa undir þessum kostnaði, eða 3/4 hlutar þess, er fenginn úr Atvinnuleysistryggingasjóði, en í þann sjóð er einnig greitt af þessum mönnum. Ég er þess vegna alveg sammála skoðun meiri hl. í Ed. gagnvart þeirri brtt., sem þar kom fram um að breyta þessu frv. á þann veg, að miklu fleiri aðilar yrðu þessara hlunninda aðnjótandi, þ.e.a.s. þeir, sem ekki er borgað af til þessa sjóðs.

Ég mun ekki á þessu stigi hafa frekari orð um frv. þetta, ég vil aðeins fagna því, að það skuli vera komið fram, og um leið samfagna ég þeim aðilum, sem að því stóðu. En eins og ég tók fram, þá vil ég beina því til hv. n., sem fær málið til meðferðar, að taka þetta atriði til velviljaðrar athugunar.