09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð. Fyrst í sambandi við það, sem hv. þm. sagði varðandi skattlagningu heiðursverðlauna til háskólarektors, að ég hefði ekki hugsað mér þetta sem neina varanlega lausn þess máls, heldur aðeins að það yrði þó tryggt í þetta skipti, að það yrði ekki skattlagt. Þetta snertir auðvitað ekki nema ríkisskattana, en ég hef jafnframt haft samband við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, þar sem háskólarektor er búsettur, um það, að þeir legðu heldur ekki útsvar á þessi verðlaun, en það er alveg rétt hjá hv. þm., að vitanlega er það engin frambúðarlausn á málinu og ég tel ekki, að við eigum að gefa það upp á bátinn að finna einhverja viðhlítandi lausn til frambúðar í þessu efni, það er ósköp óskemmtilegt að staðaldri að vera með nöfn einstakra manna í þessu sambandi, það skal ég fúslega játa.

Varðandi seinna atriðið, á ég þar við byggingu stjórnarráðshúss, þá vil ég taka það fram, að í þessu felst engin yfirlýsing um það, að bókhlaðan eigi að bíða. Það er til töluvert fjármagn til þess að hefjast handa um byggingu stjórnarráðshúss, það liggja fyrir endanlegar teikningar af þessu húsi og m.a. með hliðsjón af því atvinnuástandi, sem menn eru nú nokkuð hræddir um, að sé erfitt í byggingariðnaðinum, þá þótti það ekki óskynsamlegt að hefjast nú handa um þessa byggingu. Orðalag heimildarinnar, sem þarna er leitað eftir, er vísvitandi með þessum hætti, til þess að það liggi ljóst fyrir, að vilji Alþ. komi fram, þó að, að vísu megi segja, að hann hafi komið fram fyrir alllöngu síðan í þáltill., sem þá var samþykkt. En það er langur tími síðan liðinn og þótti því eðlilegt að fá endurnýjaðan þennan vilja þingsins. Það er ekki talið, að þurfi að taka lán á þessu ári til þess að halda þessu verki áfram með eðlilegum hraða, þó að það kunni að þurfa að gerast að einhverju leyti á næsta ári. En það þykir hins vegar nauðsynlegt, að menn marki stefnu í þessu efni. Varðandi þjóðarbókhlöðu þá er það rétt, að það hefur verið orðað sem ein hugmynd frá þjóðhátíðarnefndinni, að þetta verði gert, það er stórmál og það liggur ekki svo vel undirbúið fyrir, að hægt sé að slá föstu, með hvaða hætti verði að því unnið, hvað stórt verkefni hér er um að ræða og hvernig menn geti hugsað sér að fjármagna það og enda þótt það verði ekki tekin upp nein heimild í sambandi við það mál í fjárlögum nú, sem ég tel líka hæpið, þar sem málið er ekki komið það langt áleiðis, þá er það að sjálfsögðu opið að gera það síðar á þessu þingi, ef nauðsynlegt reynist, m.a. í sambandi við væntanlegt frv., sem hér verður flutt að venju vegna framkvæmda– og fjáröflunaráætlunar ríkisstj. fyrir árið 1970, en ég vil aðeins, að það liggi skýrt fyrir, þannig að það valdi engum misskilningi, að með þessari till. er ekki verið að úrskurða um það, að stjórnarráðshús skuli sitja fyrir þjóðarbókhlöðu.