25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Björn Pálsson:

Herra forseti. Við erum orðnir tímanaumir og ekki hægt að eyða miklum tíma í umr. Þó langar mig til að segja nokkur orð um þessa áætlun.

Það er nú svo um þá liði, sem á að verja fé til, að það má ef til vill segja, að þeir séu allir þarfir, því að á seinni árum hefur verið venja að gera eins konar framkvæmdaáætlun og útvega lánsfé vegna hennar. Það er erfitt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að deila um þetta, því að margt af þessu er þarft sem fénu er varið í.

Hitt er svo annað mál, að það er dálítið vafamál, hve hratt á að fara í það að gera framkvæmdir fyrir víxla eða lán. Þegar góðæri er, álít ég, að það sé ekki ráðlegt, að eyða meiru en aflað er í framkvæmdir. Það getur frekar verið þörf á að taka lán til framkvæmda, þegar erfitt árferði er, til þess að bæta úr því atvinnuleysi, sem venjulega skapast í slíku árferði. Ég tel, að s.l. ár hafi verið mjög hagstætt. Það var einhver bezta vertíð, sem verið hefur, og verð á sjávarafurðum flaug upp. Í ár lítur út fyrir að verði mjög góð afkoma, a.m.k. það sem af er árinu. Það er einhver bezta vertíð í manna minnum, og verðið hefur farið frekar hækkandi á sjávarafurðum til þessa. Ég held, að það sé dálítið vafamál, hve mikil lán við eigum að taka í slíku árferði, eins og lítur út fyrir að verða þetta ár. Hvenær á þetta að greiðast? Eiga börnin okkar að greiða þetta, eða eigum við að greiða það, þegar vel árar? Það þarf að greiða öll lán.

Ég hef aldrei dregið það í efa, að hæstv. fjmrh. væri vel gefinn maður og töluglöggur, enda höfum við sjaldnast átzt nokkuð misjafnt við. Ég skil þó ekki þá fjármálavizku að taka þessi vísitölulán. Ég skil ekki þessar aðferðir. Ríkið á bankana, svo er verið að bjóða út lán, sem eru vísitölutryggð. Ég var að minnast á þetta við fjmrh. áðan, það er misjafnt, hvað vísitalan hefur þegar hækkað. Svo er meiningin að endurlána fyrri lán. Ætli þetta sé ekki komið upp í 160, 180 eða jafnvel 200 millj. kr., sem fyrst var lánað. Svo ætla þeir að endurlána þetta áfram. Þarna eru þeim, sem eiga peningana í landinu, sköpuð misjöfn kjör. Ég sé ekki annað en það væri eðlilegast, að ríkið tæki þetta bara sem venjuleg lán í sínum eigin lánastofnunum. Ríkið á Seðlabankann, ríkið á Landsbankann. Þá eru þessi lán með venjulegum vöxtum, allir sitja við svipuð kjör með verðtryggingu. Ég veit ekki betur en peningarnir hafi verið verðfelldir fyrir sparifjáreigendum yfirleitt, 100% nú í tveimur síðustu gengislækkunum. Svo koma aðrir aðilar, sem lána ríkinu og fá lánin vísitölutryggð eða sama sem gengistryggð. Nú eru ekki líkur til annars en að vísitalan fljúgi upp á næstunni. Það eru líkur til, að kaup stórhækki í vor. Það eru engar líkur til annars en landbúnaðarvörur hækki. Vísitalan hlýtur að stórhækka. Ég skil ekki svona fjármálavizku, og svo er ríkið að bjóða út árlega 75 millj., en þarf vafalaust að borga þetta á sínum tíma með 150 millj. aftur, þessa sömu upphæð, ef það fer ekki í 200–300 millj., það er ómögulegt að fullyrða það. Ég get ekki séð annað en að þarna sé um hreina fjármálaglópsku að ræða. Það, sem kostar 7 millj. nú, það getur orðið að borga með 15–16 millj. eftir nokkur ár. Hví tekur ríkið ekki lán í sínum eigin lánastofnunum? Það ætti að geta fengið það alveg eins og einstaklingarnir. Ég skil ekki svona fikt og að fara svo að hlaupa í kapp við lánastofnanir, sem ríkið á sjálft. Vitanlega vilja allir lána ríkinu vísitölutryggð lán, svipað og gengistryggð, heldur en bönkunum. Ríkið á bankana, og einstaklingarnir lána sama sem ríkinu sparifé sitt. Mín skoðun er sú, að við verðum að reyna að stjórna fjármálum ríkisins á þann hátt, að við þurfum ekki að taka lán í góðæri, nema t.d. til virkjana og áburðarverksmiðju, og annarra stærri framkvæmda. En að fara að leggja vegi fyrir víxla í góðærum, það tel ég dálítið vafamál.

Hér er t.d. gert ráð fyrir, eins og frv. er orðið nú, að það sé heimilt að taka 500 millj. kr. lán eða jafnvirði þess í erlendum gjaldeyri til að endurlána Vegasjóði til lagningar hraðbrauta. Gott og vel, það er vafalaust þörf á að leggja hraðbrautir. Ég talaði hér niðri í kaffistofunni við mann, sem heitir Sverrir Runólfsson. Hann hafði verið vestur í Kaliforníu og kynnzt þar vegalagningu. Ég er ræðinn og hef gaman af að kynnast nýjum hlutum. Hann taldi, að við værum tæknilega ekki á réttri leið í þessum hraðbrautamálum. Hann taldi, að við þyrftum ekki að skipta eins mikið á efninu, ekki nema litlum hluta af efninu. Það væri hægt að þjappa því saman og líma það saman með sementi, að því er mér skildist. Hann taldi einnig, að vegirnir hjá okkur væru of flatir, vatnið rynni ekki af þeim, og það væri hægt að byggja þá með miklu meiri hraða og miklu ódýrar en við gerðum. Nú er það svo, að maður má aldrei trúa því einhliða sem sagt er. En hitt er annað mál, að við skulum aldrei vera svo vitrir að loka augum og eyrum fyrir því, sem aðrir gera, ef það er vel gert. Við vitum það, að Bandaríkjamenn standa okkur framar á öllum tæknilegum sviðum, sem eðlilegt er. Við erum fátækir og fámennir, en þeir ríkir og fjölmennir. Ég held, að það væri þess vegna ekki neitt rangt við það að athuga þessa hluti, án þess að ég taki neina ábyrgð á því, að það sé rétt.

Sverrir sagðist treysta sér til þess að leggja veg norður á Akureyri á 200 dögum. Ég satt að segja tók það ekki alvarlega. Þegar menn ræða svona saman, þá ýkja þeir oft hlutina. Sverrir taldi, að það væri alveg óþarfi að skipta nema að litlu leyti um jarðveg, þar sem hraðbrautir væru lagðar. Ég held, að vegamálaráðherra ætti að bregða sér vestur yfir hafið með þessum ágæta Sverri Runólfssyni. Sannarlega væri þessum ágæta ráðh. ekki of gott að lyfta sér einu sinni upp. Hann gæti þá kannske haft menntmth. okkar með sér svona til þess að þýða latínu, eða önnur tungumál. Hann er svo mikill latínumaður. Þeir færu svo vestur í Kaliforníu. Þetta munar ekki öllu, miðað við það fjármagn, sem fer í þessa vegi, — og kynntu sér þetta með eigin augum. Svo hafa þeir eflaust einn góðan vélamann með sér. Menntmrh. ferðaðist þá ekkert annað á meðan, svo að það er ef til vill ekki mikill aukakostnaður. Ef við gætum sparað okkur þarna hundruð eða þúsundir milljóna, þá eigum við ekki að sjá eftir því, þótt okkar ágæti ráðh. eyddi þarna nokkrum dögum.

Sverrir segir, að það þurfi að fá vél frá Ameríku. Þeir séu hér að hugsa um að kaupa vél frá Svíþjóð og það sé alrangt. Það var lagður hér vegarspotti fyrir ofan Elliðaárnar. Það var verið að dunda við þetta í skammdeginu að vetri til. Þetta varð óhæfilega dýrt. Svo var boðinn út einhver annar spotti, og þá kom miklu lægra tilboð og e.t.v. hafa vegheflarnir ekki verið að öllu leyti sambærilegir, en allir sáu, sem höfðu opin augun, að þarna var farið öfugt að hlutunum. Fyrir 200 þús. manna þjóð í stóru landi er ekkert aukaatriði, hvernig svona hlutir eru framkvæmdir.

Ég vildi því vekja athygli á, að við ættum að kynna okkur þetta, hvernig vegalagningu er hagað hjá þeim þjóðum, sem lengst eru komnar. Mér er sagt, að Bandaríkjamenn hafi lært þetta af Þjóðverjum upphaflega, en það skiptir ekki máli. Ég efast ekki um, að Bandaríkjamenn séu lengra komnir í vegamálum en við og hafi meiri tækni. Við eigum sannarlega að athuga það, á hvern hátt við getum gert okkar vegakerfi betra og ódýrara. Við höfum engin efni á að eyða hundruðum eða þúsundum millj. í vegi, ef við getum komizt hjá því. Ég skal játa, að við þurfum að bæta vegina, en við eigum að nota sem mesta hagsýni. Ég held, að við höfum eytt tíma og fé í annað eins og til minni þarfa en það, þótt einhverjir menn skryppu vestur yfir hafið til að athuga þetta rækilega, og ef það væri álitlegt, að breyta þá til og fá þær vélar, sem henta, og nota þær aðferðir, sem athugulir menn álíta hagkvæmastar.

Það er erfitt að vera á móti því að leggja fé í flest af þessu, sem hér er talað um. Þó er vafalaust sumt af því vitleysa eða ber a.m.k. lítinn árangur. Það starfar nú Rannsóknaráð ríkisins, sem er víst ágætisstofnun, hefur víst verið að basla við að athuga bikstein. Mér er sagt, að sú athugun hafi reynzt neikvæð. Nú er verið að athuga sjóvinnslu. Vinna á salt og magnesíum suður á Reykjanesi. Hlerað hef ég, að það muni litlar líkur til þess, að það reynist mjög jákvætt.

Eins er það með þessa rafvæðingu. Það er alls staðar verið að rannsaka. Það er sjálfsagt að rannsaka hlutina vel, en ég veit ekki, hvort það er nokkur hagfræði í því að vera endilega að rannsaka allt í einu. Þeir hljóta t.d. að vera svo glöggir þessir menn, að þeir sjái það fljótlega, hvar hagkvæmast er að virkja. Það er tæplega um að ræða svo marga staði. Einbeita á rannsóknunum að því. Ég efast t.d. ekki um það, að stærri virkjanirnar eru hagkvæmari. Það er t.d. mikið talað um Laxárvirkjun. Ég hef í sannleika sagt samúð með Þingeyingunum. Það má ekki eyðileggja fyrir þeim hjartað úr sýslunni. Ég held, að við ættum ekki að vera að deila um það, og álít, að við ættum að lofa þeim að eiga sína Laxá og sitt Mývatn svona nokkurn veginn óskemmd, en leggja hins vegar frá stórvirkjunum í Þjórsá línu norður. Þetta þarf hvort sem er fyrr eða síðar að tengja saman. Ef Dettifoss verður virkjaður síðar, þá er hægt að tengja línurnar gagnkvæmt, þannig að ég held, að þó við legðum línu norður Kjöl, þá yrði þeim peningum ekki kastað á glæ.

Svo er verið að leita hér að einhverjum málmum í Skaftafellasýslunni eða á Suðausturlandi og betla fé hjá Sameinuðu þjóðunum. Satt að segja hef ég litla trú á þessari málmleit þeirra þarna, og efast nú um, að það sé til mikils. Það er æskilegt, að þeir betli peninga, sem hafa gaman af því, en ég hef ekki af því ánægju.

Ég held, að við þurfum að haga okkar fjármálastjórn þannig að safna ekki skuldum í góðæri, nema þá um sérstaklega fjárfrekar framkvæmdir sé að ræða, eins og t.d. stórvirkjanir eða stærri byggingar. Ég get ómögulega skilið þá fjármálavizku að vera að taka vísitölutryggð lán, að ríkið geri það, geri þannig mismun milli sparifjáreigenda. Þetta eru hrein okurlán. Mér sýnist þetta vera eins og hver önnur fjármálaleg glópska. Það er nákvæmlega sama fyrir viðskiptabankana, hvort þeir lána ríkinu þetta beint eða hvort þetta er tekið út úr bönkum af einstaklingum. Það minnkar umsetninguna í viðskiptabönkunum jafnt. Það er eins og hver önnur vitleysa að gera þetta. Einstaklingur, sem hagar sér þannig, færi náttúrlega á sveitina mjög fljótlega.