25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mæla eindregið með þeirri brtt., sem fyrir liggur frá fjhn: mönnum um að hækka þá upphæð, sem í frv. er gert ráð fyrir að verja til rafvæðingar í sveitum. En till. mun vera um það að bæta við 15 millj. kr. Það getur vel verið rétt og er eflaust rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að fyrir það fé, sem þegar er ákveðið að verja til þessara framkvæmda, verði hægt að vinna allmikið að þessum framkvæmdum. En ég vil benda á það, sem raunar flestum hv. þm. hlýtur nú að vera ljóst, að biðin fyrir marga, sem í dreifbýlinu búa, er orðin nokkuð löng.

Það munu nú vera liðin um 16 ár, síðan lög voru sett eða a.m.k. síðan stjórnaryfirlýsing var gefin út við myndun nýrrar stjórnar um rafvæðingaráætlun fyrir dreifbýlið, og enn eru þeir margir í strjálbýlinu, sem ekki hafa fengið rafmagnið, og eru þeir jafnvel nokkuð margir, þó að sú bráðabirgðaáætlun til tveggja ára, sem um er rætt, yrði framkvæmd fyrr. Við verðum hér á hinu háa Alþ. að reyna að skilja, hvernig því fólki er innanbrjósts, sem búið er að bíða í þessi 16 ár og enga raforku hefur fengið enn. Menn verða að skilja það og gera sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar getur haft hvert árið, sem líður án þess að raforkan komi, þar sem hennar hefur verið beðið allan þennan tíma.

Nú segir hæstv. fjmrh., að það muni ekki vera tæknilega mögulegt að framkvæma á einu ári það, sem gert hefur verið ráð fyrir eða hann gerir nú ráð fyrir að framkvæma á tveimur árum. Ég hef heyrt þetta sagt áður. Ég hef heyrt starfsmenn á raforkumálaskrifstofunni segja, að það leiki nokkur vafi á því, að hægt sé að framkvæma þetta að fullu á einu ári. Mér þykir það á vanta, þegar það er fullyrt, að þarna séu tæknilegir örðugleikar til fyrirstöðu, að gerð sé grein fyrir því, hverjir þeir tæknilegu erfiðleikar séu. Ég hygg, að nú sé nægilegt vinnuafl í landinu á sumrin, eins og nú standa sakir, þannig að þetta mun varla stranda á því að fá vinnuafl í þessa framkvæmd, enda mundu menn víða leggja það á sig, þar sem um rafvæðingu er að ræða, að leggja sjálfir til eitthvað af þessu vinnuafli, sem til þess fer. En mér finnst það á skorta, að gerð sé grein fyrir því, hvaða tæknilegu örðugleikar þetta séu. Mér er ekki kunnugt um þá.

Samkv. þeim ákvörðunum, sem fyrir liggja í fjárl., og samkv. því, sem gert var ráð fyrir í þessu frv., þá lítur út fyrir, að um sé að ræða helminginn af því, sem eftir er, og þá með taldar greiðslur, sem enn er ekki búið að inna af hendi vegna veitna, sem byrjað er á. Það mun vera um helmingur, sem gert er ráð fyrir að leggja á þessu ári. Hæstv. ráðh. áleit, að þetta mundi í rauninni verða töluvert meira, því að lán mundu koma frá hlutaðeigendum. En það er nú ekki alls staðar hlaupið að því að fá slík lán heima í héruðunum, og ég veit ekki, hvort það er alveg einhlítt að fara alveg eftir því, hvort menn geta lagt fram lán eða ekki, þegar slíkar framkvæmdir eru ákveðnar. En auðvitað verður að hafa um það einhverja reglu, ef eitthvað verður eftir, hvað það eigi að vera.

Ég vil sem sé, eins og ég sagði, mæla með því, að þessi brtt. verði samþ. Þó að hún yrði samþ., þá vantar enn nokkuð á það, að séð sé fyrir þessu fé, og það kæmi þá til á næsta ári sem fjárveiting í fjárl. og þá e.t.v. einnig lán.

Hér hefur verið rætt nokkuð um 8. gr. frv. og þá um þann lið í upptalningunni, sem fjallar um orkurannsóknir. Að því hefur verið vikið og er vikið í grg. frv., að sú till., sem hér er gerð, sé gerð með hliðsjón af — ég man nú ekki gjörla orðalagið — af till. raforkumálaskrifstofunnar um forrannsóknir á vatnsorku landsins. Af því að þetta berst hér í tal og að því er vikið í grg. frv., þessum till. raforkumálastofnunarinnar, þá þykir mér hlýða að víkja aðeins að þessum till. í fáum orðum.

Það mun hafa verið á s.l. hausti eða réttara sagt í ágústmánuði, sem fram kom frá raforkumálastofnuninni áætlun þessi, sem svo er nefnd, um forrannsóknir á vatnsorku Íslands. Ég hef haft þessa áætlun nokkuð lengi í höndum og ætla, að margir þekki efni hennar, og ekki er það neitt launungarmál af hálfu stofnunarinnar. En í þessari áætlun mun vera gert ráð fyrir, að á árunum 1970–'74 verði varið samtals nokkuð á þriðja hundrað millj. til þess að framkvæma þessar forrannsóknir. Þessi áætlun er mjög athyglisverð, vegna þess að þar er gert ráð fyrir þeim möguleika að flytja stórvötn milli landshluta og nota þau til virkjunar í öðrum landshluta en þeim, sem þau nú falla um. Það hefði kannske verið ástæða til þess að spyrjast fyrir um það og þá sérstaklega hjá hæstv. iðnmrh., sem fer með orkumálin, hvort það sé svo, að hæstv. ríkisstj. hafi fallizt á þessa áætlun og það, sem í henni felst. Hér er náttúrlega um nokkuð mikið að ræða, að verja miklum fjármunum til að rannsaka möguleika af þessu tagi, og virðist mér, að áður en í það væri ráðizt, þyrfti það að liggja fyrir, að stjórnvöld landsins væru þess sinnis að vilja framkvæmdir af þessu tagi. Ég hef nú ekki ætlazt til svars við þessu nú, um afstöðu ríkisstj. til þessarar áætlunar, en það er vissulega ástæða til þess að hugleiða málið út frá þessu sjónarmiði.

Það er kannske óþarfi að vera að rekja það, hvers konar flutningar stórvatna það eru, sem hér er gert ráð fyrir, en þar er m.a. um það að ræða að flytja jökulvatnið úr Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal austur í Fljótsdal og skapa þar möguleika fyrir orkuver, sem nægja mundi fyrir a.m.k. 15 álverksmiðjur eins og þá, sem nú er í Straumsvík. Þarna eru líka hugmyndir um að flytja hluta af Skjálfandafljóti suður í Þjórsá og hluta af Héraðsvötnum suður í Þjórsá og hluta af skaftfellskum vötnum vestur yfir í Þjórsárfarveg. Fleira er þarna af þessu tagi. Nú er þetta allt saman mjög athyglisvert og umhugsunarvert. En þarna er samt áreiðanlega um mál að ræða, sem rétt mundi vera fyrir hæstv. ríkisstj. eða stjórnvöld landsins yfirleitt að hafa nokkurt samráð um við fólk í byggðum landsins, áður en ákvörðun verður tekin um það að verja mjög miklu fé á komandi árum til svona rannsókna.

Í þessum umr. hefur verið minnzt á Dettifoss og virkjun hans. Ég er ekki frá því, að hjá ýmsum, bæði utan þings og innan, sé nokkuð farið að falla í gleymsku það, sem gerðist í sambandi við virkjun Dettifoss fyrir einum áratug. Hinn 22. marz 1961 var hér á hinu háa Alþ. gerð með shlj. atkv. svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta hraða gerð fullnaðaráætlunar um virkjun Jökulsár á Fjöllum og athugun á hagnýtingu orkunnar til framleiðslu á útflutningsvörum og úrræðum til fjáröflunar í því sambandi.“

till. til þál., sem hér er um að ræða, var flutt af þm. úr Norðurl. e., og stóðu þeir allir að flutningi hennar.

Eins og ég sagði, var hún samþ. hér á hinu háa Alþ. með shlj. atkv. 22. marz 1961. Það gerðist í þessum málum skömmu síðar, eða hinn 5. maí 1961, að þáv. iðnmrh., núv. hæstv. forsrh., skipaði svokallaða stóriðjunefnd til að fjalla um möguleika á stórvirkjunum hér á landi og stóriðju í því sambandi. Í þessari n. voru dr. Jóhannes Nordal bankastjóri, formaður n., Eiríkur Briem rafmagnsveitustjóri, núv. forstjóri Landsvirkjunar, Þórhallur Ásgeirsson ráðuneytisstjóri, Jóhann Hafstein þáv. bankastjóri, núv. hæstv. iðnmrh., Pétur Pétursson forstjóri og Sveinn Valfells forstjóri. Nokkru síðar tók Jóhann Hafstein sæti í ríkisstj., og var Magnús Jónsson bankastjóri, núv. hæstv. fjmrh., skipaður í hans stað í stóriðjunefndina.

Þessi stóriðjunefnd skilaði í nóvembermánuði 1964 skýrslu til ríkisstj. um þessi mál. Mér finnst ástæða til þess, af því að hér hefur verið minnzt á Dettifossvirkjun að rifja upp það, sem stóriðjunefndin sagði um það mál, en hún athugaði stórvirkjunarmöguleikana sérstaklega í sambandi við þá fyrirhuguðu álvinnslu hér á landi. Stóriðjunefndin segir á bls. 5 í skýrslu sinni árið 1964, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er, hefur raforkumálastjórnin allt frá stríðslokum látið framkvæma miklar og víðtækar rannsóknir á vatnsafli landsins. Og um það leyti, sem stóriðjunefnd var skipuð, þ.e.a.s. vorið 1961, var þeim rannsóknum það langt komið, að þegar hafði verið unnt að byrja á áætlunum um einstakar virkjanir. Höfðu virkjun Dettifoss og virkjun Vígabergsfoss í Jökulsá á Fjöllum orðið fyrstar fyrir valinu, og lágu frumáætlanir fyrir um þær haustið 1959. Á grundvelli þál. frá 22. marz 1961 var svo ákveðið að gera fullnaðaráætlun um virkjun Dettifoss með stóriðju fyrir augum.“

Síðar segir í skýrslunni:

„Fyrsta skrefið í stóriðjumálunum var að sjálfsögðu að fá traustar áætlanir um stofnkostnað þeirra raforkuvera, sem helzt gátu talizt koma til greina, og í ársbyrjun 1963 lágu fyrir fullnaðaráætlanir um 133 megawatta virkjun við Dettifoss og 180 megawatta virkjun við Búrfell. Á grundvelli þessara áætlana var gerður samanburður á þessum virkjunum. Í apríl 1963 kom í ljós, að orkan frá Dettifossvirkjun afhent við Eyjafjörð yrði um 20% dýrari en orkan frá Búrfellsvirkjun afhent við Faxaflóa. Þetta þyrfti út af fyrir sig ekki að þýða, að Dettifossvirkjun hentaði ekki fyrir alúminíumvinnslu. En hitt var verra, að eina fyrirtækið, Swiss Aluminium, sem ræddi alúminíumverksmiðju hér af fullri alvöru, taldi sig ekki vilja ráðast í stærri verksmiðju en sem svaraði tæpum 60 megawöttum.“

Nokkuð mikill hluti af þessari skýrslu stóriðjunefndarinnar frá 1964 er samanburður á virkjunarkostnaði, annars vegar við Búrfell og hins vegar við Dettifoss, og niðurstaðan varð, eins og kunnugt er, sú hjá þeim, sem þessum málum réðu, að Búrfellsvirkjun varð fyrir valinu. Hins vegar liggur það glögglega fyrir í skýrslu stóriðjunefndar og þó enn fremur í skýrslu frá Harza Engineering Company International, sem var ráðunautur stjórnarvalda hér í þessum málum, að virkjun Dettifoss sé mjög álitleg sem virkjun vegna stóriðju, þ.e.a.s. sem virkjun til þess að framleiða raforku á lágu verði. Ég hef hér fyrir framan mig um þessi efni útdrátt úr ítarlegri skýrslu Harza um þetta mál, sem ég ætla nú ekki að fara að lesa upp úr hér, enda er hún á ensku, og ég er ekki reiðubúinn til að fara að þýða upp úr henni frá orði til orðs, en þar kemur þetta enn fram, að þetta fræga rafmagnsfirma í New York telur, að virkjunarskilyrðin séu mjög álitleg til að framleiða orku til stóriðnaðar, þ.e.a.s. ódýra raforku, en í skýrslunni er enska orðið „attractive“ notað í því sambandi. En hitt hefur að sjálfsögðu alltaf legið fyrir, að það væri ekki hægt að framkvæma þessa virkjun við Dettifoss, 130 megawött, nema um mjög mikinn orkumarkað væri að ræða, ekki eingöngu fyrir hinn almenna markað hér innanlands.

Nú vænti ég, að fram komi af þessum gögnum, að það er engan veginn svo, að það þurfi að rannsaka allt frá rótum varðandi Dettifossvirkjun. Frumrannsóknir þar hafa farið fram og áætlun verið gerð, og svo nákvæm áætlun, að sérfræðingar töldu sér fært út frá henni að reikna út raforkuverð, sem væri svo nákvæmlega reiknað, að það gæti nægt til samanburðar við aðra stórvirkjun. Það er því nokkurn veginn auðsætt eða virðist vera af þessum gögnum, sem verður að telja, þangað til annað sannast, nokkuð traust, að þarna þurfi e.t.v. ekki miklu við að bæta, til þess að það sé talið liggja nokkurn veginn fullglöggt fyrir margt, sem þarf að vita um væntanlega Dettifossvirkjun, og mér finnst satt að segja, þegar farið er að verja fjármunum til rannsókna á fallvötnum og ef menn hafa í huga, sem ég hygg að sé nú, að áframhald verði á því að koma upp einhverri stóriðju hér á landi, þá sé það svo sem sjálfsagt mál, að það eigi að ljúka við rannsókn á þessari virkjun.

Ég veitti því athygli hér á Alþ. fyrir nokkrum dögum, að hæstv. iðnmrh. lét orð falla eitthvað á þá leið, að nú yrði hafizt handa um athugun á möguleikum til frekari stóriðju hér á landi, og ef um það verður að ræða, vil ég nú ekki láta undir höfuð leggjast að minnast á það, sem gerzt hefur, og á Dettifoss í þessu sambandi, enda var það svo, að á sínum tíma féllu orð um það, þegar rætt var um Búrfellsvirkjun hér á Alþ., að næsta stórvirkjun yrði að líkindum á Norðurlandi, svo að ég tilfæri nú a.m.k. ekki meira en sagt var.