16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. gerði ég grein fyrir afstöðu minni hl. til fjárl. og fjármála ríkissjóðs yfirleitt. Að þessu sinni mun ég ekki fara út í almennar umr. um fjármál ríkisins eða stjórnmál, heldur aðeins víkja að þeim þætti fjárlagaafgreiðslunnar, sem hér er nú til meðferðar.

Eins og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., frsm. meiri hl., er aðild okkar að tillögugerð við þessa umr., þ.e. útgjaldatill., með svipuðum hætti og var gerð grein fyrir við 2. umr. málsins, þ.e., að við höfum óbundnar hendur gagnvart einstökum till. og málinu í heild, þó að við höfum fylgt flestum till. fram. Hins vegar hefur meiri hl. að sjálfsögðu markað stefnuna og stendur einn að tillögugerð í sambandi við tekjuáætlun fjárl. Eins og augljóst er af tillögugerðinni og fram kom í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. fjvn., hækkar tekjuhliðin um 290 millj. kr. Að því sem séð verður mun þetta láta nokkuð nærri, að hækkun á tekjuáætlun fjárl. nemi þeim fjárhæðum, sem ganga til verklegra framkvæmda og til þeirra liða flestra, sem hv. 2. þm. Vesturl. gerði hér sérstaklega að umtalsefni í lok ræðu sinnar. Önnur hlið hækkunar fjárl. frá fyrra ári er því hækkun á rekstrarkostnaði og öðrum liðum, sem ekki eru færðir undir verklegar framkvæmdir.

Af þeim till., sem hér eru til meðferðar, vil ég vekja athygli á till. um aðstoð við námskostnað vegna nemenda, sem ekki búa í því þéttbýli, þar sem skólarnir eru settir. Á síðasta Alþ. var hér til meðferðar þáltill., sem þeir voru flm.hv. 1. þm. Vestf., Sigurvin Einarsson, og hv. 3. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, og var sú till. samþ. með einhverjum breytingum, sem gerðar voru á henni í þeirri n. þingsins, sem hún fór til. Þetta mál hefur því verið til athugunar í mþn. síðar, en þáltill. gerði ráð fyrir því, að málið gengi til mþn. Í umr., sem orðið hafa um þetta mál á hv. Alþ. í vetur, hefur það komið fram, að unnið er nú að því að gera till. um framkvæmd þessa máls og í þessu skyni var þessi 10 millj. kr. fjárveiting tekin. Nú má um það deila, hvort þessi 10 millj. kr. fjárveiting er sú fjárveiting, sem nægir til þess að mæta þessum útgjöldum, þegar að þeim kemur, sem mun verða á þessu ári, að ég geri ráð fyrir seinni hluta ársins, en þá vil ég segja það, að það er ekki frá mínum bæjardyrum séð höfuðmálið, heldur hitt, að farið er nú inn á þessa braut og þegar verður búið að vinna það með eðlilegum hætti, verður auðvitað séð fyrir fjárveitingu til þess að koma því í framkvæmd. Ég fagna því, að þetta mál hefur náð þetta fram að ganga, þó að, eins og ég segi, mér sé ljóst , að hér er um lága fjárhæð að ræða að þessu sinni. En hér er um mikið stórmál að ræða og frá sjónarmiði almennings er þetta líka réttlætismál og því er till. mjög í rétta átt. Enda þótt n. hafi ekki skilað áliti, sú sem að þessu máli vinnur, þá er málið komið á þennan rekspöl og er það gleðiefni.

Um till. okkar á þskj. 187 vil ég segja það, að þær eru mjög í samræmi við það, sem við lögðum til við 2. umr. þessa máls. Við lögðum þar höfuðáherzluna á það að búa sig undir átökin við það atvinnuleysi, sem nú er í landinu og gerum enn á ný till. þar um. Sú breyting er þó á okkar till. frá því síðast, að við lækkum fjárhæðina niður í 200 millj. í hámarki, þar sem gert er ráð fyrir að heimila ríkisstj. að taka lán allt að 200 millj. kr. og leggjum til, að atvinnumálanefnd ríkisins fái málið til meðferðar og afgreiðslu, sem verði gert í samráði við atvinnumálanefndir héraðanna. Við þóttumst verða varir við það við 2. umr., að sumir töldu, að það væri rangt að láta fjvn. hafa afskipti af þessu og ég get eftir atvikum, eins og ég þá sagði, fallizt á, að nóg er til af alls konar aðilum í því að annast lánveitingar á sviði atvinnumála á þessum litlu fjárhæðum, sem við höfum til þess að lána og við leggjum því til, að þessi fjárhæð gangi inn í þann farveg, sem þegar er til staðar, að atvinnumálanefnd ríkisins ákveði, hverjum lána skuli og Atvinnujöfnunarsjóður muni svo sjá um framkvæmdirnar. Ég held, að það geti enginn á okkur deilt fyrir það, að við séum að búa hér út nýtt „apparat“ í þessu sambandi og heldur geti enginn á okkur deilt vegna þess, að fjárhæðin sé óeðlilega mikil, því að hér er gert ráð fyrir því, að þetta sé allt að 200 millj. kr., sem n. fengi þar heimild til þess að fá að láni, en ef að hennar mati þyrfti minna til að fullnægja þörfinni, svo að hægt væri að útrýma atvinnuleysinu, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að það geti líka orðið minna. Ég vil líka segja það í sambandi við þessa till., að við gerum ráð fyrir því, að þeirri stefnu verði haldið, sem gert var í fyrra, að lánað verði á vegum atvinnumálanefndar ríkisins vegna atvinnu skólafólks og unglinga út um landið með sama hætti og gert var á yfirstandandi ári. Ég vildi því vona, að það gæti orðið samstaða um þessa till., því að hún er eins hófleg eins og hægt er að hugsa sér. Ef ekki þarf að grípa til fjárins, þá fer það eins og með aðra heimild, sem ekki þarf að nota, en ef þarf að nota það, er heimildin til staðar og þeir aðilar eiga um að fjalla, sem gera það nú samkv. l. um atvinnumálanefnd ríkisins. Þess vegna er það nú von okkar, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþykkja þessa hóf sömu till. og hún nái fram að ganga, þannig að hún verði framkvæmd, því að ég sé ekki, að hjá atvinnuleysi verði komizt og það í vaxandi mæli, nema til aðgerða verði gripið.

Þá höfum við endurflutt till. um lánsheimild vegna Byggingarsjóðs ríkisins til húsnæðismála, nokkru lægri fjárhæð heldur en síðast var.

3. till., sem við flytjum og eina till., sem er útgjaldatill., er að hækka framlög til rafvæðingar í sveitum um tæpar 24 millj. kr. Við hefðum gjarnan viljað gera stærra átak í þessum málum, en að þessu sinni gerum við það ekki í þeirri von, að síðar á þessu þingi megi takast samstaða um að leysa þetta mál á farsælan hátt. Það er okkar skoðun og ég held, að ég fari þar rétt með, að það sé skoðun fleiri og m.a. núv. hæstv. raforkumálaráðh., að hér sé ekki um stærra mál að ræða heldur en um 150 millj. kr. til framkvæmda og mundi verða auðvelt að leysa þetta mál á tveimur árum. Við leggjum því til, að þessi fjárveiting verði hækkuð, en að öðru leyti berum við ekki fram frekari till. í sambandi við þetta né önnur mál við þessa fjárlagaafgreiðslu. Og ég treysti því, að okkar hófsemi verði metin réttilega og samstaða náist um till. okkar, sem við höfum hér flutt.

Eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl., er hér þó nokkuð af till. á því þskj., sem meiri hl. hefur lagt fram, þskj. 176. Meðal þeirra till., sem þar eru, er till. um makaskipti ríkisins og Reykjavíkurborgar. Ég verð að játa það, að þegar þetta mál var fyrst lagt fyrir í fjvn., var það nú svo, að ég gat nú ekki gert mér fullkomlega grein fyrir því, hvað hér væri raunverulega á ferðinni og ræddum við það þá nokkuð og að minni ósk var frestað afgreiðslu málsins við 2. umr. Við fórum fram á það að fá kort af því landi, sem skipta ætti, eða þeirri lóð, sem Landsspítalinn fengi og varð formaður fjvn. við þeirri ósk okkar. Ég verð að segja það eins og er, að eftir því sem ég hugsa þetta mál meira og reyni betur að átta mig á því, þá verður það mér torræðara. – Nú er mér það ljóst, að hér er ekki um mál að ræða, sem menn skiptast í flokka um eftir stjórnmálaskoðunum, heldur eru önnur viðhorf látin ráða. Og ég er ekki enn þá búinn að átta mig á því, hvaða nauðsyn hefur borið til og hversu hyggilegt það er að taka inn í þetta mál, eins og gert er, tilfærsluna á Hringbrautinni. Mér er það fullkomlega ljóst, að Landsspítalinn þurfti meira lóðarrými og satt að segja er ég oft hissa á því, að í okkar ágætu höfuðborg, sem hefur haft betri aðstöðu heldur en nokkurt annað bæjar– eða sveitarfélag á landinu til þess að vinna sín skipulagsmál og haft til þess færari menn heldur en nokkurt annað sveitarfélag, hvað mér finnst samt, að séu mörg dæmi um skammsýni í sambandi við skipulagsmálin. Þetta mál sýnist mér vera eitt þeirra, sem hefur verið nokkuð þröngur stakkur skorinn. Ég verð að segja það, að ég varð nú dálítið undrandi á því, þegar ég heyrði það í hádegisfréttum á sunnudaginn, að búið væri að ganga frá þessum samningi og mér leikur forvitni á að vita, hvaða ástæða var til þess að hraða þessu, hvort það breytti nokkuð, þó að það væri vikunni seinna heldur en fyrr, t.d. um næstu helgi, heldur en áður en Alþ. gekk frá málinu. En við þá frásögn frá þessum atburði stóð málið meira í mér heldur en áður, því að þar var nokkuð skýrt frá því, hvað hér væri að gerast. Og m.a. tel ég mig hafa heyrt það rétt, að það er gert ráð fyrir því, að undir þá nýju Hringbraut, sem á að gera samkv. þessum samningi, á að gera göng, þannig að það á nokkur hluti af byggingu Landsspítalans að vera sunnan hinnar nýju Hringbrautar og það á að tengja þann hluta við núverandi lóð með undirgangi undir nýju Hringbrautina. Ef þetta er rétt skilið, leikur mér hugur á að vita, hvort ekki var hægt að leysa málið með því að gera þennan gang undir núverandi Hringbraut. Mér er það ljóst , að hér er mikið fjárhagsmál á ferðinni. Við eigum afar mikið ógert í málefnum okkar heilbrigðisstofnana og þurfum að byggja þar mikið og af því, sem ég hef heyrt, – ég skal játa það, að ég hef ekki sannreynt, hvort það er rétt, – þá mun kostnaðurinn við breytingu á Hringbrautinni verða 30–40 millj. kr. Nú vil ég spyrja: Er þá gert ráð fyrir göngunum undir nýju Hringbrautina eða er það með, ef þessar tölur hafa við einhver rök að styðjast? Mér er það ljóst, að þessi fjárupphæð hlýtur að verða tekin af þeim fjárveitingum, sem ganga til þess að byggja upp þessar heilbrigðisstofnanir og 30 millj. er sama fjárhæð og á, á árinu 1970 að verja til þess að gera kvensjúkdómadeildarhúsið fokhelt. Hér er um geysilega mikla fjárhæð að ræða. Þess vegna vildi ég nú leyfa mér að spyrja um það, hvort ekki væri hægt að tengja þessar lóðir tvær sunnan Hringbrautar eins og nú er og núverandi Landsspítalalóð með þeirri viðbót, sem hægt var að láta henni í té hérna megin Hringbrautar, væri ekki hægt að tengja þetta saman með undirgangi undir núverandi Hringbraut. Og hver er ástæðan fyrir færslu Hringbrautar? Eru það byggingar, sem ekki var hægt að koma fyrir innan núverandi Hringbrautar. Ég hef heyrt talað um það, að við það, að núverandi Hringbraut yrði lögð niður, yrði sú gata tekin undir bílastæði á lóð Landsspítalans. Það sjá náttúrlega allir, að það eru ekki rök fyrir færslunni, því að þó að Landsspítalinn þurfi bílastæði, þarf hann ekki að leggja 30–40 millj. kr. í það að gera bílastæði, enda mundi sú Hringbraut vera allt annars eðlis heldur en þó að hefðu verið lagðir fjármunir í að gera bílastæði, því að þau þarf ekki að byggja eins og mikla umferðargötu. Þess vegna verð ég að segja það, að ég er nú ekki enn þá fullkomlega sáttur við það, að við séum hér á réttri leið og það hefði þurft að gera þetta mál með þeim hætti, sem hér er stefnt að. Og ég leyfi mér því að spyrja um það, – ég ætlaði nú að spyrja hæstv. heilbrmrh. um það, en hann er ekki hér í hv. d., en vonast þá til, að hæstv. fjmrh. geti leyst úr því, – hver séu höfuðrökin fyrir því, að þessa stórfelldu breytingu þarf að gera, fyrst hugsunin er, að byggingar Landsspítalans séu beggja megin Hringbrautar eftir sem áður. Ég hef ekki enn þá fengið samhengi í það, en mér er það fullkomlega ljóst , að hér er stórt fjárhagsmál á ferðinni og okkur veitir hreint ekki af því að hagnýta vel þá fjármuni, sem við notum til heilbrigðismálanna, því að svo mikið eigum við þar vangert.