15.12.1969
Neðri deild: 25. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

125. mál, leigubifreiðar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til breyt. á l., sem nú gilda um leigubifreiðar. Það er flutt að beiðni Landssambands vörubifreiðastjóra, sem hefur látið endurskoða l. nr. 1 frá 31. jan. 1966, um leigubifreiðar, svo og l. nr. 22 frá 22. apríl 1967, um breyt. á þeim l. Þetta frv. er niðurstaðan af þeirri endurskoðun.

L. um leigubifreiðar í kaupstöðum voru upphaflega sett árið 1953, en síðan hefur þeim verið breytt margsinnis á Alþ., án þess að um heildarendurskoðun á l. væri að ræða. En af þessum sökum m.a. voru ákvæði I. um leigubifreiðar orðin ósamstæð og flókin og torvelt að átta sig á þeim og framkvæma þau. Reynslan hefur og leitt í ljós þörf fyrir betri skipan þessara mála. Landssamband vörubifreiðastjóra benti einkum á eftirfarandi atriði, sem æskilegt væri að taka til greina við endurskoðun laganna:

1. Heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða ætti eingöngu að miða við félagssvæði.

2. Lagaheimild þurfi að vera fyrir hendi, til þess að rn. geti skorið úr, ef ágreiningur rís milli bæjarstjórna og sýslunefnda um beitingu takmörkunarheimildar.

3. Skilgreina verði, hvað felist í viðurkenningu á bifreiðastöð.

4. Skilgreina þurfi, hvað sé leiguakstur til vöruflutninga.

5. Hækka beri sektir fyrir brot á l. til samræmis við breytt verðlag.

Þessar ábendingar Landssambands vörubifreiðastjóra hafa verið teknar til greina í frv. Breyt., sem í frv. felast, taka einnig, eftir því sem við á, til réttarstöðu fólksbifreiðastjóra og sendiferðabifreiðastjóra. Að því er fólksbifreiðastjóra varðar, gerir frv. ráð fyrir því, að sýslun. komi í stað hreppsn. sem aðili að ákvörðun um takmörkun á fjölda fólksbifreiða á sýslusvæðum og viðurkenningu á bifreiðastöðvum.

Frv. var sent samtökum fólksbifreiðastjóra og sendiferðabifreiðastjóra til umsagnar, en samtök þessara stétta gerðu engar aths. við það.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða hverja gr. frv. fyrir sig. Það, sem hér hefur verið sagt, er að efni til það, sem í frv. felst, og tel ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.