27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

11. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ekki er þetta nýtt mál, sem hér er á dagskrá í dag, heldur hefur það verið flutt á þingi áður fyrir tveimur árum, ekki á síðasta þingi, heldur á þingi þar áður, þá í Nd. og fékk ekki afgreiðslu. Nú lék mér hugur á því að reyna að koma þessu máli fyrir síðasta þing, en það varð ekki af því, en segja má, að í rn. hafi verið unnið að málinu reyndar allan tímann, frá því að það fyrst kom fyrir þingið, og þá var meginefni málsins af rn. hálfu að reyna að samræma þau mismunandi sjónarmið, sem fram höfðu komið. Þetta frv. er þannig til orðið, að skipuð var á sínum tíma n. af ráðh. til þess að endurskipuleggja, við skulum segja stjórnsýsluna að vissu leyti, skipun prestakalla og prófastsdæma, en síðan hafði verið á kirkjuþingi samþ. frv. um kristnisjóð, og svo var þetta allt sameinað í eitt frv.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa mörg orð til þess að gera grein fyrir frv. Það er efni málsins að sameina nokkur prestaköll, þannig að þau verði heldur færri eftir en áður, ef þetta nær fram að ganga, og það er bara af þeim skiljanlegu ástæðum, að fólkið er sums staðar flutt til og farið jafnvel, og meginefni málsins er að reyna að skipa þessum málum þannig, að hvert prestakall bjóði hverjum presti viðunandi starfsskilyrði.

Aftur á móti eru till. frá kirkjuþingi um kristnisjóð, sem tengdar eru við þetta frv., þess eðlis, að í raun og veru sé ekki þar með tekið af kirkjunni, heldur fái hún, þegar þetta kemur til framkvæmda, það fé, sem ella mundi hafa verið fleygt í prestaköllunum, sem lögð verða niður eða sameinuð öðrum prestaköllum, sem kannske er nú réttara að segja. Það getur orðið, þegar allt er komið til framkvæmda, eitthvað á milli 4 og 5 millj. kr., eins og fram kemur í grg. Það er einnig gerð grein fyrir verkefnum eða hlutverki kristnisjóðs í 51. gr., og auðvitað er það margt, sem kirkjan sjálf getur gert, ef hún hefur fjárráð til þess. Þá er gert ráð fyrir því, að prestakallasjóðurinn hverfi inn í kristnisjóðinn. Eins og segir í 8. lið 21. gr. á kristnisjóður að sinna eftir þörfum þeim verkefnum, sem prestakallasjóður hefur gegnt til þessa.

Ég hef tekið inn í þetta frv. til ákvörðunar fyrir Alþ. eitt ákveðið mál, sem er prestsþjónustan á Norðurlöndum fyrir Íslendinga. Við skárum það við nögl í ríkisstj., sennilega við lítinn orðstír, á sínum tíma til þess að reyna að spara í erfiðleikum, en mér finnst, að undirtektirnar bæði hér í þingi og utan þings séu þannig í sambandi við þetta embætti, að það eigi að reyna að koma því í lög. Og ég hef ekkert við því að segja, menn geta lagt sitt til um það að fella þetta úr, ef menn vilja það ekki. Fylgismenn stjórnarinnar eru óbundnir að stuðningi við frv., slíkt frv. getur ekki verið flokkspólitískt. En það er eitt, sem ég vil helzt ekki þurfa við að una, þ.e. að leggja fram frv. eins og þetta, jafnmikilvægt og það er í raun og veru, og láta það svo ekki koma neitt frekar til umr. eða afgreiðslu. Frv. er í fyrsta skipti núna flutt hér í hv. Ed. Áður hefur það verið flutt í Nd. og komst aldrei úr n. Nú bið ég menntmn., sem fær þetta mál til meðferðar, um að afgreiða málið fljótlega. Hitt get ég ekki fengizt um við menn, hvort þeir séu með eða á móti, en ég vona, að þeir séu mér sammála um það, að ég geti með rökum ætlazt til þess, að málið fái venjulega og eðlilega afgreiðslu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Þetta segir til sín nokkuð sjálft, menn eru því nokkuð kunnugir frá fyrri tíma, og ég vil leyfa mér að lokinni þessari umr. að mælast til þess, að frv. fari til 2. umr. og hv. menntmn.