24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

202. mál, Útflutningslánasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, sem ég ætlaði að segja hér nú við 1. umr. þessa máls.

Mér sýnist, að hér sé um að ræða mál, sem er býsna þýðingarmikið. Ég held, að það verði ekki hjá því komizt, eins og nú er orðið högum háttað í sambandi við okkar framleiðslu- og viðskiptamál, að komið verði á fót slíkum lánasjóði, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., en ég veiti því athygli, að það er aðeins gert ráð fyrir því í þessu frv., að hér verði um lánveitingar að ræða vegna framleiðslu á meiri háttar vélum og tækjum, þ. á m. í sambandi við byggingu skipa. En mér sýnist, að ef á að binda hlutverk sjóðsins aðeins við lánveitingar í þessu skyni, þá sé ekki vandinn leystur nema að sáralitlu leyti. Það er auðvitað enginn vafi á því, að ef þeir aðilar, sem framleiða hér vélar og tæki og geta í vissum tilfellum tekið þátt í útflutningi á slíkri framleiðslu, eiga að keppa á erlendum mörkuðum, þá þurfa þeir að geta fengið lán af þeirri tegund, sem um er rætt í þessu frv., svo að þeir standi eitthvað svipað að vígi og hliðstæðir framleiðendur í öðrum löndum gera. Og það er auðvitað heldur enginn vafi á því, að ef þessir framleiðendur hér á landi eiga að geta keppt við erlenda aðila, sem flytja hingað til lands vélar og tæki og geta veitt ákveðinn greiðslufrest, þá þurfa framleiðendurnir hér á þess háttar lánum að halda, sem þarna er gert ráð fyrir. Ég viðurkenni þessa nauðsyn fullkomlega.

En mér sýnist, að hér geti verið um miklu fleiri tegundir framleiðslu að ræða, sem alveg sé óhjákvæmilegt að veita hliðstæð lán. Ég vil nefna hér dæmi. Það hefur þó nokkuð verið rætt um það að koma hér upp fullkominni veiðarfæragerð, sem framleiddi hér veiðarfæri í allstórum stíl, bæði fyrir heimamarkað og jafnvel í vissum tilfellum einnig fyrir útflutningsmarkað. Ég get ekki séð annað en það verði að veita slíkum framleiðanda, ef til kemur, lán úr sjóði eins og þessum út á þá framleiðslu, vegna þess að hinir erlendu framleiðendur, sem keppa hér á innanlandsmarkaði með sölu á veiðarfærum, veita nú ákveðinn gjaldfrest á verði þessara veiðarfæra, sem þeir verzla hér með. Það er mjög algengt, að hinir erlendu aðilar veiti hér 6 mánaða gjaldfrest á stórum hluta af andvirði veiðarfæranna og allt upp í 12 mánaða gjaldfrest. Það gefur auga leið, að innlendur framleiðandi í þessari grein getur ekki staðizt hina erlendu samkeppni, nema hann eigi kost á framleiðslulánum úr lánasjóði eins og þeim, sem hér er gert ráð fyrir að setja lög um. Það er því ekki fullnægjandi að koma upp lánasjóði eins og þessum, sem aðeins tekur til lána út á meiri háttar vélar og tæki og skip. Hér getur verið einnig um framleiðslu á ýmiss konar öðrum varningi að ræða, sem þarf að veita lán út á, ef innlenda framleiðslan á í rauninni að geta orðið samkeppnisfær.

Ég nefni einnig hér annað dæmi. Þegar hefur verið komið upp tveimur skógerðum a.m.k. hér í landinu og allmikið rætt um þá framleiðslu. Sú framleiðsla á að keppa á innanlandsmarkaði við erlenda aðila, en þessir erlendu aðilar veita hér að meira eða minna leyti gjaldfrest á þessari vöru. Gert er einnig ráð fyrir því, að þessar verksmiðjur kunni að keppa eitthvað á erlendum markaði með sína framleiðslu. Það geta þær ábyggilega ekki, nema þær geti veitt hliðstæð lán í sambandi við sína framleiðslu og skóverksmiðjur í öðrum löndum geta gert. Mér sýnist því alveg nauðsynlegt að gera ráð fyrir því, að þessi útflutningslánasjóður verði að geta lánað innlendum iðnaðarfyrirtækjum í miklu fleiri tilvikum en gert er ráð fyrir samkv. þessu frv.

Það er, eins og ég sagði í upphafi míns máls, út af fyrir sig ágætt, að þessi lánasjóður getur veitt lán í sambandi við framleiðslu á vélum og tækjum og smíði skipa, en þetta er engan veginn nægilegt. Nú vildi ég spyrjast fyrir um það og beini þá fsp. minni til þess hæstv. ráðh., sem hér er staddur í þingsalnum nú, hvort ekki hafi verið gert ráð fyrir því, að þessi útflutningslánasjóður gæti einnig haft með höndum lán út á framleiðslu, t.d. af þessum tegundum, sem ég hef hér minnzt á, til þess að gera innlendu fyrirtækjunum kleift að standast samkeppni við erlenda aðila, eða hvort hugsað er að leysa vandamál annarra framleiðslugreina en þeirra, sem þetta frv. í rauninni nær til, með einhverjum öðrum hætti. Þetta tel ég að þurfi að fá upplýst. En sé það ekki hægt við þessa umr., vegna þess að sá ráðh., sem hefur með þetta mál að gera, er ekki hér staddur, þá vænti ég, að sú n., sem fær málið til athugunar, fái þá upplýsingar um þetta atriði, sem ég hef hér aðallega gert að umtalsefni.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um málið við þessa umr., en tel, að í meginatriðum sé hér stefnt í rétta átt með því að koma upp slíku lánakerfi, sem hér er gert ráð fyrir.