16.11.1970
Efri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

101. mál, atvinnuöryggi

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, enda engin sérstök ástæða til þess, en það eru viss atriði, sem ég tel þó nauðsynlegt að minnast hér á, og það m. a. vegna fsp., sem beint hefur verið til mín. Varðandi ræðu hv. 6. þm. Sunnl., er sneri að ályktun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, vil ég segja það, að sú hugmynd, sem kemur fram í ályktun þeirri, hefur ekki af opinberri hálfu verið rannsökuð, enda hygg ég, að á henni sé næsta mikið nýjabrum, og eftir því, sem ég bezt veit, og eftir því, sem upplýst er, einnig í sambandi við viðtal við formann BSRB, þá mun þetta hvergi í veröldinni hafa verið framkvæmt ennþá, þannig að hér er um nýstárlega hugmynd að ræða, sem kann vel að vera athyglisverð. Ég skal ekkert um það segja. Hún hefur ekki borizt mér í hendur nema í gegnum blöð, en ósköp er ég nú hræddur um, að menn a. m. k. muni hika við, áður en þeir ákveða það að vísitölubinda gengið, og ímynda sér, að hræðsla við þær afleiðingar muni verða þess valdandi, að menn fari svo varlega í samningum sínum og fjárráðstöfunum öllum, að það eitt nægi til þess að leysa allan vanda. Við höfum haft ýmsa tilburði í þá átt í þjóðfélaginu. Við höfum sett upp háa vexti, sem að vísu eru orðnir lágir núna, með það í huga, að menn tækju þá síður lán, og eitt og annað hefur verið gert. Það hafa verið vísitölutryggðar skuldir og sitt af hverju gert af þessu tagi, sem ekki hefur samt orkað mikið í þá átt, að það hefði áhrif á, að þeir aðilar, sem stæðu undir slíkum skuldum, spyrntu sérstaklega fótum í samtökum sínum gegn óeðlilegum hækkunum. En hvað sem því liður eru allar slíkar hugmyndir góðra gjalda verðar, þó að ég haldi, að það sé nú ekki möguleiki til þess að taka það til sérstakrar athugunar í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, en það haggar ekki því, að það er sjálfsagt um það eins og aðrar hugmyndir, að skoða þær af velvilja.

Hv. þm. tók það fram, að hann teldi þetta frv., sem hér liggur fyrir, í rauninni ekki vera svo ýkja slæmt, og það ber vissulega að fagna því, og skerðing minni en sézt hefði oft í slíkum till. hér á Alþ., og það held ég, að við getum nú öll verið sammála um, að er ótvírætt. Hitt er svo annað mál, að menn geta svo deilt um það, hvort eigi að vera skerðing eða ekki skerðing, það er annað mál. En vitanlega hafa frv. sem þessi margoft séð dagsins ljós hér á Alþ., þó að þau hafi ekki nákvæmlega verið í þessum búningi, og ég held, að það sé hárrétt, sem kom fram hjá hv. 11. þm. Reykv. í lok máls hans og sem ég get alveg tekið undir eins og margt, sem hann sagði í lok máls síns, að það, sem skiptir auðvitað máli í sambandi við samninga um vísitölutryggingu á launum, er aðferð til þess að verðtryggja kaupmátt launanna. Það er ekki launaákvörðun sem slík, heldur aðferð til þess að verðtryggja launaákvörðunina, sem gerð er. Og það er hægt að velja til þess mismunandi úrræði. Menn hafa valið vísitöluákvæðið, þó að ég sé viss um, að flestir og það verkalýðsleiðtogar engu síður en aðrir, sem hafa um það fjallað, telji það vera verulega gallað. Og ef við skoðum það t. d. frá sjónarhóli láglaunafólks, þá eru auðvitað vísitöluákvæði á laun ákaflega óheppileg leið til þess að tryggja kjör láglaunamanna, vegna þess að þeir, sem hærri launin fá, fá alltaf miklu meira í sinn vasa fyrir hvert vísitölustig, sem verðlagið hækkar, þannig að þetta er auðvitað mjög gölluð aðferð, þó að önnur aðferð hafi ekki fundizt, en þá ætti auðvitað ekki að útiloka það, að menn íhuguðu aðrar leiðir í því sambandi, og það er hárrétt, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði og sem mér finnst vera kjarni málsins og hlýtur að ráða efnislegri afstöðu manna til frv. eins og þessa eða till. um efnahagsmál í sambandi við laun, hvort þær aðferðir, sem valdar eru, tryggja jafn vel og vísitöluákvæði það, sem samið hefur verið um, kaupmátt launanna. Þetta er ég honum alveg sammála um. Og ég er honum líka alveg sammála um það, að það er geysilegt atriði einmitt að tryggja þann bata, sem orðið hefur, og það, eins og hann orðaði það alveg réttilega, má ekki glata þeim árangri, sem varð í vor. Það er ég honum líka innilega sammála um, og það er það, sem allar þessar ráðstafanir miða einmitt að, að tryggja þann árangur.

Það kom fram sú hugmynd í ræðu hans, sem áður hefur verið orðuð, að raunverulega ætti þetta mál allt að bíða fjárlaga. Vissulega væri æskilegt, að það dæmi hefði allt saman verið hægt að gera upp. En það vita nú allir hv. þdm., að fjárl. verður nú ekki flýtt svo, að það sé hægt að gera það dæmi upp nú, enda ýmis atriði, sem þar eru ennþá óljós, og hins vegar er þetta mál með þeim hætti, að því verður heldur ekki skotið á frest og verður að taka ákvörðun um meginstefnuna, sem mörkuð er varðandi lausn þessara mála, því að vitanlega er öllum það ljóst, að þetta er dæmi, sem er sett upp og er nátengt allt saman þeim ráðstöfunum, sem eru í efnahagsmálafrv., og þó að það megi segja, að ein og ein gr. geti verið ákveðin með öðrum lögum, þá hefur þetta verið sett saman sem eitt dæmi, til þess að það gengi upp, og þannig verður það að vera.

Ég skal ekkert fara út í þá sálma að færa rök fyrir því, að margoft hafi gerzt svipaðir hlutir áður, að breytt hafi verið kjarasamningum, en í sambandi við það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um sjómannasamningana, þá veit ég, að hann veit það mætavel eins og ég, að það var ekki vegna þess út af fyrir sig, að menn teldu, að með þeim væri verið að ógilda sjómannasamningana, heldur fyrst og fremst vegna þess, að það var vitað, að sumir samningar voru lausir, en aðrir samningar voru bundnir, og þess vegna var það niðurstaðan, að það væri eðlilegt, að það hefðu öll félögin sama rétt til þess að semja um sín mál um þetta leyti, og ég skal ekki fullyrða, hvort það var meiri hl. eða minni hl. sjómannafélaganna, sem hafði samninga sína lausa, en þannig var þessu háttað, og það var það, sem réð úrslitum um það, að þetta ákvæði var sett inn í lögin.

Hv. 11. þm. Reykv. spurðist fyrir um það, hvernig að ætti að fara, þegar allar tekjur ríkissjóðs væru búnar, sem ættu að fara til niðurgreiðslna, hvort hugmyndin væri þá að skella þessu öllu yfir á bök almennings eða væntanlega þá e. t. v. að leita nýrra tekjuöflunarleiða eða skerða um meira en tvö vísitölustig. Í sambandi við þessar hugleiðingar og einnig það, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að varðandi nauðsyn þess að breyta frv., eins og það liggur fyrir, þ. e. a. s. ákvæðunum um brottfall tveggja vísitölustiga, þá er það skoðun mín, a. m. k. eins og sakir standa, þó að það kunni að þurfa að athugast nánar, að engra breytinga sé þörf á umræddri frvgr., og það byggist einfaldlega á því, að eins og ákveðið er núna um útreikning kaupgjaldsvísitölunnar, — menn geta deilt um, hvort það er rétt eða rangt, það er allt önnur saga, — þá er svo ákveðið, að kauplagsnefnd birti ekki sína kaupgjaldsvísitölu fyrr en búið er að ákveða, að hve miklu leyti hún verður greidd niður. Og í grg., sem til var vitnað, segir, að það sé aðeins um hækkunina, sem verður 1. des., og tilheyrandi dagsetningar þar á eftir, sem komi til greina að fella niður. Þess vegna er það svo, að nú 1. des. verður vísitalan birt frá kauplagsnefnd sem 104.2 stig. Og þar af leiðir, að það væri ekkert sérstakt, sem um er að ræða að fella niður, það skal ekkert fella niður al þeirri vísitölu, heldur aðeins hækkuninni, sem verður, og þar sem engin hækkun verður, þá er heldur ekkert til að fella niður. Og þegar seinna kemur til hækkunar, svo lengi sem sú hækkun verður innan við 2 stig, þá verður sú hækkun felld niður, en ekki yfir 2 stig. Fari hækkunin næstu tímasetningar þar á eftir yfir 2 stig, þá verður það annaðhvort að koma fram í hækkuðu kaupi eða ríkisstj. verður að gera frekari ráðstafanir til niðurgreiðslna. Þetta er efni málsins, og þetta er hugsunin með þessari gr. eins og hún stendur nú, eftir þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið, og eins og ég segi, verður það sjálfsagt athugað í n. Skoðun mín er sú, að það þurfi ekki að breyta gr. Sé það eitthvert efamál, þá er sjálfsagt að taka það til athugunar, en ég hygg, að þetta að nokkru leyti svari því, sem hv. 11. þm. Reykv. spurði um, hvort meiningin væri að fara lengra en sem nemur þessum tveimur stigum. Það er ekki meiningin, og það verður þá að leysa það annaðhvort á þann hátt, ef ríkissjóður hefur ekki fé til, að það komi þá fram í kaupgjaldsvísitölunni, eða þá ef ríkissjóður hefur fé til þess, þá verði það greitt niður og eins og ég gat um í minni ræðu hér í dag, nái þetta ekki tveimur stigum, sem útreikningarnir í dag benda til, að það geri ekki, þá verður að sjálfsögðu ekki um neinn tveggja stiga niðurskurð vísitölunnar að ræða. Varðandi það, hvað þetta kosti, sem nú er verið að gera, miðað við að greiða niður hinn 1. des., þá er það ekki svo geysileg fjárhæð. Það er að vísu tveggja stiga niðurgreiðsla í 3 mánuði. Við reiknuðum með því, að framhaldinu af verðhækkunum yrði mætt með niðurgreiðslum þegar þar að kæmi. Dæminu er í raun og veru aðeins snúið við, þannig að í stað þess, að við reiknuðum með að greiða niður þau 1.50 eða 1.60 stig eða hvað, sem það verður eftir áramótin, og það er inni í niðurgreiðsludæminu, þá tökum við niðurgreiðsluna strax, að vísu heldur hærri en þessi tvö stig, þannig að það, sem munar hér, er raunverulega aðallega flýtingin, ef svo má segja á lélegu máli, á vísitölugreiðslunni, þ. e. a. s. þessir þrír mánuðir, sem um er að ræða. Og ég reikna með, að þessi kostnaður muni í heild geta numið nálægt 100 millj. kr., sem þessi ráðstöfun kostar. Ég get að vísu ekki svarað því svo nákvæmlega nú, hvernig þetta bil verði brúað. Ég skal þó aðeins geta þess, að ég hef gert ráð fyrir því, að ekki væri óhugsandi, að aukin niðurgreiðsla á búvöru kynni jafnvel að draga enn úr útflutningi búvara, og með því mundu sparast útflutningsuppbætur. Þetta er hlutur, sem við vitum ekki nákvæmlega um, og að vísu kemur þá aukin neyzla á móti hér, þannig að það er ekki fullséð, hvernig það dæmi kemur út.

En varðandi það atriði, sem oft hefur verið vitnað í, að það séu einhverjir grunsamlegir fjármöguleikar, sem ríkið hafi, og gefið í skyn, að geti þá verið verulegar fjárhæðir, sem geri jafnvel mögulegt að falla alveg frá þessum skerðingum, þá er nú því miður ekki um það að ræða, því að þær tölur, sem hv. 11. þm. Reykv. nefndi í því sambandi, eru nú ekki sérlega háar tölur, og það, sem átt er við í frv., á heldur ekki við háar upphæðir, heldur eru það endurskoðunarupphæðir á vissum tekjustofnum, sem reynslan sýnir, að kunni að vera hægt að ná meiru út úr, og það er ekkert óvenjulegt og kemur alltaf fyrir við undirbúning fjárlaga, en tekjuáætlun þeirra er gerð í ágústmánuði, og síðan þá getur þróun breytzt þannig. Ég tala nú ekki um, þegar fjárlög eru komin í þær upphæðir, sem raun ber vitni um, þá geta breytingar fljótlega leitt til þess, að það nemi nokkrum milljónatugum a. m. k., sem sýni sig, að sé líklegt, að komi út úr vissum tekjustofnum. Og það er kannske hægt að tefla á nokkuð tæpara vað með fjárlagaafgreiðsluna fyrir næsta ár með hliðsjón af verðstöðvuninni, vegna þess að við höfum alltaf orðið að reikna með því við fjárlög undanfarin ár, að svo og svo mikið kæmi í umframgreiðslur. Launin hafa hækkað verulega á árinu vegna vísitöluhækkana, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta hefur ýmist jafnað sig eða ekki jafnað sig. Það fer eftir atvikum. Undanfarin ár hefur það ekki gert það, vegna þess að það hefur orðið meiri samdráttur í innflutningi en jafnvel hefur verið gert ráð fyrir á erfiðleikaárunum, en af þessum ástæðum er hægt að hugsa sér að fara nokkru tæpara með fjárhagsáætlanir.

Ég held svo ekki, herra forseti, að það sé ástæða fyrir mig að vera að þreyta hv. þdm. á lengri umr. af minni hálfu, og er ekkert sérstakt, sem ástæða er til þess að ræða. Þetta hefur verið gagnrýni fram og til baka, eins og við var að búast og sannarlega ekki verri en við var að búast. (Gripið fram í: Málið var nú ekki svo slæmt.) Málið var ekki svo slæmt, ég var einmitt að lýsa því yfir, af því að einn hv. þm. var að enda við að lýsa því yfir, að málið væri ekki svo slæmt. Það var t. d. miklu verra, þegar flokksbræður hv. þm., sem greip hér fram í, áttu hlut að slíkum efnahagsaðgerðum. En sleppum því, ég skal alveg spara mér allan meting og samanburð um það. En það var aðallega þetta atriði, sem olli því, að ég stóð upp í rauninni, að lýsa yfir þessu bæði í tilefni af fsp. hv. 11. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e. um skilning á þessu atriði varðandi tvö vísitölustig.