24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

262. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fimmta, sjötta og sjöunda dagskrármálið fjalla í raun og veru um sama efni, svo að ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að mæla fyrir öllum þremur frv. í einu. Frv. eru komin frá hv. Ed., þar sem þau voru samþ. með shlj. atkv. samkv. einróma meðmælum hv. menntmn. d. Efni frv. er mjög einfalt. Samkv. gildandi l. er einn af tekjustofnum Menningarsjóðs sektir fyrir áfengislagabrot og tekjur af sölu áfengis, sem gert hefur verið upptækt vegna brota á áfengislögum. Þessi tekjustofn er mjög óviss frá ári til árs, og það hefur bagað starfsemi Menningarsjóðs og menntamálaráðs verulega, hvað tekjurnar geta breytzt frá einum tíma til annars. Þess vegna hefur það orðið að ráði, að framvegis skuli tekjur af áfengissektum og upptæku áfengi ganga beint í ríkissjóð eins og annað sektarfé, en Menningarsjóði og menntamálaráði hins vegar ætlað tilsvarandi fé á fjárlögum, og lúta þessi þrjú frv. að því. Jafnframt þessari meginbreytingu er eðlilegt að létta þeirri skyldu af Menningarsjóði að greiða til Listasafns Íslands til málverkakaupa og greiða í Vísindasjóð, en sá háttur var upp tekinn við síðustu breytingu á lögum um Menningarsjóð, þegar gert var ráð fyrir því, að Menningarsjóður skuli fá fé á fjárlögum eins og aðrar menningarstofnanir ríkisins, og þá er ástæðulaust að halda þessum gömlu tengslum milli Menningarsjóðs, Vísindasjóðs og Listasafnsins, enda gert ráð fyrir því, að fjárveitingar til þessara stofnana verði auknar sem svarar því, sem Menningarsjóður hættir að greiða til þeirra. Þetta er efni málsins, og leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. menntmn.