24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

260. mál, fiskvinnsluskóli

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. til l. um fiskvinnsluskóla á þskj. 516 og orðið sammála um að mæla með afgreiðslu þess með þeim breytingum, sem fram eru bornar á þskj. 635. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að hér er mjög merkt mál á ferðinni og ekki seinna vænna, að hér á landi verði komið upp skóla sem þeim, er þetta frv. gerir ráð fyrir. Það hafa oft verið bornar fram till. hér á hv. Alþ. um, að hér yrði komið upp slíkum skóla, og ber að fagna því, að það mál virðist nú á góðri leið með að komast í höfn, verði þetta frv. að l., áður en þessu þingi lýkur. Ég veit, að það er ósk og von allra hv. þm., sem sæti eiga í sjútvn., að svo megi verða.

Ég skal aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir brtt. þeim, sem n. flytur á þskj. 635. Fyrsta brtt. er við 1. gr. Þar er lagt til, að í stað þess, sem í gr. stendur, þ. e. „í vinnu sjávarafla“, komi: í vinnslu sjávarafla. Þetta atriði skiptir að sjálfsögðu ekki miklu máli, en till. n. er í samræmi við heiti frv.

Í 2. brtt. n. er lagt til, að tekin séu af öll tvímæli um það, að skólinn skuli halda námskeið í meðferð sjávarafla fyrir nemendur stýrimannaskólanna. Í frv. var gert ráð fyrir, að þetta yrði aðeins heimilað, en samkv. brtt. er fastara að orði kveðið, eins og sjá má af orðalagi hennar.

Í 3. brtt. er meginatriðið í þeim breytingum, sem n. ber fram við frv. Þar er lagt til, að auk þess, sem stofnaður skuli fiskvinnsluskóli í Reykjavík, skuli þegar stofnaður fiskvinnsluskóli í Vestmannaeyjum, sem útskrifi fiskiðnaðarmenn og fiskvinnslumeistara samkv. því, sem frv. gerir ráð fyrir. Verði námi við þann skóla skipt í þrjár deildir — einnig í samræmi við ákvæði frv. — þá er það einnig tekið upp í þessa brtt., að á árunum 1972–1975 skuli undirbúin stofnun fiskvinnsluskóla 1. og 2. stigs á Suðurnesjum og í stærstu fiskiðnaðarstöðum í öðrum landshlutum. Við Vestmannaeyjaskólann og þessa skóla, ef stofnaðir verða, gerir síðan brtt. n. ráð fyrir, að heimilt verði að setja á stofn framhaldsdeildir, þegar skilyrði til þess séu fyrir hendi. Loks er í þessari brtt. gert ráð fyrir skipun þriggja manna skólanefndar til fjögurra,ára í senn við hvern skóla, sem stofnaður kann að verða samkv. þessu ákvæði. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því í brtt. n., að um greiðslu kostnaðar og annað það, er varðar rekstur slíkra skóla, fari á sama hátt og um greiðslu kostnaðar við þann skóla, sem stofnaður verður hér í höfuðborginni, þ. e. að ríkissjóður beri kostnaðinn.

Upp í þessa brtt. hefur n. efnislega tekið fram komnar brtt. frá Guðlaugi Gíslasyni o. fl. og brtt. frá Jóni Skaftasyni, en flm. beggja þessara brtt. eiga sæti í sjútvn. Eftir að n. tók efnislega undir till. þeirra á þann hátt, sem hún hefur gert, hafa þeir fallizt á að draga sínar brtt. til baka. Þá vil ég einnig geta þess, að fyrr á þessu þingi var vísað til sjútvn. tveim frv. um fiskiðnskóla. Er það frv. á þskj. 64, sem flutt er af Guðlaugi Gíslasyni, og frv. um fiskiðnskóla á þskj. 11, sem flutt er af Ingvari Gíslasyni og Jóni Skaftasyni. Í nál. sjútvn. segir, að n. telji, að með afgreiðslu þessa máls hafi þessi frv. hlotið þinglega afgreiðslu, og vænti ég þess, að hæstv. flm. þeirra geti fallizt á þá skoðun.

Varðandi hugmyndir n. um það, að fleiri 1. og 2. stigs fiskvinnsluskólum verði komið upp, vil ég geta þess, að þær eru við það miðaðar fyrst og fremst, að a. m. k. einum slíkum skóla verði komið upp í hverjum landshluta í stærstu fiskvinnslubæjum. Í öðru lagi höfum við haft það til hliðsjónar, að slíkum skólum yrði komið upp, þar sem önnur skilyrði væru fyrir hendi, t. d. það, að iðnskólar hefðu góða aðstöðu, hvað húsakost og kennslukrafta snerti, þannig að auðvelt væri að tengja fiskvinnsluskólana iðnskólunum. Að sjálfsögðu er það nauðsynlegt, þegar slíkum skólum er komið á stofn, að fyrir því sé séð, á hvern hátt þeir falli inn í skólakerfi landsins. Mér hefur skilizt, að þetta atriði stæði aðallega í vegi fyrir því, að frv., sem áður hafa verið flutt um fiskvinnsluskóla hér á hv. Alþ., næðu fram að ganga. Menn hafa ekki fyllilega gert það upp við sig, á hvern hátt nám í þessum skólum skyldi tengt við skólakerfi landsins, og heldur ekki, að hvaða marki skyldi stefnt með því, þ. e. hvaða réttindi nám í slíkum skólum veiti. Í því frv., sem hér liggur nú fyrir og sjútvn. mælir með, að afgreitt verði, er þetta hvort tveggja skýrt fram tekið og gert ráð fyrir því, að nám í fiskiðnskóla geti jafnframt verið undirstaða að framhaldsnámi síðar, ef svo vill verkast, hvort sem það nám yrði stundað hér á landi eða erlendis. Þetta álít ég, að sé mjög mikill kostur við það frv., sem við fjöllum nú um umfram önnur frv., sem áður hafa legið fyrir um þetta sama efni. Þótt við menntum fisktækni- eða fiskiðnfræðinga, þá er að sjálfsögðu eftir sem áður nauðsynlegt, að haldið sé uppi því, sem kallað hefur verið handbragðakennsla í fiskiðnaði. Má þá gera ráð fyrir, að sú kennsla verði hér eftir sem hingað til höfð í námskeiðum, og er gert ráð fyrir því í frv., að fiskvinnsluskólinn annist eftirleiðis slíka kennslu. Enda þótt menn eigi kost á námi, sem veitir þeim aukin réttindi og getur orðið grundvöllur að meiri menntun síðar, þá er ekki síður nauðsynlegt, að þeir, sem að staðaldri vinna framleiðslustörf, eigi þess einnig kost að auka þekkingu sína og hæfni til starfa. Fyrir því er séð með því að gera ráð fyrir slíkum námskeiðum.

Þá vil ég að síðustu geta um 4. brtt. n., sem er á þá leið, að nemendur, sem lokið hafi prófi frá fiskimannadeild stýrimannaskóla, hafi réttindi til þess að hefja nám í fiskiðndeild skólans. Ef komið verður betra skipulagi á þá kennslu, er að þessum málum lýtur í stýrimannaskólum, eins og hér var rætt um áðan, þá hygg ég, að þessi till. sé þeim mun sjálfsagðari.

Loks er smávægileg brtt. við 14. gr., þar sem lagt er til, að í þá upptalningu, sem þar er, verði bætt orðinu „flatning“. Það virðist hafa fallið niður í upptalningunni, annaðhvort af vangá eða vanþekkingu, en það er mikill munur á því, hvort fiskur er flakaður eða flattur, eins og allir vita, sem komið hafa nálægt fiskverkun.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði afgreitt frá þessari hv. d. með þeim breytingum, sem ég hef lýst, og ég vænti þess, að það fái greiða afgreiðslu í báðum deildum þingsins, áður en þessu þingi lýkur.