24.02.1971
Efri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

213. mál, náttúruvernd

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að fagna framkomu þessa frv. Þess hefur verið beðið með nokkurri óþreyju síðan það var sýnt á síðasta þingi. Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hæstv. menntmrh., að hér er hreyft afar mikilvægu máli og líklega langtum mikilvægara en margir gera sér grein fyrir í dag. Það er sannfæring mín, að tiltölulega hreint umhverfi þessa lands og raunar umhverfi alls staðar verði veigameiri þáttur í lífskjörum einstaklingsins en nú er almennt skilið. Og raunar er það von mín, að í leitinni að bættu mannlífi verði meiri áherzla lögð á umhverfið og mikilvægi þess.

Ég hef hins vegar kynnt mér nokkuð þær breytingar, sem orðið hafa á frv. frá því í fyrra, og get ég ekki á mér setið að fara nokkrum orðum um þær.

Mér sýnast breytingarnar fyrst og fremst miða að því að draga úr sjálfstæði náttúruverndarráðs og harma ég það. Þetta er gert með tvennu móti fyrst og fremst. Í 32. gr. frv. er svo kveðið á nú, að allar ákvarðanir náttúruverndarráðs um friðun eða friðlýsingu komi þá fyrst til framkvæmda, að menntmrn. hafi lagt samþykki sitt á þær. Ég tel þetta miður. Mér finnst það skiljanlegt, að menntmrn. og ráðh. vilji hafa ákvörðunarvald, þegar mótmæli koma við tillögum náttúruverndarráðs, enda var svo ráð fyrir gert í því frv., sem sýnt var hér í fyrra, og sömuleiðis ef um mjög fjárfrekar aðgerðir er að ræða. Hins vegar tel ég, að þetta muni tefja mjög ýmsar framkvæmdir náttúruverndarráðs og það harma ég. Ég held, að náttúruverndarráð, sem valið er samkv. ítarlegum reglum þessa frv. og við verðum að gera ráð fyrir, að í sitji hinir færustu menn, eigi að hafa verulegt sjálfstæði til eigin ákvarðana.

Að öðru leyti er dregið úr áhrifum náttúruverndarráðs með því að svipta það þeim tekjustofni, sem því var ætlað til ráðstafana í náttúruverndarmálum.

Í fyrra frv. var ráð fyrir því gert, að settur yrði á fót náttúruverndarsjóður og til hans rynnu nokkrar tekjur, eins og nánar var þar fram tekið. Það má að vísu deila um það, hvort þeir tekjustofnar, sem þar var lagt til að rynnu til sjóðsins, væru eðlilegir eða ekki, en ég hefði talið æskilegra að kanna það betur, hvort aðrir stofnar væru réttari og jafnvel að bæta við þær tekjur, sem þar er gert ráð fyrir, fremur en að svipta náttúruverndarráð þessum sjálfstæða fjárhag. Þetta sýnist mér, að hv. þm. ættu að athuga, áður en þetta frv. er afgreitt héðan sem lög.

Þar sem ég efast um það, að ég fái tækifæri til þess að ræða um þetta mikilvæga mál aftur hér, þá langar mig jafnframt til þess að fara fáeinum orðum um nokkur ákvæði frv., sem mér virðast orka nokkuð tvímælis. Í 4. gr. er ákvæði um náttúruverndarþing, sem ég fagna og tel rétt spor. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að verulegar breytingar munu áreiðanlega verða í náinni framtíð á fjölda þeirra aðila, sem um náttúruvernd fjalla. Ég hygg, að þeim muni fjölga og fleiri koma þar til mála, og sýnist mér nokkuð vafasamt að binda þátttöku í náttúruverndarþingi með lögum og ég varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki væri rétt að hafa þetta opnara, þannig að á þinginu megi fjölga með reglugerð.

Í kaflanum um aðgang almennings að náttúru landsins og umgengni eru fjölmörg atriði, sem nauðsynlegt er að íhuga mjög vandlega. Ég er í grundvallaratriðum sammála þeirri stefnu, sem þarna er tekin upp, að bæta eigi umgengni almennings fyrst og fremst með verulegri fræðslu eins og náttúruverndarráði er ætlað að hafa með höndum. Þessu fagna ég. En ég tel raunar, að ábyrg þátttaka í náttúruvernd af hálfu almennings fáist ekki fyrr en sú fræðsla er orðin ærið víðtæk. Hins vegar eru engu að síður sett hér ýmis ákvæði um bann við óhreinkun umhverfis og spillingu þess, sem ég satt að segja sé ekki, hvernig framkvæma á. T. d. er annað ákvæði 14. gr. orðað þannig: „Bannað er að saurga vatnsból eða spilla vatni, hvort heldur er rennandi vatn í ám og lækjum eða í stöðuvötnum og brunnum.“ Skyldi hann vera nokkur, sá bæjarlækur í þessu landi, sem ekki er spilltur að einhverju leyti af manna eða dýra völdum? Elliðaárnar hér í Reykjavík, bæjarlækurinn okkar, er mjög verulega spilltur, og veit ég ekki, hvernig úr því verður bætt, þannig að engin spilling verði af. Ég held, að það sé vafasamt að setja í lög bannákvæði, sem, þegar lög eru samþ., er ljóst, að ekki er framkvæmanlegt. Ég held, að það væri rétt í þessu sambandi að ákveða nánar um meðferð vatns í reglugerð, sem gefin verði út í anda þessara laga, en ég sakna þess, að ekki eru nema við einstöku grein ákvæði um reglugerð.

Einnig vakna spurningar í sambandi t. d. við það ágæta ákvæði, sem ekki er nýtt, að bannað er að fleygja frá sér rusli á viðavangi. Ég las það í grg. með frv. frá því í fyrra, að um það muni hafa verið rætt í nefndinni að setja ákveðin refsiákvæði eða sektir við slíkri umgengni, en frá því hafi verið horfið. Er það rétt? Víða erlendis, þar sem við ferðumst, jafnvel með þjóðvegum, sjáum við smekkleg skilti, sem gefa til kynna, að ákveðnar sektir liggja við því t. d. að varpa úrgangi úr bifreiðum o. þ. h., sem því miður tíðkast mjög hér á landi þrátt fyrir ákvæði, sem hafa verið í lögum og banna slíkt. Væri ekki þarna e. t. v. nokkur tekjustofn fyrir náttúruverndarráð og rétt að athuga, hvort einhverjar sektir ættu ekki að koma til? Að vísu skal tekið fram, að í 37. gr. frv. er gert ráð fyrir sektum eða varðhaldi við brotum gegn þessum lögum, en ekki kemur þó fram, hvernig þetta er ákveðið, í reglugerð eða á annan máta. Vera má, að til þess sé ætlazt, að þar komi eitthvert sektarákvæði í þessu sambandi.

Í 16. gr. er hreyft mjög mikilvægu máli um nauðsynleg hreinlætistæki á friðlýstum svæðum, sem mjög er ábótavant hér á landi. Ég fagna því. Það þarf að gera mjög mikið og myndarlegt átak á þessu sviði. Hins vegar sakna ég þess, að þetta skuli ekki vera betur fram tekið í sambandi við þjóðgarða, sem eru í grg. með frv. frá því í fyrra taldir ein mikilvægasta friðunaraðgerð, sem framkvæmd hefur verið hér á landi og meira að segja rætt um það, að þjóðgarðar, a. m. k. tveir, þurfi að vera í hverjum landsfjórðungi. Staðreyndin er sú, að það er alls ekki nóg að friðlýsa land með því að gera það að þjóðgarði, og raunar getur það verið hættulegt, ef jafnframt er ekki séð fyrir því, að aðstaða vaxandi fjölda manna, sem í þjóðgarðana hljóta að leita, sé stórlega bætt og tryggð.

Ég átti nýlega tal við bónda austan úr Öræfum, sem lýsti áhyggjum sínum yfir því, að við auglýsingu á þjóðgarðinum þar hefur mikill fjöldi manna streymt þangað, en aðstaða er bókstaflega engin, hvorki til þess að setja upp tjöld eða hreinlætisaðstaða eða gangstígir og þess háttar, og óttaðist hann, að landið lægi undir mjög verulegum spjöllum. Ég held, að það mætti gjarnan koma í þetta frv. ákvæði um það, að þegar land er lýst þjóðgarður, þá beri jafnframt að tryggja þar slíka aðstöðu. Þetta held ég, að sé mjög nauðsynlegt.

Ég hef verið að velta fyrir mér 20. gr. um fjarlægð frá flóðmáli og vatnsbakka og árbakka o. s. frv. Vera má, að ég misskilji þetta. Ég skil að vísu tilganginn með greininni og hann er góður, en er með þessu t. d. bændum bannað að reisa íbúðarhús sín nær en 100 metra frá vatnsborði áa og vatna? Tekið er fram, að þetta nái ekki til skipulagðra svæða. Bændabýli eru það ekki, að því er mér skilst, og sýnist mér ástæða til að skýra þetta nokkru nánar.

Og þannig mætti að vísu minnast á ýmis önnur ákvæði þessa viðamikla og mikilvæga máls. Ég vil þó láta nægja að minnast á það, sem ég hef nú rakið, en lýsa aftur, að ég harma þær breytingar, sem orðið hafa í meðferð ráðuneytisins, einkum að draga svo mjög úr valdi náttúruverndarráðs, eins og ég rakti í upphafi míns máls. Raunar get ég ekki að því gert að mér finnst meðferð ráðuneytisins dálítið fljótfærnisleg. Ef til vill mótast þessi skoðun mín af atriðum eins og því, að í 34. gr. hefur gleymzt að breyta tilvísun í grein, sem breytt hefur verið um númer á. Vísað er í 29. grein, en á að sjálfsögðu að vera 28. Þetta er smáatriði, en hefur e. t. v. sín áhrif, og það breytir ekki því, að ég tel mjög rangt að draga svo úr sjálfstæði náttúruverndarráðs sem gert er. Ég vil svo að lokum fagna framkomu þessa frv. og leyfi mér að vona, að samþykkt þess efli mjög alla umhverfisvernd í okkar landi.