24.03.1971
Efri deild: 73. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

230. mál, Iðnþróunarstofnun Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Mér virtist gæta dálítils misskilnings hjá hæstv. ráðh. í sambandi við brtt. mína og vil því leiðrétta það.

Ég er honum alveg sammála um það, að ákveðnir tveir aðilar í nafni þess fjölmenna hóps, sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við störf Iðnþróunarstofnunar Íslands, eiga ekki að hafa sem slíkir fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Það var ekki tilgangur minn með þessari till., heldur var hann sá, að þessir þrír menn væru tilnefndir úr hinum stóra hópi, sem skipar Iðnþróunarráð. Ég get út af fyrir sig mjög vel fallizt á það, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. að „rotering“ á fulltrúum eða mönnum úr ráðinu í stjórninni er mjög æskileg. Ég vildi hins vegar með till. minni ganga til móts við þær aðrar hugmyndir, sem komu fram, og umsagnir, þar sem lögð er áherzla á, að iðnaðurinn hafi meiri hluta í viðkomandi stjórn. Ég þarf ekki að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að slíkt skapi aukið traust á milli aðila í Iðnþróunarráði og stofnunarinnar.

Í sambandi við seinni till. mína var það sízt af öllu ætlun mín, að sá ágæti framkvæmdastjóri Iðnaðarmálastofnunar Íslands, sem nú er, fái ekki hlotið þetta starf áfram. Satt að segja er ég sannfærður um, að hann mun fá þetta starf, ef hann óskar, hvort sem ráðh. eða stjórn stofnunarinnar ræður.