11.02.1971
Neðri deild: 46. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1335)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eftir 1960 var hafin víðtæk endurskoðun á bæði tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga, þ.e. beinum sköttum til þessara opinberu aðila, og voru víðtækar breytingar gerðar á þessum lögum í nokkrum áföngum, þó aðallega tveimur áföngum, fyrst 1962 og 1963 og síðan aftur árin 1964 og 1965, og frá þeim árum eru þau lög, sem gilda annars vegar um tekjustofna sveitarfélaga frá 1964 og hins vegar um tekju- og eignarskatt frá 1965. Ég hirði ekki um að rekja þessar breytingar í einstökum atriðum, en að því var miðað með þeim að gera skattkerfið einfaldara, skattstigum var fækkað og samræmi aukið á milli þeirra varðandi gjaldheimtu ríkis og sveitarfélaga. Þá voru sérstaklega varðandi sveitarfélögin gerðar víðtækar efnisbreytingar. Það voru tekin upp landsútsvör, ákvæði sett um Jöfnunarsjóð og ný skattaumdæmi ákveðin í stað þess kerfis, sem áður hafði gilt, þ.e. skattstofur tók nú við störfum af hinum fjölmörgu skattanefndum. Þá var einnig varðandi skatta til ríkisins mörkuð sú meginstefna, að leitazt yrði við, að persónufrádráttur yrði það ríflegur, að almennar launatekjur, svo sem það var orðað, yrðu ekki skattlagðar, og var þá miðað við hina almennu Dagsbrúnartaxta. Þá var jafnframt á árinu 1965 gerð mjög víðtæk og mikilvæg breyting, þ.e. varðandi skatteftirlitið, sem hefur haft geysimikla þýðingu til þess að bæta skattinnheimtu í landinu yfirleitt. Þessar breytingar að öðru leyti skal ég ekki ræða, en í meginefnum höfum við síðan búið við þetta kerfi þar til nú.

Það hafa sem sé ekki síðustu fimm árin verið gerðar veigamiklar breytingar á skattkerfinu, hvorki varðandi innheimtu til sveitarfélaga né heldur innheimtu til ríkisins, enda verður sannast sagna með þeim breytingum, sem gerðar voru eftir 1960, að telja, að þá hafi almennt séð hinar beinu álögur verið innan hóflegra marka, en hins vegar sjáanlegt, eins og þróunin hefur verið, að af mörgum öðrum ástæðum er nauðsynlegt að taka skattkerfið til víðtækrar endurskoðunar. Varðandi skattheimtu til ríkisins er það kunnugt, að það eru aðeins um 10%, sem beinir skattar eða tekjuskattur er af ríkistekjum, og er það miklum mun lægra en vitað er til, að sé í nokkru nálægu landi, þ.e. að beinir skattar séu svo lítill hluti af tekjum ríkisins.

Varðandi hitt atriðið, sem auðvitað skiptir meginmáli, hvort skattheimta er hér óhæfileg eða ekki, þá er eðlilegt, að nokkur hliðsjón sé einnig höfð af því, hvað gerist í nálægum löndum í þeim efnum. Þar kemur í ljós, ef borið er saman við síðustu tölur, sem fyrir liggja í því frá öðrum löndum og eru frá 1967, að t.d. tekjur hins opinbera, þ.e. heildarfjárheimta ríkis og sveitarfélaga, voru í Danmörku 34.5% af þjóðarframleiðslu, í Bretlandi 35.5%, í Svíþjóð 46% og í Noregi 41%, en hér á Íslandi á árinu 1968 var þessi hlutfallstala 33.9%, og breytingar á henni frá því ári hafa orðið sáralitlar. Miðað við þetta virðist sýnt, að ekki sé um óhóflegar fjárkröfur að ræða af hálfu hins opinbera, hvorki sveitarfélaga né ríkis, á hendur borgurunum, ef miðað er við önnur lönd, enda var það niðurstaða af skoðun, sem fram fór af hálfu sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir sérstakri ósk minni fyrir tveimur árum, á íslenzka skattkerfinu, að ekki væri hægt að segja annað en þessi þáttur varðandi gjaldheimtuna almennt af borgurunum væri innan hóflegra marka.

Það er því, eins og ég sagði, ekki aðallega vegna nauðsynjar á því að lækka almennt gjaldheimtu ríkisins eða hlut beinna skatta í gjaldheimtunni, sem nú er talað um, að það sé nauðsynlegt að gera víðtækar breytingar á ýmsan hátt á skattkerfinu, heldur er þar margt annað, sem til greina kemur. Við óbeinu sköttunum var ekki hreyft undanfarin ár fyrr en á s.l. ári, að söluskatturinn var hækkaður allverulega til þess að mæta tollalækkunum, sem gerðar voru vegna aðildar að EFTA. Þá hafði söluskatti ekki verið breytt í fimm ár, og var það fyrst og fremst með það í huga, að það var sjáanlegt, að það yrði að leggja inn á þá braut að lækka óbeina skatta, þ.e. í formi verðtolls, bæði vegna þess, að ef við gerðumst aðilar að Fríverzlunarsamtökunum, sem hafði legið í loftinu um nokkurt skeið, þá yrði óumflýjanlegt að framkvæma miklar tollalækkanir, og einnig vegna hins, að almennt eru innflutningstollar hér á landi mjög háir samanborið við önnur lönd, þannig að mjög æskilegt væri að hverfa til mun lægri aðflutningsgjalda.

Þá hefur einnig vegna þróunar í öðrum löndum verið nú síðustu tvö árin fylgzt vendilega með því, hver þróun verður varðandi virðisaukaskattkerfið. Unnið er nú að því á vegum fjmrn. á þessum vetri að gera heildaryfirlit yfir reynslu nálægra þjóða af þessu skattkerfi, en í því felst, svo sem hv. þdm. er kunnugt, að horfið er frá almennum söluskatti til svokallaðs virðisaukaskatts, sem ég hirði ekki um að gera grein fyrir hér, enda er hann ekki hér á dagskrá, heldur nefni ég þetta aðeins til þess að gefa almennt yfirsýn um endurskoðun skattkerfisins í heild. Er af mörgum talið, að það sé nauðsynlegt samræmingar vegna, þó að ekki væri af öðrum ástæðum, að taka upp þennan skatt, þó að það sé að vísu minni munur á þessari skattheimtu, þ.e. breytingum úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt, hér á landi en í öðrum löndum, af því að við höfum svo almennan smásöluskatt.

Þá hefur einnig verið á dagskrá, eins og mönnum er kunnugt, um alllangt skeið — og má segja, að sé komið á lokastig — staðgreiðslukerfi opinberra gjalda, sem hlotið hefur mjög nákvæman undirbúning og vandlegan og er nú til meðferðar ályktun um það efni hér á hinu háa Alþ. Sú athugun, sem fór fram í sambandi við staðgreiðslukerfið, leiddi ótvirætt í ljós, að skattkerfi okkar er allt of flókið, gjöldin eru allt of mörg, sem á eru lögð, ýmsar frádráttarreglur eru of flóknar og of margþættar, til þess að það falli vel að þessu kerfi, og af þeim sökum ber brýna nauðsyn til, áður en slíkt kerfi væri innleitt, að framkvæma einföldun, ef svo má segja, á kerfi beinna skatta í heild. En ég hygg, að það sé mat manna, að ef það væri hægt að gera það nægilega einfalt, þá mundi staðgreiðslukerfið vera til verulegra bóta.

Í sambandi við aðild Íslands að EFTA koma að sjálfsögðu mörg atriði á dagskrá auk tollanna, sem ég hef áður vikið að, og var í þeim efnum mikið rætt um samkeppnisaðstöðu íslenzks atvinnurekstrar gagnvart atvinnurekstri annarra EFTA-landa, eftir að allir verndartollar væru úr sögunni og raunar áður, og nauðsyn þess að skapa fyrirtækjunum skilyrði til þess að tryggja sér þá aðstöðu, að þau yrðu samkeppnisfær, þegar þau þyrftu að standa andspænis því að berjast verndartollalaust við framleiðslu þessara Íanda og gera sig jafnframt hæf til þess að keppa um sölu vara sinna á erlendum markaði. Einn þáttur í þessu máli var skattamálin, sem bent var á, að í ýmsum tilfellum væru með allt öðrum hætti en gerist í öðrum EFTA-löndum og í ýmsum tilfellum væru þungbærari en þar gerist vegna þess forms, sem væri á skattgreiðslum fyrirtækja hér á landi. Það var því þegar í aprílmánuði 1969 hafizt handa um það af hálfu ríkisstj. að undirbúa þennan þátt EFTA-málsins, og þá var skipuð sérstök embættismannanefnd. Var henni falið, svo sem sagði í erindisbréfi hennar, að kanna og gera till. um skattalega aðstöðu fyrirtækja hér á landi með tilliti til hugsanlegrar aðildar að EFTA. Sérstaklega er n. falið að kanna leiðir til að örva myndun eigin fjármagns í fyrirtækjum, auðvelda samruna þeirra og jafnframt tryggja, að fjármagn leiti ekki út úr fyrirtækjunum í öðru formi en hæfilegum arðgreiðslum. Hér er drepið á þau atriði, sem tvímælalaust voru mikilvægust í sambandi við þetta vandamál í heild.

Það hefur lengi verið vitað, að íslenzk skattalög að ýmsu leyti hindruðu það, að fjármagn myndaðist með eðlilegum hætti í fyrirtækjum, og það hefur verið eitt mesta vandamálið varðandi atvinnurekstur hér á landi, hvað eigið fjármagn fyrirtækja hefur verið lítið. Það var jafnframt vitað, að íslenzk skattalög væru til hindrunar því, að orðið gæti um að ræða nauðsynlegt samstarf milli fyrirtækja og jafnvel samruna fyrirtækja til þess að auka framleiðnimöguleika þeirra og afköst og gera þau hæfari til samkeppni við erlendan markað og á erlendum markaði, en það er ekki hvað sízt veigamikill þáttur í því að efla fyrirtækin að stuðla að slíkum samruna. Það var jafnframt ljóst um leið, að ef fyrirtækjunum yrðu veitt aukin hlunnindi, yrði að vera tryggt, að það fé, sem með þessum hætti væri fengið atvinnurekstrinum til aukinnar umsýslu, yrði notað til eflingar atvinnufyrirtækjunum, en leitaði ekki með óeðlilegum hætti út úr þeim nema í því formi, að greiddur yrði hæfilegur arður af hlutafé eða því fé, sem lagt yrði í fyrirtækin, því að ella væri að sjálfsögðu engin von til þess, að menn legðu í þau fé. Það var því ljóst, að jafnhliða hinni bættu aðstöðu fyrirtækjanna yrði þetta að vera tryggt.

Þar sem skattalög eru mjög tæknilega flókin mál og hér var um mjög víðtækt vandamál að ræða, var sú leið valin að setja embættismannanefnd til þess að fjalla um þetta mál, og voru valdir í hana hinir fróðustu embættismenn, hver á sínu sviði, um skattamál, bankamál og ríkisfjármál, og hér blandaðist einnig inn í það mikilvæga mál, að það væri auðið að koma hér á eðlilegum verðbréfaviðskiptum og kaupþingi, og var nefnd þessi undir forustu ráðuneytisstjórans í fjmrn., Jóns Sigurðssonar, en aðrir í nefndinni voru þeir Árni Vilhjálmsson prófessor, dr. Gísli Blöndal hagsýslustjóri, Sigurbjörn Þorbjörnsson ríkisskattstjóri og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri.

Það má því segja, að með erindisbréfinu hefur verið lögð pólitísk mörkun, stefnumörkun, varðandi þann tilgang, sem að væri stefnt, en síðan væri sérfræðingum falið að fylla út í þann ramma. Frv. var lagt fyrir síðasta þing, seint á síðasta þingi, um skattgreiðslumál fyrirtækja — ekki með það í huga, að hægt væri að afgreiða það þá, heldur vegna þess, að málið var flókið, og vegna þess, að æskilegt væri, að Alþ. gæfist kostur á að kynna sér málið, áður en lengra væri haldið, og marka af sinni hálfu stefnuna, þó að það væri að vísu aðeins þáttur vandans, sem þar var lagður fram. En reyndin varð sú, sem enda var við búizt, að málið fékk ekki afgreiðslu, en hins vegar var það afráðið, sem er nýstárlegt — að segja má — í vinnubrögðum eða samvinnu Alþ. og rn., að sett var á laggirnar sérstök þm.-nefnd, sem var skipuð fulltrúum fjhn. Alþ., til þess að kynna sér málið betur og til þess að fylgjast með framvindu málsins á vegum embættismannanefndarinnar, áður en það yrði lagt fyrir Alþ. á nýjan leik, og þetta hefur verið gert. Að vísu hefur það komið í ljós, að vinnubrögðin í þessu máli voru viðameiri og flóknari en svo, að hægt væri að hraða þeim svo sem æskilegt hefði verið, þannig að þm.-nefndin hefur ekki haft mikið svigrúm, en hún hefur þó fengið aðstöðu til þess að fylgjast með því, bæði í umr. við embættismannanefndina og einnig með því að skoða og ræða frv., áður en það var lagt fyrir Alþ., þannig að þm.-nefndin er að þessu leyti mun betur undir það búin að taka afstöðu til málsins og meta það í n. en ella hefði verið, enda þótt ég taki það fram, að n. sem slík, þm.-nefndin, hefur ekki bundið sig í afstöðu til málsins.

Eftir að málið hafði verið til meðferðar á Alþ. í fyrra var ákveðið, að embættismannanefndin héldi áfram starfi sínu á grundvelli þeirrar stefnu, sem mörkuð var í erindisbréfinu frá 1969, en jafnframt var n. sent framhaldserindisbréf, sem þannig hljóðaði, að jafnframt því að óska þess, að n. ljúki verkefni því, sem henni var falið með erindisbréfi, dags. 25. apríl 1969, er n. hér með falið að framkvæma heildarathugun á skattalögum með því markmiði annars vegar að gera skattkerfið sem einfaldast og hins vegar að gera þær breytingar á ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt varðandi skatt einstaklinga, sem n. telur sanngjarnar og eðlilegar. Er n. í því sambandi falið að taka til athugunar þau frv. til breytinga á skattalögum, sem flutt voru á síðasta þingi, en vísað var til ríkisstj. N. skal athuga, hvert tekjutap till. kunna að leiða af sér fyrir ríkissjóð, og gera till. um, með hverjum hætti það tap skuli bætt. Eins og þetta erindisbréf ber með sér, þá er hér gert ráð fyrir því, að embættismannanefndinni verði falin heildarathugun á skattkerfinu, og það var ekki hvað sízt vegna þess, sem kom í ljós í sambandi við staðgreiðslukerfið, að það var raunar augljóst, að ef ætti að innleiða það, þá yrði að gera skattkerfið í heild miklum mun einfaldara, auk þess, sem nauðsynlegt var að gera það virkara með ýmsum hætti, og því varð að taka það í heild til grundvallarskoðunar.

Það lágu einnig fyrir síðasta Alþ. allmörg frv. um breytingar á tekju- og eignarskattslögunum, sem ekki voru þá afgreidd, en flestum þeirra vísað til ríkisstj. og var talið sjálfsagt, að þessi mál kæmu til athugunar í sambandi við framhaldsmeðferð skattalagamálsins.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að meginstefnu til samið af embættismannanefndinni í samræmi við það umboð, sem henni var veitt af fjmrh. Ég skal geta þess, að það hafa þó komið fram ýmis atriði innan embættismannanefndarinnar og ríkisskattstjóri hefur lagt fram ýmsar sértill., sem ekki eru í þessu frv., en munu að sjálfsögðu verða afhentar fjhn. Alþ. til meðferðar, þegar þær fara að skoða málið nánar. Ég vil því taka það fram, að hvorki hef ég né hefur ríkisstj. í heild bundið sig þannig við þetta mál, að við litum á það sem óhjákvæmilegt skilyrði, að það verði nákvæmlega afgreitt með þeim hætti, sem það liggur hér fyrir. Ég hins vegar legg á það ríka áherzlu, að þau stefnumið, sem ég hef hér lýst, að liggi að baki frv., nái fram að ganga og þær brtt., sem eru á því gerðar, ef þær verða gerðar hér á hinu háa Alþ., verði í samræmi við þá meginstefnumörkun, sem ég gat hér um, að birtist í erindisbréfum embættismannanefndarinnar.

Frv. er tæknilega mjög flókið, svo sem við var að búast. Það hefur því verið reynt að láta fylgja því mjög greinargóða skilgreiningu eða greinargerð, bæði varðandi einstakar greinar þess og einnig eru dregin saman í upphafi grg. þau meginatriði, sem í frv. felast. Ég vil því ekki nota þennan tíma minn hér til þess að fara að lesa upp í einstökum atriðum þær skilgreiningar, því að skilgreining þessi er mjög glögg og leiðir í ljós þá höfuðþætti, sem hér er um að ræða. En segja má, að með frv. séu gerðar verulega víðtækar breytingar á skattalögum varðandi skattgreiðslur fyrirtækja — ekki eingöngu til þess að lækka þá skatta, heldur eru í þessu efni margvíslegar, mikilvægar skipulagsbreytingar á skattheimtunum, sem allar eiga það sammerkt að eiga að örva starfsemi fyrirtækja og laða fjármagn að þeim.

Nýjar reglur eru settar um fyrningu eigna í atvinnurekstri, og er þar um töluverðar breytingar að ræða. Hingað til hafa verið í gildi mjög mismunandi reglur um fyrningu. Það hefur verið leyfð örari fyrning varðandi ýmis atvinnutæki, svo sem skip og fleiri atvinnutæki, en aftur á móti mun minni fyrning í öðrum greinum atvinnurekstrarins. Nú er gert ráð fyrir því, að eignir fyrnist allar með sama hætti. Og áður var sá hemill á, að eign gat aldrei fyrnzt neðar en í 10% að verðmæti, en nú er gert ráð fyrir því, að eignir geti fyrnzt að fullu. Auk hinna almennu fyrningarreglna, sem gerð er grein fyrir í frv., er ákveðin svokölluð flýtifyrning, sem er til mikils hagræðis fyrir atvinnureksturinn. Hún er í því fólgin, að gert er ráð fyrir, að allt að 30% fyrningu megi aukreitis framkvæma á þeim árum, þegar hagur fyrirtækjanna leyfir það og er hvað beztur, þannig að í senn sé hægt að safna fé í fyrirtækjunum og þá jafnframt skapa aðstöðu til frekari fjáröflunar til þeirra með því að gera þau aðgengilegri með aukinni arðsúthlutun. Til þess að fyrning nái tilgangi sínum, eru gerðar ákveðnar og nákvæmar till. um hækkun fyrningarverðs eigná með tilliti til verðþróunar síðustu ára, og varðandi fasteignamatið er gert ráð fyrir, að hið nýja fasteignamat verði notað sem grundvöllur við fyrningu fasteigna. Komið hala fram hugmyndir um það og verið lagðar hér fram á hinu háa Alþ., að endurkaupsverð eigna verði lagt jafnan til grundvallar við fyrningu. Nánari athugun hefur leitt í ljós, sem raunar lá nokkuð í augum uppi, að þessi regla væri ekki framkvæmanleg vegna þeirrar miklu óvissu, sem jafnan er um endurkaupsverð eigna, og það væri ógerlegt að setja almennar reglur um slíkan fyrningargrundvöll. Það eru hins vegar í frv. ýmsar reglur, sem stuðla að því, að eignum verði jafnan haldið í eðlilegu verði, m.a. reglurnar varðandi hlutabréf og mat á þeim, og jafnframt má á það benda, að ef mjög færi úrskeiðis í þessu efni, þá er auðvitað jafnan hægt að beita sams konar endurmati og leyft var t.d. 1962, eftir gengisbreytingarnar 1960 og 1961, þ. e. ef miklar sveiflur verða á verðgildi eignanna.

Gert er ráð fyrir þeirri breytingu, að varasjóðir fyrirtækja falli niður, þ. e. að framvegis verði ekki heimilt að leggja í varasjóði. Ég skal ekki rekja það nánar; það er gerð grein fyrir því í frv. En varasjóðir eru að mörgu leyti mjög gallað form í uppsöfnun fjár í fyrirtækjum, og er gert ráð fyrir því, að þeir varasjóðir að vísu, sem nú eru til, verði óskertir, nema hjá sameignarfélögum eiga þeir smám saman að jafnast út eftir ákveðnum reglum, sem er að finna í frv., en í stað varasjóðsins kemur svokallaður arðjöfnunarsjóður, og er gert ráð fyrir, að sá sjóður verði annars vegar notaður til endurnýjunar eigna fyrirtækisins og hins vegar verði hann notaður til arðgreiðslu, eftir því sem henta þykir hverju sinni. Má í því sambandi benda á, að nú er tekin burt takmörkunin á skattfrjálsri arðgreiðslu hjá fyrirtækjum, sem áður var 10%, en var að fullu aftur skattlagt hjá móttakanda arðsins, en gert ráð fyrir því, að nú verði alltaf greiddur 15% skattur af arði. Hér er um heildarskatt að ræða, þ.e. gert er ráð fyrir, að hann renni aðeins til ríkisins, en ekki verði um neina skattgreiðslu að ræða til sveitarfélaganna af þessari arðsúthlutun eða framlagi .til arðjöfnunarsjóðsins, en arðjöfnunarsjóðurinn, eins og ég sagði, er til að greiða út fé eða leggja til hliðar. Megintilgangurinn með þessum reglum öllum er að stuðla að því, að það verði arðbært fyrir menn að leggja fé í fyrirtækin, sem að sjálfsögðu veltur á því, að fyrirtækin séu þá með þeim hætti og með þeim rekstrargrundvelli, að það ríflegur arður sé greiddur út, að það borgi sig fyrir fólk að leggja fé sitt í atvinnureksturinn.

Það er jafnframt þessu gert ráð fyrir því, sem er nýmæli, að tekið er upp nokkurt skattfrelsi arðs af hlutabréfum. Þau hafa áður verið skattskyld, og hefur það átt að vissu leyti sinn þátt í því, að menn hafa ekki lagt fé í atvinnurekstur eða kaup á hlutabréfum, þar sem sparifé og vextir af því er skattfrjálst, en það er nú gert ráð fyrir því, að viss úthlutun arðs til hluthafa verði skattfrjáls, svo sem ég mun koma að síðar.

Það er gert ráð fyrir því, sem er töluverð breyting frá því, sem nú er, að söluhagnaður af fyrnanlegum eignum og hlutabréfum sé alltaf skattskyldur að vissu marki og sé sú skattskylda minnst 25%, hvað sem eignarhaldi liður. En áður hefur það verið svo, að vissar eignir í atvinnurekstri hafa verið skattfrjálsar eða hagnaður af sölu þeirra, eftir að menn hafa átt þær í vissan tíma. Í frv. er að finna mjög rækilegan rökstuðning fyrir þessari skoðun, að hér eigi að vera um vissa skattgreiðslu að ræða, og er það auðvitað í samræmi við aðrar reglur frv., sem gera ráð fyrir rýmilegri fjársöfnun í fyrirtækjum og rýmilegum arðgreiðslum. Þessi regla er sett samkvæmt þeirri hugsun, sem ég gat um í upphafi, að þessar reglur allar séu ætlaðar til hjálpar atvinnurekstrinum, en ekki til þess, að menn nál út úr honum fé með óeðlilegum hætti, og er þetta regla, sem gildir alltaf í viðskiptum fyrirtækja varðandi sölu eigna og er reyndar algerlega lögfest sem almenn regla í viðskiptum, nema um sé að ræða íbúðir, og mun ég koma nánar að því síðar.

Það er lagt til í frv., að framvegis verði ekki litið á sameignarfélög sem skattaðila. Þetta var einnig í frv. á síðasta þingi og mætti þá nokkurri andspyrnu og var talið, að það ætti ekki að feila niður þetta félagsform, ef félagsform skyldi kalla. Það er að sjálfsögðu ekki ætlunin að fella niður félagsformið. Menn geta rekið sameignarfélög sín eftir sem áður að eigin vild. Ég held, að það hljóti að verða hverjum manni ljóst, þegar hann skoðar þá stórkostlegu mismunun, sem er í skattfríðindum sameignarfélaga og einstaklinga annars vegar og hlutafélaga vegna þeirra kvaða, sem hvíla á eign manna í hlutafélögum, að sameignarfélögin eru hér algjörlega í sérflokki og njóta alveg sérstakra fríðinda varðandi skattlagningu og þar er hægt að koma við meira undanskoti fjár en a.m.k. er mögulegt varðandi hlutafélögin. Ég er því ákveðið þeirrar skoðunar þrátt fyrir þá gagnrýni, sem hér kom fram og eftir að hala íhugað það mál betur, að það sé tvímælalaust rétt að fella niður heimildina til þess, að sameignarfélög telji fram sem sérstök félög, heldur sé tekjum þeirra skipt niður á aðila að félögunum eða einstaklingana, sem að þeim standa, og þeir skattlagðir sem einstaklingar.

Það hefur verið mikið vandamál að koma við samruna fyrirtækja og slitum þeirra, og eins og okkar skattalög eru nú úr garði gerð, þá er í rauninni mjög erfitt að slita hlutafélagi, því að það leiðir til svo þungbærra skattgreiðslna, að niðurstaðan hefur orðið sú, að það er vitað um, að mörgum hlutafélögum er alls ekki slitið af þessum sökum, þó að þau séu hætt starfsemi sinni. Það er auðvitað fjarri öllu lagi að hindra slit hlutalélaga, og það er gert ráð fyrir því varðandi meðferð söluhagnaðar í sambandi við slit hlutafélaga, að um það gildi hinar almennu reglur, sem ég hef áður getið um. Það er auðvitað sjálfsagt, að þá sé um allverulega skattgreiðslu að ræða, vegna þess að þá er hinn samansafnaði skatthlunnindahluti af eignum félagsins orðinn í mörgum tilfellum það mikill, að það er auðvitað með öllu óeðlilegt, að menn geti gengið með hann á brott, án þess að þar komi til nokkurrar skattheimtu. En með reglum frv. um slit hlutafélaga á það ekki að vera neinum erfitt mál hér eftir að koma því við. Varðandi samruna félaga, sem er kannske enn þá veigameira mál, þá er það mjög einfaldað með þessu frv. Þannig að ef félög sameinast þannig, að þar er um að ræða algeran samruna og aðeins skipti á hlutabréfum, þá verður þar alls ekki um neina skattskyldu að ræða og ekki litið svo á, að þar komi til greina neinn söluhagnaður. Það er einnig tekið tillit til þess í þessu frv., ef hlutafélög taka upp með sér samstarf í því formi að mynda sérstök fyrirtæki eða félög til þess að ráðast í tiltekinn atvinnurekstur, að þá eru reglur, sem koma i veg fyrir það, að þar verði um tvísköttun hagnaðar að ræða.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv., að gefin verði út jöfnunarhlutabréf til þess að koma eignum félaganna, þ.e. hlutabréfaeign í félögunum, í eðlilegt horf. Útgáfa jöfnunarhlutabréfa hefur að vísu verið heimiluð áður, en hún hefur ekki orðið raunhæf vegna eignarskattskyldu af hlutabréfum; menn hafa ekki óskað eftir að skrá hlutafé sitt á eðlilegan hátt einmitt af þessum ástæðum. Nú er sett almenn regla um það, að heimild til þess að gefa út jöfnunarhlutabréf er miðuð við bókfærðan höfuðstól fyrirtækjanna, og það eru settar reglur um það í bráðabirgðaákvæðum frv., mjög ítarlegar, þar sem gert er ráð fyrir heimild til endurmats eigna nú, eftir að þessi lög hafa tekið gildi, og síðan er sett almenn regla, hvernig fara skuli með útgáfu hlutabréfa, jöfnunarhlutabréfa, eftir að þetta upphaflega endurmat hefur farið fram. En það verður að telja mjög æskilegt, að hlutafélögin sýni jafnan nokkuð eðlilega hlutabréfaeign. Að vísu má segja, að það hafi nokkra þýðingu, að hlutabréf geti orðið á yfirverði. Það er eins og gerist yfirleitt þar sem verðbréfamarkaður er, að þar er reyndin sú, að hafi hlutabréf orðið á bak við sig miklu meira en raungildi sitt, þá að sjálfsögðu hækka þau í verði, og þetta auðveldar þá um leið möguleika viðkomandi félaga til þess að gefa út og selja ný hlutabréf, ef þessi hlutabréf eru orðin eftirsótt. En allar þessar hugleiðingar um hlutabréf og myndun fjár í fyrirtækjum eru ekki hvað sízt háðar hugmyndum, sem uppi hafa verið og hafa enda verið lögfestar, þ.e. að gert er ráð fyrir að koma upp kaupþingi, svo fljótt sem verða má, en er alveg ljóst, að ekki getur orðið með neinu móti að raunveruleika, nema skattalagabreytingar séu gerðar eitthvað í þá átt, sem hér er lagt til.

Gert er ráð fyrir því, að rýmkað verði nokkuð mat á birgðum, og er það æskilegt. Reynslan hefur sýnt, að það er æskilegt.

Þá eru settar reglur, sem hindra óeðlileg viðskipti hluthafa við félag sitt, og m.a. er með þessum reglum reynt að koma í veg fyrir það, sem mikið er fundið að og það í ýmsum tilfellum með réttu, að eigendur fyrirtækja reikni sjálfum sér ákaflega litlar tekjur, en það séu svo fyrirtækin, sem með einhverjum hætti, annaðhvort með lánum til hluthafa eða með því beinlínis að eiga jafnvel húseignir hluthafa, séu látin bera útgjöldin — og í ýmsum tilfellum séu jafnvel notuð hlunnindi, sem þessir aðilar njóta, bæði hlutafélög og sameignarfélög, til þess að koma betur út skattalega séð að þessu leyti. Þetta er mjög óæskilegt og hefur valdið gagnrýni, sem ég held, að ætti að vera sameiginlegt áhugamál allra fyrirtækja að forðast, og það er þess vegna brýn nauðsyn jafnhliða þeim hlunnindum, sem á margan hátt eru veitt fyrirtækjum með þessu frv., að girða fyrir það, að nokkur slik óeðlileg viðskipti geti átt sér stað, og um það fjallar 15. gr. frv., þar sem rækilega er að þessu vikið.

Ég held, herra forseti, að ég hafi í stórum dráttum vikið að grundvallaratriðunum, sem felast í þessu frv., varðandi skatta atvinnurekstrarins, og ég tel, að í frv. felist heilsteypt stefna varðandi skatta atvinnurekstrarins til ríkissjóðs. Hitt er annað mál, að með þessu frv. er ekki nema að takmörkuðu leyti tekin afstaða til skattgreiðslu til sveitarfélaga, og mun ég koma að því nánar síðar. En miðað við það, að hér er nú gert ráð fyrir að efla atvinnurekstur og ekki sízt í formi hlutafélaga, þá er mjög ljós nauðsyn þess, að hlutfélagalögin verði endurskoðuð. Það mun raunar vera í meðförum endurskoðun þeirra laga, og gæti verið einmitt gott að hafa hliðsjón af þeim skattaákvörðunum, sem gerðar verða varðandi félögin, áður en gengið er frá þeirri endurskoðun. En eftir að sú þróun verður, sem hér má ætla, að verði, þ.e. að það verði fýsilegra fyrir menn að leggja fjármagn í fyrirtæki en verið hefur til þessa, þá ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til þess bæði að setja reglur um það, að hlutafélög geti ekki orðið virk, nema þau hafi visst stofnfé, sem sé umfram þá fráleitu upphæð, sem er nú í lögum og eigi síður hitt að reyna að girða fyrir það, að óhlutvandir menn geti sett í gang söfnun í hlutafélög og fengið fólk til þess að leggja fram fé til hlutafélaga, sem eiga sér í rauninni enga undirstöðu eða tilverurétt. Þetta hvort tveggja er nauðsynlegt að taka til meðferðar í sambandi við endurskoðun hlutafélagalöggjafarinnar.

Þá ætla ég að víkja að nokkru að þeim öðrum atriðum, sem felast í þessu frv. og eru meira almenns eðlis og snerta eigi hvað sízt einstaklingana almennt, en ekki sérstaklega atvinnureksturinn.

Nú er gert ráð fyrir, að nýtt fasteignamat taki gildi alveg á næstunni, og það þarf ekki að lýsa því fyrir hv. þdm., að þar er um að ræða geysilega hækkun frá núgildandi mati af eðlilegum ástæðum, þar sem það var orðið gersamlega úrelt. En vegna þessara breytinga er óumflýjanlegt að gera breytingu á eignarsköttum, og er það gert í þessu frv. Nú er ákveðið, að 100 þús. kr. skattgjaldseign sé frjáls eða megi draga frá, áður en eignarskattur er á lagður, en þessi upphæð er hækkuð upp í 3 millj. kr. og jafnframt er svo ákveðið, að næstu 3 millj. kr. í eignum skattleggist mun vægilegar en nú er gert. Hingað til hefur verið mjög mismunandi aðstaða varðandi sköttun eigna: Í fyrsta lagi það, sem ég gat um viðvíkjandi gamla fasteignamatinu, sem hefur valdið því, að fasteignir hafa verið á algjörlega óraunhæfu verði til eignarskatts, þó að það að vísu hafi hinsvegar verið nífaldað nú síðustu árin. Sparifé hefur algjöra sérstöðu og spariskírteini. En hins vegar hafa hlutabréf í rauninni verið verst sett allra eigna, þar sem það hefur verið undir hælinn lagt, hvort þau skiluðu nokkrum arði, en þau hafa verið tekin á nafnverði, enda eins og ég gat um áðan, þá hefur það átt sterkastan þátt í því að útiloka útgáfu svokallaðra jöfnunarhlutabréfa.

Þá er gert ráð fyrir því hér að festa núgildandi skattvísitölu í 100 stigum, þ.e. að skattvísitala, sem nú er 168 stig, verði 100, sem merkir það, að það eru um 188 þús. kr., sem verða persónufrádráttur hjóna, og það er jafnframt gert ráð fyrir því, sem ekki var áður nema að takmörkuðu leyti, að aðrir frádráttarliðir skattalaganna breytist hér eftir í samræmi við skattvísitölu. Það hefur áður verið deilt um skattvísitöluna, og ég skal ekki taka upp þær deilur hér, nema tilefni gefist til, en m.a. hefur verið deilt á það, að fjmrh. skuli hafa frjálsar hendur um ákvörðun skattvísitölunnar. Nú er reyndin auðvitað sú, að skattvísitalan er jafnan höfð til hliðsjónar við setningu fjárlaganna, og þegar áætlun er gerð um tekjur af tekjusköttum, þá er miðað að sjálfsögðu við ákveðna skattvísitölu, og það þykir þess vegna skynsamlegt að setja þá reglu, að í stað þess, að fjmrh. einhliða ákveði þessa skattvísitölu, þá skuli hún vera formlega ákveðin í sambandi við setningu fjárlaga hverju sinni. Mér er kunnugt um þá skoðun, að hún eigi að miðast við framfærsluvísitölu, og það er sjónarmið út af fyrir sig, en hefði leitt til þess, sem við allir vitum, að á undanförnum erfiðleikaárum hefði skattvísitalan beint þjónað þeim tilgangi að bæta lífskjör almennings, en ekki verið við það miðuð — eins og hún hefur verið hugsuð alla tíð — að sjá um, að menn yrðu ekki krafðir um fleiri krónur hlutfallslega, þó að kaupið hækkaði. En ef þessi aðferð verður höfð, þá a.m.k. getur það komið til mats á Alþ. hverju sinni, hvaða reglur menn vilja hafa í þessu sambandi, og ég hygg sannast sagna, að það fari nokkuð eftir aðstöðu hverju sinni, hvernig á því verði haldið. T.d. hefur skattvísitalan nú í ár, m.a. vegna bættrar fjárhagsaðstöðu, verið ákveðin nokkru hærri en bæði kaupgjaldsvísitalan og framfærsluvísitalan, þannig að það vinnst nokkuð, sem menn telja, að hafi tapazt í hlutfalli við framfærsluvísitöluna á síðustu árum, þannig að bilið er nú ekki verulegt þar á milli.

Varðandi það atriði, sem ég gat um, að hefði verið meginstefnumörkunin 1960, þegar endurskoðun skattalaganna var hafin þá, að svokölluð almenn verkamannalaun yrðu undanþegin skatti, að persónufrádráttur væri það hár, að þau rúmuðust innan þeirra marka, þá var í því sambandi miðað við Dagsbrúnartaxta með 15% yfirvinnu, þ.e. það var lægsti taxti Dagsbrúnar með 15% yfirvinnu, og hann er nú, eftir því sem Efnahagsstofnun hefur gefið mér upp, um 192 þús. kr., en hinn fasti persónufrádráttur er nú ákveðinn 188 þús. kr., þannig að þarna munar að vísu 4 þús. kr., sem við verðum að telja lítið atriði í þessu sambandi, þannig að segja má, að þetta láti nú mjög nærri. En aftur á móti koma til aukin hlunnindi í því, að skattvísitalan er nú látin gilda um frádráttarliði almennt í fjárlögum, sem ekki var áður nema að litlu leyti — og raunar ekki fyrr en á þessu ári með sérstakri lagabreytingu, að þetta gildir um skattfrádrátt sjómanna.

Í frv. er að finna till. um breytingu á núgildandi reglum um launafrádrátt eiginkonu, sem vinnur utan heimilis, og einnig eiginkonu, sem vinnur við eigin atvinnurekstur bónda síns. Eins og skattalögin eru nú, eru engar hömlur á frádráttarrétti eiginkonu, sem vinnur utan heimilis. Þetta var mjög umdeilt mál á sínum tíma, þannig að hér getur orðið um að ræða stórfelldar fjárhæðir. Og jafnvel þó að eiginkonan hafi hærri tekjur en bóndi hennar, sem eru mörg dæmi til, þá engu að síður er þessi réttur fyrir hendi til þess að draga þessi 50% af tekjum eiginkonu frá skattskyldum tekjum. Með frv., eins og það liggur hér fyrir, er gert ráð fyrir, að þetta verði takmarkað við hálfan persónufrádrátt, sem merkir það, að það mundu verða 94 þús. kr. eða því sem næst, sem væri hægt að draga frá skatti, þ.e. kona, sem ynni sér inn 188 þús. kr., eins og þær tölur lita út nú, mundi hafa fullan rétt til 50% frádráttar, en færu tekjurnar yfir það, mundu þær leggjast við tekjur mannsins. Þetta verð ég að álíta, að sé mjög eðlilegt miðað við allar aðstæður og það, hvernig þróunin hefur verið, þ.e. að einhver takmörk séu á þetta sett. Hins vegar er jafn sanngjarnt að auka frádrátt konu, sem vinnur við eigin atvinnurekstur, og það er því gert ráð fyrir því, að í stað þess, að það er nú 15 þús. kr., þá geti það numið fjórða hluta persónufrádráttar eða nær 50 þús. kr., þannig að hér verður um að ræða veruleg hlunnindi í sambandi við slíka vinnu eiginkonu við atvinnurekstur eiginmannsins, og á það ekki hvað sízt við um búrekstur, þar sem þetta mundi mjög koma til góða.

Ég gat um það áðan, að gert væri ráð fyrir því að breyta núgildandi reglum um söluhagnað eða skattfrelsi eigna við sölu, þannig að 25% af söluhagnaðinum yrði alltaf skattskyldur. Ég tók það ekki fram þá, sem raunar er ljóst, og er skýrt frá í frv., að þetta þarf ekki að fela í sér neinar kvaðir fyrir atvinnureksturinn sem slíkan, vegna þess að það er að sjálfsögðu í langflestum tilfellum hægt að beita þá flýtifyrningarreglunum til þess að mæta þessu skattgjaldi. Það þykir hins vegar eðlilegt, að þessi regla um algert skattfrelsi gildi áfram um einstaklinga, þegar þeir eru að skipta um húsnæði, og er raunar einnig látið gilda, þó að önnur íbúð sé í eigu sama manns, eftir að tilteknum aldri þessara eigna er náð. Það er því engin skerðing á rétti einstaklinga, sem ekki hafa atvinnurekstur, í sambandi við meðferð eigna þeirra að þessu leyti.

Þá hefur verið til meðferðar hér á Alþ. nokkrum sinnum bæði frv. um undanþágu á skattgreiðslu vegna heiðurslauna, þar sem slíkar undanþágur hafa verið veittar í ákveðnum tilfellum, og einnig frv. um almenna undanþágu, þ.e. að lögfesta hana, þegar um slík heiðurslaun er að ræða. Við athugun á þessu máli og samanburð við það, sem gildir annars staðar m.a. í Danmörku, hefur það orðið niðurstaðan að leggja til, að alltaf verði skattskyld 25% af þessum heiðurslaunum, en að öðru leyti verði þau skattfrjáls.

Það er hér um að ræða hlunnindi, sem nú eru tekin upp fyrir þá, sem vinna utan heimilis síns, að nú er gert ráð fyrir samkv. frv., að fæði þeirra verði skattfrjálst, en áður gilti þetta eingöngu um sjómenn. En það er að sjálfsögðu mjög oft, sem menn vinna fjarri heimili sínu, og þá eiga þeir skattalega séð að telja það fram til skatts og greiða af því skatta, en þetta verður að teljast órýmilegt og auk þess erfitt í framkvæmd, og því er gert ráð fyrir að afnema þetta með öllu.

Það er að sjálfsögðu til hlunnindaauka fyrir einstaklinga, sem eiga hluti í hlutafélögum, að nú er lagt til, að veitt verði takmarkað skattfrelsi af arði af hlutafé, sem nemi 60 þús. kr. á hjón og 30 þús. kr. á einstakling, og þetta ætti að geta stuðlað að því, að almennari þátttaka yrði í hlutabréfaeign en nú er, og ekkert nema gott um það að segja. Það er enda vitanlegt, að þróunin nú síðustu árin — ekki hvað sízt víðs vegar úti um land — hefur verið sú, að atvinnurekstri hefur verið komið á fót með tiltölulega mjög lágum hlutafjárframlögum frá fjölda einstaklinga. Ég hygg því, að þetta sé mjög gagnlegt og sé sanngjörn ráðstöfun í þá átt að greiða fyrir því, að þessir aðilar leggi fé sitt til atvinnu rekstrar með þessum hætti.

Þá er loks gert ráð fyrir því, að hækkuð verði sú viðmiðunartala skulda, þar sem vaxtafrádráttur kemur til greina. Það er miðað við 200 þús. kr. í lögunum, eins og þau eru nú, en nú er gert ráð fyrir að miða við hámark húsnæðislána, sem ég hygg, að muni nú vera eitthvað nálægt 600 þús. kr., og sýnist mér það vera þá mjög í samræmi við þær hugmyndir, sem hér hafa sézt á Alþ. um það efni.

Þá er í lögunum að finna atriði, sem skiptir miklu máli fyrir einstaklinga, og það er að forða þeim frá tvísköttun, og á þetta fyrst og fremst við, ef einstaklingar hafa tekjur í löndum, sem við eigum ekki tvísköttunarsamning við.

Í sambandi við eignarskattana vil ég geta þess, að gert er ráð fyrir, að eignarútsvörin falli niður. Það er að vísu ekki í þessu frv., það mundi verða að koma í frv. um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga. En ástæðan er ekki hvað sízt sú, að gera verður ráð fyrir því, að fasteignaskattar verði mjög verulega hækkaðir og þess vegna óeðlilegt með öllu, að sami aðili hafi tvenns konar álagningarform á sams konar eignir.

Það er eðlilegt, að sú spurning komi upp í huga manna, enda leiðir niðurlag erindisbréfs n. til þeirra hugleiðinga, hvað þetta kosti ríkissjóð og hvernig ætlunin sé að mæta þessu. Það er í rauninni gersamlega ómögulegt að segja, hvað þetta kostar. Það hefur verið reynt að gera sér hugmynd um það, og hefur mönnum a.m.k. enn ekki tekizt að festa það niður á blað. Þetta byggist einfaldlega á því, eins og menn hafa vafalaust gert sér ljóst við athugun á frv. og því, sem ég hef verið að reyna að túlka, að það er fyrir fram ógerlegt að vita, — það fer eftir afkomu fyrirtækjanna og þeirri stefnu, sem þau fylgja varðandi uppbyggingu sína og á annan hátt — að hve miklu leyti fé verður lagt til verðjöfnunarsjóða eða í úthlutun arðs, sem að vísu er skattlagt með ákveðnum hætti, eða hvort það fer eftir hinum almennu skattprósentum. Þetta er ekki hægt að segja um. Nú er almenn skattprósenta til ríkisins jöfn, hún er ekki stighækkandi, hún er 20%, og til sveitarfélaganna, að ég hygg, 25%, þannig að hér getur að sjálfsögðu orðið um töluverða breytingu að ræða varðandi þann hluta af tekjunum, sem aðeins er greiddur 15% skattur af, en um þetta er sem sé ekki hægt að segja á þessari stundu. Þó er ekki ástæða til að halda, að þetta hafi mikla þýðingu, vegna þess að á móti kemur við örvun atvinnurekstrarins ýmiss konar tekjumyndun, sem ætla má, að geti jafnað þetta nokkuð. Í sannleika sagt, ef frv. nær þeim tilgangi sínum, sem að er stefnt, þ.e. að örva atvinnureksturinn, þá ætti jafnvel að mega gera ráð fyrir því, að hér yrði ekki um alvarlegan tekjumissi að ræða.

Gert er ráð fyrir því, að frv. taki ekki gildi fyrr en um næstu áramót að undanteknu fyrsta bráðabirgðaákvæði þess, sem er í samræmi við það ákvæði, sem sett var á síðasta þingi og gilti við álagningu skatta 1970. Ástæðan til þessa er ekki eingöngu sú, að það sé erfitt um vik að missa tekjur á þessu ári, heldur miklu fremur sú, að málinu er ekki lokið og það er óumflýjanlegt — áður en þetta mál tekur gildi — að marka stefnuna varðandi tekjustofna sveitarfélaga og fá jafnframt stefnumörkun í ýmsum öðrum atriðum í sambandi við heildarstefnuna í persónuskattamálum. Nú kunna menn þess vegna að segja: Hvaða vit er þá í að vera að leggja þetta fram nú, ef það er ætlunin að fá þetta afgreitt nú? Ég álít, að það sé mjög mikilvægt bæði að leggja málið fram auðvitað og einnig að fá það afgreitt, vegna þess að í því felst þá ákveðin stefnumörkun, sem verður að miða við frekari aðgerðir. Og ég teldi, að það hefði verið mjög æskilegt, að fram hefði verið haldið með svipuðum hætti og gert var á síðasta þingi, sem að vísu er nokkuð erfiðara nú að koma við vegna kosninga, sem fram undan eru, og það er nú þess vegna ekki fullvitað, hverjir sitja hér á hinu háa Alþ., þegar það kemur saman í haust, en það hefði verið mjög æskilegt, ef áfram hefði verið hægt að halda þeim hætti, að samvinna væri milli rn., því að félmrn. kemur hér einnig við sögu og Alþ. um áframhaldandi könnun málsins og athugun á tillögugerð.

Ég gat um það hér áðan, að n. hefði verið falið að athuga ýmis sérfrv., sem hefðu verið lögð fram á síðasta þingi. Það hafa síðar að vísu komið fram önnur frv. á þessu þingi, sem koma þá að sjálfsögðu til umr. í sambandi við meðferð þessa máls í fjhn. þingsins. Þau frv. voru öll tekin til athugunar í n. Ég skal aðeins nefna þessi frv. hér.

Það var frv. um, að skattvísitalan skyldi bundin framfærsluvísitölu. Niðurstaðan úr því hefur orðið, eins og ég gat um áðan, að leggja til, að það verði ákveðið í sambandi við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni, hver skattvísitalan skuli vera.

Þá var það frv. um úrtaksrannsókn á 10% allra framtala. Í sambandi við það mál liggur fyrir mjög ítarleg umsögn skattrannsóknarstjóra, sem ég hirði ekki að rekja hér, en send var fjhn. Alþ. í desember 1969, þar sem hann lagðist mjög gegn þessari till., vegna þess að hún mundi aðeins verða fjötur um fót starfsemi skattrannsóknadeildarinnar, en ekki vegna þess, að hann væri á móti úrtökum. Hann stefnir að því fyrirkomulagi, og það hefur nú þegar verið undirbúið að gera viss úrtök. En ef það væri skylda að gera úrtök miðað við alla skattgreiðendur á landinu og taka 10% framtala, þá mundi meginhluti starfsemi skatteftirlitsins fara í athugun á þessum málum og í mörgum tilfellum málum, sem væri gersamlega ástæðulaust að eyða vinnu í.

Frv. um frádrátt tekna eiginkonu af atvinnurekstri hjóna hafa verið gerð hér skil og getið um, að hér hefur verið komið til móts við það mál.

Viðvíkjandi fyrningu fastafjármuna í atvinnurekstri hef ég gert grein fyrir því, að það er óframkvæmanlegt, en hins vegar gerir frv. ráð fyrir því í ýmsum atriðum, að hægt verði að ná þeim sama tilgangi. — (Gripið fram í.) Ekki nema þær vinni úti eða þær vinni við atvinnurekstur. Það getur eins gilt í kaupstöðum. (Gripið fram í.) Ekki við heimilishaldið, nei, ekki nema við atvinnurekstur. Það er eins og með bændurna. Það er litið á þá sem atvinnurekendur, og þar af leiðandi gildir þetta um sveitakonurnar eða eiginkonur bændanna. Skattfrelsi heiðursverðlauna hef ég vikið að áður.

Frv. um það að veita einstæðum mæðrum — sem hlyti raunar einnig að gilda um einstæða feður sérstök skattfríðindi hefur einnig verið athugað. Þar er þegar um að ræða allveruleg fríðindi. Það hefur ekki verið talið fært að leggja til að auka þau, en það getur vitanlega komið til athugunar og gerir það í fjhn., hvort það sé rétt eða ekki. Þetta er í rauninni aðeins stefnumörkun, hvort Alþ. vill fara út í þá sálma, en sannleikurinn er sá, að þar er um allveruleg fríðindi að ræða nú þegar.

Afráðið var á síðasta þingi, að skattfrádráttarheimildir sjómanna miðuðust við skattvísitölu, og tók þetta gildi í ár.

Þetta held ég, að séu þau frv., sem komu fram á síðasta þingi og n. hefur tekið afstöðu til.

Ég ætla þá aðeins í stuttu máli að víkja að þætti sveitarfélaga í þessu máli. Nú hefur sú breyting á orðið varðandi vinnubrögð í því máli, að það heyrir ekki lengur undir fjmrh. að gera till. um tekjustofna sveitarfélaga. Það gerði það þar til á s.l. ári, og þess vegna hefur skattalaganefnd, sem starfaði á vegum fjmrn., einnig að sjálfsögðu gert víðtækar athuganir á þessu máli. En það er erfitt fyrir mig þar af leiðandi að ræða hér um sérstaka stefnumörkun í því, því að það er að sjálfsögðu félmrh., sem á sínum tíma mun gera grein fyrir þeim ákvörðunum. En ég tel þó rétt og tel það ekki vera að fara inn á verksvið hans miðað við það, að þessi mál voru áður í höndum mínum, að víkja nokkuð að þeim hugleiðingum, sem uppi hafa verið varðandi málefni tekjustofna sveitarfélaga í sambandi við þessa breytingu skattalaganna.

Sannleikurinn er sá, að ef frá eru skilin ýmis þau atriði, sem ég gat um áðan, varðandi auðveldari aðstöðu til að mynda fjármagn í fyrirtækjum, fyrningar og annað þess konar, þá er ekki hægt að segja, svo sem ég í upphafi gat um, að aðstaða fyrirtækja hér á landi almennt sé slæm skattalega séð. Hins vegar er því ekki að leyna, að það er ein tegund skatts, sem allir aðilar, bæði innlendir og erlendir, sem hafa skoðað skattamál atvinnurekstrar hér á landi, hafa rekið augun í og talið hættulegan, og það eru aðstöðugjöldin, sem eru lögð á fyrirtæki án nokkurrar hliðsjónar af arðsvon þeirra, þannig að oft og tíðum sleppa þau fyrirtæki jafnvel mun betur, sem hafa betri afkomu, en önnur, sem hafa lítinn rekstrarhagnað, en hafa hins vegar mikla veltu og rekstrarkostnað, af því að stofninn í aðstöðugjöldunum er rekstrarkostnaður fyrirtækjanna. Ég hygg því, að það megi segja, að það hljóti að verða niðurstaðan, að reynt verði með einhverjum hætti að komast út úr þessu vandamáli. Þetta ásamt öðrum þáttum sveitarfélagaskattanna þarf að afráða fyrir næstu áramót.

Hvað á að gera í þessu efni? Þar kemur ýmislegt til greina. Ég hef áður vikið að fasteignagjöldunum og getið þess, að það hafi lengi verið uppi sú kenning, sem rétt er, að sjálfsagt sé að nota fasteignagjöldin meira sem tekjustofn sveitarfélaga, og það hefur enda verið skoðun forráðamanna sveitarfélaga lengi, og ég tel, að það hljóti að stefna í þá átt, að þar verði gerð mjög veigamikil breyting til að auka fasteignagjöldin, og m.a. þess vegna hafa verið gerðir léttbærari eignarskattarnir, sem ég gat um. Í sambandi við fasteignagjöldin má auðvitað vel hlífa einstaklingum með vissa tegund íbúðarhúsnæðis. Það er ekkert, sem hindrar það, og getur verið alveg nauðsynlegt, að það sé gert. En það á ekkert að vera óeðlilegra t.d. fyrir fyrirtæki og þá, sem eiga stórar eignir — og kemur sér jafnvel betur — að borga af þeim fasteignagjöld en aðstöðugjöld, eins og nú er gert, enda er sannleikurinn sá, að þjónusta sveitarfélaganna er almennt meira tengd fasteignum en rekstri fyrirtækjanna almennt sem slíkum.

Þá kemur auðvitað einnig til að skoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, og koma þar ýmis atriði til athugunar. Vel mætti hugsa sér að færa þar á milli með einhverjum hætti kvaðir, t.d. að ríkið tæki að sér vissar greinar, sem sveitarfélögin nú hafa, ef ekki verður annað talið auðið með þeim till., sem helzt eru uppi um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. fasteignagjöld og tekjuútsvar, sem gert er ráð fyrir, að yrði þá með nokkuð öðrum hætti en nú er. Þá kæmi til álita, að ríkið tæki að sér einhverjar kvaðir. Það er einnig mjög nauðsynlegt, að mismunandi útsvör séu ekki á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þar sem atvinnuörðugleikar eru og tekjur rýrar og notuð 20% álagningarheimildin, verður það smám saman til að grafa undan viðkomandi sveitarfélagi, ef það er gert ár eftir ár. Hér verður að komast jöfnuður á, og það verður að efla Jöfnunarsjóðinn meira til þess að hjálpa sveitarfélögunum, þar sem svona er ástatt. Þá gæti það vitanlega einnig komið til greina og a.m.k. sjálfsagt að íhuga það, hvort ætti jafnvel að afhenda sveitarfélögunum alveg beina skatta og þau þá tækju á sig auknar kvaðir frá því, sem nú er, þ.e. sjálfstæði sveitarfélaganna ykist að vissu marki.

Það hefur oft verið að því fundið og það með réttu, að það væru tveir aðilar að vega í sama knérunn, ef svo má segja, með því að leggja bæði á útsvör og tekjuskatt, og vitanlega gæti komið til álita, að þarna yrði um sameiginlegan skatt að ræða. Að vísu skiptir þetta ekki miklu máli, ef á kemst staðgreiðslukerfi skatta, vegna þess að þá er þessi skattur innheimtur í einu lagi og síðan skipt eftir á milli sveitarfélaga og ríkis; kynni því þessi vandi að leysast að því leyti.

Þá er því ekki að leyna, þó að það snerti ekki beint sveitarfélögin, heldur aðeins óbeint, að tryggingakerfið kemur hér mjög til álita og að tvennu leyti, þ.e. annars vegar varðandi nefskatta, sem að ýmsu leyti eru þungir, iðgjöld til almannatrygginga og jafnvel sjúkrasamlagsgjöld, og svo hins vegar framlög bæði vinnuveitenda, ríkis og sveitarfélaga til almannatrygginga. Hér þyrfti í rauninni að taka til heildarathugunar, hvernig væri hægt að samræma betur og samrýma þann tilgang, sem tryggingakerfið hefur og ýmis hlunnindi, sem borgurunum eru veitt — einkum þeim, sem illa eru settir í sambandi við skattalög, þannig að þetta næði tilgangi sínum með virkari hætti og yrði einfaldara í framkvæmd. Og það mætti jafnvel hugsa sér það, að tekna almannatrygginga yrði aflað með einhverjum öðrum hætti, t.d. launaskatti, og það mundi að sjálfsögðu verða mjög til hagsbóta fyrir þá, sem tekjulægri eru í þjóðfélaginu. Það hefur áður verið um það rætt, sem ég tel, að þurfi að koma til framhaldsathugunar, hvort ekki sé rétt að breyta kerfi fjölskyldubóta í persónufrádrátt frá sköttum. Allt þetta þarf að íhuga í sambandi við skattkerfið sem slíkt og tryggingabótakerfið. Nú er það ákveðið, að tryggingafrv. kemur hér fyrir Alþ. á næstunni, og getur þetta þá komið til íhugunar í sambandi við það mál.

Það er einnig rétt í þessu sambandi að vekja athygli á því, að allar þær till., sem fram koma og eru góðra gjalda verðar, um ýmis skatthlunnindi koma oftast harla lítið að gagni þeim, sem helzt þurfa á þeim að halda, vegna þess að það eru oft aðilar, sem eru í mjög lágum skattstigum eða borga jafnvel enga skatta, og þessar till. koma þess vegna miklu fremur þeim að gagni, sem borga hærri skatta. Þess vegna er það mjög mikilvæg spurning, að hve miklu leyti þessi hlunnindi ná tilgangi sínum, og gæti verið frekar ástæða til, að þar kæmi til greina tryggingakerfið, t.d. í sambandi við það að tryggja vissan lágmarkslífeyri til þeirra, sem ekki fá tekjur úr öðrum áttum. Þetta er mál, sem vitanlega þarf að íhuga rækilega, því að að því ber að sjálfsögðu að stefna, og brýn nauðsyn er að tryggja vissar lágmarkstekjur til framfærslu.

Til viðbótar þessum atriðum, sem snerta almennar umbætur á skattkerfinu í framhaldi af hugleiðingum mínum um tekjustofna sveitarfélaga, þá eru aðeins örfá önnur atriði, sem ég vildi víkja að og ég tel, að séu viðfangsefni, sem nú verði að vinna að á næstu mánuðum.

Það þarf að ákveða, hver sé meginstefna Alþ. varðandi staðgreiðslukerfi skatta, sem nú liggur hér fyrir till. um. Ég tel, að stefna beri ákveðið að því, eftir því sem mögulegt er, að afnema smáskatta og reyna að fækka skattstofnum. Það eru milli 20 og 30 alls konar sérstök gjöld, sem renna að vísu til tiltekinna þarfa. Sum eiga rétt á sér, en sum eiga sáralítinn rétt á sér, og sum gefa raunar ákaflega litlar tekjur, en valda mikilli fyrirhöfn. Og þetta álít ég, að væri mjög nauðsynlegt, þ.e. að koma sem flestu af þessum gjöldum fyrir í öðru og einfaldara skattformi.

Ég hef áður vikið að almannatryggingagjöldum og sjúkratryggingagjöldum, sem oft hafa verið til umr., einkum varðandi það, hvaða kvaðir það leggur á heimilin, eftir að hætt er að borga barnalífeyri við 16 ára aldur, þegar þessir skattar einmitt lenda svo á unglingunum og oftast nær beinlínis þá á foreldrunum í stað þess, að ári áður er sérstakur barnalífeyrir greiddur. Þetta er einnig mál, sem þarf að taka til athugunar. Ég hef getið um það áður, að ég tel, að bætt aðstaða aldraðra þurfi að eiga sér stað á vegum tryggingakerfisins, og svo að sjálfsögðu á vegum lífeyrissjóðanna, sem verður að stefna að, að nál til allra landsmanna og eru nú á góðri leið með það, eftir að settir hafa verið almennir lífeyrissjóðir fyrir verkamenn og bændur.

Þá vil ég aðeins varpa því fram — ekki sem skoðun minni, en því, sem ég tel vera mikið íhugunarefni, hvort ekki sé jafnvel tímabært að breyta skattstigum. Þeim hefur verið fækkað mikið við þá endurskoðun, sem gerð var á skattalögum og útsvarslögum — sérstaklega þó eftir 1960. En spurningin er, hvort ekki má fækka þeim enn og e.t.v. jafnvel hafa einn skattstiga, ef persónufrádrátturinn er það hár, að hann nægi til þess að rúma almennar lágmarks nauðþurftatekjur. Það hefur oft verið talað um það nú, sem ekki er alveg rétt, að skattheimta sé nú 57% af tekjum, þegar þær komast í visst hámark. Þetta eru ekki nema 51% að vísu, og það er vegna þess, að þar koma til frádráttarbær útsvör, sem verður að reikna þar á móti og jafnast frá ári til árs, þannig að eitt árið greiða menn hátt útsvar, en fá svo meiri frádrátt árið eftir, en þetta er auðvitað mjög gallað fyrirkomulag og veldur miklum erfiðleikum, bæði fyrir útsvarsgreiðendurna og einnig fyrir sveitarfélögin.

Þá er eitt atriði, sem ég vil láta koma fram ákveðið sem mína persónulegu skoðun, að ég álít, að það eigi að stefna að tvísköttun hjóna — algerlega, þannig að ekki verði eingöngu miðað við það, að eiginkonan vinni utan heimilis, og sú takmörkun, sem hér er gert ráð fyrir á frádráttarréttinum — þó að hann vissulega eigi að vera nokkur og það eigi fullan rétt á sér, að tekið sé tillit til hans, ef kona aflar fjár utan heimilis — geti ekki verið stefnan til frambúðar, heldur hljóti hún að verða sú að fá hér að fullu skiptingu á milli, þannig að heildartekjur heimilisins deilist á milli hjónanna. Ástæðan til þess að þetta er ekki sett fram í frv., er sú, að þá þarf að endurskoða skattstigana og gera ýmsar aðrar breytingar, og þess vegna tel ég, að það sé mikils virði að fá um það skoðun þingsins í nál. eða umr., hvert viðhorfið er til þessarar breytingar, sem vissulega hefur grundvallarþýðingu.

Þá er eitt atriði, sem ég tel, að þurfi að íhuga, en er mjög erfitt að setja reglur um og er ekki gert ráð fyrir í þessu frv. á þessu stigi, að sé gert. Það er spurningin um vaxtafrádrátt, hvort hann á að vera takmarkalaus, eins og nú er gert ráð fyrir, eða hvort eigi að miða vaxtafrádráttinn við eitthvert eðlilegt skuldamagn hjá einstaklingum. En hér kemur til sögunnar sérstakt atriði varðandi fyrirtækin og það vandamál, hvort hægt er að girða þar alveg fyrir misnotkun á þessu ákvæði; það skal ég ekki um segja. En þetta er atriði, sem er tímabært að taka til íhugunar.

Herra forseti. Ég hef því miður orðið nokkuð langorður, en ég taldi nauðsynlegt á þessu stigi að útskýra ekki aðeins frv., heldur einnig gera grein fyrir í stórum dráttum þeim hugleiðingum varðandi skattamálin og framhaldsendurskoðun þeirra, sem uppi hafa verið, vegna þess að ég tel það grundvallaratriði og nauðsyn fyrir hið háa Alþ. að gera sér grein fyrir þessum atriðum öllum, þegar þetta mál er tekið til meðferðar — að vísu ekki vegna þess, að þessi afstaða til allra þeirra atriða, sem ég hef hér rætt um og talið upp, skipti meginmáli í sambandi við frv., eins og það liggur fyrir, heldur hitt, að heildarstefnan í skattamálum tel ég, að verði að vera sú, að skattlagning sé innan hóflegra marka, en þó að því marki, sem menningarþjóðfélag krefst, en samtímis verði að gæta þess, að skattarnir komi bæði sanngjarnlega niður og ekki síður að skattkerfið sé með þeim hætti, að það verði ekki óeðlilega kostnaðarsamt og dýrt í framkvæmd. Okkar skattkerfi er það, og það ber brýna nauðsyn til að beina allri sinni atorku að því að einfalda það, svo sem ég hef áður getið um, að ég hafi falið skattalaganefndinni að gefa mjög ítarlega gaum að. En skattalaganefndin sjálf vill gjarnan fá viðbrögð við ýmsum þeim hugleiðingum, sem ég hef hér getið um, til þess að átta sig á því, hvaða brautir eigi að ganga. Ég geri ráð fyrir, að út af fyrir sig sé enginn ágreiningur hér á hinu háa Alþ. um nein þau stefnumið, sem ég hef lýst í erindisbréfum þeim, sem skattalaganefndin hefur fengið, þó að það megi vafalaust deila endalaust um það, hvernig nákvæmlega eigi að nálgast þessi markmið. Og það er það atriði, sem ég býst við, að verði til umr. hér á Alþ., en ekki deila um meginstefnuna.

Það er einnig mikilvægt og það er þáttur í að hafa skattalögin einfaldari, að þau byggist á almennum grundvallarreglum, en ekki alls konar undanþágum og sérreglum, sem því miður er allt of mikið af í dag.

Herra forseti. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. á lengra máli, en ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.