31.03.1971
Efri deild: 84. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Varðandi það atriði, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði síðast í máli sínu um undirbúning málsins og hvort sérfræðingum hefði verið afhent sjálfdæmi um það, vil ég taka það fram, sem ég hélt, að ég hefði gert mjög skýrt í frumræðu minni, að ég lít á erindisbréf embættismannanefndarinnar sem pólitíska stefnumörkun í því, hvaða árangrí ríkisstj. vilji ná með endurskoðun skattal. Hitt hygg ég, að öllum þdm. sé mjög ljóst, að skattalög eru geysilega tæknilegs eðlis, og það var af þeim ástæðum, sem rétt þótti að skipa í þetta n. hinna færustu manna, þannig að sem bezt næðist sá árangur, sem að var stefnt með þeirri pólitísku stefnumörkun, sem ég tel, að ríkisstj. hafi gefið í þeim tveimur erindisbréfum, sem hér hefur margsinnis verið vitnað til bæði af mér og öðrum hv. þm. Að svo miklu leyti sem embættismannanefndinni var settur sá verkahringur með þeim bréfum, hefur hún starfað í samræmi við þá pólitísku stefnumörkun, sem ég gat um.

Ég held ekki, að embættismannanefndin hafi tekið neitt vald af ríkisstj., og sannast sagna var ekki með góðu móti hægt að hafa önnur vinnubrögð en þessi. Og því til viðbótar var það gert, sem ég gat um í minni frumræðu, sem e.t.v. hefur þó ekki verið í nægilega ríkum mæli hægt að koma við, þar sem till. voru ekki nægilega snemma tilbúnar, að þm. var gefinn eða það átti a.m.k. að gefa þeim kost á að fylgjast með málinu og gera sér grein fyrir því í einstökum atriðum, áður en það kæmi fyrir þing vegna þess, hversu flókið það væri. Þó að það hafi komið í ljós við athugun málsins hér á þingi og við samráð, sem haft hefur verið við atvinnurekendasamtökin, að á því hafi verið gerðar veigamiklar breytingar, þá tel ég ekki, að það beri vott um það, að höfð hafi verið að engu þau meginsjónarmið, sem mörkuð voru í erindisbréfum í sambandi við endurskoðun l. Þvert á móti við það samráð, sem fjhn. Nd. og embættismannanefndin hafa haft sín á milli annars vegar — og ég hef mjög gjarnan fylgzt með — og fulltrúar atvinnuveganna hins vegar, þá hygg ég, að allar þær breytingar, sem gerðar hafa verið, séu innan þeirra pólitísku stefnumarka, sem sett voru af minni hálfu með þeim erindisbréfum, sem embættismannanefndin upphaflega fékk. Og þetta veit ég raunar, að hv. þdm. allir skilja, að það er auðvitað útilokað annað en undirbúa málið með þessum hætti, og ég tei, að það hefði ekki verið annað en þvermóðska af minni hálfu að fallast ekki á neinar breytingar á þessu frv., ef hægt væri að koma þeim við með þeim hætti, að megintilganginum með löggjöfinni og endurskoðun hennar væri engu að síður náð.

Um það atriði, hvort frv. sé illa undirbúið eða ekki, get ég aðeins sagt það, að málið er ekki verr undirbúið tæknilega og lögfræðilega en það, að einn mjög mætur hæstaréttardómari hefur unnið mjög nákvæmlega með embættismannanefndinni að því að semja þessar frumvarpsgreinar. Það getur vel verið, að þær séu langar og lengri en í öðrum lagafrumvörpum. Ég skal ekkert um það segja. En ég tel mig a.m.k. þess ekki umkominn að gagnrýna það lögfræðilega, sem sett hefur verið saman í samráði við þann mæta og ágæta dómara.

Ég skal ekki lengja mikið þessar umr., enda sé ég enga ástæðu til þess að gagnrýna sérstaklega það, sem fram hefur komið frá hv. þm. hvorum um sig. En það er alveg rétt, að það vantar heildarmynd af þessu vandamáli, og það sagði ég í minni frumræðu. Ég tel hins vegar, að það sé mjög mikilvægt einmitt til þess að átta sig á skoðunum Alþ. á framhaldi þessa máls að þetta frv. fáist samþykkt, sem hér liggur fyrir. Hv. 1. þm. Norðurl. v. taldi það ótrúlegt, að samtök atvinnuveganna eftir fyrri afstöðu sína til þessa máls legðu nokkra sérstaka áherzlu á, að það næði fram að ganga. Af þessu tilefni vildi ég leyfa mér að lesa hér stutt bréf, sem mér hefur borizt frá þeim, sem þannig hljóðar:

„Undirrituð landssamtök atvinnuveganna, sem haft hafa til umsagnar frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, leggja áherzlu á, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Fulltrúar samtakanna hafa átt ítarlegar viðræður við formann fjhn. Nd. Alþ. og fulltrúa embættismannanefndar þeirrar, sem stóð að samningu frv., og treysta samtökin því, að árangur þeirra viðræðna verði sá, að á frv. verði gerðar þær breytingar, sem samtökin telja viðunandi. Sérstaklega vilja samtökin benda á, að aðild Íslands að EFTA geri breytingar á skattalögum brýnni og með þeim sé unnt að efna að nokkru þau fyrirheit, sem gefin voru í sambandi við inngöngu Íslands í EFTA.“

Undir þetta skrifa Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, Verzlunarráð Íslands, Vinnuveitendasamband Íslands og — að því er mér hefur verið tjáð — hefur einnig verið haft samráð um þetta álit við Samband ísl. samvinnufélaga, þó að það skrifi hér ekki undir, en þá hefur það tekið þátt í þessari samvinnunefnd atvinnuveganna um skattamálin.

Það er einnig hárrétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., að það er ekkert í þessu frv., sem gerir skattkerfið einfaldara. Það er rétt athugað, enda er því ekki haldið fram, heldur tók ég það fram og hef hvað eftir annað gert það hér í þessari d. og áður í hv. Nd., að það væri vandamál í framhaldi af þessu, sem þyrfti að sinna. Embættismannanefndin hefur gert bráðabirgðaathuganir á því máli, þannig að það er alls ekki svo, að því hafi ekki verið sinnt, þó að ekki liggi fyrir um það formlegar till., en það er það langt komið, að ekki á að vera ýkja mikil vinna að gera sér grein fyrir þeim vandamálum, sem menn standa þar andspænis. (BJ: Hæstv. ráðh. las ekki fyrsta atriðið í erindisbréfinu ...) Nei, það var ekki fyrsta atriðið. Það átti að halda áfram og ljúka endurskoðun á því frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra. Þetta var framhaldserindisbréf, þannig að það var ekki svo. (Gripið fram í.) Já, það hefði vissulega mátt verða númer eitt, en málið var upphaflega tekið upp á þessum undvelli, sem ég held, að hafi ekki verið óeðlilegt. sambandi við inngöngu okkar í EFTA var nauðsynlegt að taka sérstaklega upp þessi skattamál atvinnurekstrarins, og þess vegna var byrjað á þeim. Það var upphafið að þessu máli öllu saman. Það var svo í rauninni í framhaldi af þessu, að athuganirnar á staðgreiðslukerfinu leiddu ótvírætt í ljós, — a.m.k. að minni skoðun — að það sé útilokað að taka upp staðgreiðslukerfið nema gerbreyta skattkerfinu, þannig að það verði miklum mun einfaldara en það er nú.

Ég skal ekki ræða sérstaklega hér einstök atriði svo sem arðjöfnunarsjóðinn og varasjóðinn að öðru leyti en því, að í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. spurði um, þá er það rétt, að arðsúthlutun hefur verið breytt allverulega frá því, sem var í upphafi í frv. Hvort það er komið í það horf, sem hann telur viðhlítandi, skal ég ekki um segja. En það hefur orðið samkomulag um það að segja við fulltrúa atvinnuveganna, að það væri eðlilegt, að formið væri með þessum hætti, og þar sem arðsúthlutunin er í rauninni takmörkuð meir en gert var ráð fyrir í frv., þá hygg ég, að hv. þm. mundu telja, að það væri til bóta. Sameignarfélögin eru einnig við lýði, sem ekki var gert ráð fyrir, en ástæðan til þess, að gert var ráð fyrir að fella þau niður, voru þau sérstöku fríðindi, sem þetta félagsform naut. Það var alls engin ástæða til þess að hafa á móti því, að menn rækju sín fyrirtæki í sameignarfélagsformi, ef þeir vildu. Það var alls ekki bann við því, heldur við því, að sameigendurnir yrðu skattlagðir sem einstaklingar. Um varasjóðina er einnig það að segja, að þeir standa eftir sem áður, þannig að það er hægt fyrir hin einstöku atvinnufyrirtæki að ráða því, hvort þau hafi varasjóðsfyrirkomulagið eða ekki.

Varðandi það atriði, að frv. byggðist á því að mismuna atvinnurekstrarformum, sem einnig hv. 4. þm. Norðurl. e. kom inn á, þá er það ekki rétt nema að sáralitlu leyti. Atvinnurekstrarformum hefur að vissu leyti alltaf verið mismunað, og það er ekki aukið í þessu frv., t.d. gilda allar fyrningarreglur með sama hætti, um hvaða form sem er. Það eina, sem má segja, að sé mismunun — ég held, að það sé rétt með farið — er það, að hinn skattfrjálsi arður getur að sjálfsögðu ekki orðið öðrum að gagni en þeim, sem eiga hlutabréf. Það er rétt. En ef við eigum að stefna inn á þær brautir, sem ég gat um, þ.e. að koma hér upp stórrekstri, þá er það alveg sjáanlegt, að það verður að vera í hlutafélagaformi, og veruleg innborgun fjár í atvinnurekstrinum fæst naumast nema með þessum hætti, þannig að ég held, að eins og allar aðstæður eru, sé það ekkert sérstakt, sem knýr menn til að breyta núverandi fyrirtækjum í hlutafélög, nema þeir hugsi sér að stækka þau mjög verulega. Þetta held ég, að sé naumast hægt fyrir einstaklinga nema þá mjög fjársterka einstaklinga án þess að koma þeim í hlutafélagaform. Enda er það þannig í öllum löndum yfirleitt, þar sem a.m.k. er þróaður iðnrekstur, að öll meiri háttar fyrirtæki eru í hlutafélagaformi, þó að auðvitað fjöldi einkafyrirtækja sé til, en það er allt minni rekstrareiningar.

Varðandi rýmkun fyrninganna má náttúrlega endalaust um það deila, en þar er um að ræða leið til þess að stuðla að samansöfnun fjár í fyrirtækjunum, sem gerir þeim útþenslu auðvelda, og það má segja, að það sé kjarni þessa frv. að auðvelda fyrirtækjunum að byggja sig upp fjárhagslega, sem ég hygg, að við í rauninni getum verið sammála um, að sé nauðsynlegt. Vera má að þetta verði til þess að þyngja eitthvað skatta á öðrum aðilum eða taka verði upp nýja skatta. Það má gera ráð fyrir, að það geti orðið að einhverju leyti. En að það komi niður á einstaklingunum almennt og þyngi skattbyrðar þeirra, það er ég í miklum vafa um vegna þess m.a., að ef hægt er að hlúa nógu vel að fyrirtækjum í landinu, þá mundi ég álíta, að það skapaðist betri aðstaða fyrir þau t.d. til að greiða hærri laun. Ég tel það fyrirkomulag æskilegra að reyna að efla fyrirtæki þannig, að þau geti orðið þess umkomin að greiða starfsmönnum sínum laun fremur en taka af þeim fé, þannig að þau geti ekki staðið undir eðlilegum launagreiðslum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta mál. Þess gerist ekki þörf. Það voru mjög hógværar og efnislegar ræður, sem báðir hv. ræðumenn fluttu, sem um þetta mál hafa hér talað, og það er ósköp eðlilegt, að þeir telji erfitt að ræða um málið, án þess að það hafi verið athugað í n. hér. Ég veit, að það er orðinn naumur tími til þess, og það kann að vera, að einhver vanhöld hafi orðið á því, að menn bæru saman bækur sínar í n. svo sem var í rauninni óskað eftir í upphafi. En hins vegar vona ég þó, að hv. fjhn. þessarar d. geti fyrir sitt leyti fallizt á, að sú mikla vinna, sem unnin var í Nd. í þessu efni, hafi orðið til þess að auðvelda málið og gera það aðgengilegra, þannig að von mín er sú, að hv. n. sjái sér við nánari athugun málsins fært að mæla með því án þess að gera á því nokkrar breytingar, sem máli skipta a.m.k., þannig að ekki verði teflt í tvísýnu í því, að það nái fram að ganga á þessu þingi.