01.04.1971
Neðri deild: 80. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (1391)

296. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Frsm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. þetta um virkjun Svartár í Skagafirði. Eins og fram kemur í áliti n. á þskj. 721, mælir n. með samþykkt frv. Tveir nm. skrifa þó undir nál. með fyrirvara, og einn nm., hv. 1. þm. Norðurl. e., áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Það er meginefni þessa frv., að ríkisstj. verði heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Svartá í Skagafirði við Reykjafoss í allt að 5500 hestafla orkuveri og leggja þaðan aðalorkuveitu til Sauðárkróks til að tengja þar við orkuveitukerfi Norðurl. v. Einnig heimilist ríkisstj. að taka lán til þessara framkvæmda allt að 86 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt.

Önnur ákvæði frv. eru sum sambærileg við það, sem verið hefur um önnur slík frv., svo sem að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni og tækjum. Þá er einnig í 6. gr. þessa frv. ákvæði þess efnis, að ef sveitarstjórnir á Norðurl. v. óski að gerast eignaraðilar að Svartárvirkjun og öðrum orkuverum á svæðinu, þá sé ráðh. heimilt að gera samninga þar um fyrir hönd Rafmagnsveitna ríkisins.

Þessi eru meginefni frv., en þar er einnig að því vikið, að ríkisstj. sé heimilt að festa kaup á vatnsréttindum á vatnasvæði Svartár og öðrum landsréttindum, sem þarf til þess, að Svartárvirkjun verði komið í framkvæmd — annað tveggja miðað við þau kjör, sem fást, ef viðunanleg eru, en á hinn bóginn með heimild til eignarnáms, sbr. gildandi ákvæði þar um í vatnalögum.

Það er kunnugt, að á orkuveitusvæði á vestanverðu Norðurlandi er brýn þörf fyrir aukna vatnsorku. Á þessu svæði er eftir þeim upplýsingum, sem ég hef nýjastar, raforka framleidd með vatnsafli einungis sem svarar 1500 KW, en önnur raforka á svæðinu er fengin með keyrslu dísilvéla, og nemur sú orkuframleiðsla um 3500 KW. Sú virkjun, sem hér er talað um heimild til þess að framkvæma, er eins og áður sagði 5500 hestafla orkuver eða um 3500 KW orkuver. Þar með er ljóst, að virkjunin mundi fullnægja þeirri þörf, sem fyrir er á orkuveitusvæðinu nú, og hún mundi, ef áfram eru nýttar þær dísilstöðvar, sem á svæðinu eru, fullnægja líklegri orkuþörf á næstu 5–7 árum. Hér er ekki um frambúðarlausn að ræða, heldur lausn, sem duga mundi um takmarkaðan tíma og verða til þess að bæta úr brýnni orkuþörf á þessu svæði, meðan aðrar leiðir eru fundnar til þess að tryggja frambúðarorku fyrir þetta svæði.

Síðan frv. þetta var afgr. frá n., hafa borizt erindi til hv. Alþ. og birzt blaðagreinar, sem lúta að því, að hér kunni að vera nýtt Laxármál í uppsiglingu. Ég hygg nú, að í fréttaskyni hafi dagblöðin gert helzt til mikið úr því, sem hér um ræðir, og skal þó á þessu stigi ekki neitt um það fullyrt. Hins vegar eru t.d. í erindi, sem borizt hefur hingað til hv. Alþ. frá stjórn félags landeigenda við Svartá í Lýtingsstaðahreppi, settar fram kröfur um það, að tiltekin atriði verði leyst, áður en þetta frv. verður afgr. hér á hv. Alþ.

Það er ljóst, að eins og nú er háttað, er áætlað að ljúka störfum Alþ. fyrir páska, svo að ekki er unnt að taka þessi tilteknu atriði til afgreiðslu og jafnframt afgreiða frv., því að til þess er ekki tími. Hins vegar er það jafnljóst, að frv. þetta er flutt í heimildarformi, og slík heimild, ef samþ. verður hér á hinu háa Alþ., felur það einmitt í sér, að þá skapast grundvöllur fyrir því, að upp verði teknar viðræður og samningar um þau ágreiningsatriði, sem þarna kunna að vera.

Ég leyfi mér að leggja áherzlu á það, að verði þetta frv. samþ., sem hv. iðnn. mælir öll með, þá verði, áður en fullnaðarákvörðun verður tekin um framkvæmdir eða þær hafnar, gengið frá öllum þeim málum, sem ágreiningur er um á milli þeirra aðila, sem lönd eiga að Svartá, og þeirra, sem að virkjunarframkvæmdum standa. Ég lít svo á, að það fordæmi, sem við höfum í hinni frægu Laxárdeilu, sé slíkt, að ekki megi hætta neinu við virkjanir þær, sem gerðar verða í framtíðinni, þannig að farið verði út í framkvæmdir, áður en búið er að semja um öll þau atriði á milli landeigenda og virkjunaraðila, sem upp kunna að koma deilur um. Þess vegna er einmitt að mínu mati nauðsyn að fá þetta frv. afgr. til þess, að á það reyni, hvort hér tekst ekki að leysa þau mál, sem þarna kann að vera ágreiningur um, áður en lengra verður haldið. Á því skal vakin athygli, að í erindum frá landeigendafélaginu við Svartá og sveitarstjórn Lýtingsstaðahrepps eru engin mótmæli gegn virkjun. Þar eru einungis settar fram ákveðnar kröfur um það, að þeim, sem hlut eiga að máli, séu bætt að fullu þau spjöll, sem kunna að verða á landi, vatnsréttindum og fiskræktarskilyrðum, ef í virkjun verður ráðizt.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara lengra út í þessi mál að svo komnu máli. Ég vildi einungis láta þetta koma fram sem mína skoðun, og ég vænti miðað við þær umr., sem urðu í hv. iðnn., að ég megi mæla þar fyrir hönd n. allrar, þegar ég segi, að nauðsyn sé á því, að siglt verði fram hjá öllum ásteytingarsteinum í sambandi við samninga á milli virkjunaraðila og landeigenda, áður en framkvæmdir verði hafnar.

Að svo mæltu leyfi ég mér fyrir hönd n. að leggja til, að þetta frv. verði samþ., og ég leyfi mér enn fremur að beina því til hæstv. forseta og þings í heild að reyna að haga svo sínum störfum, að frv. þetta nái afgreiðslu á þessu þingi.